24.4.2007
Skólavistin í MR skildi eftir sig ör
Árlegur gangaslagur í Menntaskólanum í Reykjavík var stórslysalaus að þessu sinni, segir á mbl.is. Reyndar kemur fram í fréttinni að enginn hafi slasast, þannig að öllu stórslysaminna gerist það varla. Aftur á móti skrámaðist einn maður á höfði en það var eftir að slagnum lauk. Líklega enn ein staðfesting þess, að friðurinn getur verið hættulegri en stríðið.
Fyrir liðlega fjórum áratugum var ég meðal farþega í árlegri hópferð frá MR upp á Slysavarðstofu að gangaslag loknum. Ekki hafði ég mig í frammi í áflogunum heldur var ég einfaldlega þarna í hópi nemenda sjötta bekkjar. Hvað sem því líður, þá var ég tekinn og dreginn öfugur út um bakdyrnar á skólanum, líkt og margir fleiri. Nagli var notaður sem splitti til að halda húninum á sínum stað og kræktist litli fingur hægri handar í naglann og rifnaði út úr.
Ekki man ég hversu margir voru fluttir á Slysavarðstofuna að þessu sinni. Hitt man ég, að stéttin bak við skólann var eins og þar hefði verið slátrað svíni og látið blæða út. Einar Magg mætti áður en langt um leið með skúringagræjur og þreif blóðvöllinn. Fingurinn á mér var saumaður saman á Slysavarðstofunni.
Enn í dag má sjá örið á fingrinum; vitnisburð um veru mína í Menntaskólanum í Reykjavík.
![]() |
Gangaslagur MR stórslysalaus |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Afhverju er aldrei hróflað við þessu ofbeldi sem viðgengst í menntó, t.d. þesum ruddalegu tolleringum.
Sigurður Þór Guðjónsson, 24.4.2007 kl. 19:10
Það er ekki almennilegur gangaslagur nema maður hruflist aðeins... Ekki er ég þó markaður eins og Hlynur eftir veru mína í Menntaskólanum.
Þorvarður Ragnar Hálfdanarson, 27.4.2007 kl. 02:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.