Krían er komin á Reykhóla

KríaÉg var hálfhissa að sjá kríur í dag. Þær voru tvær saman á hægu flögri skammt vestur af sundlauginni. Aðeins eru tveir dagar síðan fréttist af fyrstu kríum ársins austur í Hornafirði. Bein loftlína yfir jökla og miðhálendi er um 350 km. Kannski ekki mikið þegar krían er annars vegar, langfleygasti fugl í heimi; e.t.v. einn hundraðasti af árlegu ferðalagi hennar.

     

Hér í kringum Reykhóla er einna fjölbreyttast fuglalíf hérlendis, ef ekki allra fjölbreyttast. Því veldur margbreytileikinn í náttúrufarinu; allir finna sitt kjörlendi: Klettabelti efst í fjallinu, víðáttumikið mólendi, mýradrög með klapparholtum á milli, tjarnir og stöðuvötn, sjávarlón, mikið útfiri, óteljandi sker og hólmar.

      

Reyndar hef ég ekki séð haferni í allan vetur. Í sumar sá ég þá nánast á hverjum degi ef ég nennti að lyfta hausnum. Aftur á móti eru rjúpur hér í garðinum við húsið upp á hvern dag, jafnvel tíu-tólf í einu, og skógarþrestir koma og fara í hópum.

       

Í dag sá ég fimm álftir saman á flugi; undanfarið hef ég annars bara séð tvær og tvær. Um daginn horfði ég á tvær álftir fljúga virðulega í norðvesturátt og tvo hrafna flaksandi á eftir. Það var eins og svart og hvítt, ef svo má segja.

       

Grágæsir eru á túnum og í gærkvöldi sá ég tvo stokkandarblika saman á vappi. Kannski eru þeir að bíða eftir fréttum af prestastefnunni.

       

Hrossagauka sá í dag í fyrsta sinn á þessu ári. Þeir voru tveir saman og tóku dýfur. Ég er farinn að tapa heyrn, sem betur fer, og heyrði ekki hneggið. Þeir voru í vesturátt ekki langt frá mér.

     

Við Langavatn hér fyrir neðan Reykhóla er fuglaskoðunarskýli. Það er ekki til þess að skýla mannfólkinu fyrir veðri og vindum heldur til þess að fuglanir fælist ekki mannfólkið. Eins konar öfugur dýragarður - fólkið er inni í búrinu og skoðar náttúruna sem er frjáls allt í kring. Minnir svolítið á Slunkaríki á Ísafirði, hið fræga hús Sólons Guðmundssonar, sem var úthverft.

       

Krían já, sem flýgur fugla lengst. Og getur líka hamast við að fljúga og verið nákvæmlega á sama punktinum í loftinu á meðan.

       

Ég vona að minn gamli vinur séra Sigurður Ægisson fuglaskoðunarmaður og fuglarithöfundur komi í heimsókn í sumar. Hann gæti þá e.t.v. gefið saman stokkandarblikana, ef þannig skyldi æxlast.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús Jónsson

Ég vinka alltaf Kríum þegar ég sé þær, faðir minn sálugi sagðist ætla að endurfæðast í þennan heim sem Kría, hann sagði að Krían lifði draumalífi hans, væri alltaf þar sem væri sumar, væri fjölhæfust allra fugla og flugfimina leika fáir fuglar eftir, og síðast en ekki síst sagði hann að þær skiptu um maka á hverju sumri, svo ég bið þig fyrir kveðju til Kríunnar frá einum sem vonar að draumur pabba hafi ræst.    

Magnús Jónsson, 25.4.2007 kl. 22:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband