Rosalegar hunangsflugur eða hvað þetta nú er, dimmsuðandi og þungar á sér eins og sprengjuflugvélar í seinni heimsstyrjöld. Meira að segja kettinum líst ekki á blikuna og hefur hann þó gaman af flugnaveiðum.
Það er komið sumar og ekki bara á almanakinu. Hér á Reykhólum var glaðasólskin í allan dag og 15-16 stiga hiti frá hádegi og fram að kvöldmat samkvæmt mæli Veðurstofunnar. Samt fannst manni eiginlega miklu heitara í logninu og sólarbreyskjunni.
Í sundlaugina og heitu pottana komu 48 manns. Íbúarnir í þorpinu á Reykhólum eru um 120 talsins, í öllum hinum víðlenda og strjálbyggða Reykhólahreppi búa samtals um 250 manns. Ætli það sé víða meiri aðsókn að sundlaugum ef miðað er við fólksfjölda?
Ég var áðan að kjafta á msn við fornvinkonu mína sem er búsett í Englandi og sagði henni að gestirnir í dag hefðu verið sem svarar um 40 prósentum af íbúafjöldanum hér í þorpinu. Hún hélt að það hefði verið að vígja laugina - svo ég vitni beint í hana:
ég skil núna að við misskildum hvort annað, mér fannst einhvern veginn að það væri óhugsandi að 40% af íbúunum kæmu saman við sundlaug staðarins nema væri verið að opna hana með viðhöfn, fánum, blöðrum og blysum... svona er að hafa dvalið lengi í alltof fjölmennu landi
Sundlaugin hér á Reykhólum heitir Grettislaug. Reyndar er gamla laugin með því nafni í brekkunni rétt fyrir ofan þá nýju. Þar sér enn fyrir gamalli grjóthleðslu við lítinn hver. Ekki hefur verið synt í þeirri laug fremur en at Snorra í Reykholti. Þetta hefur verið heitur pottur þar sem þeir sátu Grettir og fóstbræður og svo auðvitað Þorgils Arason óðalsbóndi hér á Reykjahólum líka til að passa að þeir rykju ekki saman. Sundlaugarvörður þess tíma, Hasselhoff.
Grettislaug hin nýja er einhver besta útisundlaug hérlendis. Hún væri ekki kölluð nýja laugin nema vegna þeirrar gömlu. Á gamlársdag í vetur skrifaði ég svolítið um hana: Gamlárssund í vorblíðu á Reykhólum.
Núna er orðið dimmt enda nálgast miðnætti. Lognið er algert. Máninn í hásuðri velfullur hefur leyst sólina af hólmi en stendur sig ekki eins vel. Af hverju er hann alltaf settur á næturvaktirnar?
- - -
Leyfi mér að hnýta hér við, í tengslum við síðustu færslu:
Mér finnst það eiginlega ekki mannsæmandi og alls ekki sæmandi Sjónvarpinu hvernig sumir Kastljóssmenn haga sér stundum. Einhvern veginn vil ég gera aðrar og meiri kröfur til Ríkisútvarpsins en annarra miðla. Ástæða þessara orða minna einmitt núna er framganga Kastljóssins gagnvart Jónínu Bjartmarz og framkoman við hana. Hver stjórnar þessu og hvaða hvatir liggja að baki?
Athugasemdir
Þeir fóstbræður voru sennilega kornabörn, eða í bestafalli blossi í augum foreldra sinna þegar Grettir var veginn, svo varla hefur þurft að stilla til friðar þeirra í millum í lauginni. Ég tel líkt og þú að frétta spyrlar mættu vera kurteisari og vanda sig betur en var í umræddum þætti, svona skætingur má alveg missa sín að skaðlausu.
Magnús Jónsson, 29.4.2007 kl. 00:24
Af hverju ættu einhverjar hvatir að liggja að baki aðrar en þær að vilja komast að sannleikanum og upplýsa almenning um hann?
Almennt séð eru íslenskir spyrlar allt of linir og láta stjórnmálamenn komast upp með bull.
Svala Jónsdóttir, 29.4.2007 kl. 01:30
Svala: Finnst þér þetta vera leiðin að sannleikanum? Svo ég skjönvitni í orð Hannesar Sigfússonar um liðinn tíma: Hans ber að leita annars staðar.
Hlynur Þór Magnússon, 29.4.2007 kl. 01:35
Það er ótrúlegt að nokkur, hvar sem hann er í flokki stjórnmála geti verið sáttur við aðra eins aðför að nokkrum eins og Jónínu. Ég er ekki í Framsókn en fæ upp í kok af þeirri fréttamensku og offorsi sem fréttastofa sjónvarps sendir frá sér í Kastljósi um mál sem ekki er ransakað að fullu áður en GRÓA Á LEITI fær að ráða öllu um fréttamenskuna sem er til skammar fyrir Ríkissjónvarpið (Helga Seljan) er ekki allt í lagi að fara hægar.
Ólafur JÓnsson (IP-tala skráð) 29.4.2007 kl. 02:29
Þessi syndlausu grjótkastarar í kastljósinu mega hafa í huga að syndleysið er hugarburður einn og aðeins háð duttlungum sjálfsupphafningarinnar eins og í þeirra tilfelli. Einn daginn mega þeir því búast við að standa við aftökuvegginn. Með þeim mæli, sem þér mælið, mun yður og mælt verða sagði meistarinn og var ekki að reyna að vera gáfulegur á kostnað annara.
Jón Steinar Ragnarsson, 29.4.2007 kl. 13:51
Það þykir karlmannlegt og töff að vera með dónaskap í fjölmiðlum. Helst að krydda allt saman með smá illgirni, kjaftasögum og rógi. Það vantar bara meira klám í Kastkjósið. Þá er myndin orðin fullkomin. Þetta heit "Hin nýja blaðamennska". Er ekki enn skylduáskrift að þessari smekklaysu?
Júlíus Valsson, 29.4.2007 kl. 16:56
Seljum hann!
Júlíus Valsson, 29.4.2007 kl. 16:56
Þvílíkar dylgjur og ofstopi hjá Seljan í Jónínumálinu. Nei, réttara væir að segja Guðrúnar Ögmundsmálinu. Það ætti frekar að hafa uppá frú Guðrúnu til að segja okkur hvers vegna hún skrifaði upp á þennan ríkisborgararétt. Og nefnið mér bara eitt dæmi um rúmlega tvítuga stúlku frá þriðja heiminum (asíu, afríku eða suður-ameríku), sem hefur fengið ríkisborgararétt eftir rúmlega ár í vinnu eða námi á Íslandi. Nefnið mér bara 1-2 dæmi og ég skal éta öll ljóti orðin ofan í mig. Allar undanþágur frá aðalreglunum hafa verið vegna "ástæðu". Mál Bobby Fischer var sérstakt. En ástæða var gefin. Rúnar Alexandersson, Duranona osf. Allt þekkt. Núna þarf frú Guðrún Ögmunds að stíga fram og segja mér og þeim nýbúum sem þurftu að biða í röðinni í sjö ár eftir íslensku vegabréfi ástæðuna. Þetta er bara samsæri Samfylkingarinnar gegn okkur Framsóknarmönnum korter fyrir kosningar.
Gunnar Freyr Rúnarsson, 30.4.2007 kl. 08:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.