Landbúnaðarjeppar fyrir suma og ríkisborgararéttur

Sú var tíðin að ég afgreiddi skömmtunarseðla. Vonandi muna fáir eftir þeim. Eða, öllu heldur, vonandi muna sem flestir eftir þeim.

 

Til þess eru vítin að varast þau.

 

Faðir minn var oddviti Mosfellshrepps í bernsku minni og æsku. Þá var enginn sérstakur sveitarstjóri utan oddvitinn og engin sérstök hreppsskrifstofa nema heimili hans. Þá var enginn sérstakur „opnunartími“ eins og það heitir á nútímamáli heldur kom fólk hvenær sem var. Stundum var ég einn heima og mjög snemma fór ég að afgreiða skömmtunarseðlana. Man ekki hvað ég var gamall þá - kannski fimm-sex ára.

 

Á bernskuárum mínum þurfti að fá leyfi hjá „hinu opinbera“ fyrir nánast hverju sem var. Nefndir og ráð ákváðu hver mætti kaupa sement eða bíl og hversu mikið af helstu nauðsynjavörum. Þetta var á þeim tíma þegar Íslendingar höfðu fengið öllum þjóðum ríkulegri skerf af stríðshjálparaðstoð.

 

Nánast öllu var úthlutað. Menn þurftu að sækja um náðarsamlegast og erindið var tekið fyrir á nefndarfundi. Nefndarmenn samþykktu eða synjuðu að geðþótta sínum. Sumir bændur fengu að kaupa jeppa, einkum ef þeir voru jafnframt sóknarprestar. Jeppar töldust landbúnaðartæki sem hentuðu einnig sóknarprestum afar vel.

 

Man annars nokkur eftir fjárhagsráði?

 

Mér verður hugsað til þessara tíma núna, þegar allir eru að tala um skömmtun þingnefndar nokkurrar á ríkisborgararétti. Um veitingu ríkisborgararéttar gilda ákveðnar reglur en þingnefndin hefur það verkefni að brjóta þær að sínum geðþótta.

 

Hugtakið fyrirgreiðslupólitíkus er vonandi ekki að gleymast þó að slíkir menn séu vonandi að hverfa. Fyrirgreiðslupólitíkus er valdamikill maður sem ræður yfir biðröð og kippir þeim fram fyrir sem hann hefur velþóknun á. Slíkir pólitíkusar voru vinsælir. Allir sögðu að þetta væru góðir menn og vinir litla mannsins. En áttuðu sig hins vegar ekki á því, að þegar einum er kippt fram fyrir biðröðina þurfa hinir að bíða lengur. Já - það var einmitt litli maðurinn sem þurfti að bíða lengur!

 

Fyrirgreiðslupólitíkin lifir enn góðu lífi í þingnefndinni sem úthlutar ríkisborgararétti. En enginn veit forsendur geðþóttans. Ekki einu sinni nefndin sjálf. Yfirleitt virðist ekki nokkur maður í nefndinni vita nokkurn skapaðan hlut. Meira að segja stærir nefndarfólkið sig af því opinberlega að vita ekkert og muna ekkert.

 

Ekki sé ég neina ástæðu til þess að Baráttusamtök aldraðra fái fulltrúa á þing.

 

Varla er þar á Alzheimerinn bætandi.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Skemmtileg lesning. Það er nefnilega til margs konar jafnrétti. Að fólk og fyrirtæki viti hvar það stendur gagnvart regluverkinu. Að vinnubrögð séu gegnsæ og heiðarleg en ekki baktjaldamakk, eins og oft hefur viðgengist í pólitíkinni. Jæja, gaman að heyra líka um Mosfellssveit fyrri tíma, þar sem ég sveitamaðurinn hef komið mér fyrir. Þú ert hinsvegar, ef ég les þín skrif rétt, á Reykhólum. Þar er stutt í frændfólk því pápi er frá Gufudal.

Með góðri kveðju,

Gunnlaugur B Ólafsson, 27.4.2007 kl. 23:48

2 Smámynd: Hlynur Þór Magnússon

Gunnlaugur: Við erum báðir ættaðir héðan, úr innsveitunum við norðanverðan Breiðafjörð og í Breiðafjarðareyjum. Móðir mín fæddist hér við Djúpafjörðinn ...

Hlynur Þór Magnússon, 28.4.2007 kl. 00:54

3 Smámynd: Hlynur Þór Magnússon

... og best finnst mér grænmetið frá Kristni Bergsveinssyni frænda mínum frá Gufudal.

Hlynur Þór Magnússon, 28.4.2007 kl. 00:55

4 Smámynd: Hlynur Þór Magnússon

Og til viðbótar: Sjálfum finnst mér þetta heldur óskemmtileg lesning.

Hlynur Þór Magnússon, 28.4.2007 kl. 01:01

5 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

 ...áhugaverð  ... fróðleg lesning, en fyrirgreiðslupólitíkin óskemmtileg  . Bið að heilsa Kristni, fékk síðustu tómatana sem hann átti, þegar ég kom við hjá honum fyrir áramót.

Gunnlaugur B Ólafsson, 28.4.2007 kl. 01:37

6 Smámynd: Ibba Sig.

Ég hafði nú bara nokkuð gaman af því að lesa þetta.

Ibba Sig., 28.4.2007 kl. 16:54

7 Smámynd: Helga R. Einarsdóttir

Víst man ég eftir skömmtunarseðlum. Við systkinin vorum stundum látin fara gangandi til hreppstjórans í okkar sveit til að nálgast þessa miða. mig minnir að þeir væru fyrir kaffi og fleiru þh. Þetta var dagleið fram og til baka og sennilega vorum við á tíu ára bilinu. Þá vorum við enn ekki farin að gera gagn heima svo þetta var ágætt. Við gerðum þá ekki illt af okkur á meðan. Við máttum stoppa klukkutíma og leika við strákinn hreppstjórans. Og það voru svín á þessum bæ, þau fyrstu - og einu í sveitinni á þeim tíma. Stundum vorum við svo heppin að sjá litla grísi.

Viltu segja sögur úr Mosfellssveitinni frá þeim tíma sem þú varst þar starfsmaður hreppsnefndar. Ég átti þar ömmu og afa og var þar oft. kv.

Helga R. Einarsdóttir, 28.4.2007 kl. 21:34

8 identicon

annars finnst mér gaman að rifja þetta upp. það er nefnilega ekki svo langt síðan þetta var. skemur en mann langar til að muna. er að reyna að muna eftir því hvenær Ástþór Magnússon innleiddi kreditkortin og manni var þá ekki lengur skammtaður gjaldeyrir

Þorsteinn Ingimarsson (IP-tala skráð) 28.4.2007 kl. 22:58

9 Smámynd: Ester Sveinbjarnardóttir

Ég á í fórum mínum skömmtunarmiða sem pabbi gaf mér, fólk á þessum tíma átti oft ekki mikinn afgang þegar búið var að kaupa nauðsynjar.  Ég er sammála því að Þær eru leiðinlegar þessar bakdyraleiðir, en lúta þær ekki einhverjum reglum líka.

Ester Sveinbjarnardóttir, 28.4.2007 kl. 23:32

10 Smámynd: Hlynur Þór Magnússon

Helga - ég geymi óhemjumikið af minningum frá bernsku minni í Mosfellssveitinni. Margt hef ég punktað niður, sumt hef ég skráð nokkuð ítarlega, en margt er einungis í höfði mínu. Auðna og aldur ráða því hverju ég kem á framfæri með tíð og tíma og þá með hvaða hætti.

Hlynur Þór Magnússon, 29.4.2007 kl. 00:50

11 Smámynd: Hlynur Þór Magnússon

Gerisk nú aldraðr. Mjök emk ór heimi hallr. Blautr erum bergis fótar / borr, en hlust es þorrin.

Hlynur Þór Magnússon, 29.4.2007 kl. 00:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband