Bátasafn Breiðafjarðar á Reykhólum

Hér á Reykhólum við Breiðafjörð vinnur áhugafólk að því að koma upp breiðfirsku bátasafni. Þegar er um tugur gamalla báta kominn í hús, þar sem gestir geta skoðað þá yfir sumartímann, en ámóta margir aðrir eru enn í geymslu á ýmsum stöðum. Á hinum árlega Reykhóladegi hafa gömlu bátarnir skipað veglegan sess tvö síðustu árin.

 

Um þetta verkefni hefur verið stofnaður félagsskapur sem heitir því langa nafni Áhugamannafélag um stofnun Bátasafns Breiðafjarðar á Reykhólum. Félagsmenn eru búsettir víða en eiga breiðfirskar rætur. Helsti frumkvöðullinn er Aðalsteinn Valdimarsson, skipasmiður úr Breiðafjarðareyjum. Síðustu misserin hafa Aðalsteinn og félagar hans komist yfir um tuttugu gamla báta úr Breiðafjarðareyjum og héruðunum í kringum Breiðafjörð og bjargað mörgum þeirra frá bráðri eyðileggingu.

 

BátasafnAuk þess hafa Aðalsteinn og félagar hans smíðað eftirmynd af einum hinna gömlu báta, sem tímans tönn hefur leikið illa. Meistarinn að því verki er Hafliði Aðalsteinsson, sonur hins landskunna bryggjusmiðs hjá Hafnamálastofnun, Aðalsteins Aðalsteinssonar úr Hvallátrum, en hugðarefni hans var að koma upp breiðfirsku bátasafni. Áhugamannafélagið fylgir nú fram þeim draumi hans.

 

Áhugamannafélagið hefur aðstöðu til bráðabirgða í Mjólkurstöðinni gömlu hérna rétt ofan við þorpið á Reykhólum, þar sem Hlunnindasýningin er einnig til húsa. Hugmyndin er að byggja nýtt hús fyrir væntanlegt Bátasafn Breiðafjarðar í samvinnu við Reykhólahrepp og fleiri. Þetta hús yrði byggt við Mjólkurstöðvarhúsið gamla og mynduð ein heild úr þessum byggingum, þar sem aukið og endurbætt hlunnindasafn og veitingarekstur yrðu einnig veigamiklir þættir.

 

Auk þess sem þarna yrðu gamlir bátar, ýmist uppgerðir eða misjafnlega lúnir og illa farnir, svo og eftirmyndir hinna gömlu báta, yrðu þar verkfæri og vélar allt frá dögum Ólafs Teitssonar skipasmiðs í Sviðnum á Breiðafirði og til okkar daga.

 

Einn af þeim merku bátum sem þegar eru komnir á ný til virðingar hér á Reykhólum er bringingarbáturinn Friðþjófur. Hann lá á hvolfi á Miðhúsum í Reykhólasveit í hálfa öld en Ragnar Jakobsson úr Reykjarfirði á Ströndum, bátasmiðurinn kunni í Bolungarvík, gerði hann upp fyrir Þjóðminjasafnið fyrir nokkrum árum.

 

Á myndinni eru þrír af frumkvöðlum væntanlegs Bátasafns Breiðafjarðar, þau Hafliði Aðalsteinsson, Ásdís Thoroddsen kvikmyndagerðarmaður og Aðalsteinn Valdimarsson. Þess má geta, að Thoroddsenættin er upprunnin á Reykhólum og á liðnu sumri var komið hér upp minnismerki um ættföðurinn Jón Thoroddsen, skáldsagnahöfund og sýslumann.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Júlíus Valsson

Gott mál! Vann eitt sinn í Búðardal og á Reykhólum. Styð þessar hugmyndir hielshugar. Bið að heilsa henni Ingibjörgu í Garpsdal. Hún kann sitt fag. 

Júlíus Valsson, 4.5.2007 kl. 22:28

2 Smámynd: Hlynur Hallsson

Frábært bátasafn nafni. Ég stefni að því að koma á Vestfirðina í haust. Fyrir löngu kominn tími til að skreppa þangað og heilsa uppá vini. Bestu kveðjur,

Hlynur Hallsson, 4.5.2007 kl. 23:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband