Pólitískt hvísl úr helgum steini

Yfirleitt hef ég skilgreint sjálfan mig sem þverpólitískan. Ég hef aldrei getað séð „minn flokk“ sem algóðan og hina flokkana sem alvonda. Aldrei hef ég flett upp í stefnuskrá Flokksins eða ræðum Formannsins til að gá hvaða skoðanir ég ætti að hafa. Ekki hef ég reynt að verja það sem mér hefur stundum þótt afleitt hjá Flokknum eða fulltrúum hans.

  

Í Sjálfstæðisflokknum hef ég um þessar mundir féritigi bollokað árin, svo ég leyfi mér að nota gamalkunnugt orðalag. Fyrsta Landsfundinn minn sat ég árið 1969. Það var á Hótel Sögu og enginn amaðist við þeirri ráðstefnu! Þegar ég lít til baka, þá eru mér á þeim fundi minnisstæðastir menn sem eru löngu horfnir úr flokknum, þeir Óli Þ. Guðbjartsson og Sverrir Hermannsson.

           

Árið eftir fyrsta Landsfundinn (ef ég man rétt) sat ég þing Sambands ungra sjálfstæðismanna á Akureyri. Bjó á bindindishótelinu Varðborg ásamt mörgum öðrum í þeim hópi. Alla tíð síðan hefur hugtakið bindindishótel skipað ákveðinn sess í huga mínum.

                

Eftir að ég settist að á Ísafirði haustið 1985 lenti ég fljótlega í félagsstarfi með sjálfstæðisfólki á norðanverðum Vestfjörðum. Þar kynntist ég strax ýmsum sem ég leyfi mér að telja til vina minna enn í dag. Burtséð frá allri pólitík. Nefni bara Einar Kristin, Einar Odd, Guðjón Arnar, Guðmund Marinósson, Georg og Lóu, Kristmann, Ólaf Helga ...

              

Núna sit ég í helgum steini fjarri allri pólitík og fjarri öllu kosningastarfi. Svolítið skrítin tilfinning eftir alla þessa áratugi.

  

Ég hef verið dálítið tvíátta eða jafnvel margátta hvaða flokk ég ætti að kjósa að þessu sinni. Ef ég ætti þá yfirleitt að vera að kjósa. Hvað mig varðar er framtíðin að baki.

                             

– – –              

                       

Klausurnar hér að ofan eru lausabrot úr greinarkorni sem ég skrifaði í morgun á vef gamals vinar míns, Einars Kristins Guðfinnssonar. Ég kann ekki við að birta það allt hér heldur leyfi ég mér að vísa þangað ef einhver skyldi vilja lesa þetta í heild - Sundurlaus minningabrot og hugleiðingar um pólitík. Þar kemur m.a. fram, sem einhverjum þykir líklega tíðindum sæta þegar ég er annars vegar, að hefði ég kosningarétt í Reykjavíkurkjördæmi norður, þá myndi ég kjósa Framsóknarflokkinn.  

                             

P.s.: Tók í gær Bifrastarprófið sem naumast verður þverfótað fyrir á bloggvefjum þessa dagana. Niðurstaðan hjá mér var eins og við mátti búast - afskaplega þverpólitískur ...

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þú ert ansi augljóslega til hægri, finnst mér. 

Lilja Haralds (IP-tala skráð) 8.5.2007 kl. 22:12

2 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Mér finnst nú ekki svo augljóst að Hlynur sé til hægri. Finnst að mest pláss sé fyrir menn með "þverpólitíska" sýn í Samfylkingunni. Það er svona of mikill bókstafstrúarandi bæði hjá Sjálfstæðisflokki og Vinstri grænum og svo er Framsókn einfaldlega of mikið rekald til að hægt sé að blása í hana lífi. Enda ekki ástæða til, eins og stefna hennar er búin að fara með landsbyggðina með höftum á atvinnufrelsi til sjós og lands.

Þú hrósar Einari Oddi fyrir þjóðarsátt. Auðvitað gengdu forystumenn VSÍ og ASÍ mikilvægu hlutverki, en það voru auðvitað þeir kumpánar Steingrímur Hermannsson, Ólafur Ragnar og Jón Baldvin sem voru við stýrið og nógu frjóir í pólitískri hugmyndavinnu til að innleiða margvíslegar breytingar sem stuðlað hafa að bættum þjóðarhag. Jón Sigurðsson hefur gert skemmtilega úttekt að þetta tal um glundroða í vinstri stjórn gengur ekki upp. Þetta var kokkað í nokkur skipti með R-listann en dugði ekki og síðast var íhaldið alveg búið að gefast upp á glundroðatali og fór að yfirbjóða Reykjavíkurlistann í samfélagsáherslum og unnu!

Man eftir því líka þegar ég bjó í Bandaríkjunum fyrir nokkrum árum þá naut Bill Clinton mun meira trausts hjá fyrirtækjum og viðskiptalífinu í landinu heldur en George Bush gerir nú. Hef trú á að þetta sé svolítið svipaðs eðlis hér á landi að það komist ekki á heilbrigt viðskiptaumhverfi fyrr en sá skilningur næst að fólk og fyrirtæki standi jafnfætis gagnvart lögum og stjórnsýslu. Vandamálið með Sjálfstæðisflokkinn er að þar er alltaf spurt um flokksskírsteini sem forsendu fyrirgreiðslu.

Þetta er nú bara svona hugleiðing héðan úr Mosó til þín á Reykhólum. Gaman að sjá Ásdísi og bátasmíðina. Kom þarna við í skemmunni við sjoppuna og sá þennan mikla hug í mannskapnum fyrir áramót.

                     Með kærri kveðju,

Gunnlaugur B Ólafsson, 9.5.2007 kl. 22:58

3 Smámynd: Halldór Halldórsson

Það er athyglisvert að skoða hvað kemur út úr þessu Bifrastarprófi ef maður gefur sig út fyrir að vera mjög ósammála öllu sem leiða mundi til framþróunar í samfélaginu!

Halldór Halldórsson, 9.5.2007 kl. 23:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband