Siðleysið yfir strikið

Sumar uppákomur í nýliðinni kosningabaráttu vekja meiri athygli en aðrar. Heilsíðuauglýsing Jóhannesar kaupmanns í Bónus í dagblöðunum daginn fyrir kjördag er sérstakrar umhugsunar virði. Yfirskrift auglýsingarinnar er: Strikið yfir siðleysið.

 

JohBonusÍ auglýsingunni kveðst Jóhannes hafa mátt að ósekju sitja á sakamannabekk í Baugsmálinu svokallaða í rúm fjögur ár „vegna óvæginna og ranglátra aðgerða“ ríkislögreglustjóra og saksóknara. Hann heldur því fram, að Björn Bjarnason dómsmálaráðherra hafi í ræðu og riti „varið embættisafglöp“ þessara manna og hvatt þá til dáða. Og síðan kemur að því nýjasta og alvarlegasta:

 

„Fram hefur komið í fjölmiðlum undanfarna daga, að Björn hyggist skipa Jón H. B. Snorrason í embætti ríkissaksóknara strax að loknum kosningum. Embættisveitingar Björns hafa verið harðlega gagnrýndar á undanförnum árum. Nú keyrir um þverbak ...“

 

Niðurstaða Jóhannesar og áskorun hans til sjálfstæðismanna í Reykjavíkurkjördæmi suður - að því er virðist vegna einhverra bollalegginga í fjölmiðlum - er svohljóðandi: „Merkið x við D en strikið yfir siðleysið með því að strika yfir nafn Björns Bjarnasonar á listanum.“

 

Ekkert er við því að segja þótt Jóhannes beri - með réttu eða röngu - þungan hug til Björns Bjarnasonar eða yfirleitt hvaða manns sem vera skal. Ekkert er við því að segja þó að hann komi skoðunum sínum á framfæri, hversu fráleitar eða þráhyggjukenndar sem þær kunna að virðast - hvar hefur dómsmálaráðherra t.d. varið eða reynt að verja embættisafglöp? En - það er aðferðin sem vekur spurningar.

 

Jóhannes hefði getað skrifað kosningagrein í blöðin og fengið hana birta endurgjaldslaust eins og almenningur. En hann fór aðra leið, sem er nánast lokuð sauðsvörtum almúganum.

 

Tekið er fram í auglýsingunni, að Jóhannes kosti hana sjálfur. Aðspurður um kostnaðinn við allar þessar heilsíður kvaðst hann ekki vita hver hann væri. Taldi sig samt mundu fá góðan afslátt vegna mikilla viðskipta.

 

Auglýsir Jóhannes Jónsson annars svo mikið í blöðunum persónulega, að hann fái út á það sérstök vildarkjör? Eða eru ekki glögg skil á milli persónulegra áhugamála og rekstrar Bónuss?

 

Tímamót urðu hjá almenningi á norðanverðum Vestfjörðum þegar Bónus opnaði verslun á Ísafirði á sínum tíma. Væntanlega er það mesta kjarabótin sem fólkið á svæðinu hefur nokkru sinni fengið. Sjálfur var ég búsettur þar meira en tuttugu ár og veit nokkuð hvað ég er að segja. Í hugum afar margra skipar Jóhannes í Bónus alveg sérstakan sess og sjálfur er ég þar engin undantekning. Meðal annars þess vegna finnst mér leitt, að hann skuli hafa ruðst inn í kosningabaráttuna með þessum ógeðfellda hætti. Með þessum siðlausa hætti, myndi einhver segja.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Er áróður Jóhannesar siðlausara en það siðleysi sem hefur verið stundað hér af ráðherrum og ríkissaksóknurum?

Unnur (IP-tala skráð) 15.5.2007 kl. 02:20

2 identicon

Nú þykir mér þú Hlynur ganga full langt í fylgisspekt við Kaldastríðs-Björn. Í Suðurkjördæmi náði Árni nokkur Johnsen öðru sæti lista Sjálfstæðisflokksins í prófkjöri. Flokksforystan þorði ekki að beita sér í því máli. Hún gaf hins vegar út skipun til kjarnans í flokknum um að hann yrði strokaður út. Hvað finnst Reykhólaritstjóranum um þann gjörning. Það er betra að leggja steininn frá sér áður en honum er kastað úr glerhúsi.

Elli (IP-tala skráð) 15.5.2007 kl. 08:33

3 Smámynd: Hlynur Þór Magnússon

Elli - hver er að kasta úr glerhúsi?

Hlynur Þór Magnússon, 15.5.2007 kl. 08:35

4 Smámynd: Júlíus Valsson

Menn hafa enn tjáningarfrelsi, sem betur fer. Ef tala á um siðleysi, þá finnst mér það vera mest áberandi hjá fjölmiðlunum sjálfum, þ.e. hjá óvönduðum fétta- og blaðamönnum. Þeir taka ákveðna einstaklinga fyrir og leggja þá í einelti. Nú eru það Björn Bjarnason og Jónína Bjartmarz. Björn er einn duglegasti og heiðarlegasti ráðherra, sem við höfum haft og hann er ekki einu sinni búinn að skipa í embætti ríkissaksóknara. Hins vegar eru fjölmiðlar fullir af óhrðoðri um Björn og "væntanlegar" stöðuveitingar hans.
Sama gildir um Jónínu. Hvar eru sananir fyrir því, að hún hafi gert eitthvað rangt eða siðlaust? Væri ekki skynsamlegra og heiðarlegra, að hafa eitthva bitastætt á hana áður en farið er af stað með að níða hana niður í beinni útsendingu kortéri fyrir kosningar? Ég held að fjölmiðlarnir ættu að hreinsa til hjá sér. 

Júlíus Valsson, 15.5.2007 kl. 09:32

5 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Ég vil bara segja að ég dáist af Jóhannesi i Bónus. Ég er sjálfstæðis-kona, en hef ekki alltaf verið hrifin af görðum þeirra og sýðst af öllu af gjörðum Björns Bjarnasonar undanfarin ár.

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 15.5.2007 kl. 10:12

6 Smámynd: Sigfús Þ. Sigmundsson

Við skulum ekki gleyma því að það ríkir enn málfrelsi, prentfrelsi og frelsi til athafna í landinu.  Það má svo deila um hvort þetta hafi verið smekklegt eða ekki.  En ég held að Jóhannes hafi haft rétt á að tjá skoðanir sínar með þessum hætti.   Það er svo annað mál hvort að Björn Bjarna ætti að höfða meiðyrðamál gegn Jóhannesi, spurning hvort að þetta túlkist sem meiðyrði....

Sigfús Þ. Sigmundsson, 15.5.2007 kl. 11:27

7 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Margir telja sig hafa verið órétti beitta í lífinu. Enginn hefur áhuga á þeim. En svo kemur maður sem á mikið af peningum og þá er rjúka menn upp til handa og fóta. Ríkir menn telja sig yfir allt hafna og vilja lika ráða útslitum kosninga. Þetta sýnir þá þróun sem er að vera: Ríka fólkið vill sölsa undir sig ALLT í þjóðfélaginu. Jafnvel líka stjórna því hvað talið er sæmilegt siðferði. Allt halda þeir að hægt sé að öðlast með peningum. 

Sigurður Þór Guðjónsson, 15.5.2007 kl. 11:27

8 Smámynd: Vilborg Traustadóttir

Sammála þessu.  Varð mjög undrandi á að Jóhannes legðist svona lágt.  Sneri aðeins út úr hjá honum og hvatti Samfylkingarmenn til að strika Björn Bjarnason út.  Það er ekki siðleysi - það er grín.  Ef einhver var svo heimskur að gera það ætti sá hinn sami ekki að hafa kosningarétt. 

Vilborg Traustadóttir, 15.5.2007 kl. 14:36

9 Smámynd: Árni Gunnarsson

Vel má vera að unnendur Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra komi auga á innistæður fyrir postullegu írafári. Ekki er ég í þeirra hópi. Ekki sé ég í fljótu bragði neitt athugavert við þessa hvatningu. Viðbrögðin við henni sýna þá líklega þessum umvöndunarmönnum að brengluð réttlætiskennd er útbreiddari en skyldi þó sjálfir hafi þeir sloppið vel og fyrir það séu þeir að vonum þakklátir.

Minni svo á vísu Klettafjallaskáldsins um hræsnina og krossmarkið.

Árni Gunnarsson, 15.5.2007 kl. 16:22

10 identicon

Jóhannes er saklaus og siðprúður maður.  Hann hefur um það vottorð dómara.  Reyndar voru einhverjir að fikta í bókhaldinu í fyrirtæki honum viðkomandi og ég spyr hvort það gæti hafa leitt til þess að arðgreiðslur til hans, frá þessu fyrirtæki, hafi verið af arði sem virðist hafa orðið, a.m.k. að einhverju leiti,  til með blekkingum?  Það er von að saklausir og siðprúðir reyni að draga fjöður yfir þá nauð að hafa þurft að taka við slíkum arðgreiðslum hafi það verið raunin.  Svo má böl bæta að búa til annað verra og kannski er gott að nota það hlutfall arðsins sem gæti hafa orðið til með þessum blekkingunum til þess.

Í dómi yfir starfsmanni fyrirtækisins segir m.a.: 

"Með framburði ákærðu og vitna og öðru því sem rakið er hér að framan er sannað að færslur þær sem raktar eru í ákæru að fjárhæð 330.764.000 krónur voru rangar og til þess fallnar að gefa ranga mynd af viðskiptum og notkun fjármuna."

Reyndar verður Jóhannes ekki skammaður fyrir að nýta sér prent-, og skoðanafrelsi.  Það má aldrei gerast.  Suma af kjósendum sjálfstæðisflokksins  má hinsvegar skamma fyrir þá grunnhyggni að trúa slíku bulli upp á einn af fáum stjórnmálamönnum sem hafa ekki fallið í þá gryfju að láta aðra en eigin samvisku leiða sig í verkum sínum. 

Ég get tekið undir orð þín Hlynur,  mér fannst þessi auglýsing ekki sæmandi Jóhannesi, taldi hann mann meiri. 

Óskráður (IP-tala skráð) 15.5.2007 kl. 23:31

11 Smámynd: Júlíus Valsson

Ríkir "looserar" eru oft áhugaverðir. Sammála þér Sigurður varðandi það. Aumingja Paris litla er annað gott dæmi. 

Júlíus Valsson, 15.5.2007 kl. 23:39

12 identicon

Það gleymast oft góðu verkin þegar horft er á smáatriði.. Þegar á heildina er litið hefur Björn staðið sig einstaklega vel(ath nú er ég ekki sjálfstæðiskona lengur nema síður sé (allavega ekki í bili)) Maðurinn hefur verið lagður í einelti bæði af fjölmiðlum og oft pólitíkusum. einkaher Björns" og allt þetta.. þegar þessi litli einkaher stendur meira og minna af björgunarsveitarfólki og lögreglu. bara gott mál. Hann hefur stokkað upp í Lögreglunni sem var orðið löngu tímabært og þaðan hef ég heyrt að lögreglan sé ánægð með hann, það sama gerði hann sem menntamálaráðherra. Það má segja margt um Björn og hann er kannski ekki sá flinkasti að tjá sig "í blíðu" og getur oft verið hrokafullur. EN hann er og hefur verið hörkuduglegur og fengið miklu framgengt sem fáir ráðherrar geta stært sig af. Ef taka þarf til hendini.. þá er Björn málið og björninn unninn...

Björg F (IP-tala skráð) 16.5.2007 kl. 00:13

13 identicon

Mér finst auglýsingin hans Jóhannesar í Bónus með ólíkindum.  Björn Bjarnason er ein besti pólitíkus sem við eigum og einn kröftugasti ráðherra fyrr og síðar.

Guðrún Jónsdóttir (IP-tala skráð) 16.5.2007 kl. 00:26

14 Smámynd: halkatla

þessi yfirstrikunarhvatning varð til þess að nokkrir sem ég þekki mættu með gleði á kjörstað. Þeim vantaði afsökun fyrir því að kjósa sjálfstæðisflokkinn eftir öll hans spilltu verk, og töldu sig vera að gera góðverk með því að stroka Björn Bjarnason út.
Mér er sama hvaðan gott kemur, annars ætlaði t.d einn að skila auðu af því að hann hatar orðið sjálfstæðisflokkinn þó að hann geti ekki kosið neitt annað, þetta varð fínasta afsökun. Ég er viss um að Árni Johnsen og tækifærið til að stroka yfir hann hefur hvatt marga til "dáða" og líka þessi auglýsing. Því miður varð það ekki til góðs fyrir þjóðina og er í rauninni bara sorglegt að jafn ógeðfelldur flokkur eigi svona mikið fylgi hjá þessari þjóð.

halkatla, 16.5.2007 kl. 00:47

15 Smámynd: halkatla

Björg, ekki gleyma því þegar hann skipaði tvo nýja hæstarréttardómara án nokkurs eðlilegs rökstuðnings, kallaði jafnréttislögin barn síns tíma, leiddi fund nokkurra valdamenna í fjarveru forsetans þarsem Árni Johnsen fékk uppreista æru, kom með ný og æðisleg útlendingalög, studdi veru okkar á lista hinna viljugu þjóða, elur á eðlilegum ótta þjóðarinnar við hryðjuverkaógnir sem þarf að vernda okkur fyrir með vopnuðum sveitum, fyrirskipaði ýmsa leynda og óskilgreinda hluti í sambandi við baugsmálið og hlerunarmál fortíðar, hluti sem er vitað um en bara ekki talað um. Maðurinn er greinilega máttarstólpi þessa samfélags   

halkatla, 16.5.2007 kl. 00:53

16 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Anna Karen.:"Því miður varð það ekki til góðs fyrir þjóðina og er í rauninni bara sorglegt að jafn ógeðfelldur flokkur eigi svona mikið fylgi hjá þessari þjóð."

Eru þá yfir 36 % þjóðarinnar sem sagt ógeðfellt fólk vegna álits síns á flokknum og stuðnings við hann? Bara spyr, kæra bloggvinkona. 

Halldór Egill Guðnason, 16.5.2007 kl. 01:10

17 Smámynd: halkatla

ég var að spá í að taka þetta fram; flokkurinn=ráðherraliðið + MJÖG MÖRG embættisverk ráðherra og þingmanna og ýmissa ráðgjafa og tengslavina flokksins sem eru meira en bara ógeðfelld sko... en ég vonaði að enginn færi að ætla mér svona mikla illsku að eiga við alla kjósendurna! Takk Halldór - en ég hefði víst getað útskýrt þetta betur

ég þekki marga sem kjósa D og enn fleiri sem kjósa B, ég lít ekki á framsóknarmenn almennt sem lúða þótt að flokkurinn sé hallærislegur og enn síður lít ég á vini og kunningja sem kjósa D sem eitthvað ógeðfellt fólk. Þau hafa önnur gildi en ég og ekkert annað er í boði fyrir þau að kjósa, og það virðist líka stundum vera mjög erfitt að komast yfir það munstur að kjósa alltaf það sama gagnrýnislaust. Ég virði fólk ekkert minna fyrir það, ég veit að margir virða mig þótt þeir séu ósammála því að ég sé hippi, femínisti og öfgafullur dýraverndunarsinni, bara svona sem dæmi. Vonandi hreinsar þetta upp allan misskilning

...en það er samt sorglegt að 36% hafi getað kosið þennan hóp sem fer inná þing fyrir flokkinn aftur, mér finnst það hrikalegt.  En ekki hef ég orðið vör við sérstaka velþóknun á t.d vinstri grænum heldur, það er ekki einsog ásakanir, slúður og rugl hafi ekki verið allsráðandi á blog.is bara til að gera lítið úr þingmönnum flokksins og kjósendum þeirra, t.d varað við því að við séum heimsk og fleira af því að við erum vinstrisinnuð, við=kjósendur vinstri flokka. "Við" skiljum ekki efnahag og allt sem skiptir máli. Það er oftast talað undir rós á svona hægriáróðursbloggum, mér lætur það alls ekki vel.

halkatla, 16.5.2007 kl. 02:20

18 identicon

Er ekki alveg eins hægt að segja um auglýsingar flokkana að þær séu algerlega siðlausar og á skjön. Eru ekki flokkarnir að eyða milljónum í auglýsingar. Afhverju má þá Jóhannes, eða hver annar ekki auglýsa sýnar skoðanir eins og þeim sýnist? Reyndar finnst mér pólitíkin hérna vera orðin einhverskonar tískupólitík, og auglýst eins og hver önnur söluvara. Afhverju eiga stjórnmálamenn að vera þeir einu sem eru stikkfrí í þessu auglýsingaflóði? Eru einhver lög sem kveða á um að Jóhannes megi bara auglýsa kjöt, eða aðra matvöru? Björn líttu þér nær!

Daði (IP-tala skráð) 18.5.2007 kl. 05:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband