Á Mogga fyrir fjörutíu árum: Þegar stórmenni tala ...

Svo vill til, að í dag eru liðin fjörutíu ár frá því að fyrstu skrifin mín birtust í Morgunblaðinu. Það var föstudaginn 26. maí 1967. Daginn áður kom ég þar til starfa og vann alla tíð undir leiðsögn Matthíasar, sem ég hef nánast dýrkað alla tíð síðan. Samkvæmt reynslunni er ég þó manna ólíklegastur til þess að dýrka að nokkru ráði þá sem yfir mig eru settir! Þarna um vorið varð ég tvítugur, en ári fyrr hafði ég lokið stúdentsprófi frá MR og farið síðan í skóla erlendis.

 

Vinnan mín á Mogganum var mér að flestu leyti skemmtileg. Til gamans smelli ég samt hér inn klausu um erfið andartök á þessu sumri fyrir fjörutíu árum, sem enn sitja í mér. Líkt og stundum endranær er hér gripið niður í minningabrot frá langri ævi, sem ég hef klórað saman á vegferðinni mér til dundurs. Hefst svo lesturinn, eins og þar stendur:

                         

Eitt af verkefnum mínum þetta sumar var að fara með í árlega Varðarferð, sem á þeim tíma var allmikill viðburður hjá rosknu sjálfstæðisfólki og Morgunblaðinu. Meðal annars var áð í einhverju helsta kríuvarpinu suður á Rosmhvalanesi, nálægt Krísuvík ef ég man rétt, og þar flutti Bjarni Benediktsson forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins ávarp. Hann var með göngustaf í hendi og veifaði honum yfir höfði sér meðan hann flutti ávarpið, enda ekki vanþörf á. Ekki heyrðist mannsins mál fyrir látunum í kríunni. Meira að segja ég, sem þá var ungur og vel heyrandi og mjög nærstaddur, heyrði nánast ekkert nema kríugargið. Hvað þá gamla sjálfstæðisfólkið, sem var meira og minna farið að tapa heyrn, en samsinnti ræðu ráðherrans þó ákaflega og fagnaði eins og fólk gerir jafnan þegar stórmenni tala.

Svo var komið heim á Mogga og ferðasagan færð í letur. Ég sagði Matthíasi að ég vissi ekkert hvað Bjarni hefði verið að segja - ég hefði ekki haft í mér uppburði til þess að fara til hans strax á eftir og spyrja - og spurði hvernig ég ætti að snúa mér í þessu. Matthías sagði mér að hringja bara í Bjarna, sinn gamla vin og gamla Moggaritstjóra, og biðja hann að segja mér inntakið í ræðunni. Ég hringdi og bar upp erindið. Bjarni var greiður til svars og svaraði með miklum gný - og ég man (og heyri) svarið orðrétt enn í dag: Ég hef annað við minn tíma að gera en gera referöt fyrir blaðamenn Morgunblaðsins. Síðan skellti hann á.

Og þarna sat strákræfillinn eftir við skrifborðið á Mogga eins og barinn hundur með símtólið í hendinni og grét. Grenjaði af vanmætti og skömm. Það þyrmdi yfir mig, heitir það víst - fremur vond tilfinning.

Skömmu síðar kom inn til mín Friðrik Sigurbjörnsson og rifjaði upp línur úr Einræðum Starkaðar eftir Einar Ben ...

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Skemmtileg saga.  Sýnir margt um hvernig tíðarandinn hefur breyst. Ég held að enginn stjórnmálamaður myndi dirfast núna að tala við blaðamenn af þessum hroka eins og þú lýsir hjá Bjarna. Svo finnst mér þetta líka skemmtilegt með kríuvarpið því það minnir mig á Kvennalistann en krían var nú eins konar einkennisfugl þar. Við töldum okkur eiga heilmikið sameiginlegt með þeim herskáa fugli og ég man eftir feiknagóðri ræðu sem Ingibjörg Sólrún flutti þar sem myndlíkingin var að hún og aðrar Kvennalistakonur væru eins og krían.

Það væri nú gaman að fá þá ræðu núna hjá Ingibjörgu Sólrúnu ef hún á hana til,  ég held nú að að þrátt fyrir að hún sé núna orðin ráðherra þá muni hún ekki vera eins hrokafull eins og Bjarni forðum.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 27.5.2007 kl. 07:53

2 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Andskotans hroki í Bjarna. Munar mönnum nokkuð um það að vera ljúfir og vingjarnlegir í samskiptum við einstaklinga.

Sigurður Þór Guðjónsson, 27.5.2007 kl. 17:39

3 Smámynd: Svava frá Strandbergi

Samúðarkveðjur. Ég vann reynar líka fyrir Morgunblaðið eða réttar sagt  Gísla Sigurðsson á Lesbókinni við myndskreytingar í fjölda ára. 

Svava frá Strandbergi , 27.5.2007 kl. 19:01

4 Smámynd: Hlynur Þór Magnússon

Einhvern veginn finnst mér botninn vanta, hvað þessa minningu varðar. Viðhorf mitt til stjórnmálamannsins Bjarna Benediktssonar tók aldrei neinn lit af þessu smávægilega tilviki - og það er ég ánægður með, eftir á að hyggja. Sjálfur hef ég væntanlega brugðist við með sambærilegum hætti á lífsleiðinni, þegar einhver eða eitthvað hefur truflað mig þegar illa hefur staðið á. Hins vegar er gott að minnast þess, að aðgát skal höfð í nærveru sálar ...

Hlynur Þór Magnússon, 28.5.2007 kl. 18:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband