Pistill Víkverja í Morgunblaðinu í dag er eins og út úr mínu hjarta skrifaður. Smelli honum inn hér fyrir neðan. Leyfi mér áður að rifja upp símhringingu í verslun fyrir nokkrum misserum, þegar ég var að hugsa um að hvíla mig á sígarettunum og fara í staðinn að reykja pípu eins og í gamla daga. Ég er þokkalega minnugur og man samtalið nánast eins og það var. Enda var ég talsvert hugsi að því loknu.
Ég hringdi og spurði hvort þarna fengjust pípur. Barnið sem svaraði þagði litla stund og spurði svo: Meinarðu hasspípur? Nei, ég var ekki að meina hasspípur. Veit ekki, kannski þú ættir að tala við pípara, sagði barnið þá. Ég meina reykjarpípur, sagði ég. Reykja-pípur? sagði barnið, ég skal athuga. En spurði svo: Hvað er reykja-pípur? Til að reykja tóbak, sagði ég. Jaaaáááá! sagði barnið með upplifunarraddblæ þess sem hefur allt í einu öðlast skilning á lífsgátunni. Og kallaði svo í eitthvert annað barn í búðinni: Erum við með reykja-pípur? Síðan kom svarið: Nei, en þær fást ábyggilega í Ríkinu hjá Snorra.
Áður en kemur að pistli Víkverja langar mig að nefna afgreiðslumann sem var í Húsasmiðjunni á Ísafirði a.m.k. til skamms tíma eða síðustu árin sem ég var þar á svæðinu. Vonandi er hann þar enn. Það er Sigurður Þorláksson, sem réðst þar til starfa kominn á sjötugsaldur að loknu ævistarfi sem iðnaðarmaður. Fyrir nú utan einstaka ljúfmennsku og þolinmæði og hjálpsemi, þá vissi Siggi Láka hreinlega allt sem viðkom öllu sem þar fékkst og gat leiðbeint um alla hluti.
Víkverji dagsins segir:
Það er Víkverja mesta raun að fara í búðir. Ástæðan er sú að ef hann þarf aðstoð af einhverju tagi, þá er enga þjónustu að fá. Tómeygir unglingar við störf alls staðar, sums staðar allt að því ómálga börn, og þótt krakkaræflarnir hafi vilja til verksins hafa þeir hvorki þroska né það sem heitir þjónustulund til að valda því.
Verst eru bakaríin. Þar þýðir hvorki að biðja um sigtibrauð né normalbrauð það þarf ráðstefnu þriggja samstarfsmanna til að finna út úr því hvaða brauð það gæti nú verið. Að biðja um kúmenbrauð, ástarpunga eða napóleonskökur er jafnflókið.
Besta aðferðin í bakaríinu er að nota vísifingurinn, benda og segja svona og svona, og láta örlögin svo ráða hvað upp úr pokanum kemur. Víkverji upplifir sig jafnómálga í bakaríum á Íslandi og í Frakklandi.
Þegar í matvöruverslanir kemur er ástandið litlu skárra. Hvar finn ég súkkat? spyr Víkverji næsta starfsmann, og í óspurðum fréttum er honum sagt í hvaða rekka súkkulaðið er. Nei, súkkatið, þetta sem maður notar í ensku jólakökurnar!
Og upphefst nú sami spurningaleikur búðarbarnanna og í bakaríinu: Er til eitthvað sem heitir súkkat? Ég veit það ekki, spurðu Selmu. Og Selma segir: Ef þú sérð það ekki, þá er það örugglega ekki til. Víkverji vissi satt að segja ekki að aum sjón hans væri mælikvarði á það hvað væri til og hvað ekki. Á endanum kemst Víkverji að því að súkkatið er ekki lengur vistað með bökunarvörunum, heldur hjá þurrkuðu ávöxtunum.
Verslunarmennska er hætt að vera fag, og það ætti að vera forsvarsmönnum verslunarrekstrar áhyggjuefni. Metnaður og þjónustulund í faginu virðast á nokkrum árum hafa þurrkast út. Á sama tíma situr eldra fólk, með alla sína lífsreynslu og þekkingu, heima, margt hvert viljugt til að vinna eins og aldur leyfir, en getur ekki vegna einhvers fáránleika í eftirlaunakerfinu.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkur: Dægurmál | Breytt s.d. kl. 06:34 | Facebook
Athugasemdir
Mikið er ég sammála ykkur Víkverja. Auðvitað á eftirlaunakerfið að vera þannig að þeir sem vilja og hafa heilsu geti unnið eins lengi og þeir nenna. Heldri borgarnir okkar eru frábært fólk og eiga að fá að taka eins mikinn þátt í samfélaginu og þeir vilja og nenna.
Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 29.5.2007 kl. 10:31
Ég hef ekki fengið annað eins hláturkast í allavega mánuð! komin með góðan serótínskamt fyrir daginn þökk sé skrifum þínum það er orðið einsog besta bíó að fara útí búð. krakkagreyjunum gengur ekkert of vel að þekkja ávexti í sundur, og voru mandarínurnar mínar oft vigtaðar sem appelsínur fyrir síðustu jól.
Guðrún Sæmundsdóttir, 29.5.2007 kl. 11:17
Verð að bæta við tveimur strætósögum, en núorðið eru margir vagnstjórana af pólskum uppruna. Vagnstjórinn var spurður að því hvort að hann keyrði að Smáralindinni, hann svaraði"no no I only drive to the next busstation." Svo var sonur minn eitt sinn að taka strætó hérna í Hafnarfirðinum og spurði vagnstjórnann hvort að vagninn keyrði að Ásvöllum (hverfi hérna í Hafnarfirði.) jú hann gerði það svo strákurinn tók vagninn, en bílstjórinn hafði ekki fyrir því að segja honum að fyrst keyrði hann á Hlemm!
Guðrún Sæmundsdóttir, 29.5.2007 kl. 11:38
Takk fyrir góðan pistil. Þetta er algjör sannleikur hjá þér og Víkverja. Ég tók þá stefnu þegar fór að bera á þessu vandamáli í verslunum að vera ákaflega móðurleg og leiðbeinandi við blessuð börnin, allavega eins og ég get, miða við þekkingu mína og hefur það virkað vel til að fá þau til að aðstoða mig oftar en ekki leysast þá vandamálin en stundum hef ég hreinlega þurft að segja, þegar kassabörnin eru voða upptekin hvort af öðru og spjalla og spjalla, " kláraðu nú að afgreiða mig fyrst svo máttu spjalla" og ef ég brosi með þá sleppur þetta til. Annars held ég að verslunareigendur þurfi að þjálfa börnin betur, mörg hver hafa ekki lært lágmarks kurteisi heima hjá sér.
Ásdís Sigurðardóttir, 29.5.2007 kl. 12:20
Ein saga hér! Pétur Gautur heitin kendi í Reykjanesi v/djúp hann pantaði 1 karton af píputópaki úr Kaupfélaginu á 'Isafirði sambandið var einhvað slitrótt. Pétur fékk 1 poka af kartöflum
Rannveig H, 29.5.2007 kl. 12:25
Um daginn frétti ég af tveimur góðum starfsmönnum Bónus hér á Akureyri. Maður sem ég þekki þar var að kaupa sér í matinn og var kominn að kassanum, var með tvennt eins og sagðist ekki vilja annað þeirra. Hætti svo snarlega við að hætta við og sagði því við barnið sem afgreiddi hann "Æi þetta er í lagi, ég fæ bara hvoru tveggja". Spurnarsvipur kom á barnið þangað til næsta kassabarn gólaði yfir alla "Þetta þýðir að hann ætlar að fá bæði, ég lenti í þessu í síðustu viku".
Þetta hefði etv. verið fyrirgefanlegt ef þetta hefðu ekki verið tveir ósköp venjulegir íslenskir unglingar.
Jón Stefánsson, 29.5.2007 kl. 14:04
það er alveg auðsjáanlegt hverjir fást í vinnu á þessum stöðum eins og stórmörkuðum. Ungt skólafólk eða útlendingar. Enda launin ekki mikil, nema þú vinnir eins og hestur.
Steingrímur Rúnar Guðmundsson, 29.5.2007 kl. 14:53
Því miður er það of algengt að þjálfun afgreiðslufólks í verslunum sé ábótavant. Ég vona samt að mér hafi tekist að veita þér þokkalega þjónustu þegar þú verslaðir í Björnsbúð á Ísafirði. En fátt er svo með öllu illt að ekki boði eitthvað gott. Nýverið útskrifaðist hópur nemenda úr Verslunarfagnámi frá Verslunarskóla Íslands. Þar er um að ræða þriggja anna bóklegt og starfstengt nám fyrir starfandi verslunarfólk. Er það í annað sinn sem Versló útskrifar nemendur úr þessu námi. Þá er hópur í Verslunarfagnámi hjá Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar sem útskrifast í haust.
Að auki munu fjórir framhaldsskólar hefja kennslu í haust í þjónustgreinum. Þar er um að ræða tveggja ára, starfstengt framhaldssnám og velja nemendur á námstímanum milli verslunarbrautar og skrifstofubrautar. Svo... vonandi batnar þjónustan, vöruþekkingin og viðmótið (einn góðan veðurdag).
Björn Garðarsson (IP-tala skráð) 29.5.2007 kl. 16:48
Kæri gamli góði Björn Garðarsson! Björnsbúð á Ísafirði og fólkið sem þar starfaði er vandaðrar færslu virði við hentugleika. Þar voru kaupmenn af lífi og sál og þjónustan eins og best verður á kosið. Jón Kristófer: Nei.
Hlynur Þór Magnússon, 29.5.2007 kl. 19:05
Reyktir þú nokkuð hass á hippaárunum?
Sigurður Þór Guðjónsson, 29.5.2007 kl. 19:22
Meira varðandi Björn Garðarsson fyrrum kaupmann í Björnsbúð á Ísafirði: Búðin bar ekki nafn hans - þó að hún gerði það samt! - heldur langafa hans, Björns Guðmundssonar gullsmiðs og kaupmanns, föður Guðmundar Björnssonar kaupmanns í Björnsbúð, föður Garðars Guðmundssonar kaupmanns í Björnsbúð, föður Björns Garðarssonar kaupmanns í Björnsbúð ... Ef ég man rétt, þá var Björnsbúð stofnuð árið þegar Hannes Hafstein fór frá Ísafirði og varð Íslandsráðherra. Sigurður Þór: Nei, ég hef aldrei reykt hass, prófaði það ekki einu sinni án þess að taka ofan í mig eins og Clinton (... but, I didn't inhale). Þarna voru einmitt kynslóðaskiptin. Ég er stúdent frá MR 1966 og allir í smóking á hópmyndinni. Það var breytt strax næsta vor. Ég varð aldrei var við hassneyslu eða aðra vímugjafa en áfengi í mínum hópi í skólanum. Ég sumsé rétt missti af hippatímanum.
Hlynur Þór Magnússon, 29.5.2007 kl. 19:32
Hasspípusagan er alveg dásamleg!
Vilborg Valgarðsdóttir, 29.5.2007 kl. 22:27
Ég reykti þrisvar hass á hippaárunum en missti að öðru leyti af öllu!
Sigurður Þór Guðjónsson, 29.5.2007 kl. 23:47
Ég vil koma unga fólkinu í matvöruverslunum og öðrum búðum aðeins til varnar. Sum þeirra eru vissulega úti á túni, en mjög oft hef ég upplifað krakkana sem ekkert nema elskulegheitin. Það er frekar að ég hafi ergt mig út af gömlum geðvondum bensínafgreiðslukörlum en unglingum í afgreiðslu.
Og já, gamla góða Björnsbúð er kafli út af fyrir sig. Þó ég hafi oft reytt hár mitt út af verðinu, þá var þjónustan yfirleitt til fyrirmyndar. Sérstaklega fannst mér Garðar karlinn vera liðlegur og leggja sig fram við að aðstoða mann. Hann var yfirleitt rokinn af stað að leita að vörunni áður en ég hafði sleppt orðinu!
Hlynur, kannski er þessi reynsla þín með pípuna áminning um að hætta þessum bannsettu reykingum! Góð saga engu að síður. "Meinarðu hasspípu?" Sá einstaklingur hefur ekki verið í miklu jarðsambandi þennan dag.
Theódór Norðkvist, 30.5.2007 kl. 22:37
Góður
Ester Sveinbjarnardóttir, 31.5.2007 kl. 01:49
Hló mig máttlausa.. fyndið vegna þess að maður hefur lent í svipuðum aðstæðum. Nema náttúrulega þetta með hasspípuna, ég er greinilega ekki svona hasshausaleg eins og Hlynur
En ég held það sé enginn að sakast við þessi krakkagrey. Ábyrgðin liggur að sjálfsögðu hjá þeim sem ræður þá í vinnu
Heiða B. Heiðars, 31.5.2007 kl. 10:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.