Bloggraunir ...

Ekki er ég einn um þá tilfinningu að bloggfærslurnar mínar séu einskis virði. Gott finnst mér að fá hljómgrunn skoðana minna - þeirra skoðana rétt eins og annarra. Fyrir um þrettán mánuðum - miðsumars 2007 - eyddi ég í fljótfærni blogginu mínu hjá mbl.is og hafði þá verið að bulla þar liðlega hálft ár. Þessi ráðstöfun féll í grýtta jörð hjá fáeinum vinum mínum sem töldu þessi skrif einhvers virði. Ástæða þess að ég eyddi dótinu var sú, að mér fannst einhvern veginn að ég ætti ekki heima í þessum hópi þar sem kjánagangur og stóryrði og sleggjudómar réðu ríkjum - að mér fannst.

Vinkona mín, sem var og er stórbloggari á mbl.is, leitaði þá til umsjónarmanna Moggabloggsins og spurðist fyrir um það, hvort ekki mætti endurheimta bloggið mitt. Ég var samþykkur því að hún leitaði eftir þessu en var of stór upp á mig til að vilja gera það sjálfur. Skemmst er frá því að segja, að henni var aldrei ansað. Niðurstaðan var þess vegna sú, að bloggið mitt væri týnt og tröllum gefið.

Um haustið bauð Pétur Gunnarsson mér að gerast Eyjubloggari. Ég tók því með þökkum og bloggaði á Eyjunni allt fram á mitt þetta sumar. Svo einn góðan veðurdag hljóp fjandinn í mig á nýjan leik og ég eyddi blogginu - og iðraðist þess á sömu mínútu. Núna var ég nógu auðmjúkur til að spyrjast fyrir um það sjálfur hvort öllu væri eytt og ekki neitt hefði lifað af þann lokadóm. Mektarmenn á Eyjunni sögðu að þessu yrði kippt í lag og tiltekinn tölvumeistari myndi hafa samband við mig.

Þegar tæp vika var liðin án frekari viðbragða skráði ég mig svo inn á Moggabloggið á ný. Og fékk í fyrstu engin viðbrögð. Ég skráði mig inn og fékk sjálfvirkt svar þess efnis að mér hefði verið sendur tölvupóstur með staðfestingarslóð, en sá póstur kom ekki. Ég reyndi aftur litlu síðar -  með sama árangri. Síðan sendi ég tölvupóst á bloggmenn hjá mbl.is og spurði hvort ég væri eitthvað óæskilegur þar á bæ. Þá loksins kom svar - og þá var mér sagt, að ég væri enn með gamla bloggfangið mitt hjá mbl.is og skráning mín núna væri bara skráning á aukabloggi hjá mér. Eins og ekkert væri. Jafnframt var ég spurður hvort ég vildi að færslurnar á gamla blogginu yrðu færðar á þetta nýja aukablogg.

Maður hefði nú kannski mátt frétta af þessu fyrr. Rúmlega ári fyrr.

Núna er spurningin hvort einhvern tímann í framtíðinni komi í ljós að bloggið mitt á Eyjunni sé ennþá til einhvers staðar.

Hér hef ég greint lítillega frá refsingum bloggstjóra þegar maður kjánast til að hætta í fljótræði.

Hins vegar hafa skoðanir mínar á bloggrausi mínu ekki breyst á nokkurn hátt. Þetta er og hefur alltaf verið innantómt bull. Mér er það aftur á móti einhver nauðsyn að bulla út og suður. Reikna með að halda því áfram á einhverjum vettvangi meðan öndin þöktir í nösum, hvort sem það er á bloggum eða í dagbók eða einfaldlega við sjálfan mig þegar alsheimerinn hefur tekið öll völd og það er best. Guð gefi að það gangi fljótt og vel úr því sem komið er.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Velkominn til baka á Moggann.

Jenný Anna Baldursdóttir, 27.8.2008 kl. 09:32

2 Smámynd: Yngvi Högnason

Gaman að fá þig aftur,alltaf pláss fyrir einn til, að vestan.

Yngvi Högnason, 27.8.2008 kl. 20:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband