Samræmd vefmæling Modernusar

Fróðlegt er að skoða Samræmda vefmælingu Modernusar, þar sem fram kemur fjöldi notenda, innlita og flettinga á vefjum í hverri viku. Jólin með öllu sem þeim fylgir setja svip á notkunina og hafa í för með sér verulegar sveiflur. Ekki fyrst og fremst að vefir sem eru tengdir jólunum fái meiri aðsókn, heldur miklu frekar hitt, að á þeim tíma dregur verulega úr notkun almennra fréttavefja og bloggvefja og raunar langflestra vefja. Ástæðan er líklega ekki eingöngu sú að fólk hafi svo miklu meira að gera (flestir eru í fríi), heldur hitt, að flestir eru í fríi! Hvar er betra næði og meiri tími til að ráfa á Netinu en einmitt í vinnunni eða í kennslustundum í skólanum?

           

Í síðustu viku, í tilefni þess að rétt vika var liðin frá því að ég kom til sögunnar hér á blogginu, páraði ég í kvikindishætti mínum nokkur orð um áhrif skrifa minna á aðsóknina að vefnum mbl.is. Niðurstaðan var ótvíræð: Notendum á mbl.is hefur stórfækkað, innlitum hefur stórfækkað og flettingum hefur stórfækkað. Og síðan sagði: Skoði maður sundurliðun á einstökum undirvefjum Moggavefjarins, þá kemur í ljós, að hér munar mest um samdráttinn á blog.is, þar sem áhrifa minna gætir helst. Þar hefur notendum fækkað um 18% og innlitum um 27,1%.

         

Í dag komu nýjar tölur hjá Modernusi, fyrir fyrstu viku hins nýja árs. Gleðilegt er að sjá hversu vel mbl.is og blog.is og notendur þessara vefja hafa jafnað sig eftir mig - eða jólin. Notendum hefur stórfjölgað, innlitum hefur stórfjölgað og flettingum hefur stórfjölgað.

                              

En þetta gildir ekki bara á Moggavefjunum. Í flestum tilvikum gildir það líka um aðra vefi. Nokkrar skiljanlegar undantekningar má nefna: jol.is, jpv.is og vefkort.is - og vinbud.is.

 

Margt má finna áhugavert í snuðri á lista Samræmdrar vefmælingar. Jafnan vekur athygli hin mikla aðsókn að vef Bæjarins besta á Ísafirði, bb.is - ef miðað er við fólksfjölda, að íslenskum sið. Þar eru innlitin í nýliðinni viku álíka mörg og hjá Víkurfréttum á Suðurnesjum, þrátt fyrir margfaldan mun á íbúafjölda á svæðunum.

 

Svona hefur þetta reyndar verið alla tíð. Vefurinn bb.is hóf göngu sína í ársbyrjun 2000, fyrir réttum sjö árum. Aðsóknin að honum var strax langtum meiri en menn bjuggust við, jafnvel ekki laust við að einhverjir efuðust um þær tölur sem fram komu!

 

Mér er ákaflega hlýtt til Bæjarins besta og bb.is og þeirra sem þar halda á spöðum. Enda málið mér nokkuð skylt. Ég annaðist fréttaskrifin á bb-vefnum frá fyrsta degi og var ritstjóri hans í nokkur ár.

 

Hvað sem því líður - gaman að sjá að vefnotkun landsmanna stóreykst að loknu jólafríi. Það leynir sér ekki að fólk hefur nóg fyrir stafni, hvort heldur er í vinnunni eða skólanum ...

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband