10.1.2007
Stytti sér aldur út af músagangi (?)
Meðal þess sem mér þykir undarlegast í samtímanum hérlendis - með aldrinum kemur að vísu sífellt færra á óvart - er rekstur stofnana, sem að öðru leyti mætti e.t.v. kalla þjóðþrifastofnanir, á spilakössum. Mér finnst ánægjulegt, að í borgarstjórn Reykjavíkur skuli vera þverpólitísk samstaða um að vinna gegn þessum ófögnuði. Kannski er heldur vægt að kalla þetta ófögnuð, rétt eins og t.d. músagang eða silfurskottur, sem leggja ekki líf fólks í rúst, að ég best veit. Ef einhver sem þetta les veit um manneskju sem hefur stytt sér aldur út af músagangi, þá væri það áhugavert út af fyrir sig.
Þeir sem sitja í fílabeinsturni Háskóla Íslands hafa auðvitað engan skilning á spilafíkn. Þeir segja að hverjum og einum sé í sjálfsvald sett hvort hann notar spilakassana.
Yfirlýsingar af því tagi bera vitni um fáfræði, hreina heimsku. Og það í sjálfum Háskóla Íslands. Þeir sem eru í ábyrgðarstörfum í stofnun af því tagi - universitas - og reyndar hinir líka, ættu manna best að vita að rök eru fyrir öllu, að skýringar eru á öllum hlutum, jafnvel þó að þeir skynji þær ekki á sjálfum sér. Þeir ættu manna best að vita að spilafíkn er staðreynd, jafnvel þótt þeir séu ekki haldnir henni sjálfir.
Og hvað með SÁÁ? Kannski er skiljanlegra að sú stofnun fremur en háskóli standi að viðhaldi og eflingu spilafíknar. Reksturinn þar byggist einmitt á eftirspurn og framboði langt genginna fíkla, ekki aðeins í áfengi, heldur einnig fíkla í efni á borð við amfetamín og kókaín - og spilakassa. Í samræmi við reksturinn á spilakössum væri eðlilegt, að SÁÁ fengi að hafa áfengis- og kókaínsjálfsala í anddyrinu á Vogi. Þannig mætti afla fjár til þess að veita enn fleiri áfengissjúklingum meðferð, og stuðla að því um leið, að enn fleiri ánetjist SÁÁ.
Ég nenni ekki núna að fjalla hér um Landsbjörgu, sem ekki aðeins þrífst á ógæfu spilasjúklinga, heldur einnig þeim algera barbarisma sem skoteldadjöfulgangurinn um áramótin er og allt sem honum fylgir. Það er kapítuli út af fyrir sig.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:11 | Facebook
Athugasemdir
Þessu er ég algjörlega sammála. Ég hreinlega neita að trúa að SÁÁ og Háskólinn sjái ekkert siðferðislega rangt við þetta. Frekar held ég að þeir þykist ekki sjá það því þeir græða svo mikið á þessum kössum. Á meðan SÁÁ veitir fjárhættuspilurum og eiturlyfjasjúklingum meðferð finnst mér það algjörlega sambærilegt að þeir settu einnig upp kókaínsjálfsala (að því gefnu að kókaín væri löglegt). Hvað Háskólann varðar þá er ég nemandi þar og hef undir höndum kennslubók þar sem fjallað er um ógæfu þeirra sem ánetjast fjárhættuspilum.
Annars er auðvitað kapítuli út af fyrir sig hvað ríkið ver litlum peningum til menntamála. Mér finnst hreinlega að við ættum að skammast okkar fyrir hversu fjársveltur Háskóli landsins okkar er.
erlahlyns.blogspot.com, 10.1.2007 kl. 19:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.