Bananar eða olía fyrir okkur?

Sómalía má heita ónumið land fyrir olíuvinnslu. Þar eru bananar ein helsta útflutningsvaran, lífskjörin slæm og barnadauði einna mestur í heiminum. En - þar eru miklar olíulindir í jörðu. Skyldu loftárásir Bandaríkjamanna á „meint hreiður al-Qaida hryðjuverkamanna“ hafa tekið mið af því? Vel hefur til tekist í Írak - olíugróðinn þaðan mun framvegis renna til olíurisanna sem standa undir Bush forseta, eins og fram hefur komið síðustu daga. Innrás Bandaríkjamanna og viljugra hunda þeirra í Írak - þar á meðal okkar Íslendinga - hefur skilað tilætluðum árangri.

 

En hvað með Sómalíu? Væri ekki rétt og skynsamlegt að forsætisráðherra og utanríkisráðherra Íslands (skítt með vitneskju eða samþykki annarra hérlendis) taki nú virkan þátt í hernaði Bandaríkjanna í Sómalíu rétt eins og í Írak? Þó ekki væri nema með því að skaffa sérfræðinga sem gætu fundið efnavopn, sérfræðinga á borð við íslensku sinnepstunnumennina í Írak, og komið þar með Íslandi á kortið, eins og það er orðað?

 

Allt virðist vera til vinnandi að lækka bensínverð hérlendis. Írakssigurinn hefur ekki enn sem komið er skilað slíku til okkar. Að minnsta kosti ekki til almennings. Vonandi njóta íslensku olíufélögin samt góðs af lækkandi olíuverði, þó að það skili sér ekki ennþá til viðskiptavina.

 

Yfirráð siðmenntaðra ríkja yfir olíulindunum í Sómalíu verða vonandi til þess, í fyrstu lotu, að bananar verði ódýrari í íslenskum bensínsjoppum. Síðan er það spurningin hvort olíugróðinn rennur bara í vasa bandarísku olíurisanna eða líka til okkar, hinnar viljugu þjóðar, hinna viljugu bensínkaupenda.

 
mbl.is Áframhaldandi loftárásir Bandaríkjamanna á Sómalíu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband