Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2007
5.4.2007
Morgunandakt
Ég vandist því að vikan fyrir páska væri kölluð dymbilvika en vikan á eftir páskavika. Margir tala hins vegar um þessa viku sem páskaviku - svo sem að skreppa á skíði til Ísafjarðar í páskavikunni. Svona breytast hlutirnir og lítið við því að segja. Maður þumbast við lengi vel en lætur að lokum undan ofureflinu. Fáir myndu skilja bloggið mitt ef ég ritaði mál Egils og Snorra.
Hundurinn Dexter slapp áðan. Ég opnaði fyrir honum út á pallinn en gætti þess ekki að hliðið var opið. Þegar ég ætlaði litlu síðar að setja hann í bandið í garðinum var hann horfinn.
Ekki þurfti ég að leita hans lengi. Ég fór rakleiðis að húsi þar sem íturvaxin tík á heima og þar var hundurinn fyrir utan. Cherchez la femme. Hann var ekki byrjaður að syngja undir glugganum hennar. Vona ég. Ekki klukkan hálfátta á skírdagsmorgni.
Morgunninn sjálfur er skír og fagur. Láréttir sólargeislar við Breiðafjörð. Hægviðri, dálítið andkalt. Í dag er hinn hreini dagur, hreinleikans dagur. Á morgun er dimmur dagur.
Til upprifjunar varðandi hundinn Dexter: Ég á hann ekki heldur Erla dóttir mín. Hann hefur dvalist hjá mér í rúma tvo mánuði. Deili á nafni hans koma fram hér í gestabókinni. Sjá líka þessa færslu:
30.01.2007 Með tetanus í höfðinu
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
4.4.2007
Heimildir varðandi mig óskast
Allt frá unglingsárum hef ég safnað heimildum um mitt nánasta ættfólk eins langt aftur og mér hefur verið unnt, og geri enn. Nokkur skalli, óneitanlega stór, er í þeirri heimildavinnu þar sem persónulegar eigur móður minnar og jafnframt foreldra minna beggja eiga í hlut. Þannig hvarf mér t.d. þegar mamma dó fyrir þremur áratugum fjöldi gamalla ljósmynda í hennar eigu, sem ég sjálfur tók, auk margra annarra. Auk þess hurfu mér þá mörg afar persónuleg bréf sem fóru okkur mömmu í milli, m.a. þegar ég var vistaður í heimavistarskóla á Vestfjörðum á fermingaraldri, sem og ótalmargt annað persónulegt sem ég fékk engan aðgang að þegar mamma dó.
Þeir sem kunna að hafa eitthvað af þessu undir höndum núna - hafa e.t.v. keypt það á flóamarkaði eða því um líkt - eru beðnir að hafa samband við mig. Ekki síst þætti mér gaman að frétta af nælunni sem ég smíðaði og gaf mömmu!
Fyrir utan almennt gaman væri fróðlegt að vita um kaupendurna en þó einkum seljendurna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Ekki varð ég neitt hissa þegar ég sá fyrirsögnina Styrmir enn á ferð við Morgunblaðshúsið í Kringlunni. Ekki hefði ég heldur orðið hissa þó að hann hefði sést á vappi við gamla Morgunblaðshúsið í Aðalstræti. Jafnvel Matthías líka. Römm er sú taug ...
En þetta var annar handleggur, annar Styrmir. Tjaldurinn Styrmir.
Fuglamenn á Náttúrustofu Vestfjarða hafa líka gefið farfuglum kunnugleg nöfn á liðnum árum. Stína var á sínum tíma merkt í Holti í Önundarfirði. Síðan fréttist af henni á Írlandi, í Englandi og Frakklandi og svo aftur heima í Holti áður en hún fór til Írlands á ný.
Fyrir nokkrum árum tók ég þátt í lestri Passíusálmanna á föstudaginn langa í kirkjunni í Holti hjá séra Stínu Gísladóttur. Hún er úr Mosfellssveitinni gömlu eins og ég. Það voru líka jaðrakanar á túninu heima í mínu ungdæmi. Ætli þeir séu þar enn?
Ísfirðingur nokkur var að koma að sunnan og sagði við kunningja sinn: Ég keyrði yfir tjald inni í Djúpi. Og kunninginn spurði: Var einhver í tjaldinu?
![]() |
Styrmir enn á ferð við Morgunblaðshúsið í Kringlunni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.4.2007
Hvað varð um Eldland?
Mér leiðist sú þróun hjá fjölmiðlum að hætta að nota gamalgróin íslensk heiti í landafræði. Í þessari frétt kemur við sögu Tierra del Fuego, sem jafnan hefur kallast Eldland á íslensku. Enn verra þykir mér þegar notuð eru ensk heiti í stað þeirra sem heimamenn nota, svo sem Bavaria þegar átt er við Bayern eða Bæjaraland.
Mörg dæmi af þessum toga hefur borið fyrir augu á Moggavefnum síðustu árin. Á Vísisvefnum reyndar líka en það snertir mig síður. Mér er hlýtt til Morgunblaðsins, ég vil veg þess sem mestan. Þess vegna sárnar mér þegar þar er farið illa með íslenskt mál og íslenskar málvenjur. Mér sárnar oft ...
Síðustu árin, sagði ég. En þá kemur Tóta litla tindilfætt í hugann ...
![]() |
Frá Alaska til Tierra del Fuego á lýsi og svínafitu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
2.4.2007
Framsóknarvor í lofti?
Grasið er farið að grænka hér við húsið. Gras og grænn litur minna mig á Framsóknarflokkinn. Einhvern veginn finnst mér alltaf að græni liturinn tilheyri honum umfram aðra. Sumir telja sig vinstri græna, aðrir hægri græna. Framsókn er miðjugræn.
Það er athyglisvert að tveir af þremur vinsælustu bloggurunum á Moggablogginu skuli vera framsóknarmenn. Nema þeir séu framsóknarmenn allir þrír.
Hvenær byrjar Jón Sigurðsson að blogga?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
1.4.2007
Ósmekklegt aprílgabb Ríkisútvarpsins
Það er gömul og góð venja að láta fólk hlaupa apríl. Yfirleitt er það á gamansömum og græskulausum nótum. Fjölmiðlar hafa ekki látið sitt eftir liggja í þessum efnum. Enn man ég þegar Stefán Jónsson fréttamaður lýsti ferð svifnökkva á leiðinni upp Hvítá fyrir mörgum áratugum. Að þessu sinni virðist hins vegar sem fréttastofa Ríkisútvarpsins hafi misst fótanna á svelli hins almenna velsæmis.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)