Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2007

McDonalds á afmæli í dag

Í morgun hélt páfinn upp á áttræðisafmælið sitt, sem reyndar verður ekki fyrr en á morgun. Hins vegar eru í dag, þann 15. apríl, 95 ár frá því að Kim Il-sung fæddist, leiðtoginn mikli í Norður-Kóreu, sem ég nefndi í síðustu færslu minni. Af þessu tilefni er nú mikið um dýrðir þar í landi. Eftir að Kim Il-sung andaðist árið 1994 var þriggja ára þjóðarsorg í Norður-Kóreu en sonurinn Kim Jong-il tók við völdum og ríkir enn.

 

Fleiri þjóðhöfðingjar á nýliðinni öld en Kim Il-sung fæddust þann 15. apríl. Í dag eiga einnig afmæli þau Vigdís Finnbogadóttir (f. 1930), fyrrverandi forseti Íslands, og Richard von Weizsäcker (f. 1920), fyrrverandi forseti Þýskalands.

 

Af minnisverðum hörmungaratburðum 15. apríl mætti nefna þessa, úr því að farið er að fletta almanakinu: Þann dag árið 1865 dó eftir skotárás Abraham Lincoln, einn ástsælasti forseti Bandaríkjanna, árið 1912 sökk farþegaskipið Titanic, árið 1955 var fyrsti McDonalds veitingastaðurinn opnaður og árið 1989 létust hátt í hundrað manns á Hillsborough-leikvanginum í Sheffield.

 
mbl.is Áttræðisafmæli páfa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fundurinn fagnaði þegar formaðurinn þagnaði

Er það rétt að sendinefnd frá Norður-Kóreu sé hérlendis að kynna sér landsfundahald? Verst að þeir skilja ekki íslensku og geta ekki lesið Moggabloggið. Aldrei hafa lofsöngvar um Kim Il Sung heitinn og son hans og Flokkinn komist í þvílíkar hæðir.

 

Mér finnst margt af þessu hin skemmtilegasta lesning.

                           

Hugsjónaeldurinn skín af hverjum manni. - - - Ræða Ingibjargar var eins og töluð úr mínu hjarta, vel ígrunduð, beitt, jarðbundin og skynsamleg. - - - Upphafsatriðið var stórglæsilegt tónaflóð með íslenska náttúru í baksýn. - - - Geir og Þorgerður birtust skyndilega í hópi frambjóðenda á sviðinu og ávörpuðu landsfundargesti sterk og afslöppuð. - - - Ræða formannsins hitti mannskapinn í hjartastað ...

                                          

2007-04-14_124020

                          

                                  

Og svo framvegis.

 

Sumt af þessu er líka svo hrikalega leiðinlegt að það eitt út af fyrir sig er alveg bráðskemmtilegt.

 

Áðan blöstu við mér samtímis þrjár bloggfyrirsagnir með jafnmörgum útgáfum af sama orðinu:

                               

Góð stemmning á kraftmiklum landsfundi. Góð stemning á kraftmiklum fundi. Frábær stemming á landsfundi ...

                            

Tekið skal fram, að hér er ekki verið að tala um sama landsfundinn.

 

Neðar var svo Bjarni Harðarson eins og ráðvillt mús í hesthúsi drottningar með þessa fyrirsögn: Framsóknarflokkurinn er forsenda farsællar landstjórnar.                   

                                   

Við Íslendingar höldum glæsilegri landsfundi en sést hafa í Norður-Kóreu. Lofsöngvarnir eru hástemmdari en nokkuð sem heyrst hefur í Norður-Kóreu.

 

Fram að þessu.

 

Við erum lánsöm þjóð. Við eigum ekki bara einn Mikinn Leiðtoga og ekki bara einn Flokk, heldur marga. Þess vegna geta allir verið í góðri stemmníngu, hvurnig svo sem það er stafsett og hvar í flokki sem þeir standa. Kannski fer stafsetníngin eftir flokkslínum.

                                        

Leyfi mér að tilfæra hér eina málsgrein enn úr lofsöngvunum hér á Moggabloggi:

                                   

Fagnaðarlátunum ætlaði aldrei að linna þegar Ingibjörg Sólrún hafði lokið máli sínu.       

                      

Finnst engum þetta fyndið nema mér?

 

Hvaða flokk eiga máttarstólpar þjóðfélagsins að kjósa?

Ég þekki vel einn af máttarstólpum þjóðfélagsins. Þetta er liðlega sextug kona, sem er búin að gefast upp. Hún sér enga leið til að lifa mannsæmandi lífi lengur. Við henni blasir gatan eða að fara á sveitina, verða sveitarómagi.

 

Við skulum líta á tekjur þessarar konu, skattgreiðslur hennar, eignir hennar.

 

Tekjurnar eru annars vegar örorkubætur frá Tryggingastofnun ríkisins, 78 þúsund á mánuði, og hins vegar greiðslur úr lífeyrissjóði, 70 þúsund á mánuði. Samtals 148 þúsund á mánuði. Konan var áratugum saman í láglaunastarfi en fyrir tæpum áratug neyddist hún til þess að hætta að vinna. Hún var orðin gersamlega óvinnufær vegna veikinda. Sjúkdómur hennar ágerist hægt en örugglega, ólæknandi og sársaukafullur, þó að reynt sé að tefja framgang hans með dýrum lyfjum.

 

Af áðurgreindum 148 þúsund króna heildartekjum á mánuði er tekinn skattur, 25 þúsund krónur á mánuði.

              

Útborgaðar fær konan 123 þúsund krónur á mánuði.

              

Eignir hennar eru tvær, fyrir utan fátæklegt innbú. Annars vegar íbúð úti á landi, sem hún er nýbúin að setja á sölu. Hún stendur ekki undir því að eiga hana og borga af henni. Fasteignasalinn telur að sex til sjö milljónir króna geti fengist fyrir íbúðina. Áhvílandi eru nokkrar milljónir. Hins vegar sex ára gamall bíll, sem er eini lúxusinn sem þessi kona leyfir sér. Enn sem komið er hefur hún þrjóskast við að selja hann. Einhvern veginn er eins og það sé ákveðið frelsi fyrir sálina ekki síður en líkamann að vera á eigin bíl. En lúxus af því tagi er auðvitað bölvuð vitleysa, óspilunarsemi, ráðdeildarleysi. Hún þarf ekki að fara neitt og á auðvitað ekki að vera neitt að þvælast. Og gerir lítið af því. Ekki notar hún bílinn til að fara í óperuna! Það er dýrt að eiga og reka bíl, jafnvel þó að hann sé sjaldan hreyfður.

 

En þá kemur að meginatriðinu í þessu skrifi: Skattleysismörkunum. Látum liggja milli hluta hversu rausnarlegar örorkubæturnar og lífeyrissjóðsgreiðslurnar mega teljast.

 

Yfirvarðhundur ríkissjóðs sagði fyrir skömmu, að það væri of dýrt fyrir ríkið að hækka skattleysismörkin. Það var á honum að skilja að slíkt myndi stofna ríkissjóði í bráðan voða.

                

Þar með liggur það fyrir hverjir eru máttarstólpar þjóðfélagsins.

                 

Það eru þeir sem eru með lægstu tekjurnar, öryrkjar sem nánast allar bjargir eru bannaðar. Það eru máttarstólpar þjóðfélagsins. Ef dregið verður úr skattheimtu af tekjum þessa hóps, þá er ríkissjóður í voða.

 

Nú er að sjá hvort íbúðin selst fyrr eða síðar. Þá rýmkast hagurinn um sinn. Þá verður um stundarsakir hægt að gera betur við sig í mat. En - hvað með húsnæðið? Veit einhver sem þetta les hvað það kostar að taka íbúð á leigu? Konan sem um ræðir er búin að kynna sér það, og henni féllust hendur. Dæmið gengur ekki upp.

 

Fyrir nokkrum árum sá ég fréttir af einhverjum mönnum sem búa í bílum eða tjöldum. Gott ef Steingrímur Njálsson átti ekki heima í bíl, próflaus maðurinn. Skyldi hann kannski vilja gefa fólki ráð í þessum efnum, gerast eins konar þjónustufulltrúi?

 

Konan sem ég er að tala um er búin að gefast upp. Hefur engan áhuga á því að standa í þessu meira. Lífsviljinn er að fjara út. Mér líst hreinlega ekkert á blikuna.

                       

Svona er nú það.

                    

En hvað með spurninguna sem fram kemur í fyrirsögninni? Hefur einhver svar við henni?

 

Jarmur

Í gær gafst ég upp og skrúfaði fyrir útvarpið þegar rætt var við frambjóðendur í Reykjavíkurkjördæmi suður. Núna reyndi ég að hlusta á hliðstæðan þátt úr Norðvesturkjördæmi en það fór á sömu leið. Í báðum tilvikum var óhlustandi á þetta fyrir sífelldu frammígjammi.

 

Hvernig stendur á því að þetta lið hefur ekki vit eða þroska til að þegja rétt á meðan aðrir eru að reyna að svara spurningum sem fréttamennirnir beina til þeirra? Hvers vegna þarf þetta að vera síjarmandi á meðan aðrir eru að jarma þannig að úr verður óskiljanlegur margradda jarmur?

                   

Eru þetta sauðir?

                    

P.s.: Hvernig væri að einhver þokkalega talandi verði fenginn til að kynna fréttamönnum beygingar algengra orða sem fullvíst er að beri á góma, þegar þeim er falin stjórn þátta af þessu tagi? Þar má t.d. nefna orðið jarðgöng ...

 
mbl.is VG bætir við sig í Norðvesturkjördæmi samkvæmt könnun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vistheimilið í Breiðavík - fleiri hliðar

Mannlíf og saga, Breiðavík 1Hljóðnað hefur um Breiðavíkurmál að sinni. Óþarfi er að rekja hér þau skelfilegu tíðindi sem vöktu íslenskt samfélag af værum blundi; þau eru enn í fersku minni. Nú er komið út svolítið bókarkver um Vistheimili drengja í Breiðavík frá stofnun þess árið 1952 og fram til 1964. Hér er á ferðinni 20. heftið í ritröðinni Mannlíf og saga fyrir vestan, sem Vestfirska forlagið gefur út. Að jafnaði koma út tvö til þrjú hefti á ári með blönduðu efni af ýmsu tagi, en í þessu tilviki er viðfangsefnið aðeins eitt: Vistheimilið í Breiðavík, upphaf þess og saga, deilur á opinberum vettvangi um markmið og leiðir, líf og starf drengjanna og fullorðna fólksins á heimilinu, minningar frá vistinni í Breiðavík.

 

Í þessari samantekt er reynt að skoða Breiðavíkurheimilið frá sem flestum hliðum, bæði kosti þess og galla. Hér virðist sem oftar, að jafnan eru ýmsar hliðar á hverju máli.                     

                                        

Þess má geta, að útgefandanum Hallgrími Sveinssyni er málið skylt. Hann var forstöðumaður í Breiðavík á árunum 1962-64, þá liðlega tvítugur að aldri og fyrir skömmu útskrifaður úr Kennaraskólanum. Eftir dvölina í Breiðavík var hann staðarhaldari og bóndi á Hrafnseyri við Arnarfjörð (Safn Jóns Sigurðssonar) í liðlega 40 ár og jafnframt kennari og skólastjóri á Þingeyri í nokkra áratugi. Rætt var við Hallgrím í Kastljósi Sjónvarpsins í tilefni Breiðavíkurmála á sínum tíma.

                            

Mannlíf og saga, Breiðavík 2Hallgrímur Sveinsson segir af þessu tilefni:

                  

Þegar uppbygging og rekstur heimilisins í Breiðavík hófst árið 1952 voru aðrar aðstæður í þjóðfélaginu en nú. Tímarnir eru gjörbreyttir, einkum hvað efnislegum gæðum viðkemur og öllum ytri aðstæðum. Það vita allir. Ef menn ætluðu að stofnsetja sambærilegt heimili í dag mundi sjálfsagt enginn láta sér detta í hug að staðsetja það á vestasta tanga Íslands í afskekktri sveit. En á þeim dögum þótti sjálfsagt úrræði fyrir börn og unglinga í þéttbýli, sem áttu erfitt uppdráttar af einhverjum ástæðum og höfðu kannski lent í útistöðum við yfirvöld, að skipta um umhverfi. Raunar voru fá önnur úrræði til á þeim tíma. Margir voru sendir í sveit sem kallað var og það ekki síður á afskekkt heimili en önnur og lánaðist oft mjög vel.           

                        

Eftir á að hyggja er þess ekki að dyljast, að margt orkar tvímælis í sambandi við Breiðavíkurheimilið. Það er til dæmis sárt til þess að hugsa og eiginlega óskiljanlegt, að engin eftirmeðferð var í gangi til að styðja þá drengi og styrkja sem frá Breiðavík útskrifuðust og höfðu hlotið þar góða undirstöðu í mannlegum samskiptum, minnsta kosti á þeim tíma sem hér er til umræðu. Margra þeirra beið gatan og sama umhverfi og þeir höfðu komið úr þegar þeir voru sendir vestur. Í því efni er ábyrgð stjórnvalda mikil.               

                

Þess má geta, að í snemma í febrúar skrifaði ég hér bloggfærslu sem bar heitið Fleiri hliðar á Breiðavíkurmálum.

 

Þegar við Finnbogi brotlentum og aðrar flugminningar

Um daginn sagðist ég ætla að segja frá því bráðum þegar við Finnbogi Hermannsson fréttamaður brotlentum á Ísafjarðarflugvelli fyrir mörgum árum. Kannski er ofsagt að við höfum beinlínis brotlent, en það hljómar betur.

 

Hann var á sunnan og þá getur verið ókyrrt í aðfluginu inn fjörðinn. Við Finnbogi sátum aftast, ég við gluggann vinstra megin og horfði út, hann við hliðina á mér og las Þjóðviljann. Kirkjubólshlíðin streymdi framhjá, kindur á beit. Fokkerinn hoppaði og hristist og konur ráku upp vein en það er alvanalegt í sunnanátt. Við Finnbogi brostum góðlátlega. Flugbrautarendinn birtist rétt fyrir neðan og nálgaðist óvenjuhratt. Þarna voru þeir Kirkjubólsfeðgar brenndir á sínum tíma. Svo snöggreis vélin og slæmdi afturendanum í brautina. Að öðru leyti gekk lendingin eins og best verður á kosið. Flugfreyjan þakkaði okkur fyrir samfylgdina og kvaðst vona að við hefðum notið ferðarinnar og vélinni var ekið á sinn stað á planinu.

 

Hún flaug ekki meira þann daginn. Afturhlutinn á bolnum hafði gengið upp þar sem hann rakst niður og viðgerðarmenn komu að sunnan.

 

Eftir þetta var passað upp á að við Finnbogi sætum helst miðsvæðis í flugvélum.

 

Eitt sinn vorum við Finnbogi í hópi gesta í útsýnisflugi meðfram björgunum ógurlegu á Hornströndum. Þar var skyndilega flogið inn í ókyrrð. Bakkar með veisluföngum svifu upp í loftið og snerust á hvolf eins og brauðsneiðin fræga áður en þeir lentu. Ja, það var nú verkun, eins og gamla fólkið sagði. Ég glotti með sjálfum mér enda slapp ég við sósur. Svona getur maður verið mikið kvikindi. Ekki var okkur Finnboga kennt um í þetta sinn.

 

Assgoti hef ég annars flogið mikið um dagana. Að vísu kom ég ekki í flugvél fyrr en ég var nítján ára gamall. Þá fór ég með Canadair CL-44 Rolls-Royce skrúfuþotu Loftleiða til Lúxemborgar, þaðan sem ég fór með hraðlest til Mílanó og svo áfram suður á bóginn með frumstæðari farkostum. Loftleiðavélar þessar, Monsarnir eins og þær voru kallaðar, voru stórar á þess tíma mælikvarða og hægfleygar miðað við þoturnar. We are slower but lower auglýstu Loftleiðamenn og náðu vinsældum í Ameríkufluginu vegna lágra fargjalda.

 

Donna frænka mín - Þórunn dóttir Héðins föðurbróður míns, fallegasta stúlka sem ég hef nokkurn tímann séð - var flugfreyja í þessari ferð. Hún fór með mig fram í stjórnklefa þar sem ég fékk að skoða mig um. Ennþá man ég vel eftir lendingunni ljúfu á Findelflugvelli í Lúxemborg og hlýja loftinu sem tók á móti mér.

 

Sumarið eftir þegar ég var á Morgunblaðinu var ég sendur í flugferð með Elíeser Jónssyni á tékknesku Zlin Trener Master listflugvélinni sem notuð var til sýninga á þessum árum. Enn á ég myndir sem Sveinn Þormóðsson ljósmyndari á Mogganum tók af okkur og vélinni á Reykjavíkurflugvelli. Sveinn komst ekki með; reyndar hefði vélin varla borið hann einan. Zlininn var eins hreyfils tveggja sæta lágþekja og ég sat beint fyrir aftan flugmanninn. Yfir okkur var glær plasthlíf. Elíeser fór út yfir Skerjafjörð og lék listir sínar og spurði öðru hverju hvernig mér liði og hvort hann mætti gera fleira. Mér fannst þetta ógurlega gaman. Þarna upplifði ég allt sem vélin og flugmaðurinn gátu, svo sem bakfallslykkjur og krúsidúllur af öllum sortum og svo var flogið á hvolfi þar sem maður hékk í ólunum og horfði beint niður í blágrængráflekkóttan sjávarbotninn. Hann flaug líka beint upp þangað til vélin stöðvaðist í loftinu og fór að velta og hrapa og hringsnúast á leiðinni niður aftur áður en hann rétti vélina af niðri við sjávarflötinn. Þegar við lentum beið Sveinn með myndavélina á vömbinni ásamt hópi manna. Hann sagði mér á leiðinni niður á Mogga að ég hefði valdið þeim vonbrigðum þegar ég steig kátur út á vænginn og hoppaði niður. Þeir höfðu verið að bíða eftir að sjá helvítis blaðasnápinn velta grænan og gubbaðan út úr vélinni.

 

Mogginn fékk eitt sinn Björn Pálsson sjúkraflugmann til að skutla mér og ljósmyndara á Landsmót hestamanna austur á Hellu. Það var svartaþoka á Hellisheiðinni og Björn skreið með jörðinni eins og hann gerði til hinsta dags. Þetta er eina skiptið sem ég hef farið í flugvél niður Kamba og svo upp aftur í bakaleiðinni.

 

Og svo eru auðvitað ævintýraferðirnar um alla Vestfirði miklu seinna með Herði Guðmundssyni flugmanni á Ísafirði eða einhverjum af hans mönnum. Já, og þegar ég kom þrisvar í sömu vikunni á Straumnesfjall. Tvisvar með Chinook-þyrlum bandaríska hersins og einu sinni fótgangandi með Smára vini mínum Haraldssyni. Í þyrlunum var hávaðinn alger en í gönguferðinni var þögnin alger.

 

Nú er líklega nóg flogið þangað til ég breytist í hvíta dúfu í bylnum stóra seinast og tek strauið upp úr öllum veðrum og sest kurrandi við hænsnahúsdyrnar hjá Lykla-Pétri. Ekki kemst ég úr þessu í klúbbinn þarna þið vitið. Verst að hafa ekki hugsað út í slíkt meðan ennþá týrði á prímusnum.

 

Ómerkilegasta fréttin mín

Líklega eru fjögur-fimm ár síðan ég skrifaði þá ómerkilegustu frétt sem ég hef skrifað um dagana - og er þá nokkuð sagt. Mér varð hugsað til hennar þegar ég skrifaði næstu færslu hér á undan. Á þessum tíma gekk ég frá tíu til fimmtán fréttum á dag að jafnaði og stundum meira inn á vef Bæjarins besta á Ísafirði - bb.is. Þá eins og nú voru stöku fréttir þaðan teknar inn á aðra fréttavefi, svo sem vefina mbl.is, visir.is og einhvern vef fyrir austan, sem um tíma flutti samansafn frétta af landsbyggðinni.

 

Dálítið fannst mér það pirrandi, frómt frá sagt, að oftast var þar lítt eða ekki hirt um jákvæðar fréttir, jafnvel stórfréttir af atvinnulífi eða menningarlífi eða mannlífi yfirleitt, en umsvifalaust tínt upp það neikvæða, alveg sama hversu lítið eða ómerkilegt sem það var. Ef einn daginn voru t.d. fluttar fréttir af breytingu gamla sjúkrahússins á Ísafirði í safnahús, ákvörðun um nýjan gervigrasvöll, heimsmeistaramótinu í víkingaskák, nýrri Breiðafjarðarferju og þjófnaði á hjólkoppum, þá var eingöngu sú síðasta tekin á aðra vefi til fróðleiks fyrir landslýð allan um lífið fyrir vestan.

 

Núnú, í áðurnefndum pirringi skrifaði ég frétt á bb-vefinn þess efnis, að ónýtur ísskápur hefði dottið af pallbíl á Ísafirði og skrámað hurðina á öðrum bíl. Ekki man ég af hvaða tegund ísskápurinn var né heldur bílarnir sem hlut áttu að máli, en slíkar upplýsingar má auðvitað helst ekki vanta í fréttir af þessu tagi. Jafnframt spáði ég því að þessi frétt yrði umsvifalaust tekin upp á helstu fréttavefi landsins. Ég var sannspár: Allir helstu fréttavefir landsins tóku hana upp - og enga aðra af bb-vefnum þann daginn.

 

Við þessu er auðvitað ekkert að segja!

 

Bjórmaður keypti límonaði

Clooney hefur líklega orðið þyrstur við tökurnar á Leatherheads - a romantic comedy set in the world of 1920s football (The Internet Movie Database) - þar sem hann er í senn leikstjóri, handritshöfundur og leikari í aðalhlutverki á móti Renée Zellweger. Clooney mun ekki slá hendinni á móti bjór þó að hann hafi fengið sér límonaði að þessu sinni. Eða eins og segir í postillunni IMDb: He loves beer. He does voiceovers for Budweiser TV commercials and allegedly had a beer keg installed in his dressing room during filming of Ocean's Eleven (2001) ...

 

Að öðru leyti sit ég hér með hálfvitasvip og velti fyrir mér helstu frétt helstu fjölmiðla veraldar þessa dagana og bloggefni mínu að þessu sinni.

   
mbl.is Clooney greiddi 1.300 krónur fyrir glas af límonaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mitt er að yrkja ...

Mitt er að yrkja, ykkar að skilja, sagði séra Matthías þegar hann var spurður hvað hann hefði meint á tilteknum stað.

 

Ég er hræddur um að einhver hafi misskilið bloggið mitt í gær, tekið orð mín bókstaflega - og talið mig ósáttan við að leyfilegt skuli vera að kaupa sér eitthvað að éta á stórhátíðum.

 

Það er öðru nær. Í því ljósi ber einnig að skoða orð mín um faðm fjölskyldunnar og það sem húsmóðirin eldar.

 

Aldrei hefði séra Matthías farið að útskýra orð sín með þessum hætti. En hann var heldur ekkert að reyna að vera kaldhæðinn.

 

Siðgæði á stórhátíðum

Heimur versnandi fer, einkum þó hin síðari ár, eins og hann hefur gert frá öndverðu. Nú er svo komið, að leyfilegt er að kaupa sér eitthvað að éta á föstudaginn langa, en slíkt var lengi bannað, enda spillir það allsherjarfriði og siðgæði. Auðvitað eiga allir að vera í faðmi fjölskyldunnar á stórhátíðum og borða það sem húsmóðirin eldar.

 

Annars rakst ég á málsgrein hjá öðrum bloggara, sem ég leyfi mér að gera einnig að mínum orðum. Hann var að fjalla um ramakvein út af einhverri samkomu núna í dag (sem ég er búinn að gleyma hver er) og sagði eitthvað á þessa leið:

                                         

Ég er þeirrar skoðunar, að það sé heillaríkara að huga að því sem maður sjálfur gerir en hafa sífellt áhyggjur af háttalagi annarra. 

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband