Bloggfærslur mánaðarins, maí 2007
22.5.2007
Oft er ljótur draumur fyrir litlu efni
Stjórnarmyndunarkjaftæðið sem tók við af kosningabaráttukjaftæðinu og síðan kosningaúrslitakjaftæðinu í öllum fjölmiðlum hefur sín áhrif. Mig er farið að dreyma pólitíska drauma. Ekki vökudrauma um síðbúinn frama á þeim vettvangi heldur svefndrauma um myndun ríkisstjórnar. Kannski skömminni til skárra en að dreyma reglugerð um innflutning á búvörum, eins og henti mig fyrir stuttu.
Mig dreymdi í nótt að Ingibjörg Sólrún hefði slitið viðræðum við Geir H. Haarde og væri búin að mynda stjórn með Vinstri grænum og Framsóknarflokknum.
Oft er ljótur draumur fyrir litlu efni, eins og kallinn sagði við kellinguna þegar hana dreymdi að guð hefði tekið hana til sín.
Post mortem scriptum:
Sagan af Nínu (Ingibjörgu) og Geira kom upp í huga mér núna áðan af einhverjum ástæðum. Ég gúglaði hana til upprifjunar og sá mér til skemmtunar, að höfundurinn er Jón Sigurðsson. Leyfi mér að smella inn fyrsta og síðasta erindinu.
Ef þú vilt bíða eftir mér
á ég margt að gefa þér,
alla mína kossa, ást og trú
enginn fær það nema þú.
Geiri elskan, gráttu ei,
gleymdu mér, ég segi nei.
Þú vildir mig ekki veslings flón
Því varð ég að eiga vin þinn Jón.
Texti: Jón Sigurðsson.
Lag: Twitty.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Væntanlega koma nú einhverjir bloggarar, auk þeirra sem liggja nótt sem nýtan dag á spjallvefjum og hafa ekkert annað að gera, og veitast að Birni Bjarnasyni dómsmálaráðherra með svívirðingum í tilefni fréttar um nýja lögreglubíla í Reykjavík. Skv. fréttinni er hér um að ræða litla bíla og verður Birni þess vegna úthúðað fyrir að þeir skuli ekki vera stórir. Hefðu þeir hins vegar verið stórir, þá hefði verið ráðist á Björn vegna þess hvað þeir væru stórir og dýrir. Jafnframt verður ráðist á hann vegna þess að bílarnir skuli vera svona fáir, eða svona margir. En hvort dómsmálaráðherra ákveður kaupin á einstökum bílum fyrir einstök umdæmi lögreglunnar, stærð þeirra og gerð og lit og áklæði á sætum og þar fram eftir götunum, er svo allt annað mál. Meginatriðið er að úthúða Birni Bjarnasyni.
Fram kemur, að nýju lögreglubílarnir séu rækilega merktir lögreglunni. Það er nú eitt. Þetta er enn eitt dæmið um lögregluríkistilburði dómsmálaráðherra. Ef þeir hefðu hins vegar verið ómerktir, þá hefði það verið enn eitt dæmið um leynilögreglutilburði dómsmálaráðherra.
Ég hef fylgst nokkuð með skrifum um Björn Bjarnason á spjallvefjum og bloggsetrum og víðar undanfarin misseri. Svo virðist, sem allnokkur hópur fólks sé haldinn þeirri þráhyggju, að allt skuli fordæmt sem Björn gerir, og líka það sem hann gerir ekki. Enn fremur allt sem hann segir, og líka það sem hann segir ekki.
Almennt hefur þessi mannskapur engar forsendur eða yfirleitt neina burði til þess að dæma Björn Bjarnason og verk hans - virðist yfirleitt ekki vera dómbær á nokkurn skapaðan hlut nema hugsanlega ilmvötn eða kjötfars eða því um líkt. Þetta minnir einfaldlega á gjammandi og glefsandi hundahóp.
Tek fram að lokum, að þótt við Björn Bjarnason höfum unnið á sama vinnustað fyrir fjórum áratugum, þá stofnaðist aldrei neinn kunningsskapur með okkur, hvað þá vinskapur. Manninn hef ég heldur ekki séð eða heyrt í eigin persónu síðan. Aftur á móti fylgdist ég allvel með störfum hans þegar hann var menntamálaráðherra, enda tel ég mér þá hluti nokkuð skylda, og ég staðhæfi, að betri og dugmeiri menntamálaráðherra höfum við ekki átt, a.m.k. ekki á síðari áratugum. Ég leyfi mér að halda því fram, að Björn Bjarnason sé einstaklega samviskusamur og dugandi í embættisverkum sínum. Í þeim efnum set ég hann og Jón Sigurðsson framsóknarformann undir sama hatt - án þess að vita sosum hvort þeim ágætu mönnum líkar sá samjöfnuður vel eða illa.
Litlir lögreglubílar í hverfaeftirliti | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Aðeins fjórar konur eru ráðherrar í þeirri stjórn sem núna er að láta af völdum, eða þriðjungurinn af ráðherrunum tólf. Við tilkomu Samfylkingarinnar í ríkisstjórn hlýtur hlutur kvenna að verða meiri en áður, þannig að a.m.k. 40% ráðherranna verði konur. Verði fjöldi ráðherra óbreyttur frá því sem nú er, eða tólf, þá munu a.m.k. fimm konur verða í hinni nýju stjórn. Sumir munu þó telja að núna sé loksins komið að því, að hlutur kynjanna í ríkisstjórn verði jafn.
Spennandi verður að sjá hvaða konur verða kallaðar til ráðherradóms, auk þeirra Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur og Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur. Hugmyndir óskast hér í athugasemdadálkinn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
20.5.2007
Titringsdagar
Einkennilegur titringur í samfélaginu þessa dagana eftir að stóru flokkarnir ákváðu að ganga í eina sæng. Vísbendingar um að breyttir tímar séu í vændum. Tvö dæmi:
Skyndilega var hætt við að skipa nýjan ríkissaksóknara að svo stöddu. Var tekið fram fyrir hendurnar á dómsmálaráðherra?
Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra er alveg nýbúinn að neita Aðföngum um leyfi til innflutnings á lambakjöti frá Nýja-Sjálandi. Ný umsókn verður hins vegar lögð inn á næstu dögum ...
P.s.: Hér kemur fram ástæða þess að Pétur Tyrfingsson langar ekkert að skilja Frjálslynda flokkinn:
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Össur segir stjórnarmyndunarviðræðurnar snúast um sameiningu þess helsta og besta úr stefnumálum flokkanna tveggja. Reynslan sýnir hins vegar að málamiðlanir geta lukkast misjafnlega. Þó að ætlunin sé að sameina það helsta og besta verður niðurstaðan stundum samsuða úr því ómerkilegasta og versta.
Jón Sigurðsson leggur til að nýja ríkisstjórnin verði kölluð Baugsstjórnin enda sé hún óskabarn Baugsmanna.
Mér kemur í hug það sem Bernard Shaw sagði þegar blondínan stakk upp á því að þau eignuðust barn saman. Hugsið yður, sagði hún, með útlit mitt og gáfur yðar. En, svaraði Shaw, ef það fengi nú útlit mitt og gáfur yðar?
Núna er spurningin hvort óskabarnið mun hafa til að bera hugsjónir sósíaldemókrata og ábyrgðartilfinningu hægri manna.
Eða öfugt.
Össur: Unnið að samræmingu þess helsta og besta úr stefnu flokkanna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Athyglisverð er afdráttarlaus skilgreining Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur í fréttaviðtali á væntanlegri SS-stjórn: Frjálslynd umbótastjórn. Segir þetta ekki allt sem segja þarf um viðhorf Samfylkingar (eða a.m.k. formannsins, segi ekki meira) til Sjálfstæðisflokksins og verka hans í ríkisstjórn undanfarin sextán ár?
Líklega voru fleiri en ég hissa á því, hversu langan tíma það tók sjálfstæðismenn og framsóknarmenn að komast að þeirri niðurstöðu að ríkisstjórnarsamstarfinu skyldi slitið. Datt virkilega nokkrum manni í hug í fullri alvöru að halda áfram með einn þingmann í plús? Þurfti virkilega að þrautræða þá augljósu staðreynd, að einn þingmaður - endurtek: einn þingmaður - hefði þá orðið valdamesti maðurinn í stjórnkerfi landsins? Einn þingmaður - ég nefni engin nöfn - hefði getað tekið Alþingi og ríkisstjórn í gíslingu. Og hann hefði gert það við fyrstu hentugleika. Hann hefði getað krafist nánast hvers sem væri í þágu persónulegra hugðarefna og sinnar heimabyggðar - annars myndi hann stöðva framgang hvaða máls sem væri og sprengja ríkisstjórnina hvenær sem honum þóknaðist.
Annars er það athyglisvert, að núna skuli Samfylkingin vera næst á matseðlinum hjá Sjálfstæðisflokknum. Kannski eru margir búnir að gleyma því hvernig Alþýðuflokkurinn sálugi fór út úr samstarfi með Sjálfstæðisflokknum í Viðreisnarstjórninni á sjöunda áratugnum og aftur í byrjun síðasta áratugar. Samstarfið var vissulega mjög farsælt fyrir þjóðina - en Alþýðuflokkurinn veslaðist upp, rétt eins og Framsóknarflokkurinn hefur gert í samstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn.
Eru það ekki einhverjir fiskar sem maka sig og svo deyr alltaf annar, gott ef hinn étur hann ekki?
Núna er það sumsé Samfylkingin. Afturganga Alþýðuflokksins gamla.
Bara segi svona.
Var reyndar búinn að spá þessu.
Formlegar stjórnarmyndunarviðræður hefjast væntanlega á morgun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Rakst á þetta hér á blogginu hjá Víkaranum Baldri Smára Einarssyni. Leyfi mér að bæta við svolitlu ítarefni um húsið sem um ræðir, Einarshús eða Péturshús niðri á Mölunum í Bolungarvík. Þar er nú veitingastaður. Í eina tíð héldu sumir að þar væri almennur veitingastaður þó að svo væri í rauninni ekki, eins og fram kemur hér fyrir neðan. Þegar Pétur Oddsson bjó þarna var þetta hús sorgarinnar en í tíð Einars Guðfinnssonar var það hús gleðinnar. Og svo er enn.
Veitingastaðurinn Kjallarinn er í einu af elstu og merkustu húsum Bolungarvíkur, Einarshúsi við Hafnargötuna, sem áður nefndist Péturshús og var byggt árið 1904. Ragna Magnúsdóttir er vert í Kjallaranum, en eiginmaður hennar, Jón Bjarni Geirsson, keypti húsið á 50 þúsund krónur vorið 2003. Seljandinn var Bolungarvíkurkaupstaður, sem hafði fengið þetta sögufræga hús að gjöf frá útgerðarfyrirtækinu Nasco þremur árum áður. Húsið var afar illa farið og raunar niðurrifsmatur og minna en einskis virði, ef saga þess í bænum hefði ekki komið til. Þegar Jón Bjarni gerði tilboð sitt í húsið sagði hann að markmiðið væri að reisa það til fyrri virðingar og koma því í upprunalegt horf.
Undanfarin ár hefur mikil vinna verið lögð í viðgerðir og endurbyggingu á þessu fornfræga húsi og miklum fjármunum varið til þeirra. Meðal annars hefur Húsafriðunarsjóður lagt fé til verksins, enda hefur húsið mikið menningarsögulegt gildi.
Húsið hlaut í daglegu tali nafngiftirnar Péturshús og síðan Einarshús vegna þeirra manna sem þar bjuggu ásamt fjölskyldum sínum og voru hvor á sínum tíma helstu athafnamennirnir í Bolungarvík. Þegar Pétur Oddsson reisti húsið fyrir rétt rúmri öld var það talið með stærstu og myndarlegustu íbúðarhúsum landsins. Af Pétri og fjölskyldu hans er mikil og reyndar alveg einstæð örlagasaga. Einar Guðfinnsson útgerðarmaður tók húsið á leigu árið 1935 og keypti það síðan og bjó þar nærri þriðjung aldar ásamt fjölskyldu sinni, eða allt þar til stigarnir urðu rosknu fólki heldur erfiðir.
Pétur Oddsson var helsti atvinnurekandinn í Bolungarvík fram undir heimskreppuna miklu. Um hann má fræðast nokkuð í bók Jóhanns Bárðarsonar, Brimgný, sem út kom árið 1943.
Árið 1907 varð fyrsta dauðsfallið í þessu húsi sorgarinnar, sem þá var. Síðan varð hvert dauðsfallið af öðru í fjölskyldunni. Síðla árs 1930 dó Helga, dóttir Péturs, síðust fjölmargra barna hans, og var hún fjórtánda líkið sem hann fylgdi til grafar frá húsi sínu.
Í Brimgný segir Jóhann Bárðarson m.a. svo um Pétur Oddsson:
Síðustu árin var hann mjög einmana, eins og gefur að skilja. Var oft ömurlegt, einkum fyrir þá, sem áður vóru kunnugir á heimilinu, að koma í Péturshús, þegar svo stóð á sem oftast bar við, að Pétur var einn heima og ráfaði fram og aftur um hinar stóru en mannlausu stofur, þar sem allt minnti á liðna tímann, svo sem stórar myndir af hinum horfnu vinum. Á slíkum stundum mun Pétur ekki hafa getað stytt sér stund með lestri eða öðru, og því ekki átt annars kost en ráfa um gólf sér til afþreyingar, meðan tíminn leið. Aldrei heyrðist hann þó mæla æðruorð né kvarta. Samfara þessu sá hann efni sín rýrna ár frá ári. Var honum orðið vel ljóst, að hann var ekki maður til að rétta við fjárhagslega.
Í æviminningum sínum, sem Ásgeir Jakobsson færði í letur og út komu árið 1978, segir Einar Guðfinnsson útgerðarmaður í Bolungarvík:
Á þessu ári [1935] bauðst mér að kaupa með kostakjörum íbúðarhús það, sem Pétur Oddsson hafði byggt 1904 og var stórt og mikið hús. Mér hafði reyndar boðist það, þegar ég keypti eignirnar 1933, en hafnaði því boði þá og það hafði verið leigt. Í þessu húsi hafði gerst hin mikla sorgarsaga Pétursfjölskyldunnar. Berklar höfðu höggvið stærst skarð í þá fjölskyldu og var óttast, að þeir kynnu að leynast í húsinu með einhverjum hætti. Af þeirri ástæðu hafði ég hafnað kaupunum 1933. Ég þorði ekki að flytja í húsið með börnin.
Þessi voru þá örlög forvera míns í Víkinni, sem hafði átt mörg mannvænleg börn og verið einn ríkasti maður landsins um skeið. Það veit enginn sína ævina fyrr en öll er. Vissulega var það engin furða, þótt mér stæði stuggur af því að flytja með börn mín ung í þetta ógæfuhús. Nú var komið á fimmta ár frá því síðasti berklasjúklingurinn var borinn þaðan út látinn (Helga heitin í nóvember 1930) og þar sem ég hafði aldrei verið trúaður á að sýkillinn lifði í húsinu, þótt ég þyrði ekki að treysta á að svo væri ekki, kom ég þennan vetur, sem mér bauðst húsið á ný til kaups, að máli við Vilmund lækni á Ísafirði, en síðar landlækni, sem kunnugt er, og spurði hann, hvað honum sýndist um það, að ég flytti í Péturshúsið. Hann ráðlagði mér að bræla húsið með gufu og mála það síðan í hólf og gólf og þá myndi mér óhætt að flytja í það með fjölskylduna. Það yrði ekki um sýkingarhættu að ræða, ef ég gerði þetta. Ég fór svo að hans ráðum, en keypti þó ekki húsið það ár, heldur tók það á leigu af Landsbankanum þann 1. apríl 1935 og leigði það til 5 ára fyrir kr. 200 á mánuði. Ég setti þau skilyrði, að miðstöð væri látin í húsið, baðker og skolpleiðslur, gert yrði við kjallarann að innan og húsið málað, veggfóðrað og dúklögð öll gólf. Áður hafði það verið brælt með gufu.
Þegar þetta hafði allt verið gert, fluttist ég með fjölskyldu mína í húsið þann 1. apríl 1935 og þar bjuggum við þar til 1966 eða í rúm 30 ár. Öll mín fjölskylda var hraust og heilsugóð í þessu húsi og þar leið okkur vel. Nafnaskipti urðu á húsinu þegar stundir liðu og það kallað Einarshús. Margir hafa spurt, hvort við höfum einskis orðið vör í húsinu, svo margir sem þar dóu fyrir aldur fram og svo mörg lík sem þar stóðu uppi.
Enginn af minni fjölskyldu varð nokkurs var, sem dularfullt getur kallast, en ég hef sagnir af því, að gestir hafi orðið varir við óskýranleg fyrirbæri. Það sagði gestkomandi útgerðarmaður, að hann hefði legið vakandi í rúmi sínu síðla kvölds, þegar inn í herbergið gekk ungur maður, án þess að hurðin opnaðist, og stóð um stund á miðju gólfi og horfði á manninn í rúminu, og sá þessi útgerðarmaður unga manninn jafnljóst og um lifandi mann væri að ræða. Þessi útgerðarmaður er þó ekki gæddur neinum dulrænum hæfileikum, það hann viti. Hann sagði mér heldur ekki söguna né fjölskyldu minni til að hrella hana ekki, heldur öðrum manni mörgum árum seinna.
Þegar stigar fóru að verða okkur hjónunum erfiðir, einkum konu minni, fluttum við úr þessu húsi, sem hafði reynst okkur mikið gæfuhús og lifað þar blómann úr ævi okkar. Péturshús og Einarshús á sér þannig mjög tvískipta söguna milli harma og hamingju. Það var til dæmis aldrei borið lík út úr Einarshúsi í þau 32 ár, sem við bjuggum þar, nema Hildur, tengdamóðir mín, sem dó öldruð, og Kristján Tímotheusson, sem hafði dáið syðra, en líkið flutt heim og jarðsett frá mínu húsi.
Vissulega átti ég daprar stundir í þessu húsi, svo sem þegar slys urðu á bátum mínum eða miklir erfiðleikar steðjuðu að í rekstrinum, en miklu fleiri eru minningarnar ánægjulegar.
Fyrsta baðkerið í Bolungarvík, sem vatn var leitt að, var í Einarshúsi. (Það var að vísu gamalt baðker úti í Sameinaða, en það var borið vatn í það.) Í baðkerinu í Einarshúsi fengu ýmsir utan heimilis að baða sig, þar á meðal læknirinn, Sigurmundur Sigurðsson. Það var nú svo um þann ágæta mann, Sigurmund, að þótt hann væri greindur, þá var hann misgreindur. Hann virtist til dæmis ekki vera sterkur í eðlisfræðinni, ef dæma má af aðförum hans í baðkerinu í Einarshúsi. Hann fleytifyllti ævinlega baðkerið, áður en hann fór niður í það, og þá náttúrlega sullaðist úr kerinu og flóði út um allt gólf.
Gólfið var trégólf og undir baðherberginu var klæðaskápur Elísabetar og dætranna. Þær báru sig illa undan þessu flóði frá lækninum, en frúin harðbannaði að þetta væri nefnt við lækninn, því hún vildi ekki styggja hann, henni var vel til hans, eins og flestum Bolvíkingum. Þetta gerðist eins í hvert skipti, sem hann fór í bað, að hann fleytifyllti kerið og fór svo upp í það, og hann áttaði sig aldrei á þessari staðreynd, að þá myndi flæða út úr kerinu.
Það þurfti að dæla baðvatni í dúnk uppi á lofti í Einarshúsi. Vinnukonurnar höfðu þennan starfa, en komust sumar létt frá honum á stundum. Það komu nefnilega ungir menn aðvífandi og dældu fyrir þær og unnu sumir hug stúlknanna, þó að máski fleira hafi nú orðið til þess en beinlínis dælan. Það er svo sem ekki að fortaka það, en Einar Guðfinnsson telur ákveðið, að dælan hans hafi stofnað til að minnsta kosti þriggja farsælla hjónabanda og margra barna í þorpinu, og kannski fleiri en vitað er um. Stúlkurnar gátu varla fengið haldbetri staðfestingu á ást en þetta, að piltarnir komu hlaupandi til að dæla, því að dælan var þung og seinlegt að fylla dúnkinn. En þarna stóðu þeir sveittir og dældu og gátu rabbað við stúlkurnar sínar á meðan, - og uppskáru sumir ríkuleg laun um síðir. Vinnustúlkur í Einarshúsi vóru oft bestu kvenkostir plássins.
Mannmargt var oft í Einarshúsi, ekki síður en Péturshúsi, áður en dauðinn tók að herja þar. Börnin vóru þar átta og jafnan eitthvað af vandafólki mínu eða konunnar þar til húsa eða í mat og síðan vinnustúlkurnar, sem oft vóru tvær og veitti ekki af. Það vóru sjaldan færri en 20 manns við matborðið. Menn, sem komu á ferð sinni í plássið, áttu oftast eitthvert erindi við mig, og þó svo væri ekki, þá varð mitt heimili gististaður þeirra. Það var ekki í annað hús að venda. Kona mín var einstaklega röggsöm og dugleg húsmóðir og sýnt um að taka á móti gestum og virtist alltaf geta bjargað málunum, þótt gesti bæri óvænt að garði, stundum marga í einu.
Það var á tímum mæðiveikifjárskiptanna, að fyrir kom atvik, sem sýnir ljóslega, hversu fjölmennt var oft við matborðið í Einarshúsi. Þá komu bændur úr fjarlægum stöðum að sækja fé vestur og þá einnig til Bolungarvíkur. Eitt sinn var í plássinu í fjárkaupaferð bóndi að austan. Hann var öllum ókunnugur og vegalaus í þorpinu, en þurfti að fá að borða og hittir mann á förnum vegi og spyr hann, hvar hann muni geta fengið keyptan mat. Nú veit ég ekki, hvaða Bolvíkingur það hefur verið, sem hann hitti, nema hann bendir bóndanum á stórt hús miðsvæðis í þorpinu og segir honum, að hann skuli fara þangað, með svofelldum orðum: Þarna færðu að eta, manni minn.
Bóndinn lætur ekki segja sér þetta tvisvar, heldur gengur heim að húsinu, ber ekki að dyrum, því að það gera menn ekki á hótelum, heldur gengur rakleiðis inn, hittir þar konu mína og segist vera kominn til að borða. Konan var vön því að ég byði allskyns fólki í mat með mér og vísaði manninum til borðstofu. Þar var þegar allmargt manna, því að við vorum að setjast til borðs. Bóndinn heilsar og spyr, hvar hann eigi að sitja, og honum er vísað til sætis við borðið, en borðstofuborðið var mjög stórt og við það rúmuðust um tuttugu manns. Ég vissi lítil eða engin deili á þessum manni og vissi ekkert hvernig á því stóð, að hann var sestur þarna til borðs í húsi mínu.
Bóndanum er auðvitað borinn matur eins og öðrum og við tökum öll til matar okkar. En bóndinn, skrafhreifinn maður, vildi halda uppi einhverjum samræðum við borðið, og segir því, svona til að hefja samræðurnar: Hvað ertu búinn að reka þessa matsölu lengi, Einar?
Ég svaraði honum því, að hér væri engin matsala, það væri einungis heimafólk og vandamenn við borðið, nema hann.
Bónda setti fyrst hljóðan, en sagði síðan, að sér hefði verið vísað hingað af einhverjum þorpsbúa, og hlyti þetta að hafa verið hinn versti maður, að hlunnfara sig svona. Ég sagði, að það væri ekki, þetta væri algengt, að vegalausum mönnum væri vísað til okkar, því að engin greiðasala væri í plássinu og það væri ekki nema eðlilegt, að þorpsbúum fyndist sumum, að ég hlyti að vera þess best umkominn að gefa mönnum að borða, og væri honum maturinn velkominn. Mér gekk illa að friða hann, því að hann hafði miklar áhyggjur af því, hvað við kynnum að hafa haldið, einkum kona mín, þegar hann kom askvaðandi inn að eldhúsdyrum og heimtaði mat, og síðan við í stofunni, þegar hann spurði, hvar hann ætti að sitja. Hann þóttist þó skilja það, að í Einarshúsi væri mönnum ekki úthýst í öllu skaplegu. Það var heldur ekki venja í Litlabæ og voru þar þó minni efnin.
Þetta voru sumsé brot úr Einars sögu Guðfinnssonar, sem Ásgeir Jakobsson skráði. Nú er líf og starf í Einarshúsi á nýjan leik - og loksins komin þar greiðasala ....
Myndirnar sem hér fylgja eru úr Kjallaranum hjá Rögnu Jóhönnu Magnúsdóttur, vertinum í Víkinni - sem reyndar bloggar líka hér á Moggabloggi.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 06:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
15.5.2007
Siðleysið yfir strikið
Sumar uppákomur í nýliðinni kosningabaráttu vekja meiri athygli en aðrar. Heilsíðuauglýsing Jóhannesar kaupmanns í Bónus í dagblöðunum daginn fyrir kjördag er sérstakrar umhugsunar virði. Yfirskrift auglýsingarinnar er: Strikið yfir siðleysið.
Í auglýsingunni kveðst Jóhannes hafa mátt að ósekju sitja á sakamannabekk í Baugsmálinu svokallaða í rúm fjögur ár vegna óvæginna og ranglátra aðgerða ríkislögreglustjóra og saksóknara. Hann heldur því fram, að Björn Bjarnason dómsmálaráðherra hafi í ræðu og riti varið embættisafglöp þessara manna og hvatt þá til dáða. Og síðan kemur að því nýjasta og alvarlegasta:
Fram hefur komið í fjölmiðlum undanfarna daga, að Björn hyggist skipa Jón H. B. Snorrason í embætti ríkissaksóknara strax að loknum kosningum. Embættisveitingar Björns hafa verið harðlega gagnrýndar á undanförnum árum. Nú keyrir um þverbak ...
Niðurstaða Jóhannesar og áskorun hans til sjálfstæðismanna í Reykjavíkurkjördæmi suður - að því er virðist vegna einhverra bollalegginga í fjölmiðlum - er svohljóðandi: Merkið x við D en strikið yfir siðleysið með því að strika yfir nafn Björns Bjarnasonar á listanum.
Ekkert er við því að segja þótt Jóhannes beri - með réttu eða röngu - þungan hug til Björns Bjarnasonar eða yfirleitt hvaða manns sem vera skal. Ekkert er við því að segja þó að hann komi skoðunum sínum á framfæri, hversu fráleitar eða þráhyggjukenndar sem þær kunna að virðast - hvar hefur dómsmálaráðherra t.d. varið eða reynt að verja embættisafglöp? En - það er aðferðin sem vekur spurningar.
Jóhannes hefði getað skrifað kosningagrein í blöðin og fengið hana birta endurgjaldslaust eins og almenningur. En hann fór aðra leið, sem er nánast lokuð sauðsvörtum almúganum.
Tekið er fram í auglýsingunni, að Jóhannes kosti hana sjálfur. Aðspurður um kostnaðinn við allar þessar heilsíður kvaðst hann ekki vita hver hann væri. Taldi sig samt mundu fá góðan afslátt vegna mikilla viðskipta.
Auglýsir Jóhannes Jónsson annars svo mikið í blöðunum persónulega, að hann fái út á það sérstök vildarkjör? Eða eru ekki glögg skil á milli persónulegra áhugamála og rekstrar Bónuss?
Tímamót urðu hjá almenningi á norðanverðum Vestfjörðum þegar Bónus opnaði verslun á Ísafirði á sínum tíma. Væntanlega er það mesta kjarabótin sem fólkið á svæðinu hefur nokkru sinni fengið. Sjálfur var ég búsettur þar meira en tuttugu ár og veit nokkuð hvað ég er að segja. Í hugum afar margra skipar Jóhannes í Bónus alveg sérstakan sess og sjálfur er ég þar engin undantekning. Meðal annars þess vegna finnst mér leitt, að hann skuli hafa ruðst inn í kosningabaráttuna með þessum ógeðfellda hætti. Með þessum siðlausa hætti, myndi einhver segja.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (22)
Konur geta afar vel við sinn hlut unað í Norðvesturkjördæmi að þessu sinni. Hjá öllum flokkum er fyrsti varamaðurinn kona. Auk þess var að sjálfsögðu kona í efsta sætinu hjá eina framboðinu sem ekki náði fulltrúa á þing.
Myndirnar sýna annars vegar hið geysiöfluga karlalið NV-kjördæmis á næsta keppnistímabili og hins vegar varamannabekkinn sem annast klappstjórn og kaffisölu í hálfleik.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
13.5.2007
Fréttablaðið og Chicago Daily Tribune
Á kosningavöku Sjónvarpsins í morgun las Gísli Einarsson upp úr Fréttablaðinu, en þar er landslýð greint frá úrslitum kosninganna í gær. Helstu tíðindin eru þau, ef marka má Fréttablaðið, að ríkisstjórnin er fallin og Siv Friðleifsdóttir heilbrigðisráðherra dottin út af þingi.
Ólafur Harðarson stjórnmálafræðingur rifjaði af þessu tilefni upp hina frægu frétt Chicago Daily Tribune af sigri Deweys yfir Truman í forsetakosningunum í Bandaríkjunum árið 1948. Gallinn var sá, að Truman sigraði en Dewey tapaði. Á myndinni er Truman glaðbeittur með blaðið í höndum.
Fróðlegt verður að sjá, þegar þar að kemur, frétt fríblaðsins Boston Now af úrslitum komandi forsetakosninga í Bandaríkjunum ...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 06:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)