Allt sem Björn Bjarnason gerir eða gerir ekki, segir eða segir ekki ...

Væntanlega koma nú einhverjir bloggarar, auk þeirra sem liggja nótt sem nýtan dag á spjallvefjum og hafa ekkert annað að gera, og veitast að Birni Bjarnasyni dómsmálaráðherra með svívirðingum í tilefni fréttar um nýja lögreglubíla í Reykjavík. Skv. fréttinni er hér um að ræða litla bíla og verður Birni þess vegna úthúðað fyrir að þeir skuli ekki vera stórir. Hefðu þeir hins vegar verið stórir, þá hefði verið ráðist á Björn vegna þess hvað þeir væru stórir og dýrir. Jafnframt verður ráðist á hann vegna þess að bílarnir skuli vera svona fáir, eða svona margir. En hvort dómsmálaráðherra ákveður kaupin á einstökum bílum fyrir einstök umdæmi lögreglunnar, stærð þeirra og gerð og lit og áklæði á sætum og þar fram eftir götunum, er svo allt annað mál. Meginatriðið er að úthúða Birni Bjarnasyni.

 

Fram kemur, að nýju lögreglubílarnir séu rækilega merktir lögreglunni. Það er nú eitt. Þetta er enn eitt dæmið um lögregluríkistilburði dómsmálaráðherra. Ef þeir hefðu hins vegar verið ómerktir, þá hefði það verið enn eitt dæmið um leynilögreglutilburði dómsmálaráðherra.

 

Ég hef fylgst nokkuð með skrifum um Björn Bjarnason á spjallvefjum og bloggsetrum og víðar undanfarin misseri. Svo virðist, sem allnokkur hópur fólks sé haldinn þeirri þráhyggju, að allt skuli fordæmt sem Björn gerir, og líka það sem hann gerir ekki. Enn fremur allt sem hann segir, og líka það sem hann segir ekki.

 

Almennt hefur þessi mannskapur engar forsendur eða yfirleitt neina burði til þess að dæma Björn Bjarnason og verk hans - virðist yfirleitt ekki vera dómbær á nokkurn skapaðan hlut nema hugsanlega ilmvötn eða kjötfars eða því um líkt. Þetta minnir einfaldlega á gjammandi og glefsandi hundahóp.

 

Tek fram að lokum, að þótt við Björn Bjarnason höfum unnið á sama vinnustað fyrir fjórum áratugum, þá stofnaðist aldrei neinn kunningsskapur með okkur, hvað þá vinskapur. Manninn hef ég heldur ekki séð eða heyrt í eigin persónu síðan. Aftur á móti fylgdist ég allvel með störfum hans þegar hann var menntamálaráðherra, enda tel ég mér þá hluti nokkuð skylda, og ég staðhæfi, að betri og dugmeiri menntamálaráðherra höfum við ekki átt, a.m.k. ekki á síðari áratugum. Ég leyfi mér að halda því fram, að Björn Bjarnason sé einstaklega samviskusamur og dugandi í embættisverkum sínum. Í þeim efnum set ég hann og Jón Sigurðsson framsóknarformann undir sama hatt - án þess að vita sosum hvort þeim ágætu mönnum líkar sá samjöfnuður vel eða illa.

 
mbl.is Litlir lögreglubílar í hverfaeftirliti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Steinn E. Sigurðarson

Bíðum og sjáum hvort nokkrum manni detti í hug að nota þetta góða framtak sem ástæðu til þess að ráðast á Björn Bjarnason.

Ég er ekki sérfræðingur í hans málum, en það virðist vera af nógu að taka fyrir þá sem vilja sverta nafn hans, svo þetta mál fær örugglega að vera í friði.

Hefur ekki einmitt meirihluti gagnrýni í hans garð verið vegna hugmynda um leyniþjónustu, og er því ekki góð þróun að ómerktum lögreglubílum fækki? Ég efast um að flestir andstæðingar Björns séu of vitlausir til að þekkja góða þróun (ótengda öðru) þegar þeir sjá hana.

Sýnileg lögregla kemur í veg fyrir glæpamenn, ósýnileg eltist við þá.

Steinn E. Sigurðarson, 21.5.2007 kl. 12:51

2 Smámynd: Ibba Sig.

Björn er duglegur og iðinn ráðherra en honum eru mislagðar hendur í ýmsum málum. Ég vinn á stað þar sem gjörðir Björns geta haft mikil áhrif og verð að setja að maðurinn hefur staðið sig eins og hetlja í því sem viðkemur mínum hópi fólks. Persónulega fíla ég svo ekki margt af því sem hann gerir og segir. 

Ibba Sig., 21.5.2007 kl. 14:07

3 Smámynd: Ólafur Þórðarson

Jæja, eru menn búnir að finna þennann "gjammandi og glefsandi hundahóp" sem kvartar yfir kaupum á lögreglubílum? Hef ekki séð neinn.

Annars sé ég ekki hvað þetta hefur með persónu Björns að gera. Þetta eru bara löggubílar og allt í góðu með það. En óþarfi kannski að setja alla gagnrýni á opinbera persónu undir einn hatt.

Ólafur Þórðarson, 21.5.2007 kl. 14:17

4 Smámynd: Viðar Eggertsson

Ég get vitnað um það að Björn var einstaklega fær og farsæll í starfi sínu sem menntamálaráðherra. Það vakti athygli að listamenn t.d. sem eiga margt undir ráðuneytinu, voru mjög ánægðir með störf Björns í menntamálaráðuneytinu og skipti engu hvaða flokk þeir aðhylltust, þetta var þerpólitísk og faglegt álit á störfum ráðherrans. Ég átti nokkuð samstarf við Björn vegna menningartengdra mála. Hann reyndist undantekningalaust mjög skilvirkur og sanngjarn í störfum sínum.

Viðar Eggertsson, 21.5.2007 kl. 18:15

5 Smámynd: Hlynur Þór Magnússon

Áðan sá ég viðbrögð við frétt af klaufalegum mistökum við frágang ákæru á hendur innbrotsþjófi nokkrum. Ekki var laust við að ég glotti, þegar ég sá að skrifari nokkur skellir skuldinni á Sjálfstæðisflokkinn ...

Hlynur Þór Magnússon, 21.5.2007 kl. 22:40

6 Smámynd: Sigurjón Sveinsson

Þetta eru orð í tíma töluð. Það er með ólíkindum hvað sumir finna hjá sér mikla þörf að agnúast út í bókstaflega ALLT sem Björn gerir. Svona "dammned if you do, dammned if you don't" fílingur. Á sama tíma og fáir ráðherrar eru jafn duglegir og hann við að sinna sínum málaflokkum, þjóðinni til hagsbóta.

Hann er bara eins og Framsókn, það er orðið í lagi (og jafnvel vinsælt) að sparka í hann.

Sigurjón Sveinsson, 23.5.2007 kl. 09:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband