Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2008
31.8.2008
Feginn
Feginn er ég hvernig samskiptum þeirra Guðjóns Friðrikssonar og Matthíasar Johannessens er lokið á farsælan hátt. Jafnframt hálfiðrast ég síðustu bloggfærslu. Læt hana þó standa enda er þetta meining mín og ekkert annað. Hins hefði ég mátt láta þar getið, að Matthías er einn þeirra manna sem ég hef metið allra mest á lífsleiðinni. Og geri enn. Raunar hef ég mætur á Guðjóni líka enda þótt ég hafi ekki kynnst honum nema gegnum ritverk hans.
Matthías Johannessen: Málið er úr sögunni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.8.2008
Matthías og dagbækurnar
Dagbókarfærslur Matthíasar Johannessens eru merkileg lesning. Ómetanlegar að mörgu leyti. Hvalreki, hefði einhvern tímann verið sagt. En - svo er hin hliðin. Eiginlega botna ég ekkert í Matthíasi að gera uppskátt um einkasamtöl eins og hann gerir í sumum tilvikum. Samtöl sem eru augljóslega trúnaðarsamtöl - a.m.k. í huga þeirra sem eru að tala við hann.
Hér er ég ekki síst með það í huga hversu skammur tími er liðinn. Alþekkt er að margvísleg gögn sem varða samskipti og öryggismál ríkja og sitthvað fleira eru ekki gerð opinber fyrr en eftir tiltekinn fjölda áratuga. Hefðir hafa skapast í þeim efnum varðandi trúnaðarskjöl. Einnig hérlendis.
Nú er Matthías Johannessen ekki ríki, kann einhver að segja. Eða hvað?
Ritstjóri Morgunblaðsins í marga áratugi má vel kallast ríki í ríkinu. Þegar veldi Morgunblaðsins var mest var staða ritstjóra þess lögð að jöfnu við ráðherrastöðu.
Vandi fylgir vegsemd hverri. Ábyrgð fylgir vegsemd hverri. Fáir myndu kippa sér upp við það, þó að einhver ómerkingur blaðraði um það sem sagt væri við hann í trúnaði. Í þessu efni verða Jón og séra Jón ekki lagðir að jöfnu. Matthías Johannessen er ekki bara einhver.
En auðvitað ræður Matthías hvað hann gerir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
30.8.2008
Fréttir eða ekki fréttir
Undanfarið hafa fréttastofur og fjölmiðlar varið (eytt) miklum tíma og plássi í siðferði kjörinna fulltrúa fólksins í landinu. Þar á meðal gistingar á lúxushótelum rétt við eigin bæjardyr.
Auðvitað þarf eitthvað að gera til að fylla í eyðuna eftir áróðursleikana í Kína.
En þetta ...
Leikarnir voru haldnir í Kína og þess vegna var næsta eðlilegt að fjalla bæði um þá og Kína.
Hvort sem eitthvað var nú yfirleitt fjallað um Kína.
En siðferði íslenskra stjórnmálamanna?
Hver eru viðbrögð krosstrjánna? Hver eru viðbrögð t.d. Árna Þórs Sigurðssonar og annarra heilagra Honeckera og Kastróa og margfaldrar móður Teresu þjóðar vorrar?
Verður ekki næst í fréttunum fjallað um dyn kattarins og allt það?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.8.2008
Sparnaður?
Sólarhringsbið á Kastrup | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.8.2008
Bloggraunir ...
Ekki er ég einn um þá tilfinningu að bloggfærslurnar mínar séu einskis virði. Gott finnst mér að fá hljómgrunn skoðana minna - þeirra skoðana rétt eins og annarra. Fyrir um þrettán mánuðum - miðsumars 2007 - eyddi ég í fljótfærni blogginu mínu hjá mbl.is og hafði þá verið að bulla þar liðlega hálft ár. Þessi ráðstöfun féll í grýtta jörð hjá fáeinum vinum mínum sem töldu þessi skrif einhvers virði. Ástæða þess að ég eyddi dótinu var sú, að mér fannst einhvern veginn að ég ætti ekki heima í þessum hópi þar sem kjánagangur og stóryrði og sleggjudómar réðu ríkjum - að mér fannst.
Vinkona mín, sem var og er stórbloggari á mbl.is, leitaði þá til umsjónarmanna Moggabloggsins og spurðist fyrir um það, hvort ekki mætti endurheimta bloggið mitt. Ég var samþykkur því að hún leitaði eftir þessu en var of stór upp á mig til að vilja gera það sjálfur. Skemmst er frá því að segja, að henni var aldrei ansað. Niðurstaðan var þess vegna sú, að bloggið mitt væri týnt og tröllum gefið.
Um haustið bauð Pétur Gunnarsson mér að gerast Eyjubloggari. Ég tók því með þökkum og bloggaði á Eyjunni allt fram á mitt þetta sumar. Svo einn góðan veðurdag hljóp fjandinn í mig á nýjan leik og ég eyddi blogginu - og iðraðist þess á sömu mínútu. Núna var ég nógu auðmjúkur til að spyrjast fyrir um það sjálfur hvort öllu væri eytt og ekki neitt hefði lifað af þann lokadóm. Mektarmenn á Eyjunni sögðu að þessu yrði kippt í lag og tiltekinn tölvumeistari myndi hafa samband við mig.
Þegar tæp vika var liðin án frekari viðbragða skráði ég mig svo inn á Moggabloggið á ný. Og fékk í fyrstu engin viðbrögð. Ég skráði mig inn og fékk sjálfvirkt svar þess efnis að mér hefði verið sendur tölvupóstur með staðfestingarslóð, en sá póstur kom ekki. Ég reyndi aftur litlu síðar - með sama árangri. Síðan sendi ég tölvupóst á bloggmenn hjá mbl.is og spurði hvort ég væri eitthvað óæskilegur þar á bæ. Þá loksins kom svar - og þá var mér sagt, að ég væri enn með gamla bloggfangið mitt hjá mbl.is og skráning mín núna væri bara skráning á aukabloggi hjá mér. Eins og ekkert væri. Jafnframt var ég spurður hvort ég vildi að færslurnar á gamla blogginu yrðu færðar á þetta nýja aukablogg.
Maður hefði nú kannski mátt frétta af þessu fyrr. Rúmlega ári fyrr.
Núna er spurningin hvort einhvern tímann í framtíðinni komi í ljós að bloggið mitt á Eyjunni sé ennþá til einhvers staðar.
Hér hef ég greint lítillega frá refsingum bloggstjóra þegar maður kjánast til að hætta í fljótræði.
Hins vegar hafa skoðanir mínar á bloggrausi mínu ekki breyst á nokkurn hátt. Þetta er og hefur alltaf verið innantómt bull. Mér er það aftur á móti einhver nauðsyn að bulla út og suður. Reikna með að halda því áfram á einhverjum vettvangi meðan öndin þöktir í nösum, hvort sem það er á bloggum eða í dagbók eða einfaldlega við sjálfan mig þegar alsheimerinn hefur tekið öll völd og það er best. Guð gefi að það gangi fljótt og vel úr því sem komið er.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
26.8.2008
Anna Pihl og félagar ...
Í gærkvöldi horfði ég á danska lögguþáttinn um Önnu Pihl. Skyldi fleiri áhorfendum en mér hafa orðið hugsað til atviksins við Miðbæjarskólann í gær?
Hitt er svo allt annað mál, að mér er nánast fyrirmunað að skilja þá tilviljun að Moggasjónvarpið skyldi vera viðstatt spólverkið ...Eiginlega bara enn í sjokki | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.8.2008
Ísland í 71.-78. sæti ...
Tölfræðin varðandi verðlaun á Ólympíuleikunum er fróðleg eins og tölfræði er jafnan. Þegar ríkjum er raðað er venjulega fyrst farið eftir fjölda gullverðlauna, síðan silfurverðlauna og loks bronsverðlauna. Ríki sem hreppir fern gullverðlaun en hvorki silfur- né bronsverðlaun raðast því ofar en ríki sem hreppir þrenn gullverðlaun og fjöldann allan af silfur- og bronsverðlaunum.
Á leikunum í Peking er Ísland í 71.-78. sæti af alls 87 ríkjum sem verðlaun hlutu. Kínverjar eru þar í fyrsta sæti með 51 gull, 21 silfur og 28 brons eða samtals 100 verðlaun. Bandaríkjamenn eru í öðru sæti með 36 gull, 38 silfur og 36 brons eða samtals 110 verðlaun.
Frá upphafi Ólympíuleika nútímans (1896) eru Bandaríkjamenn langefstir með 1.010 gull, 810 silfur og 697 brons eða samtals 2.517 verðlaun. Þá eru taldir bæði sumarleikar og vetrarleikar. Rússar koma næstir en þá eru talin með þau verðlaun sem féllu Sovétríkjunum gömlu í skaut. Þjóðverjar eru í þriðja sæti, Ítalir í fjórða og Frakkar í fimmta sæti.
Ísland er í 93.-95. sæti af 124 ríkjum sem verðlaun hafa hlotið á Ólympíuleikum frá upphafi.
Vegna margvíslegra tilfæringa í ríkjaskipan er talning eða skráning af þessu tagi samt aldrei einhlít. Ríki hafa sameinast og sundrast á margvíslegan hátt og vel að merkja eru það ríki en ekki þjóðir sem taka þátt í Ólympíuleikum.
Óneitanlega er það annars skemmtilegt að sá maður sem kallaður hefur verið faðir handboltans á Íslandi skuli vera afi eins af leikmönnunum í silfurliðinu 2008. Sonarsonurinn fæddist reyndar þegar átta ár upp á dag voru liðin frá andláti afans.
Á verðlaunapallinum - myndir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.8.2008
Minni auðmjúklegast á Bermúdaskálina
Ísland í 2. sæti á ÓL | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
23.8.2008
Saga Reykhólahrepps öll innan tíðar?
Kristján L. Möller ráðherra sveitarstjórnarmála ætlar í vetur að leggja fram frumvarp á Alþingi þess efnis, að lágmarksíbúafjöldi sveitarfélaga verði þúsund manns í stað fimmtíu samkvæmt núgildandi lögum. Það blasir því við stórfelld sameining fyrir vestan, því líklegt verður að teljast að frumvarp ráðherra verði samþykkt, segir á vef Ríkisútvarpsins í dag. Þar er einnig haft eftir Aðalsteini Óskarssyni, framkvæmdastjóra Fjórðungssambands Vestfirðinga, að ekki sé hægt að sameina sveitarfélög á Vestfjörðum í samræmi við fyrirhugaða breytingu á lágmarksfjölda fyrr en stjórnvöld hafi brugðist við þeim annmörkum varðandi innviði vestfirskra sveitarfélaga sem séu á slíku. Þar nefnir hann einkum samgöngumál og miklar fjarlægðir.
Nú eru tíu sveitarfélög á Vestfjarðakjálkanum og öll innan vébanda Fjórðungssambands Vestfirðinga. Eflaust kemur þetta mál til umræðu á Fjórðungsþingi Vestfirðinga sem haldið verður á Reykhólum eftir hálfan mánuð.
Íbúar Reykhólahrepps voru 266 núna í ársbyrjun. Ef áform ráðherrans verða að veruleika, þá er ljóst að ekki væri nóg að Reykhólahreppur og Dalabyggð sameinuðust í eitt sveitarfélag, því að íbúafjöldinn í Dalabyggð er 708 og samanlagður íbúafjöldi yrði því 974 (hér eru í öllum tilvikum notaðar tölur Hagstofunnar um íbúafjölda 1. janúar).
Ekki myndi duga að öll sveitarfélögin fjögur í Strandasýslu sameinuðust í eitt, því að samanlagður íbúafjöldi yrði 748 manns. Ef öll sveitarfélög í Strandasýslu svo og Reykhólahreppur sameinuðust yrði það skammgóður vermir. Raunar yrði það alls ekki hægt miðað við þá stöðugu fólksfækkun sem verið hefur á liðnum árum.
Samanlagður íbúafjöldi í Strandasýslu og Reykhólahreppi var 1.014 manns núna í ársbyrjun og þegar kæmi að sameiningu eftir tvö-þrjú ár væri sú tala komin niður fyrir þúsundið með sama áframhaldi. Síðasta áratuginn hefur íbúum Strandasýslu fækkað jafnt og þétt eða úr 953 árið 1998 í 748 árið 2008 (fækkun um 21,5%) eða um liðlega 20 manns að jafnaði á ári. Í Reykhólahreppi stöðvaðist fólksfækkunin að vísu fyrir nokkrum árum og hefur fjölgað lítillega í hreppnum allra síðustu ár.
Þá væri sá kostur að Dalabyggð, Reykhólahreppur og sveitarfélögin í Strandasýslu sameinuðust í eitt sveitarfélag. Við fyrstu sýn mætti að vísu þykja hálfundarlegt að Hólmavík og Búðardalur yrðu í sama sveitarfélagi.
Einboðið væri að Tálknafjarðarhreppur sameinaðist Vesturbyggð enda er hann eins og eyja í landsvæði Vesturbyggðar, sem nær allt norður í miðjan Arnarfjörð. Ef Reykhólahreppur sameinaðist Vesturbyggð næðist tilskilinn íbúafjöldi og talsvert meira en það ef Tálknafjörður yrði með í þeim pakka. Telja yrði þó nokkuð langt til kóngsins fyrir íbúa Reykhólahrepps ef sveitarstjórn þeirra sæti á Patreksfirði, en þangað er um 200 km akstur frá Reykhólum eftir alþekktum eða öllu heldur alræmdum vegum héraðsins.
Íbúafjöldi í vestfirskum sveitarfélögum og Dalabyggð um síðustu áramót:
Reykhólahreppur 266, Vesturbyggð 921, Tálknafjarðarhreppur 290, Ísafjarðarbær 3.955, Bolungarvíkurkaupstaður 905, Súðavíkurhreppur 214, Strandabyggð 499, Árneshreppur 48, Kaldrananeshreppur 103, Bæjarhreppur 98, Dalabyggð 708.
Bloggar | Breytt 25.8.2008 kl. 04:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)