Jökullinn og ég

Hann mætti alveg fara að rigna. Veðrið er að sönnu gott ef litið er á einn dag í einu en skelfing er þetta slæmt til lengdar. Eina bótin að þetta er almennt, eins og bóndi í Kjósinni sagði á sínum tíma þegar hann varð heylaus.

Reykholar 16.07.07 - 02Ég labbaði niður að fuglaskoðunarskýlinu við Langavatn í morgun. Snuddaði á leiðinni og var hálftíma og eina mínútu í ferðinni. Þangað liggur göngustígur sem minnir á kúagötu nema engar kúadellur. Lítil trébrú á einum stað; engar ónauðsynlegar tilfæringar - ósnortin náttúra með grösum og mosum og skófum og fléttum og mýflugum sem gjósa upp og urð og grjóti og lækjum (að mestu uppþornuðum núna) og lænum og hornsílum og volgrum og smáhverum og holtum og móum og klöppum og tjörnum. Svo eitthvað sé nefnt. Og fuglum himinsins og jarðarinnar. Svo er sjórinn þarna rétt fyrir utan.

Reykholar 16.07.07 - 03Sumir halda að skýlið sé til varnar gegn árásum fugla eins og hjá Hitchcock. Svo er ekki; maður fer inn í þetta litla hús sem er með skotraufum eins og kastali og skotvopnin eru myndavélar. Fuglinn sér mann ekki og styggist því ekki. Hann er skotinn úr launsátri og veit ekki neitt. Eftir nokkra stund eru komnar kannski tíu fimmtán tegundir rétt fyrir framan. Í morgun stoppaði ég ekki nema liðlega tvær og hálfa mínútu og fékk ekki nema einn himbrima í skotfæri en hjarðir ýmissa tegunda héldu sig í öruggri fjarlægð.

Já, hann mætti fara að rigna. Ég er að verða á litinn eins og Harry Belafonte; líkist honum held ég ekki að öðru leyti. Nema skeggið, það er að verða eins og á Charles Darwin; líkist honum held ég ekki að öðru leyti. Skeggið sprettur þrátt fyrir þurrkatíðina. Þarf að athuga málið fyrir jólin. Kannski þó frekar eftir jólin.

Áðan komu hér í heimsókn fjórtán danskir ferðamenn. Einn af þeim var mjög nysgerrig. Að minnsta kosti var hann alltaf að nyse. Svo kom hér þýskur blaðamaður og ljósmyndari sem er á þriggja mánaða ferðalagi um landið. Hann heldur til á tjaldsvæðinu við sundlaugina hér á Reykhólum í nokkra daga. Á morgun ætlar hann að koma til mín og fá að senda texta og myndir gegnum netið. Þetta er önnur Íslandsreisa hans. Í fyrra skiptið var hann bara þrjár vikur og það var allt of stutt. Útlendingarnir virðast nokkuð ánægðir með kynni sín af íslenskri náttúru og öðru sem á vegi þeirra verður. Danirnir voru að koma af Rauðasandi þar sem þeir fundu dauðan sel og búið að kroppa úr honum augun.

Reykholar 15.07.07 - 04Í gær smellti ég myndum af Jöklinum. Í æsku minni var hann í norðvesturátt. Núna er hann í suðvestrinu. Hann er þó enn á sama stað, skilst mér; það er ég sem er annars staðar. Jökullinn breytist frá einni stund til annarrar, alltaf nýr. Samt hefur hann verið þarna eins lengi og elstu menn hér við Breiðafjörð muna. Sjórinn er líka síbreytilegur. Á annarri myndinni er hann blár, á hinni er hann silfraður. Stundum er hann grár, eða svarblár, eða hvítyrjóttur, eða roðagylltur, eða bara eitthvað annað en áðan.

Reykholar 15.07.07 - 05Frá mínu sjónarhorni er Jökullinn eins og liðinn tími á líðandi stund. Var það ekki Hannes Sigfússon sem sagði að sumir segðu að liðinn tími væri ekki liðinn, hans bæri að leita annars staðar? Líklega gildir þetta þó ekki um Jökulinn heldur mig sjálfan. Mín ber að leita annars staðar.

Ef einhver skilur svona mikla heimspeki, þá gefi viðkomandi sig fram hér í athugasemdadálkinum.

Svo á ég eftir að gera grein fyrir véfréttarblogginu mínu í fyrradag eða hvenær það var. Og kannski segja frá fuglinum sem ég bjargaði í nótt.

Eins og það sé ekki nóg af fuglum hér á Reykhólum. 

Einar Oddur

Þegar komið er í kirkjugarðinn að Holti í Önundarfirði blasir við legsteinn Sveinbjarnar Magnússonar úr Breiðafjarðareyjum, langafa Einars Odds. Af honum er ég líka kominn. Þegar við Einar hittumst hin síðari árin var helst ekki minnst á pólitík líðandi stundar; þá var okkur gamli tíminn hugstæðari.

Einar Oddur var góður maður, einstaklega hlýr og góður. Umfram allt þannig minnist ég hans.


mbl.is Einar Oddur Kristjánsson látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Véfréttarstíll ...

Hvað á eftirtalið fólk sameiginlegt - annað en að ég vildi hafa það með mér á eyðieyju: Cilla Black, Barry White, Pamela Green, Dan Brown, Paul Adair, Daniel Cohn-Bendit, Rudi Dutschke, Kenneth Livingstone? Kannast ekki allir við Henry J. Deutschendorf, Louise C. Ritchie og Robert A. Zimmerman?

                           

Sjá næstu klausu hér á undan: Klukkaður líkt og fleiri ... Og - hvað fleira getið þið lesið úr því sem þar kemur fram - umfram sjálf undarlegheitin í mér?

 

Klukkaður líkt og fleiri - mæli með Garðari Hólm

Eins og fleiri hér á blogginu var ég klukkaður. Að vísu veit ég lítið út á hvað þetta gengur en margir virðast tilgreina eitthvað varðandi sjálfa sig, oft í átta liðum. Ég leyfi mér að gera það líka. Margt kom til álita - en hér eru átta liða úrslitin:

1. Tónlistarfólk sem ég hef sérstakar mætur á: Henry J. Deutschendorf, Louise C. Ritchie, Magnús Þór Jónsson, Eleanora Fagan, Ásbjörn Kristinsson, Robert A. Zimmerman, Vincent D. Furnier, James N. Osterberg.

2. Tíu bækur sem ég vildi hafa með mér á eyðieyju: Birtíngur eftir Voltaire, Bókin um veginn eftir Laó Tse, Bör Börsson (fyrra bindið) eftir Johan Falkberget, Egils saga (óvíst um höfund; e.t.v. Snorri Sturluson), Kuml og haugfé eftir Kristján Eldjárn, Ofvitinn eftir Þórberg Þórðarson, Sögukaflar af sjálfum mér eftir Matthías Jochumsson, Tómas Jónsson metsölubók eftir Guðberg Bergsson, Ævintýraeyjan eftir Enid Blyton.

3. Dómsmálaráðherrar sem ég hef í hávegum: Peter A. Alberti, Jónas Jónsson frá Hriflu, Hilde Benjamin.

4. Uppáhaldsþorskafjörðurinn: Þorskafjörður í Austur-Barðastrandarsýslu.

5. Íslenskir óperusöngvarar sem mér þykja sérlega athyglisverðir: Eggert Stefánsson, Garðar Hólm, Kristján Jóhannsson.

6. Fólk sem ég vildi hafa með mér á eyðieyju:  Cilla Black, Barry White, Pamela Green, Dan Brown, Paul Adair, Daniel Cohn-Bendit, Rudi Dutschke, Kenneth Livingstone.

7. Fólk sem ég vildi ekki hafa með mér á eyðieyju: Þorgeir Hávarsson, Hómer Simpson, Paris Hilton, Britney Spears.

8. Hæsta fjall sem ég hef ekki gengið á: Everest.

Þetta er nú annars meiri bölvuð vitleysan ... 

Njálsgötuheimili verði stofnað á Núpi í Dýrafirði

Breiðavík er upptekin vegna ferðaþjónustu en Núpur í Dýrafirði er laus. Þar var mjög lengi heimavistarskóli fyrir unglinga en núna eru húsakynnin miklu til sölu. Með því að nýta aðstöðuna á Núpi má slá tvær flugur í einu höggi: Leysa deiluna um Njálsgötuheimilið og fjölga fólki á Vestfjörðum. Sumir hinna nýju Dýrfirðinga gætu t.d. unnið við umhirðu í garðinum Skrúði, aðrir við að smíða hrífuhausa og enn aðrir við að telja fugla, eða hverjir aðra, auk þess sem allir yrðu í fjarnámi.

 

Jafnframt væri afstýrt hættunni á verðfalli húseigna við Njálsgötuna og þar í grennd.

 

Njálsgötufólkið heldur úti bloggsíðu hér á Moggabloggi undir heitinu Nágrannar Njálsgötu 74. Vonandi heldur hópurinn áfram að blogga eftir flutninginn vestur, t.d. undir titlinum Njálsgötufólk Núpi í Dýrafirði.

 

Þegar ég var nemandi á Núpi fyrir bráðum hálfri öld var einangrunin þar mikil. Segja má að héraðsskólarnir í gamla daga hafi verið samfélög að mestu utan hins venjulega mannlega samfélags.

 

Í trausti þess að svo sé enn legg ég fram ofangreinda hugmynd varðandi framtíðarbúsetu þess mannfjandsamlega liðs sem hamast gegn fyrirhuguðu heimili að Njálsgötu 74.

 

> Lægra húsnæðisverð

 
mbl.is Borgarráð samþykkir starfsemi við Njálsgötu 74
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framkvæmdastjóri þingflokks Samfylkingarinnar afskrifar olíuhreinsunarstöð á Vestfjörðum

Dofri Hermannsson, sem er varaborgarfulltrúi í Reykjavík og „starfandi framkvæmdastjóri þingflokks Samfylkingarinnar“ eftir því sem fram kemur í kynningu á bloggsíðu hans, skrifar í yfirlætis- og fyrirlitningartón um þá athugun sem nú fer fram á því að reisa olíuhreinsunarstöð á Vestfjörðum. Fyrirsögnin hjá honum er Að "windowsjoppa" olíuhreinsunarstöð. Þar fjallar hann m.a. um ferð „sérlegrar“ sendinefndar „stóriðjumangara“ og fleiri til meginlandsins til að kynna sér slíkar stöðvar. Ef reynt er að skilja hvað maðurinn er að fara verður ekki annað séð en hann sé - og þá væntanlega fyrir hönd þingflokks Samfylkingarinnar sem hann er „starfandi“ framkvæmdastjóri fyrir eins og hann tekur fram - þegar búinn að afskrifa eins kjánalegt og fyrirlitlegt fyrirbæri og olíuhreinsunarstöð á Vestfjörðum.

                     

Hafa má í huga, að meðal þeirra sem sitja í þingflokknum sem Dofri Hermannsson stjórnar er Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra.

              

Óþarfi er að endursegja hér frekar ummæli framkvæmdastjórans. Best er að sem flestir lesi þau beint, einkum þeir sem málið snertir helst.

                     

Vegna þessara afdráttarlausu ummæla „starfandi framkvæmdastjóra þingflokks Samfylkingarinnar“ má hins vegar benda á og vitna í ummæli Sigurðar Péturssonar, oddvita Samfylkingarinnar í Ísafjarðarbæ og flokksbróður framkvæmdastjórans, sem var einn þeirra sem fóru umrædda kynnisferð. Haft er eftir Sigurði á fréttavefnum bb.is, „að skoðunarferð sveitarstjórnarmanna Vesturbyggðar og Ísafjarðarbæjar hafi verið afar fróðleg og gagnleg“. Að hans sögn er hér um hátækniiðnað að ræða. „Í svona stöð vinnur fjöldi tæknimanna og verkfræðinga og ef til þess kemur að olíuhreinsistöð verði reist er um að ræða nýtt stig í tækniþróun á Íslandi“, segir Sigurður. Það er mat hans að ferðin geri bæjarfulltrúum auðveldara fyrir að mynda sér sjálfstæða skoðun á málinu. „Við fengum beinan aðgang að fólki, bæði í Þýskalandi og Hollandi, sem hefur með þetta að gera og gátum spurt þau beint þeirra spurninga sem brunnu á okkur.“

                

Ekki verður séð mikil samsvörun með hófsamlegum orðum Sigurðar Péturssonar og drýldnislegum stílæfingum framkvæmdastjóra þingflokksins um þetta mál, þó að þeir séu flokksbræður.

                 

Vestfirðingar ættu endilega að kynna sér nánar viðhorf og málflutning „starfandi framkvæmdastjóra þingflokks Samfylkingarinnar“ - og þá jafnframt, skyldi maður ætla, afstöðu Samfylkingarinnar og iðnaðarráðherra til þess sem Vestfirðingar eru að bauka um þessar mundir. Ekki verður betur séð en bæjarfulltrúarnir úr Ísafjarðarbæ og Vesturbyggð hefðu getað sparað sér kynnisferðina. Starfandi framkvæmdastjóri þingflokks Samfylkingarinnar veit allt um málið. Og væri naumast að skrifa um það á svona afdráttarlausan hátt án samráðs við iðnaðarráðherra og raunar ríkisstjórnina alla.

                        

En það kemur væntanlega í ljós.

 

Viðunandi að ástand brunavarna í sumarbúðum skuli vera slæmt?

Einkennileg finnst mér fréttin í Blaðinu af brunavörnum í sumarbúðum fyrir börn, sem reknar eru allvíða hérlendis. Þar kemur fram, að í úttekt sem Brunamálastofnun gerði í fyrrasumar hafi ástand brunavarna verið slæmt í nærri helmingi þeirra bygginga sem athugaðar voru en sæmilegt í hinum. Samt hafi ástandið hvergi verið óviðunandi. Auðvitað er þetta spurning um skilgreiningar og orðalag, en undarlegt má telja að slæmt ástand brunavarna þar sem fjöldi barna er saman kominn skuli teljast viðunandi.

 

Annað sem þarna kemur fram er þó kannski ennþá undarlegra. Haft er eftir starfsmanni Brunamálastofnunar, að staðan sé „ekki klapp á öxl slökkviliðsstjóra í viðkomandi sveitarfélögum en þeir tengist stundum rekstraraðilunum“. Jafnframt segist starfsmaðurinn „efast um að hann myndi senda barn í sumarbúðir“ sem fengið hafi slíkar einkunnir.

 

Samt neitar hann að gefa upp hvaða sumarbúðir hér sé um að ræða en segir í staðinn að foreldrar geti hringt í viðkomandi slökkviliðsstjóra til að fá upplýsingar um ástand brunavarna í sumarbúðum. Sumsé, fyrst lætur hann að því liggja að í einhverjum tilvikum kunni slökkviliðsstjórar að vera sekir um vanrækslu á skyldum sínum vegna tengsla við þá sem reka búðirnar, en vísar svo á þá til að veita upplýsingar um ástandið.

 

Ef rétt er eftir haft, þá er hér um mjög alvarlegar aðdróttanir í garð slökkviliðsstjóranna að ræða. Ef þeir vanrækja skyldur sínar í þessum efnum með þeim hætti sem ýjað er að, þá má ætla að slík vanræksla teldist glæpsamleg ef illa færi.

           

Fram kemur, að umræddur starfsmaður Brunamálastofnunar segir að „reikna megi með“ að ástandið sé betra nú en í fyrra. Hins vegar virðist hann ekki vita það. En þá er bara að hringja í slökkviliðsstjórana ...

  


mbl.is Eldvörnum í sumarbúðum ábótavant
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Byltingarkenndar hugmyndir varðandi bragðbætt lambakjöt

 

Mér líst vel á hugmyndina um lambakjöt með hvannarkeim. Enn er mér í fersku minni hversu einstaklega ljúffengt íslenska hvannarótarbrennivínið var. Flestir drukku það einungis bragðsins vegna. Í framhaldi af fyrstu rabarbarasultugerðartilraun minni fyrir skömmu ætla ég hér á eftir að leggja fram tillögu að frekari bragðbótum á íslenska lambinu.

 

En fyrst varðandi rabarbarasultugerðina. Hér í Reykhólasveitinni er mikið um rabarbara, sem nefnist á íslensku tröllasúra. Ég fékk góðfúslegt leyfi hjá húseigandanum að Hellisbraut 18 á Reykhólum til að höggva mér nokkra tröllasúruboli til sultugerðar. Á netinu fann ég þrjár uppskriftir og bar þeim að mestu saman. Tvennt var sagt eiga að vera í sultunni, rabarbari og sykur, og álíka mikið af hvoru. Þetta skyldi sjóða í hálftíma til klukkutíma.

 

Ég brytjaði niður tíu kíló af rabarbara og setti í ógurlegan pott sem ég fékk lánaðan ásamt jafnþyngd af sykri. Ég var búinn að kaupa sykurinn smátt og smátt á löngum tíma svo að Jón kaupmaður héldi ekki að ég væri að fara að brugga. Ekki leist mér á að sjóða þetta þurrt og taldi að í uppskriftunum væri ekki verið að taka fram svo augljósa hluti eins og vatn. Ég bætti vatni í pottinn og lét fljóta vel yfir og kveikti undir og hrærði í öðru hverju. Eftir klukkutíma, þann tíma sem lengstur var tilgreindur í uppskriftunum, var í pottinum þunn og fagurgræn súpa, alls ólík venjulegri rabarbarasultu sem er seigþykk og mjög dökk.

 

Eftir klukkutímasuðu í viðbót slökkti ég undir súpunni og hringdi í konu sem ég þekki og spurði ráða. Hún sagði að það ætti ekki að nota neitt aukavatn, það kæmi nóg vatn úr rabarbaranum. Best væri að láta rabarbarann og sykurinn liggja saman í pottinum yfir nótt áður en soðið væri. Úr því sem komið væri ætti ég tvo kosti í stöðunni: Annars vegar að borða rabarbarasúpu í allt sumar og hins vegar að sjóða þetta niður við mjög lítinn hita.

 

Ég tók seinni kostinn enda var ætlunin að búa til sultu en ekki að lifa á rabarbarasúpu fram á haust. Þetta var á miðvikudegi. Ég sauð þetta áfram við minnsta hita og hrærði í tvisvar á dag að jafnaði og borðaði rabarbarasúpu og síðan rabarbaragraut tvisvar á dag að jafnaði. Á laugardagsmorgni var loksins orðin til prýðileg rabarbarasulta, dökkgljáandi og hnausþykk, en verulega hafði lækkað í pottinum og komnir í hann eins konar árhringir.

 

Í uppskriftunum var sagt að þegar sultan væri sett í krukkur ætti að láta smávegis edik eða koníak eða þvíumlíkt ofan á sultuna áður en krukkunum væri lokað. Koníakið sem ég var búinn að útvega til þessara nota - ég vissi ekki hvað þyrfti mikið svo að ég pantaði þrjár flöskur til að vera viss - kláraðist hins vegar daginn áður þannig að ég keypti edik í Jónsbúð til að setja ofan á áður en ég lokaði krukkunum. Koníakið er búið, sífelldur gestagangur, sagði ég til útskýringar þegar ég keypti edikið. Jón kaupmaður horfði á mig en sagði ekkert.

 

Þetta var örstutt innskot um rabarbarasultugerðina sem kveikti hugmyndina að bragðbættu lambakjöti á fleiri vegu en með því að ala lömbin á hvönn.

 

Í æsku minni var á sunnudögum lambasteik með brúnuðum kartöflum og sósu og sultu og rauðkáli. Enn í dag er þetta það besta sem ég get hugsað mér, ásamt hvannarótarbrennivíninu. Eftir að ég varð einn fæ ég þennan uppáhaldsrétt minn hins vegar aldrei. Ég er löngu hættur að reyna að brúna kartöflur eða búa til sósu. Ég veit ekki um neinn annan sem hefur meira að segja mistekist að sjóða kartöflur. Nema kannski Jóhannes Birkiland.

 

Byltingarkennd hugmynd mín í framhaldi af hvannarótarlambakjötshugmyndinni er þessi: Lambakjöt með bragði af brúnuðum kartöflum og sósu og sultu og rauðkáli. Hún er svona í praxís: Ala lömbin á brúnuðum kartöflum og sósu og sultu og rauðkáli. Á góðum degi gæti jafnvel ég eldað þetta. Setja bara lærið í ofn og hafa það þar inni í tilskilinn tíma við tilskilinn hita. Síðan borið á borð, tilbúið, verði ykkur að góðu!

 

Samt er ég ekki alveg viss, svona innra með mér. Við vitum það báðir, Birkiland og ég, að sitt er hvort, teoría og praxís.

 

Einkum er það praxísinn sem hefur vafist fyrir okkur.

 

P.s.: Hvernig væri að gefa lömbunum hvannarótarbrennivín?

 

P.p.s.: Eitthvað finnst mér skrítið við fyrirsögnina á viðtengdri frétt. Áður en smellt er á hana er hún svona: Tilraun til að bragðbæta lambakjöt með hvönn. Þegar smellt er á fulla frétt breytist hún hins vegar og verður svona: Riðuveiki fannst í kindarhræi á afrétti.

 

P.p.p.s.: Það er meira andskotans mausið við að koma texta óbrengluðum hér inn. Það er t.d. eins konar rúlletta hvenær öll greinaskil detta út og hvenær ekki, eða sum greinaskil og önnur ekki, eða hvenær maður kemst inn aftur til að reyna að laga það sem aflaga hefur farið og hvenær ekki  ...

- - -

 

Núna í fjórðu tilraun líta greinaskilin svona út. Ég held að ég fari að láta viðskiptum mínum við Moggabloggið lokið. Það eru til aðrir bloggvefir þar sem menn eru ekki í misheppnuðum tilraunum að finna upp hjólið. - Fyrir nú utan það, að tengingin við fréttina kemur ekki. Fyrst hélt ég að ég hefði gleymt að tengja við hana og drap því textann út og setti hann inn aftur. En það er eins og áður.


„Íslenskar kartöflur“ eru óboðlegt rusl

Íslenskar kartöflurÞar sem ég versla eru kartöflur venjulega merktar framleiðanda með einhverjum hætti, innlendar jafnt sem útlendar. Jafnan eru pokarnir glærir og vel hægt að sjá innihaldið og yfirleitt eru þetta prýðilegar kartöflur.

 

Í gær varð ég fyrir því óhappi að kaupa kartöflupoka sem einungis var merktur Íslenskar kartöflur. Ekki er frekari grein gerð fyrir framleiðanda, þannig að ætla má að þetta séu dæmigerðar íslenskar kartöflur. Pokinn er úr rauðu plasti sem villir svo um, að ástand innihaldsins kemur ekki almennilega í ljós fyrr en það er tekið úr umbúðunum.

 

Enda skiljanlegt að framleiðandinn skuli ekki vilja að innihaldið sjáist almennilega fyrr en um seinan. Líka skiljanlegt að hann skuli ekki vilja láta nafns síns getið. Þetta er óætt rusl, skorpið og skemmt, og þarf ekki fleiri orð.

 

Ég leyfi mér að vara við kaupum á „íslenskum kartöflum“. Reyndar finnst mér það ósvífni að merkja vöruna, ef vöru skyldi kalla, með þessum hætti. Ósvífni gagnvart öllum þeim sem rækta góðar kartöflur hérlendis.

 

Misræmi hjá fréttamiðlum: Hverju á maður að trúa?

Ég sakna þeirra tíma þegar gamla Gufan var eini fréttamiðillinn á ljósvakanum hérlendis og Morgunblaðið eina blaðið sem mark var takandi á (að margra áliti). Ekki lýgur Mogginn, var sagt. Að ekki sé nú minnst á sjálft Útvarpið.

 

Þá var nú ekki vandi að þekkja hinn hreina sannleik. Alveg sérstaklega ef maður gætti þess að notast annað hvort við Útvarpið eða Moggann en ekki bæði í senn.

 

Núna er allt morandi í fjölmiðlum. Þeir flytja fréttir af sömu viðburðunum, en gallinn er sá, að ekki er gott að vita hverju maður á að trúa.

 

Ríkisútvarpið Sjónvarp greindi frá því í langri og hjartnæmri frétt í kvöld, að gríðarlega mikið hefði verið um hjónavígslur hérlendis í dag. Nefndar voru ótrúlegar tölur í því sambandi. Í fréttum Ríkisútvarpsins Hljóðvarps í kvöld kvað hins vegar við allt annan tón, eða eins og segir á fréttavefnum ruv.is: ... samkvæmt heimildum fréttastofu er ekki meira um brúðkaup í dag en aðra laugardaga á þessum árstíma.

 

Fréttavefurinn visir.is hefur flutt eina Íraksfrétt í dag. Fyrirsögn hennar er: Einn lést og þrír særðust í Írak. Fréttavefurinn mbl.is sagði hins vegar fyrir nærri sex klukkutímum: Mannskæðasta tilræði í Írak frá því í apríl - Nú er ljóst að að minnsta kosti hundrað og fimm manns létu lífið og tvö hundruð og fjörutíu slösuðust er bílsprengja sprakk [...] í Írak í morgun.

 

Og þannig mætti lengi telja ...

 
mbl.is Mannskæðasta tilræði í Írak frá því í apríl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband