Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
10.1.2007
Bananar eða olía fyrir okkur?
Sómalía má heita ónumið land fyrir olíuvinnslu. Þar eru bananar ein helsta útflutningsvaran, lífskjörin slæm og barnadauði einna mestur í heiminum. En - þar eru miklar olíulindir í jörðu. Skyldu loftárásir Bandaríkjamanna á meint hreiður al-Qaida hryðjuverkamanna hafa tekið mið af því? Vel hefur til tekist í Írak - olíugróðinn þaðan mun framvegis renna til olíurisanna sem standa undir Bush forseta, eins og fram hefur komið síðustu daga. Innrás Bandaríkjamanna og viljugra hunda þeirra í Írak - þar á meðal okkar Íslendinga - hefur skilað tilætluðum árangri.
En hvað með Sómalíu? Væri ekki rétt og skynsamlegt að forsætisráðherra og utanríkisráðherra Íslands (skítt með vitneskju eða samþykki annarra hérlendis) taki nú virkan þátt í hernaði Bandaríkjanna í Sómalíu rétt eins og í Írak? Þó ekki væri nema með því að skaffa sérfræðinga sem gætu fundið efnavopn, sérfræðinga á borð við íslensku sinnepstunnumennina í Írak, og komið þar með Íslandi á kortið, eins og það er orðað?
Allt virðist vera til vinnandi að lækka bensínverð hérlendis. Írakssigurinn hefur ekki enn sem komið er skilað slíku til okkar. Að minnsta kosti ekki til almennings. Vonandi njóta íslensku olíufélögin samt góðs af lækkandi olíuverði, þó að það skili sér ekki ennþá til viðskiptavina.
Yfirráð siðmenntaðra ríkja yfir olíulindunum í Sómalíu verða vonandi til þess, í fyrstu lotu, að bananar verði ódýrari í íslenskum bensínsjoppum. Síðan er það spurningin hvort olíugróðinn rennur bara í vasa bandarísku olíurisanna eða líka til okkar, hinnar viljugu þjóðar, hinna viljugu bensínkaupenda.
![]() |
Áframhaldandi loftárásir Bandaríkjamanna á Sómalíu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.1.2007
Stytti sér aldur út af músagangi (?)
Meðal þess sem mér þykir undarlegast í samtímanum hérlendis - með aldrinum kemur að vísu sífellt færra á óvart - er rekstur stofnana, sem að öðru leyti mætti e.t.v. kalla þjóðþrifastofnanir, á spilakössum. Mér finnst ánægjulegt, að í borgarstjórn Reykjavíkur skuli vera þverpólitísk samstaða um að vinna gegn þessum ófögnuði. Kannski er heldur vægt að kalla þetta ófögnuð, rétt eins og t.d. músagang eða silfurskottur, sem leggja ekki líf fólks í rúst, að ég best veit. Ef einhver sem þetta les veit um manneskju sem hefur stytt sér aldur út af músagangi, þá væri það áhugavert út af fyrir sig.
Þeir sem sitja í fílabeinsturni Háskóla Íslands hafa auðvitað engan skilning á spilafíkn. Þeir segja að hverjum og einum sé í sjálfsvald sett hvort hann notar spilakassana.
Yfirlýsingar af því tagi bera vitni um fáfræði, hreina heimsku. Og það í sjálfum Háskóla Íslands. Þeir sem eru í ábyrgðarstörfum í stofnun af því tagi - universitas - og reyndar hinir líka, ættu manna best að vita að rök eru fyrir öllu, að skýringar eru á öllum hlutum, jafnvel þó að þeir skynji þær ekki á sjálfum sér. Þeir ættu manna best að vita að spilafíkn er staðreynd, jafnvel þótt þeir séu ekki haldnir henni sjálfir.
Og hvað með SÁÁ? Kannski er skiljanlegra að sú stofnun fremur en háskóli standi að viðhaldi og eflingu spilafíknar. Reksturinn þar byggist einmitt á eftirspurn og framboði langt genginna fíkla, ekki aðeins í áfengi, heldur einnig fíkla í efni á borð við amfetamín og kókaín - og spilakassa. Í samræmi við reksturinn á spilakössum væri eðlilegt, að SÁÁ fengi að hafa áfengis- og kókaínsjálfsala í anddyrinu á Vogi. Þannig mætti afla fjár til þess að veita enn fleiri áfengissjúklingum meðferð, og stuðla að því um leið, að enn fleiri ánetjist SÁÁ.
Ég nenni ekki núna að fjalla hér um Landsbjörgu, sem ekki aðeins þrífst á ógæfu spilasjúklinga, heldur einnig þeim algera barbarisma sem skoteldadjöfulgangurinn um áramótin er og allt sem honum fylgir. Það er kapítuli út af fyrir sig.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.1.2007
Norðvesturkjördæmi hægri grænt
Fróðlegt er að skoða nýjustu fylgistölurnar úr Norðvesturkjördæmi. Samkvæmt þeim er Sjálfstæðisflokkur með 28% fylgi og Vinstri grænir með 25%. Síðan eru litlu flokkarnir þrír allir á svipuðu róli: Framsóknarflokkurinn 17%, Frjálslyndir 16% og Samfylkingin 15%.
Merkilegt er að sjá Samfylkinguna í neðsta sætinu. Auðvitað eru samsæriskenningar komnar á stjá og ein þeirra kom fram í Svæðisútvarpi Vestfjarða í gærkvöldi:
Valdimar Lúðvík Gíslason, fyrrverandi bæjarfulltrúi í Bolungarvík í áratugi og flokksbundinn Samfylkingarmaður, segir að lítið fylgi við Samfylkinguna í Norðvesturkjördæmi í skoðanakönnunum megi rekja beint til prófkjörs flokksins í haust. Hann segir hreint út að séra Karl Valgarður Matthíasson hafi beitt bolabrögðum í prófkjörinu og smalað óflokksbundnum mönnum til að kjósa sig. Hann hreppti annað sætið.
Hvað sem kann að vera til í þessari kenningu, þá er næsta víst að sitthvað fleira kemur til. Hætt er við að það sitji enn í mörgum, ekki síst á Vestfjörðum, þegar Össuri Skarphéðinssyni var bolað úr formannsstólnum.
Auk þess getur varla talist gæfulegt þegar einn flokkur er með álíka margar stefnur í hverju máli og þingmennirnir eru.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.12.2006
Drjúg urðu okkur Bush morgunverkin
Saddam er dauður. En er heimurinn betri? Verður heimurinn betri við aftöku þessa manns? Nei, hann verður ekki betri. Ég veit að hann verður verri, ef eitthvað er.
Og ég á þátt í því.
Að vísu var ég ekki spurður. Tveir menn ákváðu upp á sitt eindæmi, fyrir mína hönd og allrar íslensku þjóðarinnar, að taka þátt í þeirri tröllheimsku sem innrásin í Írak var.
Ógnaröldina sem á eftir fylgdi mátti sjá fyrir. Afleiðingarnar blöstu við flestu heilvita fólki. Ekki skorti viðvaranirnar. En það var ekkert mark tekið á slíku fremur en fyrri daginn.
Af hverju má ekki læra af reynslunni? Af hverju má ekki skoða söguna? Hvernig fór til dæmis í Víetnam? Af hverju má ekki taka heiminn eins og hann er í staðinn fyrir að vígbúast í eigin hugarheimi? Hvernig stendur á því, að íslenskir menn, sem eru bæði læsir og skrifandi, skuli fylgja í blindni karakter á borð við George W. Bush?
Ég veit það ekki. Kannski vegna þess að hann er svo trúrækinn. Svo rosalega kristinn. Einhver kristnasti þjóðarleiðtogi heims, ef svo má komast að orði.
Á ekki núna, samkvæmt bókinni, að ríkja lýðræði, friður og frelsi í Írak? En er það svo?
Það þarf ekki að spyrja og ekki heldur að svara. Þetta vita allir. Nema líklega George W. Bush, valdamesti maður heims. Og kannski sá kristnasti líka, ef frá eru taldir páfinn og Guðmundur í Byrginu.
Mikið skelfing geta menn verið heimskir, ég segi það enn og aftur. Auðvitað geta þeir lítið gert við því sjálfir. Þarna er ég reyndar að hugsa um tvo íslenska menn fremur en um Bush, það er svo augljóst með hann. Já, auðvitað geta þeir lítið gert við því sjálfir. En það er ábyrgðarhluti að láta slíka menn taka ákvarðanir í nafni heilla þjóða.
Svo sendu téðir forsjármenn mínir íslenskar hetjur til Íraks svo að ennþá fljótar gengi að koma þar á friði og frelsi og lýðræði og öryggi og réttlæti og umbótum og hvað það nú allt heitir og mannréttindum. Ógleymanlegt er stoltið í fasi utanríkisráðherra þegar hann tilkynnti að Íslendingarnir knáu hefðu fundið gereyðingarvopn. Sinnepsgas! Hann var barnslega glaður að geta tilkynnt þjóð sinni og allri heimsbyggðinni að Íslendingar hefðu fundið gereyðingarvopn í Írak, fyrstir manna.
Margir trúðu þessu í fyrstu og sumir voru hreint ekki glaðir, öfugt við utanríkisráðherrann. Sumir hefðu talið það betri frétt að alls engin gereyðingarvopn hefðu fundist. Þetta er eins og læknir væri að skoða mann sem vitjaði hans og gleddist yfir því að finna í honum krabbamein.
En svo kom hið sanna í ljós og brosið á utanríkisráðherranum gufaði upp og hefur ekki sést síðan. Íslendingarnir höfðu fundið sinnepstunnu í rústunum af pylsuvagni sem frelsararnir höfðu sprengt af því að þeir héldu að hann væri efnavopnaverksmiðja.
Það fundust aldrei nein efnavopn.
Mér er nær að halda að einhver kristnasti þjóðarleiðtogi heims hafi aldrei lesið boðskap Krists. Kannski varla von að hann hafi gert það. En hann hefði þó getað hlustað á prestinn í einhverjum af messuferðunum sínum fimmtíu á ári hverju. Og hefði valdamesti maður heims hlustað á boðskapinn og tileinkað sér hann, þá væri heimurinn öðruvísi en hann er núna.
Saddam er dauður. Hann var hengdur að loknum sýndarréttarhöldum á vegum Bandaríkjastjórnar og jafnframt á mínum vegum, þó svo að ég hafi ekki verið spurður. Réttarhöldin og dauðadómurinn voru lögleysa. Saddam var hengdur án dóms og laga, eins og það er kallað.
Bush fer eflaust glaður í kirkju á morgun eins og alltaf á sunnudögum. Einstaklega kristinn og kirkjurækinn maður, Bush forseti. Að vísu með langtum fleiri mannslíf á samviskunni en Saddam, en það er önnur saga.
Það er að segja, ef hann hefði samvisku.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 04:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)