Færsluflokkur: Dægurmál

Kennarar þúaðir á Hótel Sögu

Ég er að fara á kennarafagnað annað kvöld, kennarafagnaður er bara fínt orð yfir fyllerí með kennurunum, segir námsmaður einn hér á Moggabloggi. Þá rifjast upp kvöldið þegar ég át hænsnakjöt í fyrsta sinn á ævinni og þúaði jafnframt kennarana mína í Menntaskólanum í Reykjavík í fyrsta sinn. Og þeir mig. Þetta var á Hótel Sögu í Bændahöllinni, hótelinu sem núna er betur þekkt sem Radisson-SAS og verður víst bækistöð klæmingja á kvennafrídaginn*) eftir þrjár vikur.

 

Getið þér aldrei þagað nema á munnlegum prófum, helvítis fíflið yðar? sagði Guðni kj. enskukennari og síðar rektor eitt sinn við skólabróður minn. Samskipti kennara og nemenda í MR voru mjög formleg á þeim árum; hversu virðuleg þau voru fór eftir einstaklingum og atvikum.

 

Ég man ekki lengur hvort stúdentaveisla MR var á sjálfan þjóðhátíðardaginn; á því Herrans ári 1966 var hún a.m.k. um miðjan júní. Þá slaknaði á formlegheitunum, skólinn hélt okkur nýstúdentum fagnað á Hótel Sögu og kennararnir buðu okkur dús og meira í glasið. Eitthvað fannst manni undarlegt að þúa allt í einu Guðna Guðmundsson og ekki síður Magnús Finnbogason magister, sem eitt sinn vísaði mér úr íslenskutíma fyrir ósvífni - og þéraði mig um leið. Eðlilegra virtist að þúa Ólaf Hansson, Baldur Ingólfsson og Vigdísi Finnbogadóttur - Ólaf á íslensku, Baldur á þýsku og Vigdísi á frönsku. Af skiljanlegum ástæðum varð latínukennarinn eigi þúaður sérstaklega við þetta tækifæri.

 

Meira hvað tíminn líður! Það er eins og þetta hafi verið í gær, nema hvað ég er ekki með höfuðverk. Samt eru himinn og haf á milli. Í minni sveit voru hænsni ekki étin; þau voru grafin ellidauð að loknu löngu og farsælu ævivarpi. Og allar þéringarnar! Þá þéruðu fréttamenn ráðherra og þingmenn en allur gangur var á því hvort þeir voru þéraðir á móti eða hvort þeim var yfirleitt ansað. Nú er öldin önnur í samskiptum þessara stétta.

 

Eitt af kvæðum vestfirska sveitaskáldsins Guðmundar Inga Kristjánssonar á Kirkjubóli hefst svona: Þér hrútar ...

  

*) Síðbúin leiðrétting: Alþjóðlegi kvennadagurinn er 8. mars, Kvennafrídagurinn er 24. október. Dóttir mín hringdi í mig og benti mér á þessa heldur hvimleiðu villu, sem helst mætti kalla skriflegt mismæli; ég veit og vissi betur.

 Mbl. 17. júní 1966


Fiskveitingar

Núna þegar dómarinn er búinn að glefsa í saksóknarann finnst mér rétt að skrifa nokkur orð um hundinn og köttinn. Þau eru bæði að éta fisk í merkilega góðu samlyndi; máltíðin sameinar. Kisa er komin heim eftir margra daga fjarveru - annað skiptið sem hún hverfur. Eftir að hundurinn kom til sögunnar hélt ég henni inni í vikutíma á meðan þau væru að venjast hvort öðru. Loks hleypti ég henni út en hún lét sig hverfa. Nokkrum dögum seinna frétti ég að hún hefði sést í grenndinni.

 

Allan tímann var ég með kattarrifu á útidyrunum og þurrmat og vatn í skálum og ljós í loftinu svo að kisa sæi til. Lengi var maturinn óhreyfður en svo var hann étinn eina nóttina. Næstu nótt fór á sömu leið rétt eins og í þjóðsögunum. Þriðju nóttina þegar ég gáði fram var kisa þar. Þá urðu nú fagnaðarfundir. Kisa át og át bæði þurrmat og blautmat og saup á vatni á milli og síðan lá hún í öruggri fjarlægð frá hundinum og malaði og prumpaði í senn. Á hundinum var óræður svipur.

 

Ætli það grói nokkru sinni milli saksóknarans og dómarans? Kannski væri ráð að gefa þeim fisk saman. Passa samt að hvor hafi sína skálina.

 

30.01.2007 Þegar hundurinn kom og kisa beit mig svo að ég var nærri dáinn úr stífkrampa

                   

ruv.is Baugsmál: Dómari stoppar saksóknara


Laugardagurinn tólfti maí er föstudagur þrettándi

Ég var að átta mig á því, að Alþingiskosningarnar og Evrópusöngvakeppnin eru sama daginn í vor, laugardaginn 12. maí (sá það á bloggi dóttur minnar). Þá held ég ýmsir verði nú spenntir! Og ýmsir verði nú fyrir vonbrigðum! Ég verð hins vegar hvorki spenntur né fyrir vonbrigðum.

 

Sú var tíðin að ég var spenntur fyrir hvoru tveggja. Mér er í barnsminni þegar ég vakti alla nóttina og hlustaði á nýjustu tölur í útvarpinu (ekkert sjónvarp komið á þeim tíma) og hélt með Framsóknarflokknum eins og pabbi. Þegar kom fram á unglingsárin gerðist ég vinstrisinnaður - og keypti Þjóðviljann í áskrift, eingöngu út af Austrapistlum Magnúsar Kjartanssonar á baksíðunni. Magnús var í fiskamerkinu eins og við Þórbergur.

 

Svo fór ég að vinna á Morgunblaðinu um tvítugt og einhverjir héldu þess vegna að ég hlyti að vera sjálfstæðismaður. Það var öðru nær - og þegar ég var ráðinn á Moggann var ég ekki spurður neitt um stjórnmálaskoðanir. Matthías vildi bara að blaðamenn hefðu góða almenna þekkingu, væru nákvæmir og gætu skrifað íslensku - og væru fljótir að því! Og ekki koma nálægt pólitík í skrifum í blaðið! Ég hélt áskriftinni að Þjóðviljanum og fékk Moggann frítt að auki.

 

Það var ekki fyrr en seinna sem ég gekk í Sjálfstæðisflokkinn, raunar af tilviljun í þann flokk en ekki einhvern annan. Hef heldur aldrei getað fylgt almennilega neinni flokkslínu. Að vísu hef ég iðulega kosið Sjálfstæðisflokkinn og enn oftar starfað fyrir hann í kosningum og aðdraganda þeirra.

 

Evrópusöngvakeppnin, jamm. Man ég þá tíð að þar voru skemmtileg og grípandi lög. Sú tíð er löngu liðin - hnigna tekr heims magn. Venjulega fylgist ég þó með atkvæðagreiðslunni, finnst það dálítið gaman, en hef passað mig hin síðari árin að hafa hljóðið ekki með.

 

Núna þegar ég horfi yfir sviðið á gamals aldri veit ég ekki hvað ég ætti að kjósa. Ef ég væri kónguló, þá gæti ég staðið sínum fæti í hverjum flokki. Því miður eru Alþingiskosningar ekki hlaðborð. Maður verður að éta eina sort en svelta ella.

 

Alþingiskosningar og Evrópusöngvakeppni vorið 2007: Ég hallast að því að laugardagurinn tólfti maí sé í raun sá þrettándi; auk þess föstudagur.

 

Hvernig í skrattanum stendur annars á því að Asíuríkin Ísrael og Tyrkland eru meðal þátttakenda í Evrópusöngvakeppninni? Jafnvel þó að nokkur prósent af Tyrklandi séu Evrópumegin við Hellusund (Nautavað) ...

                               

- - -

Allt annar sálmur: Í síðustu viku var ég að fikta og vesenast í stillingum og fídusum hér á bloggsíðunni minni. Fiktaði og vesenaðist svo mikið að ég eyddi öllum bloggvinunum mínum. Ég skammast mín og vil taka fram, að þetta var ekki af neinni vinaóvináttu. Rótgróinn höfnunarótti veldur því reyndar að ég bið engan um bloggvináttu og mun seint gera. Allir bloggvinir mínir komu til mín en ég ekki til þeirra - nema sá fyrsti, daginn þegar ég byrjaði að blogga og var að fikta í fídusum: Ég sendi óvart eina beiðni um bloggvinskap - og hlaut samþykki! Skammast mín eiginlega ennþá meira fyrir það ...


25. janúar 1947 - Al Capone dó, Tostão fæddist

TostaoSnillingurinn Eduardo Gonçalves de Andrade, betur þekktur sem Tostão, var eins mánaðar og ellefu daga gamall þegar ég fæddist. Hann er sextugur í dag. Jafnframt eru í dag sextíu ár frá því að snillingurinn Alphonse Gabriel Capone dó. Hann er betur þekktur sem Al Capone.

 

Daginn þegar Tostão leit ljós þessa heims varð Eusebio fimm ára, annar ógleymanlegur knattspyrnumaður. Næsta haust verða fjörutíu ár liðin frá leiknum á Laugardalsvelli, þar sem Eusebio var í liði Benfica á móti Val. Þá var sett aðsóknarmet á vellinum sem stóð í áratugi og stendur kannski enn, ég veit það ekki.

 

Knattspyrnuferill Tostãos var ekki langur. Vegna meiðsla hætti hann árið 1973, aðeins 26 ára gamall. Þá átti hann að baki 65 leiki með brasilíska landsliðinu og hafði skorað í þeim 36 mörk. Fyrsta landsleikinn lék hann 19 ára gamall snemmsumars árið 1966 og síðan spilaði hann á heimsmeistaramótinu í Englandi þá um sumarið. Brasilíumenn riðu ekki feitum hesti frá þeirri keppni en fjórum árum seinna urðu þeir heimsmeistarar. Þeir Pelé og Tostão voru eitrað sóknarpar.

 

Sumarið 1966 var Sjónvarpið ekki komið, það byrjaði þá um haustið. Samt horfði ég á marga leiki í heimsmeistarakeppninni í beinni útsendingu, en þá var ég í litlu borginni margfrægu og fagurbrúnleitu Siena á Ítalíu. Einhvern veginn er eins og allur fótbolti eftir það sé ómerkilegri. Hugsa að það liggi frekar í mér en fótboltanum an sich (þarna kæmi óhjákvæmilega an sich ef þetta væri óskiljanlegt heimspekirit á þýsku; þetta blogg er að vísu ekki óskiljanlegt heimspekirit á þýsku en ég hef hér samt an sich).

 

Úrslitaleikurinn milli Englendinga og Vestur-Þjóðverja á Vembli er mér ferskari í minni en nokkur annar leikur sem ég hef séð - og það er komið á fimmta áratug. Það var heitt í veðri á Ítalíu þetta sumar. Fornar og þröngar - fornþröngar - göturnar í Siena voru troðnar fólki þegar fór að húma á kvöldin. Í kyrru loftinu var þung og sérkennileg lykt - af ávöxtum og grænmeti í kössum við búðirnar, úr margra alda gömlum byggingum, úr pissustíunum, af fólkinu, af öllu. Bareigendur settu sjónvarpstæki út á stétt og stóla fyrir gestina til að horfa á leikina í heimsmeistarakeppninni og serveruðu birra og kælt te. Allir virtust halda með Þjóðverjum. Og ekki bara í fótbolta.

 

Gælunafnið Tostão mun þýða lítill peningur. Snillingurinn Tostão var aðeins 1,72 á hæð (og hefur varla stækkað síðan) og einstaklega snöggur og flínkur. Hann lagði stund á læknisfræði - rétt eins og Grímur Sæmundsen og Socrates -  og var starfandi læknir um skeið. Síðari árin hefur hann verið virtur dálkahöfundur í dagblöðum í Brasilíu.

 

Al CaponeÞetta var svolítið um manninn sem fæddist þennan dag fyrir sextíu árum. Svo er það hinn, sem dó þennan dag ...

 

Mafíuforinginn Al Capone - frægastur allra slíkra - Scarface - andaðist á sóttarsæng í fangelsi. Hann var aldrei sakfelldur fyrir neitt annað en bókhaldsbrot - tæknileg mistök.

 

Wikipedia - Al Capone

Crime Library - Al Capone

 

                   

Hér á Moggabloggi vantar aukabloggflokkinn Einskisverður fróðleikur. Til að gefa þessari færslu tilgang verð ég því að ljúka henni með heimspekilegri spurningu: Varð heimurinn betri daginn þegar Al Capone dó og Tostão fæddist?

                               

Annar sálmur: Í dag er Sólardagurinn á Ísafirði. Hér er smávegis um hann sem ég skrifaði fyrir réttum sex - ekki sextíu - árum:

 

25.01.01 Sólardagur Ísfirðinga er í dag, 25. janúar

 

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband