Færsluflokkur: Dægurmál

Ósmekklegt aprílgabb Ríkisútvarpsins

Það er gömul og góð venja að láta fólk hlaupa apríl. Yfirleitt er það á gamansömum og græskulausum nótum. Fjölmiðlar hafa ekki látið sitt eftir liggja í þessum efnum. Enn man ég þegar Stefán Jónsson fréttamaður lýsti ferð svifnökkva á leiðinni upp Hvítá fyrir mörgum áratugum. Að þessu sinni virðist hins vegar sem fréttastofa Ríkisútvarpsins hafi misst fótanna á svelli hins almenna velsæmis.

 

Fagnaðarfundir þessa heims og annars

Hundurinn Dexter fagnar mér líkt og fótboltamaður marki þegar ég kem heim. Þvílík læti! Þvílíkur fögnuður! Munurinn er sá, að enginn fékk á sig mark og þess vegna er enginn vonsvikinn. Kötturinn Helga Guðrún Geirdal gleðst líka en á langtum hófsamari hátt. Eitthvað svipað og þegar forsetinn rís úr sæti og klappar fyrir marki í landsleik.

 

Ég má til að vekja athygli á ljósmyndabloggi sem ég rakst á núna áðan. Aldeilis frábærar myndir! Ekki þekki ég höfundinn, sem heitir Halldór Sigurðsson. Þarna getur m.a. að líta mynd af kirkjustaðnum forna og nýja Mosfelli í Mosfellssveit. Í garðinum á Mosfelli höfum við heima verið jörðuð í marga mannsaldra. Þar verða líka fagnaðarfundir öðru hverju.

 

Finnbogi Hermannsson fréttamaður - in memoriam

Allir erum við börn hjá Boga, var einu sinni sagt. Það skal endurtekið nú, þótt Boginn sé annar en forðum. Finnbogi Hermannsson fréttamaður, forstöðumaður Svæðisútvarps Vestfjarða frá upphafi, er hættur störfum hjá Ríkisútvarpinu. Ég leyfi mér að skrifa hér nokkur orð in memoriam þótt maðurinn sé bráðlifandi; ég vona að hann skrifi nokkur orð um mig í Moggann eilífa í fyllingu tímans.

 

Föstu punktunum fækkar vestra. Björnsbúð er ekki lengur til. Ekki búðin hans Jónasar Magg þar sem menn keyptu appisín og kjöftuðu saman. Ekki Norðurtanginn. Ekki Vöruval hans Benna sem var kannski of mikið á undan sinni framtíð, líkt og Guðbjartur í Vagninum á Flateyri. Guðmundur Móises dó í síðustu viku. Guðmundur Marinósson er löngu farinn suður. Hvar er Lóa hans Gogga og hvar er Goggi hennar Lóu? Arngrímur Fr. Bjarnason löngu dáinn. Hvar eru ungu mennirnir, Tryggvi sem seinna var kenndur við Ora og Þorvaldur sem seinna var kenndur við Síld og fisk? Hvar eru Árnapungarnir? Hvar er minn fornvinur Björn Teitsson? Hann er víst fyrir norðan. Hvar er Gaui enskukennari? Hann er víst líka fyrir norðan. Matráðskonan góða í menntaskólanum hún Sonja hans Kristjáns dó í vetur. Hvar er Steinunn Kristjánsdóttir frá Breiðalæk? Hún er doktor í fornleifafræði. Hvar er Vilmundur læknir? Hann er víst orðinn landlæknir. Hvar er eiginlega allt? Hvar er ég?

 

Þegar stórt er spurt, eins og einhver sagði - verður stundum fátt um svör.

 

Pétur Sigurðsson er ekki lengur verkalýðsforinginn vestra. Það var verið að kjósa nýjan formann. Jú - í mínum huga verður hann áfram verkalýðsforinginn eini og sanni á Vestfjörðum. Þessi mikli persónuleiki, þessi gáfaði og skemmtilegi maður. Jafnvel þó að minn gamli góði nemandi Finnbogi Sveinbjörnsson hafi tekið við embættinu.

 

En - það var annar Finnbogi sem ég ætlaði að nefna. Finnbogi Hermannsson. Hann var og er í mínum huga einn af föstu punktunum í mannlífinu vestra. Mér hefur um fáa menn óskylda þótt vænna en hann. Man ég þá tíð þegar við átum og átum þjóðlegan mat, ekki síst saltket og baunir, sem hans góða kona Hansína eldaði ofan í okkur, og svo lágum við á meltunni inni í stofu og hlýddum hvor öðrum yfir upp úr latínubókum. Það var gaman! Við vorum báðir í gamla góða MR í gamla daga. Þess vegna kannski erum við svo miklir krakkar inni við beinið og höfum gaman af latínu. Finnbogi er betri í fornbílum en ég þó að ég telji mig betri í latínu.

 

Finnbogi Hermannsson er víðgreindur maður, víðlesinn og klár á flesta hluti. Ekki síst íslensku, en sú gáfa er ekki mikils metin í hópi fréttamanna í seinni tíð, að mér virðist.

 

Oft kvörtuðu ráðamenn yfir því sem þeir kölluðu neikvæðar fréttir hjá Finnboga. Hann svaraði því til, að vissulega væri það frétt þegar eitthvað færi úrskeiðis. Réttilega.

 

Fyrir kom að mér sjálfum þótti Finnbogi svolítið neikvæður. Það var einkum á þeim árum þegar ég var ritstjóri Vestfirska fréttablaðsins og þess vegna í vissri samkeppni við hann. Ég man þegar við Finnbogi og Smári Haraldsson tókum nokkra rimmu um þessi efni. Við Smári stóðum saman gegn Finnboga. Kannski hafa viðhorfin hjá mér breyst eitthvað síðan. Kannski hjá Finnboga líka, ég veit það ekki.

 

Það er sjónarsviptir eða öllu heldur heyrnarsviptir að Finnboga Hermannssyni. Kannski skrifa ég á næstunni um brotlendingu okkar á Ísafjarðarflugvelli fyrir mörgum árum.

 

Finnbogi er einn af hornsteinunum vestra á liðnum áratugum. Hornsteinn úr gifsi eða granít, allt eftir viðhorfum líðandi stundar.

 

Bloggsíðan sem hvarf

Ég er búinn að skrifa hugleiðingu um tiltekin skrif hér á Moggabloggi en þá er viðkomandi bloggsíða horfin! Þetta var bloggsíða skálds (mér skilst að maðurinn hafi sjálfur gefið sér þann titil, ekki gerði ég það), sem helgaði þjóðþekktum manni nýjustu færslu sína. Pistill skáldsins var settur fram sem lof - ekki óþekkt aðferð - en varla gat nokkrum dulist að hér var einfaldlega á ferðinni illkvittni, hreinræktuð illkvittni.

 

Eftirfarandi setningu skrifaði ég í athugasemdadálkinn hjá skáldinu: Ég leyfi mér að segja hér skoðun mína á þessum skrifum: Rætni.                 

                       

Þá svaraði skáldið með því að spyrja á þá leið, hvernig það gæti verið rætni að hlaða mann lofi.

 

Aftur skrifaði ég athugasemd á þessa leið: Ég leyfi mér að segja hér skoðun mína á höfundi þessara skrifa: Kjáni.                    

                     

En núna er bloggsíðan horfin. Gott mál, finnst mér. Pistillinn sem ég er búinn að skrifa birtist því ekki. Nema skáldið og bloggsíða þess komi hér afturgengin og haldi áfram á sömu braut.

 

Tíminn líður við innanverðan Breiðafjörð

Hér á Reykhólum er logn og vorblíða. Jörðin auð en fjallahringurinn hvítur, hólmarnir svartir, sjórinn blár, ég hægri grænn. Rjúpur á vappi fyrir utan, kötturinn spenntur. Hundurinn hvarf að heiman í gær; tík í grennd. Þeir eru að gera við gluggana í kirkjunni.

 

Fyrir sunnan er verið að pexa út af þjóðsöngnum. Við Matti frændi brosum.

 

Á morgun er afmælisdagurinn hennar mömmu. Hún fæddist hér við Djúpafjörðinn. Þá var Hannes Hafstein ennþá Íslandsráðherra. Þremur dögum seinna tók Björn úr Djúpadal við.

 

Svona líður tíminn við Breiðafjörð.

 

Skúli Steinn Vilbergsson og viðhorf hans

Umræðurnar á bloggsíðu Skúla Steins Vilbergssonar mótorhjólakappa í Keflavík - á sínum tíma þekktur sem hnefaleikatröllið Skúli Tyson - eru nánast með ólíkindum. Þar á ég fyrst og fremst við svör og ummæli Skúla sjálfs og nokkurra sálufélaga hans.

 

Kannski er að bera í bakkafullan lækinn að fjalla frekar um þennan mann, athæfi hans, ummæli og viðhorf, en ég leyfi mér að tengja hér á bloggfærslu hans varðandi umfjöllunina í Kastljósi í gær og umræður sem spunnist hafa í athugasemdakerfinu. Ef til vill hafa aðrir gert það líka; ég rakst á tengingu á síðuna sjálfa á bloggi Hrafnkels Daníelssonar, sem reyndar var búinn að tengja á myndskeiðin af ofsaakstrinum á mótorhjólinu áður en þau birtust í Kastljósinu.

 

Þess má geta í varúðarskyni fyrir þá sem hyggjast skrifa í kommentakerfið hjá Skúla Steini, að hann tekur eftirfarandi fram á bloggi sínu:

                                           

Ef einhver hefur eitthvað vantalað við mig þá getur hann drullast til að koma til mín face to face en ekki vera meið fuckin heigulhátt bak við tölvuna heima hjá sér. Muniði það að ég get séð IP tölurnar ykkar og þ.a.l. fundið út hvar þið eigið heima.        

                                                  

P.s.: Lögreglan gerði í fyrrakvöld rassíu hjá handrukkurum og steratröllum á Suðurnesjum ...

                  

Viðbót - hér er dæmi um komment sem kom inn áðan frá einum af sálufélögum Skúla Tyson:

Aron                        
án djóks, að þá myndi ég borga fyrir það að sjá svipinn af eitthverjum af þessum nördum sem eru harðir á bakvið skjáinn ef Skúli mætti heim til þeirra. Þið eruð að kalla hann illum nöfnum og segja honum að koma heim til ykkar. Hvað ef hann flippaði bara og mætti heim til ykkar með hníf eða eitthvað? mynduði vera jafn harðir þá með Superdós af kóki og dominos sneiðarnar?                
23. mars 2007 klukkan 18:13

mbl.is Myndir af mótorhjóli á ofsahraða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vanmáttur minn gagnvart erlendum fréttum

Líklega er aldurinn farinn að segja til sín. Að vísu hef ég aldrei verið mjög skarpur en núna í seinni tíð keyrir um þverbak. Ég skil ekki einföldustu hluti. Þar á ég fyrst og fremst við erlendar fréttir á mbl.is. Hvað eftir annað kemur það fyrir að ég les frétt en botna eiginlega ekki neitt í neinu. Næ ekki samhenginu. Klóra mér í hausnum án árangurs. Finnst stundum að ég sé ekki einu sinni að lesa íslensku.

 

Ég nenni ekki að tína hér til fréttir af þessu tagi.

 

Ætli nokkur annar en ég finni til svona skilningstregðu? Líklega ekki. Ég er einfaldlega (orðinn) svona vitlaus.

 

Jæja þá - ég einbeiti mér bara að Ævintýrum litla tréhestsins eins og þegar ég var barn en eftirlæt þeim sem eru með fulla andlega burði að ráða fram úr erlendu fréttunum á mbl.is.

 

Dagbók Morgunblaðsins í dentíð

Friðrik Sigurbjörnsson lögfræðingur sá um Dagbókina í Morgunblaðinu þegar ég var á Mogganum fyrir fjórum áratugum eða þar um bil. Dagbókin var að mestu fastir liðir með gagnlegum upplýsingum og ýmsu smáræði. Friðrik skrifaði dálk undir yfirskriftinni Storkurinn sagði, brúðhjónamyndir voru birtar (í daglegu tali við vinnslu blaðsins kölluðust þetta ríðingamyndir), þarna var brandari dagsins (sá NÆST bezti) og teikningin eftir Sigmund. Líka voru þarna ýmsar smáfréttir af fólki.

 

Einn liðurinn í Dagbókinni hét Vísukorn, þar sem venjulega birtist frumsamin vísa eftir einhvern af hagyrðingum Reykjavíkur, sem oft lögðu leið sína á ritstjórnina eða hringdu. Fyrir kom að Friðrik varð uppiskroppa með vísur og fékk mig til að bulla eitthvað í eyðuna.

 

Á ráfi mínu núna í gömlum blöðum rekst ég nú á eitthvað af þessum samsetningi, sem ég vildi að vísu ekki hafa nafn mitt undir heldur notuðum við eitthvert dulnefni. Að minnsta kosti stundum var dulnefnið Mörður notað í þessum tilgangi. Ekki hélt ég þessu til haga að öðru leyti en hvað varðar birtinguna í Morgunblaðinu - og þætti þó kannski einhverjum nóg - og lagði það ekki heldur á minnið. Núna bar eftirfarandi vísukorn merkt Merði fyrir augu mér - Morgunblaðið 13. júlí 1967 - þar sem saga íslensku þjóðarinnar er tekin saman:

                                    

     Þjóðin hefur þraukað af

     þrengingar á færibandi.

     Daglegt brauðið Drottinn gaf

     en Danir fluttu það úr landi.

                                         

Þess má geta, að meðal mynda sem auglýstar eru í kvikmyndahúsum borgarinnar þennan sama dag eru Heimsendir, Skelfingarspárnar, Flóttinn frá víti og Á barmi glötunar. Ekki veit ég hvort það er einhver tilviljun, að þarna var þriðja kjörtímabilið undir stjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks nýbyrjað ...

 

Myndir: Tímarit.is

 

Mbl. 13. júlí 1967, bls. 6

           

Mbl. 13. júlí 1967, bls. 7

Fljótandi nikótín í Dýrafirði

Sumar fréttir eru sérkennilegri en aðrar. Í gær greindi fréttavefurinn bb.is frá fljótandi nikótíni sem fundist hefði í húsi vestur í Dýrafirði: Eigandi hússins hafði verið að taka til á háalofti þegar hann rakst á tvo brúsa sem innhéldu fljótandi nikótín. Hafði hann samband við lögreglu sem kom boðum á slökkvilið. Samkvæmt þeim upplýsingum sem slökkvilið Ísafjarðarbæjar fékk um efnið er það mjög hættulegt við innöndun og snertingu á húð. Var því efnið sótt og því komið til aðila sem eyðir því á öruggan hátt.

                        

Frá þessu líka greint á heimasíðu Slökkviliðs Ísafjarðarbæjar og vísar bb.is þangað. Hins vegar vaknaði sú spurning, sem ósvarað var, til hvers í ósköpunum fljótandi nikótín væri yfirleitt notað. Einhver hlýtur tilgangurinn með þessu skelfilega efni á brúsum að hafa verið. Við gúgl á netinu fannst í fyrstu ekkert um slíkt, ekki einu sinni í rækilegri umfjöllun um nikótín á Wikipediu. Helst datt mér í hug, að þetta hefði verið notað til þess að búa til „tóbak“ úr heyi - væri ekki hægt að marínera hey í fljótandi nikótíni, þurrka það og reykja síðan? Ekki man ég betur en fyrir kæmi í gamla daga að menn brældu hey í pípu þegar tóbak vantaði - allt er hey í harðindum ...

 

Síðan gerði ég það sem fyrst hefði átt að gera - gúglaði fyrirtækisnafnið á brúsanum á myndinni á heimasíðu slökkviliðsins - The British Nicotine Company. Og þá kemur mergurinn málsins: Manufacturers of nicotine and nicotine sulphate used for agricultural purposes.

                               

Fram kemur, að þetta brúsa-nikótín var unnið úr úrkasti frá tóbaksframleiðslu.

 

Þetta var sumsé ætlað til notkunar við akuryrkju. Ætla má, að sá tilgangur sé nú gleymdur hérlendis.

 

En þá vaknar önnur spurning: Skyldu brúsar þessir ekki hafa verið þarna á háaloftinu á Alviðru í Dýrafirði fyrir bráðum hálfri öld, þegar ég var nemandi á Núpi í Dýrafirði og var eins og fleiri í vist á Alviðru þar rétt hjá?

 

                        

28.02.2007  Fréttin á bb.is

27.02.2007  Slökkvilið Ísafjarðarbæjar: Hættuleg efni leynast víða

27.02.2007  Slökkvilið Ísafjarðarbæjar: Myndir - eiturefni Alviðru

                                 

Nicotine

Kóngur tekur við ríki / morð á Vesturgötu 13

Í gær var 101 ár frá því að fyrsta fréttamyndin birtist í íslensku blaði, eins og Orri Harðarson minnti okkur á. Myndin birtist 17. febrúar 1906 í Ísafold, blaði Björns Jónssonar, síðar ráðherra, og sýndi hinn nýja konung Danmerkur og Íslands, Friðrik áttunda, flytja ávarp þegar hann tók við konungdómi að föður sínum látnum átján dögum fyrr. Ég brá mér sem oft áður á Tímarit.is og fletti upp á myndinni og leyfi mér að smella henni hérna fyrir neðan.

 

Hinn „ungi“ konungur var 63 ára þegar hann tók við ríkinu, en faðir hans, Kristján níundi, var á 88. aldursári þegar hann lést. Kristján varð fyrstur íslenskra þjóðhöfðingja til að koma til Íslands, þegar hann færði Íslendingum stjórnarskrána þjóðhátíðarárið 1874. Af því tilefni var ort til hans kvæði sem byrjar þannig: Stíg heilum fæti á helgan völl, og annað sem byrjar svo: Stíg höltum fæti á hálan völl. Segja má að þetta lýsi nokkuð ólíkum viðhorfum. Friðrik áttundi kom til Íslands árið 1907. Hann ríkti ekki lengi, andaðist 69 ára að aldri árið 1912.

 

Það var ekki fyrr en í árdaga Morgunblaðsins síðla árs 1913 sem fyrsta innlenda fréttamyndin birtist í íslensku blaði, en hún er miklu þekktari en myndin af kónginum. Myndin í Ísafold er teikning en Morgunblaðsmyndin er dúkrista; kannski ekki óviðeigandi, þar eð hún er af Dúkskoti í Reykjavík, þar sem kona hafði myrt bróður sinn á eitri. Dúkskot var hús nr. 13 við Vesturgötu og bróðirinn andaðist þann 13. nóvember. Morgunblaðið hóf göngu sína 2. nóvember og kom út sjö daga vikunnar. Myndin af Dúkskoti birtist á forsíðu 16. tölublaðsins þann 17. nóvember (sjá neðar).

                            

         

Ísafold 17. febrúar 1906    Mbl. 17. nóv. 1913

 

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband