Laugardagurinn tólfti maí er föstudagur þrettándi

Ég var að átta mig á því, að Alþingiskosningarnar og Evrópusöngvakeppnin eru sama daginn í vor, laugardaginn 12. maí (sá það á bloggi dóttur minnar). Þá held ég ýmsir verði nú spenntir! Og ýmsir verði nú fyrir vonbrigðum! Ég verð hins vegar hvorki spenntur né fyrir vonbrigðum.

 

Sú var tíðin að ég var spenntur fyrir hvoru tveggja. Mér er í barnsminni þegar ég vakti alla nóttina og hlustaði á nýjustu tölur í útvarpinu (ekkert sjónvarp komið á þeim tíma) og hélt með Framsóknarflokknum eins og pabbi. Þegar kom fram á unglingsárin gerðist ég vinstrisinnaður - og keypti Þjóðviljann í áskrift, eingöngu út af Austrapistlum Magnúsar Kjartanssonar á baksíðunni. Magnús var í fiskamerkinu eins og við Þórbergur.

 

Svo fór ég að vinna á Morgunblaðinu um tvítugt og einhverjir héldu þess vegna að ég hlyti að vera sjálfstæðismaður. Það var öðru nær - og þegar ég var ráðinn á Moggann var ég ekki spurður neitt um stjórnmálaskoðanir. Matthías vildi bara að blaðamenn hefðu góða almenna þekkingu, væru nákvæmir og gætu skrifað íslensku - og væru fljótir að því! Og ekki koma nálægt pólitík í skrifum í blaðið! Ég hélt áskriftinni að Þjóðviljanum og fékk Moggann frítt að auki.

 

Það var ekki fyrr en seinna sem ég gekk í Sjálfstæðisflokkinn, raunar af tilviljun í þann flokk en ekki einhvern annan. Hef heldur aldrei getað fylgt almennilega neinni flokkslínu. Að vísu hef ég iðulega kosið Sjálfstæðisflokkinn og enn oftar starfað fyrir hann í kosningum og aðdraganda þeirra.

 

Evrópusöngvakeppnin, jamm. Man ég þá tíð að þar voru skemmtileg og grípandi lög. Sú tíð er löngu liðin - hnigna tekr heims magn. Venjulega fylgist ég þó með atkvæðagreiðslunni, finnst það dálítið gaman, en hef passað mig hin síðari árin að hafa hljóðið ekki með.

 

Núna þegar ég horfi yfir sviðið á gamals aldri veit ég ekki hvað ég ætti að kjósa. Ef ég væri kónguló, þá gæti ég staðið sínum fæti í hverjum flokki. Því miður eru Alþingiskosningar ekki hlaðborð. Maður verður að éta eina sort en svelta ella.

 

Alþingiskosningar og Evrópusöngvakeppni vorið 2007: Ég hallast að því að laugardagurinn tólfti maí sé í raun sá þrettándi; auk þess föstudagur.

 

Hvernig í skrattanum stendur annars á því að Asíuríkin Ísrael og Tyrkland eru meðal þátttakenda í Evrópusöngvakeppninni? Jafnvel þó að nokkur prósent af Tyrklandi séu Evrópumegin við Hellusund (Nautavað) ...

                               

- - -

Allt annar sálmur: Í síðustu viku var ég að fikta og vesenast í stillingum og fídusum hér á bloggsíðunni minni. Fiktaði og vesenaðist svo mikið að ég eyddi öllum bloggvinunum mínum. Ég skammast mín og vil taka fram, að þetta var ekki af neinni vinaóvináttu. Rótgróinn höfnunarótti veldur því reyndar að ég bið engan um bloggvináttu og mun seint gera. Allir bloggvinir mínir komu til mín en ég ekki til þeirra - nema sá fyrsti, daginn þegar ég byrjaði að blogga og var að fikta í fídusum: Ég sendi óvart eina beiðni um bloggvinskap - og hlaut samþykki! Skammast mín eiginlega ennþá meira fyrir það ...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: bara Maja...

Quitt tilbaka

bara Maja..., 6.2.2007 kl. 23:28

2 Smámynd: Heiða B. Heiðars

Ég er komin aftur

Heiða B. Heiðars, 7.2.2007 kl. 14:04

3 Smámynd: halkatla

bloggið þitt er mjög skemmtilegt, ég vildi að við værum bloggvinir! hehe, en ég er alveg einsog þú, þ.e bloggvinir koma til mín en ekki ég til þeirra, en hinsvegar þá hef ég á prjónunum að gera smá tilraun fljótlega og athuga hvort ég geti eignast bloggvin af sjálfsdáðum - og þá veit maður aldrei nema að ég læðist hingað og banki uppá  

halkatla, 8.2.2007 kl. 12:50

4 Smámynd: Guðmundur H. Bragason

Velkominn til baka

Guðmundur H. Bragason, 11.2.2007 kl. 02:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband