20.1.2007
Hvað gerir Kristinn H. Gunnarsson?
Ekki virðist listi Framsóknar í Norðvestri líklegur til að trekkja. Þar munar mest um brotthvarf Kristins H. Gunnarssonar, sem skipaði annað sætið í síðustu kosningum. Núna sóttist hann eftir efsta sætinu en lenti í þriðja sæti í prófkjörinu í nóvember, á eftir Magnúsi Stefánssyni félagsmálaráðherra og Herdísi Á. Sæmundardóttur varaþingmanni. Þarna urðu því sætaskipti hjá þeim Kristni og Herdísi, og niðurstaða Kristins varð sú að taka ekki það sæti. Athyglisvert má telja, að einungis liðlega helmingur þeirra sem greiddu atkvæði setti Magnús í fyrsta sætið. Með því að keppa við ráðherrann um fyrsta sætið var nánast um allt eða ekkert að ræða hjá Kristni. Árangur hans verður að teljast góður, þó svo að hann hafi ekki náð að ryðja Magnúsi úr vegi.
Af núverandi þingmönnum er tæpast nokkur eins óútreiknanlegur og Kristinn H. Gunnarsson, sem í eina tíð var þingmaður Alþýðubandalagsins í Vestfjarðakjördæmi og síðan þingmaður utan flokka um skeið. Kristinn fer sínar eigin leiðir eins og kötturinn og hefur rekist illa í Framsóknarflokknum. Hann hefur verið óspar á gagnrýni á forystu flokksins og ítrekað komið sér þar út úr húsi en hefur náð mun betur til grasrótarinnar, eins og það er kallað.
Kristinn hefur setið á þingi í fjögur kjörtímabil eða sextán ár. Það kynni ýmsum að þykja nóg. Hann virðist aftur á móti manna ólíklegastur til að vilja setjast í helgan stein á borð við Tryggingastofnun ríkisins, en bent hefur verið það sem nærtæka lausn fyrir Framsókn að gera Kristin að forstjóra þar. Hann færi þá a.m.k. ekki í framboð hjá einhverjum öðrum eða í sérframboð. Karl Steinar Guðnason forstjóri TR er orðinn 67 ára og þar með kominn á aldur, eins og kallað er.
Mér þætti það mikill sjónarsviptir ef Kristinn H. Gunnarsson hyrfi nú af þingi. Mér er alveg sama í hvaða flokki hann er hverju sinni, enda má segja að hann sé utan flokka að eðlisfari. Raunar finnst mér næsta víst að hann fari með einhverjum hætti í framboð og komist inn. Þannig gæti hann að öllum líkindum fengið efsta sætið hjá Frjálslyndum í einhverju kjördæmi, ef hann vildi. Eins og þar sé nú ekki nógur ófriður innanbúðar!
Það er fullsnemmt að skrifa pólitísk eftirmæli Kristins H. Gunnarssonar. Það er ekki nóg með að hann fari sínar eigin leiðir eins og kötturinn, ég trúi því að hann hafi líka níu líf í pólitíkinni. Spurningunni hér í fyrirsögninni er engin leið að svara með nokkurri vissu. Kristinn H. Gunnarsson er gersamlega óútreiknanlegur.
Því mætti bæta við, að Kristinn H. er iðulega kallaður Kiddi sleggja eða einfaldlega Sleggjan. Hér er ekki um niðrandi viðurnefni eða uppnefni að ræða, eins og sumir virðast halda, heldur þvert á móti. Nafngiftin varð til þegar Kristinn spilaði handbolta í gamla daga. Skotin hjá honum þóttu heldur í fastara lagi, að ekki sé meira sagt. Gunnar I. Birgisson hálfbróðir hans (það er gott að búa í Kópavogi) var síður til handbolta vaxinn og sat frekar að skák á yngri árum.
Framsóknarmenn í NV-kjördæmi samþykkja framboðslista | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 21.1.2007 kl. 00:06 | Facebook
Athugasemdir
Við Gunnar tefldum saman í Taflfélagi Breiðfirðinga í gamla daga, uppi í risi í Breiðfirðingabúð þeirri sem er löngu horfin. Ákaflega ljúfur og notalegur maður, öfugt við það sem sumir halda.
Hlynur Þór Magnússon, 21.1.2007 kl. 02:13
Þetta er bara nokkuð góð lýsing á karli föður mínum.
kv. Dagný Sleggjudóttir
Dagný Kristinsdóttir, 25.1.2007 kl. 16:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.