Reykjavík fyrir Reykvíkinga

Reykjavík er höfuðborg Íslands, eins og margir vita. En ekki allir, sýnist mér. Sumir virðast halda að Reykjavík sé einungis höfuðborg Reykjavíkur og landsbyggðinni óviðkomandi. Þetta viðhorf birtist iðulega þegar rætt er um samgöngumál. Þannig er hart barist fyrir því að losna við miðstöð innanlandsflugsins úr Vatnsmýrinni í Reykjavík.

                

Ágætur maður sagði fyrir skemmstu efnislega eitthvað á þá leið, að hans vegna mætti samgöngumiðstöð landsmanna vera í túnfætinum hjá Sturlu Böðvarssyni vestur á Snæfellsnesi eða þá norður í Héðinsfirði.

           

Þessi ágæti maður er Reykvíkingur og þarf þess vegna ekki að komast til Reykjavíkur. Og virðist ekki heldur þurfa að komast þaðan.

             

En hvað með stjórnarráðið, svo dæmi sé tekið? Og hvað með Alþingi?

              

Hvernig væri að hafa stjórnarráðið vestur á Snæfellsnesi og Alþingi norður í Héðinsfirði?

                

Sú tilhögun gæti stuðlað að þrískiptingu ríkisvaldsins hérlendis.

               

Minnir fyrirsögnin ykkur annars á eitthvað?

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingólfur H Þorleifsson

Sæll Hlynur

Þetta er einmitt málið að það erum við á landsbyggðinni sem notum þennan flugvöll og það er kominn tími til að fólk í Reykjavík átti sig á því.

Ingólfur H Þorleifsson, 18.4.2007 kl. 12:01

2 Smámynd: Hlynur Þór Magnússon

Og, Ingólfur. Mér fannst það í hæsta máta undarlegt þegar fram kom frá Baráttusamtökunum - hagsmunasamtökum öryrkja og eldri borgara - að þau væru komin í bandalag með öðrum samtökum sem hafa það eitt á stefnuskránni að henda Reykjavíkurflugvelli burt. Væri slíkt til bóta fyrir gamla fólkið - gamla fólkið sem margt á sínar rætur og sitt fólk úti á landi? Væri það til bóta fyrir það fólk sem vill komast á milli - til Reykjavíkur eða út á land - að gera samgöngurnar erfiðari, tímafrekari, dýrari ...?

Hlynur Þór Magnússon, 18.4.2007 kl. 12:12

3 Smámynd: Eiður Ragnarsson

Þetta er einmitt málið, vinir okkar og frændur á torfunni vilja margir hverjir hafa alla kosti þess að búa í höfuðborg landsins, en vilja ekki rækja neinar af þeim skyldum sem höfuðborg hefur, nema að sjálfsögðu það falli að þeirra hugmyndum um skyldur og hlutverk.

En það hugsa nú reyndar ekki allir svona, sem betur fer..´

Eiður Ragnarsson, 18.4.2007 kl. 12:16

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Í erlendum höfuðborgum eru aðaljárnbrautastöðvar nálægt miðju. Samgöngumiðstöð og flugvöllur í Reykjavik samsvarar slíkri miðstöð. Ég á eftir að sjá að veðurskilyrði á Hólmsheiði verði nógu góð fyrir flugvöll þar, finnst það frekar ólíklegt. En niðurstöður rannsókna á því koma ekki fyrr en eftir 4-5 ár.

Þess vegna er út í hött að ræða nú um það að færa flugvöllinn þangað. Sú umræða getur ekki byrjað að neinu viti fyrr en eftir 4-5 ár.

Samgöngur eru höfuðborginni og landinu það sama og hjarta og æðakerfi í mannslíkamanum. Þegar samgöngumiðstöðin er komin slær þetta hjarta við hlíðarfót Öskjuhlíðar og það kemur allri þjóðinni við hvernig við skipum þessum málum.

Ómar Ragnarsson, 18.4.2007 kl. 14:15

5 Smámynd: Snorri Hansson

Alvöru samgöngumiðstöð kemur til með að margfalda notkun almennings faratækja
vegna þess að þarna verður miðpunkturinn. Hvað segið þið um sporvagn til og frá
í miðbæinn. ? :)

Snorri Hansson, 18.4.2007 kl. 16:01

6 Smámynd: Finnur Ólafsson Thorlacius

Þið eruð nú meiru vælukjóarnir, sé ekki að það drepi nokkurn mann að þurfa að keyra í auka 20min til Keflavíkur til að komast í flug

Annars segi ég skoðun mína á þessu í stuttu máli hér http://finnurth.blog.is/blog/finnurth/

Finnur Ólafsson Thorlacius, 18.4.2007 kl. 17:47

7 Smámynd: halkatla

heheh mér finnst bara fyndið að þeir sem vilja flugvöllinn ekki burt séu kallaðir væluskjóður. Ég hef nefninlega mjög oft farið að gráta með hinum ofurvæluskjóðunum sem endilega vilja flugvöllinn burt, allt það fólk á það sameiginlegt að ef það opnar á sér munninn byrjar að heyrast væl um að það verði að losna við flugvöllinn, það er svo mikill hávaði og bla bla bla... ótrúlega fyndið að horfa uppá þessar væluskjóður

Og að sjálfsögðu á ekki að standa í þessu ótrúlega veseni að fara að færa flugvöllinn. Það eru 100 mikilvægari og skynsamlegri mál sem þarf að taka á. Opnið hugann aðeins og hættið að einblýna á þennan flugvöll. Plís

halkatla, 18.4.2007 kl. 18:24

8 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Sammála þeim, sem finnst flugvallarmálið ótímabært mál nú. Hér er verið að henda þessu á loft til að draga athyglina frá mikilvægari málum.  Notum peninga í að koma vegasamgöngum í sómasamlegt horf og tengja alla hluta landsins í nothæft net. Svo má meta þörf flugvallarins.  Það að Reykjavíkurflugvöllur sé að verða í síauknu mæli notaður fyrir millilandaumferð og einkaþotuflug, mælir ekki með honum.  Það er bæði spurning um öryggi íbúa og mengun.  Flugvöllur verður ekki settur hvar sem er eins og Ómar bendur á.  Gamla hugmyndin um einteinung til Keflavíkur hugnast alltaf betur.  Það er hugsanlegt að takmarka umsvif flugvallarins ef hann miðast eingöngu við farþegaflug innanlands. Vöruflutningar, einkaumferð og millilandaflug gæti farið um Keflavíkurvöll. 

Jón Steinar Ragnarsson, 18.4.2007 kl. 19:17

9 Smámynd: Magnús Jónsson

Reykjavíkurflugvöll á Bessastaðanes.

Nú er flugvöllurinn aftur á milli tannanna á mönnum og enginn minnist á ákjósanlegasta staðinn fyrir hann ef þarf að færa hann á annað borð, það er að byggja hann á Bessastaðanesi, þar eru aðstæður ef eitthvað er betri en í vatnsmýrinni, landrím i er nóg aðeins þarf að fylla lítillega út í sjó til að ná æskilegum lengdum á flugbrautir.

Magnús Jónsson, 18.4.2007 kl. 22:20

10 Smámynd: Pétur Gunnarsson

Hlynur, þetta er nú ekki sanngjarnt og nú vil ég fá að gerast nokkuð langorður í kommentakerfinu þínu.

1. Samgöngumiðstöð: Staðsetning hennar hlýtur að vera háð framtíðarstaðsetningu flugvallarins, þegar sveitarfélagið er að vinna þá vinnu á ríkisvaldið ekkert með að vera að stíga einhver skref sem miða við að festa núverandi skipulag í sessi. 14 borgarfulltrúar af 15 hafa samþykkt að vinna að flutningi. Tók stórt upp í mig en sneiðin var ætluð ráðherranum sem er með sýndarútspil sem engin eftirspurn er eftir hér en ekki öðru.

2. Skýrslan sem kom út í dag sýnir að þótt Hólmsheiðin skili mestum þjóðhagslegum ávinningi eða 38 milljörðum er Löngusker mjög hagkvæmur kostur og þjóðhagslegur ávinningur áætlaður 33 milljarðar. Um leið fær Lönguskersleiðin í skýrslunni uppreisn æru eftir spunavæl andstæðinga í síðustu kosningabaráttu, hún fær - ein kosta - hæstu einkunn í öllum þáttum sem kannaðir eru, Hólmsheiði fær aðeins hæstu einkunn í tveimur þáttum af 10.

Meginmálið í mínum huga er: 1. Losa Vatnsmýrarlandið. 2. Flugvöllurinn fari ekki til Keflavíkur, einmitt vegna þess að ég vil að Reykjavík þjóni landsbyggðinni. Löngusker nái þessu markmiði best og mér finnst það þess virði að afsala sér muninum á 38 milljörðum og 33 milljörðum og velja þá leið. Það væri því best fyrir landsbyggðarfólk að fylkja liði um Lönguskersleiðina í stað þess að reyna að standa í vegi fyrir því að borgin nái að þróast með hagkvæmum og nauðsynlegum hætti.  

Það er ósanngjarnt að saka mig um að horfa þetta eingöngu frá sjónarhóli Reykvíkinga, þá væri ég ekki í framsókn, ég hef stutt uppbyggingu vega og innviða samfélags t.d. á Vestfjörðum og lagst m.a. gegn vitleysu eins og vegi um Arnarvatnsheiði vegna þess að ég vil að hér sé ein þjóð í landinu og sameiginlegir hagsmunir séu í fyrirrúmi. En ég er hins vegar ekki tilbúinn til þess að Reykvíkingar neiti sér um að skipuleggja landnotkun í sínu sveitarfélagi og haldi áfram þeirri sóun á landgæðum sem fólgin er í því að flugvöllurinn sé áfram á þessum stað, allra síst nú þegar það stefnir í að annar raunhæfur kostur sé í boði, sem sagt Löngusker.

Birti þetta líka mín megin í aths. 

Pétur Gunnarsson, 18.4.2007 kl. 22:39

11 Smámynd: Hlynur Þór Magnússon

Þakka þér, Pétur. Þú tekur sneiðina réttilega til þín. Ég leyfi mér að segja um klausuna mína eins og þú segir um þín skrif, sem urðu eitt af tilefnum hennar: Tók stórt upp í mig ...

Hlynur Þór Magnússon, 18.4.2007 kl. 22:58

12 identicon

80% landsmanna nota þennan flugvöll aldrei. Það er absúrd að halda höfuðborginni í gíslingu með dýrmætt byggingarland til þess að vernda brothætta sjálfsmynd 20%.

Það eru augljósir hagsmunir heildarinnar að fara með innanlandsflugið til Keflavíkur og hætta þessu nöldri.

Gleðilegt sumar. 

Páll Ásgeir (IP-tala skráð) 19.4.2007 kl. 13:40

13 Smámynd: Óli Garðars

Bretar byggðu London City Airport fyrir nokkru. Í Docklands.

Sérhæfir sig í styttri flugleiðum, t.d. Paris, Brussels, Amsterdam o.fl. Völlurinn er nærri hjarta Lundúna og átti að auðvelda svona smáhopp til meginlandsins og spara tíma.

Nákvæmlega það sama og flugvöllurinn í Vatnsmýrinni gerir, sparar tíma og peninga fyrir alla sem fljúga innanlands.

Óli Garðars, 19.4.2007 kl. 18:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband