Dúllukeppnin 2007 stendur sem hæst. Alls voru tilnefndar rúmlega 150 dúllur og nú að lokinni spennandi undankeppni standa 32 dúllur eftir. Hér er um útsláttarkeppni að ræða og til þess að komast í 16 dúllna úrslit þarf ég að sigra Bill Murray, en hann er einkennilega líkur séra Erni Bárði Jónssyni í Nesprestakalli.
Ég frétti ekki af þessari keppni fyrr en seint og um síðir, reyndar ekki fyrr en nú þegar ég er kominn í þrjátíu og tveggja dúllna úrslit. Gerði mér ekki einu sinni grein fyrir því að ég er dúlla. Sá þetta hérna - rétt er að benda á umræðurnar sem þar hafa skapast um þetta mál. M.a. kemur fram, að einhverju sinni hafi Þórarinn V. Þórarinsson sigrað í þessari árlegu keppni. Jafnframt kemur fram, að Konráð Jónsson forstöðumaður keppninnar mun vera sonur hæstaréttardómara, sem er fæddur árið 1947 eins og ég og stúdent frá MR eins og ég. Niðurstöðum verður ekki áfrýjað, skilst mér.
Ég þakka vinum og velunnurum til sjávar og sveita nær og fjær, sem hafa stutt mig í þessari keppni með ráðum og dáð án þess að ég hefði um það minnstu hugmynd að ég væri að keppa. Hér er við ramman dúllu að draga enda við marga mjög frambærilega keppendur að etja. Þar má nefna t.d. Sigurð H. Richter, Hugo Chavez, Baldur Ágústsson fyrrverandi næsta forseta Íslands, Adolf Inga Erlingsson, Elías Davíðsson, Pál Pétursson, Pál Hreinsson lagaprófessor, Margeir Pétursson stjórnarformann (sem sumir segja að sé frekar ab-dúlla en dúlla), nafnana Úlfar Eysteinsson og Úlfar Eysteinsson, sem báðir eru kokkar, Bjarna Harðarson framsóknarmann, Roseanne Barr, Þórð Sveinsson lögfræðing Persónuverndar, Smára Geirsson fyrir austan, Wilson Muuga, Carl Bildt og Jónas Sen. Athygli vekur, að einungis tvær konur komust í 32ja dúllna úrslit, þær Roseanne Barr og Carl Bildt.
Koma svo!
Athugasemdir
Æi----DÚLLAN!
Vilborg Traustadóttir, 20.4.2007 kl. 07:38
Ég hef fulla trú á þér! Það eru allir í þessari keppni ab-dúllur nema þú... kannski fyrir utan Sigurð Richter sem er algjör dúlla. En þar sem þú ert eðal-dúlla á hann engan séns!
Kjósa svo pípúl!
Jónína Sólborg Þórisdóttir, 20.4.2007 kl. 09:15
Hef kosið og vafðist ekki fyrir mér. Þarna eru tveir, sem geta ekki verið dúllulegir. Búnir að vera dauðir í einhvern tíma. James Brown og Rod Steiger held ég sé örugglega orðinn láréttur.
Jón Steinar Ragnarsson, 20.4.2007 kl. 10:46
Hvar á að kjósa? Hvern á að kjósa? Ég er allavega í framboði. (Í níunda sæti á lista Íslandshreyfingarinnar í NV-kjördæmi). Kveðjur,
Sigríður Jósefsdóttir, 20.4.2007 kl. 11:44
Jón Steinar: Einu sinni dúlla, ávallt dúlla, bæði þessa heims og annars.
Sigríður: Ef smellt er á orðin Hér er um útsláttarkeppni að ræða nærri því efst í textanum, þá birtist allt sem við á að éta. Ekki mæli ég með því að kjósa eina dúllu frekar en aðra, nema Úlfar Eysteinsson, en það er óhjákvæmilegt. Og gangi þér og ykkur sem best að vinna í þágu góðs málefnis!
Hlynur Þór Magnússon, 20.4.2007 kl. 12:55
Svo vill enginn hafa mig á lista. Brjálaðan hugsjónamann, fjallmyndalegann og þó nokkra dúllu.
Jón Steinar Ragnarsson, 20.4.2007 kl. 13:02
Jón Steinar: það verður bráðum málefnadúllukeppni
Jónína Sólborg Þórisdóttir, 20.4.2007 kl. 13:38
Þessi Dúllukeppni er þjóðþrifamál. Veljum íslenskt hljómaði í huga mínum meðan ég kaus. Stend með bloggvini Hlyni...Annars eru margar dúllur kallaðar en fáar útvaldar. Hallur Hallsson kenndi mér ensku á Laugum í Reykjadal. Hann var og er MIKIL dúlla.
Vilborg Traustadóttir, 20.4.2007 kl. 13:42
Búin að kjósa. Verð að segja, að mér fannst nú myndin af Halli Hallssyni minna mig all mikið á aflóga seðlabankastjóra. Bestu kveðjur, og takk fyrir góðar óskir til mín og Íslandshreyfingarinnar.
Sigríður Jósefsdóttir, 20.4.2007 kl. 14:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.