Listi Íslandshreyfingarinnar í NV-kjördæmi: Átta af átján búsettir syðra

Athygli hlýtur að vekja, að átta af átján manns á lista Íslandshreyfingarinnar í Norðvesturkjördæmi eru til heimilis á höfuðborgarsvæðinu - fimm í Reykjavík, tveir í Kópavogi og einn á Seltjarnarnesi. Aðeins vantar einn upp á helminginn.

 

Ef athugað er með búsetu hinna, þá eru tveir á Vesturlandi (á Akranesi og í Borgarnesi), fjórir á Vestfjörðum (allir á norðursvæðinu) og fjórir á Norðurlandi vestra (þrír í Skagafirði og einn í Húnavatnssýslu).

                   

Vissulega er þetta heimilt og hjá öllum flokkum hefur tíðkast að einhver tilvik séu af þessu tagi. Þetta háa hlutfall bendir hins vegar til þess, að illa hafi gengið að fá fólk í kjördæminu á listann. Af einhverjum ástæðum. Kannski var of seint farið af stað. Kannski voru ekki nógu margir nógu víða virkjaðir til starfa nógu snemma.

                    

Frá gamalli tíð þekki ég einn af frambjóðendunum sem búsettir eru syðra. Það er ágæt kona sem á uppruna sinn og frændgarð fyrir vestan. Þessa finnst mér skylt að geta. Deili veit ég á öðrum, en hann er af einni kunnustu ætt á Ísafirði nokkuð á aðra öld. Ættmenni þau á Ísafirði voru í eina tíð kölluð Gilsbekkingar, kennd við Gilsbakka í Hvítársíðu, þar sem ættfaðirinn var prestur á fyrri hluta 19. aldar. Þannig má segja, að í þessum tilvikum séu ræturnar í kjördæminu fyrir hendi!

                        

Enda þótt ég hyggist ekki kjósa Íslandshreyfinguna - ekki er hægt að greiða nema einu framboði atkvæði, kannski því miður - þá óska ég henni og þessu ágæta fólki alls góðs. Mjög vel finnst mér hafa til tekist þegar skipað var í efsta sætið í Norðvesturkjördæmi.

                  

Hver svo sem afraksturinn reynist þegar talið verður upp úr kjörkössunum, þá sýnist mér eitt víst: Barátta Ómars Ragnarssonar hefur sannarlega markað spor í þjóðarvitundina. Og meira en það: Ég leyfi mér að segja, að framganga hans hafi haft veruleg áhrif á gömlu stjórnmálaflokkana og viðhorf þeirra. Það er ekki lítill árangur!

                      

Í því ljósi skiptir kannski ekki öllu máli hvort hreyfing hans kemur fleiri eða færri mönnum inn á þing að þessu sinni. Ómar hefur þegar unnið frækilegan sigur. Og, ég leyfi mér að bæta við: Maðurinn sjálfur er þjóðareign, hreinlega þjóðargersemi.

                    

                        

Viðbót, árétting - alltaf þarf maður að fá einhverja bakþanka:   

          

Þau ummæli mín, að e.t.v. skipti ekki öllu máli hvort þingmenn Íslandshreyfingarinnar verða fleiri eða færri, mótast væntanlega eitthvað af niðurstöðum skoðanakannana þessa dagana. Í þessu felst samt engin spá, hvað þá ósk af því taginu sem alþekkt er úr kvæði Stephans G. um Jón hrak. Í þessu felast engin lymskuleg skilaboð þess efnis, að ástæðulaust sé að kasta atkvæði sínu á Íslandshreyfinguna. Fullvissa mín um úrslit í síðustu bæjarstjórnarkosningum í Ísafjarðarbæ stóðst með þeim hætti, að líklega ætti ég að láta það eiga sig að mynda mér skoðanir samkvæmt skoðanakönnunum ...

                      

                             

Sjá: Íslandshreyfingin - lifandi land: Framboðslistinn í Norðvesturkjördæmi

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jónína Sólborg Þórisdóttir

Ég er ekki ennþá búin að skipta um skoðun - ég ex-a við Í þegar ég fer inn í kjörklefann. Alveg pottó

Jónína Sólborg Þórisdóttir, 26.4.2007 kl. 08:22

2 Smámynd: Heiða B. Heiðars

Æi hvað ég er fegin að þú ætlar ekki að kjósa Íslandshreyfinguna Hlynur!

Jónína Sólborg.... tala betur við þig seinna

Heiða B. Heiðars, 26.4.2007 kl. 13:37

3 Smámynd: Hlynur Þór Magnússon

Jón Kristófer: Guð agar þá sem hann elskar, var einhverju sinni sagt ...

P.s.: Mér hefur nú verið sagt, að fleiri en þessi átta séu í raun með fasta búsetu og lögheimili syðra.

Hlynur Þór Magnússon, 26.4.2007 kl. 14:58

4 Smámynd: Ingólfur H Þorleifsson

Kristján Pétursson sonur Margrétar Sverrisdóttur hefur mér vitanlega aldrei búið á Ísafirði. Hvers vegna er ekki bara hægt að segja hvaðan hann er. Það er ekki nóg að sofa nokkrar nætur á ári í sumarbústað á Ísafirði til að verðqa Ísfirðingur.

Ingólfur H Þorleifsson, 26.4.2007 kl. 19:55

5 Smámynd: Sigríður Jósefsdóttir

Sæll Ingólfur, mér er ljúft og skylt að upplýsa það, að Kristján Pétursson á lögheimili á Kirkjubæ, 400 Ísafjörður.  Með góðum kveðjum,

Sigríður Jósefsdóttir, 29.4.2007 kl. 20:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband