Vantar húsráð

Er ekki til eitthvert húsráð gegn aðsteðjandi fressköttum? Hér er til heimilis læða á besta aldri, Helga Guðrún Geirdal að nafni, og fær pilluna vikulega. Hjá læðum verkar pillan þannig, að þær verða ekki breima og hafa ekki áhuga á fressum.

 

Hins vegar lónar hér í görðum fressköttur sem virðist hafa mikinn áhuga á læðunni. Ef til vill er það einungis félagsskapurinn, ef til vill eitthvað meira, ég veit það ekki. Hélt reyndar að högnar sæktust ekki í læður nema þær væru breima.

 

Högni þessi er mjög styggur og tekur á sprett ef ég læt sjá mig og hvæsi að honum. Svo er hann brátt kominn aftur, liggur álengdar og einblínir hingað. Stalking er þetta víst kallað á dönsku. Helga Guðrún er hrædd við hann. Fyrir skemmstu heyrði ég skelfingaróp utan úr garði og sá þá högnann elta læðuna. Aldrei hef ég séð ketti á þvílíkum spretti. Mér komu í hug ljóðlínur Æra-Tobba: Þambara vambara þeysisprettir / því eru hér svo margir kettir?

     

Stundum þegar kisa mín hefur hætt sér út, haldandi að fresskötturinn sé hvergi nærri, þá birtist hann fyrirvaralaust og kisa forðar sér inn og felur sig undir sófa.

     

Þetta er eiginlega alveg ómögulegt.

     

Ekki hef ég neitt á móti fresskettinum persónulega. Mér er meira að segja hlýtt til hans eins og allra dýra og sums fólks. Ekki er við blessaðan útigangsköttinn að sakast þó að hann leiti sér félagsskapar á milli þess sem hann sefur undir brúm.

     

Samt vildi ég að hann léti af komum sínum.

     

Mig minnir, að einhvern tímann hafi ég heyrt um eitthvað sem gagnaðist í tilvikum sem þessu. Að einhverju efni væri úðað utandyra og fresskettir héldu sig fjarri. Hvort þetta var edik eða kanill eða vígt vatn eða einhver galdrablanda af Ströndum man ég alls ekki.

     

Getur einhver liðsinnt í þessum efnum?

    

    

16.01.2007 Ekki þverfótað fyrir litlum hvítum ketti

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hyggur hún á kisubarneignir?
Væri ekki bara ágætt að leyfa þessum herramanni að sá fræi í frjóan svörð? Svo eru pillur fyrir kisur eru ekkert svakalega hollar, mun betra að kippa þeim úr sambandi.

Sigríður (IP-tala skráð) 2.5.2007 kl. 13:12

2 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Skvettu vatni á kauða - tvisvar til þrisvar, þá hættir hann að hafa gaman af þessu. Hann er ekkert að sverma fyrir henni - þetta er bara yfirráðahneigð. Fresskettir láta svona, sérstaklega við gamlar læður og geldar (sem þín læðar er auðvitað um þessar mundir).

Ef það dugir ekki þá bankarðu upp á hjá eigandanum og gefur honum færi á að láta gelda köttinn, áður en þú sjálfur takir til þinna ráða.

Góðar kveðjur til þín úr Ísafjarðarlogninu

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 2.5.2007 kl. 13:38

3 Smámynd: Ibba Sig.

Tek undir með Ólínu, bara sprauta á kvikindið. Ég notaði það ráð þegar kanínan mín, sem nú er týnd, skoppaði um garðinn og fantakettir komu að stríða henni. Virkaði fínt. 

Ibba Sig., 2.5.2007 kl. 13:58

4 Smámynd: Ester Sveinbjarnardóttir

Þeim er meinilla við sítrónu og appelsínulykt, væri gott að spreyja á hann eða í kring þar sem hann heldur sig.  Nú er bara að skafa börk og láta verkin tala.

Ester Sveinbjarnardóttir, 2.5.2007 kl. 14:07

5 Smámynd: Vilborg Traustadóttir

Sumir hafa hellt klór á staði þar sem þeir vilja ekki hafa ketti (þröskulda og tröppur eða sólpalla, umfram allt ekki yfir læðuna).  Nú er það kannski ekki ráð þar sem ég er heldur ekki viss um hve vistvænn klórinn er gagnvart gróðri! Sennilega betra með appelsínubörkinn.

Vilborg Traustadóttir, 2.5.2007 kl. 14:46

6 identicon

Ajax með salmíaki hefur virkað fínt á þröskuldinn eða útihurðina. Í sambandi við garðinn þá veit ég af einhverju grænu geli sem fæst í dýrabúðum eða blómabúðum sem (gæti heitið "get off") og er til þess ætlað að bera í garðinn til þess að halda köttum frá. Þó veit ég ekki hvernig áhrif það hefði á húsfrúna sjálfa hana Helgu!

Anna Málfríður (IP-tala skráð) 2.5.2007 kl. 18:05

7 Smámynd: Elías Halldór Ágústsson

Ég hef heyrt að edik virkaði vel, en hef þó ekki sannreynt það, enda vil ég helst hafa ketti sem víðast.

Elías Halldór Ágústsson, 3.5.2007 kl. 14:31

8 Smámynd: Guðrún Magnea Helgadóttir

Það er þetta með ,,Náttúruna". Náttúran kallar að sinna þörfum sínum þegar henni er mál og þá til að viðhalda stofni sínum. Ég hélt að karlar skildu það.

Guðrún Magnea Helgadóttir, 3.5.2007 kl. 19:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband