Senn verður farið að flytja inn lambakjöt frá Nýja-Sjálandi, nú þegar Guðna nýtur ekki lengur við í landbúnaðarráðuneytinu. Annað þætti mér samt ennþá brýnna að flytja inn: Þorsk, hvar í andskotanum sem hann myndi annars fást. Kannski á Nýja-Sjálandi eins og lambakjötið? Ég man ekki almennilega lengur hvar í heiminum þorskur veiðist.
Í uppvextinum vandist ég því að éta fisk og þótti nýr þorskur góður. Hann fékkst iðulega í fiskbúðum syðra þegar ég átti heima í Reykjavík en eftir að ég settist að vestur á fjörðum fyrir rúmum tuttugu árum sá ég hann ekki meir. Reyndar ekki annan fisk en niðursoðinn túnfisk frá Tælandi með Ora-merkingum. Sagt var að ekkert þýddi að hafa fisk til sölu, hann seldist ekki neitt því að allir gætu fengið hann ókeypis. Það gilti reyndar ekki um mig. Auk þess var mér sagt að Íslendingar ætu ekki þorsk og allra síst Vestfirðingar.
Líklega er bráðum aldarfjórðungur síðan ég hef étið nýveiddan þorsk eða yfirleitt séð hann á boðstólum. Hversu ferskur hann yrði eftir flutning frá Nýja-Sjálandi eða Vancouver eða Kamtsjatka og hingað vestur veit ég ekki. Líklega samt ámóta ferskur og lambakjötið.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:09 | Facebook
Athugasemdir
Bónus flytur inn ufsa frá Alaska til að selja okkur á 99 kr kg
Einar Þór Strand, 22.5.2007 kl. 17:52
Það er og var étinn þorskur reglulega á heimili foreldra minna á Akureyri. Ég er reyndar með ofnæmi fyrir fiski og var því ekki sérlega hrifin, sérstaklega vegna þess að foreldrar mínir trúðu því ekki að nokkur gæti verið með ofnæmi fyrir fiski og þetta var því afgreitt sem matvendni.
En að láta sér detta í hug að bjóða Íslendingum nokkuð annað en íslenskt lambakjöt er fáránlegt. Ég þreytist ekki á að segja þetta.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 23.5.2007 kl. 19:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.