Öfundartaut Ólínu Þorvarðardóttur varðandi Flateyri

Mér kemur verulega á óvart, að það skuli koma nokkrum á óvart að kvótinn skuli hafa verið seldur frá Flateyri. Hvernig getur það komið á óvart að menn eigi viðskipti í nútímaþjóðfélagi? Ég hefði kannski skilið að Gísli heitinn á Uppsölum í Selárdal við Arnarfjörð hefði ekki skilið þetta. En ekki núlifandi menn sem fylgjast með samfélagsmálum. Þetta er einfaldlega eðlilegur partur af því kerfi í sjávarútvegi sem stjórnvöld hafa skapað. Gísli á Uppsölum var aldrei núlifandi maður.

 

Næst lýsa menn kannski furðu sinni á því að vatn skuli renna niður í móti. Það gerði það ekki í frostakaflanum í vor! Gerðist reyndar við norðanverðan Dýrafjörð á sínum tíma, ef marka má Gísla sögu Súrssonar. Kannski verða menn líka hissa á því að sólin skuli skína fram eftir kvöldi. Hún gerði það ekki í vetur!

 

Ólína Þorvarðardóttir fárast yfir því - vinstra öfundarliðinu líkt! - að aðaleigandi Kambs hafi nettó um tvo milljarða króna í aðra hönd eftir átta ára vinnu. Tvo milljarða! Það er ekki nema jafnvirði sæmilegrar afmælisveislu með þokkalegum skemmtikrafti - Elton John kæmi til greina, eða Facon á Bíldudal - ásamt kannski skitnum hundrað milljónum í aflátssjóð þannig að tryggð sé eilífðarvist í Himnaríki hjá Guði.

 

Var ekki einmitt boðað til messu í Flateyrarkirkju til að ganga formlega frá þessu við Guð?

 

Það sýnir best hversu vonlaus sjávarútvegurinn er hérlendis, að menn sem byrjuðu gjafakvótalausir á núlli fyrir átta árum skuli ekki hafa eftir í aðra hönd nema tvo milljarða nettó þegar þeir loksins gefast upp. Einhver verkamaðurinn hefði nú gefist upp á þeim kjörum og bara keypt sér hús á Spáni! Sem betur fer er staða þeirra sem fengu gjafakvótann frá þjóðinni á sínum tíma heldur skárri. Þar er ekki verið að telja í stökum milljörðum.

 

Hvernig vinstra öfundarfólkið getur látið!

 

Núna er Ísafjarðarbær að hugsa um að stofna nefnd til að athuga hvort rétt sé að stofna nefnd til að athuga hvort rétt sé að stofna félag til að athuga hvort rétt sé að athuga með hugsanleg kaup á eignum Flateyrar. Ísafjarðarbær er alveg eins hissa og Gísli á Uppsölum hefði verið. En sumir aðrir eru ekki lengi að átta sig á hlutunum. Fram kemur í fréttum að þegar sé búið að selja mestan partinn af eignum Flateyringa.

 

Jafnvel þó að enginn hafi vitað neitt fyrr en löngu eftir kosningar.

 

Sem voru fyrir rúmri viku.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Herbert Guðmundsson

Er ekki tímabært fyrir þig að flytja suður aftur? Það fæst ekki bara nýr þorskur hér, og sjófrystur þorskur eins og kallað er, heldur alls konar fiskur hrár og eldaður. Nefndu það bara. Það er að vísu galli að þetta fiskifár er ekki ódýrt frekar en aðrar guðsgjafir sem eru víst hvergi ókeypis frekar en hádegisverðir yfirleitt.

Herbert Guðmundsson, 22.5.2007 kl. 21:32

2 identicon

Hún getur verið þreytandi eins vel gefin og hún er. Hvað er það?

Jónína Benediktsdóttir (IP-tala skráð) 22.5.2007 kl. 22:49

3 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Ísafjarðarbær að athuga með kaup á því sem eftir er á Flateyri! Básafellsbullið að endurtaka sig? Allir að sjálfsögðu búnir að gleyma því. Hver hefur heft Vestfirðinga umfram aðra í kvótamálum? Getur verið að mistækir og jafnvel ómögulegir stjórnendur fyrirtækjanna á Vestfjörðum eigi einhvern hlut að máli? Hvað varð um stórveldið Einar Guðfinnsson HF og hverjir brytjuðu það í frumeindir á mettíma? Spyr sá sem ekki veit. Eina sem eftir stendur af því stórveldi er ráðherrastóll.

Halldór Egill Guðnason, 22.5.2007 kl. 23:24

4 Smámynd: Hlynur Þór Magnússon

Varðandi fyrirtækið Einar Guðfinnsson hf., þá var það Landsbankinn / Sverrir Hermannsson sem braut það undir sig með ámóta réttmætum aðferðum og þegar Kolkrabbinn réðst á Hafskip / Björgólf og Ragnar á sínum tíma. EG-fyrirtækin voru lögð í rúst með gerræði líkt og rekstur Björgólfs og Ragnars. Ráðherrastóll fv. útgerðarstjóra hjá EG er ekki til kominn vegna þess fyrirtækis, sem var eyðilagt af óvildarmönnum þess, heldur vegna verðleika mannsins sjálfs og þrátt fyrir það sem gert var.

Hlynur Þór Magnússon, 22.5.2007 kl. 23:36

5 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Já, það er satt Hlynur - þetta er ekki nema hungurlús á gatslitnum fataræflum.

Þú ert góður stílisti og hárbeittur í íroníunni þegar sá gállinn er á þér. Takk fyrir þitt innlegg.

PS: Þín er saknað héðan norðan heiða - BB ekki svipur hjá sjón eftir að þú fórst.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 22.5.2007 kl. 23:44

6 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Ofangreind athugasemd á við um pistilinn sjálfan - ekki athugasemd síðuhöfundar hér beint fyrir ofan (sá hana ekki þegar ég setti mína athugasemd inn).

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 22.5.2007 kl. 23:47

7 Smámynd: Hlynur Þór Magnússon

Þakka þér kærlega, Ólína. Athugasemd mín hér í miðjum klíðum, sem þú nefnir, snýr auðvitað ekki á nokkurn hátt að sjálfu umræðuefninu hér, heldur að tengslum ákveðins manns við ákveðið fyrirtæki sem keyrt var í gjaldþrot fyrir mörgum árum. Eiginlega grábölvað að maður skuli yfirleitt vera að gera einhverjar athugasemdir út og suður í athugasemdadálkinum hjá sjálfum sér ..

Hlynur Þór Magnússon, 23.5.2007 kl. 00:13

8 Smámynd: Hlynur Þór Magnússon

Herbert - mér sýnist alveg ljóst, að athugasemdin þín á við klausuna mína hér á undan um þorskinn ...

Hlynur Þór Magnússon, 23.5.2007 kl. 00:14

9 Smámynd: Ester Sveinbjarnardóttir

Kvótakerfið er náttúrulega ónothæft, það er löngu vitað en ekkert gerist í málunum samt.

Ester Sveinbjarnardóttir, 23.5.2007 kl. 07:52

11 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Oft fínir og fróðlegir pistlar frá þér Hlynur og gott að geta fylgst með Vestfjörðum í gegnum skrif þín, og þessi er sérlega skemmtileg háðsádeilu á kvótakerfið og Kamb. Takk fyrir afbragðs skrif. 

Helgi Jóhann Hauksson, 23.5.2007 kl. 14:48

12 identicon

Frábær pistill !  Þegar togarinn Gyllir (sá nýrri) var seldur frá Flateyri á sínum tíma tók fólk andköf og jesúsaði sig í bak og fyrir.  Kona ein ónefnd fékk næstum hjartaáfall og sá fjárfestingar sínar gufa upp með það sama. Haft er fyrir satt að hún hafi sagt í umræðum um málið "Jesús minn góður guð! Þeir eru búnir að selja togarann og ég sem er nýbúinn að skipta um teppi á stofunni !!!".  Svona var nú staðan þá og sennilega svipuð nú.  Ég held hins vegar að húsið mitt á Flateyri sé ívið verðmeira nú en fyrir endalok Kri... Kambs.  Það er til sölu fyrir rétt verð og eru að verða síðustu forvöð fyrir þá sem vilja njóta útsýnis yfir iðandi mannlífið á höfninni.  Get, þrátt fyrir allt, lofað útsýni yfir höfnina áfram en mannlíf er sennilega best að nálgast í hillum verslana.

Jón Svanberg (IP-tala skráð) 24.5.2007 kl. 13:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband