Njálsgatan úr sögunni - heimilisleysingjar verði vistaðir í Hrísey

Bakslag er komið í þau áform Reykjavíkurborgar, að tíu manns úr hópi þeirra, sem minnst mega sín og ekkert eiga, verði búið heimili í húsi við Njálsgötuna. Þessi áform hafa vakið hörð viðbrögð fólks sem býr í grenndinni og vill ekki hafa fólk af því tagi í sínu hverfi, eins og skiljanlegt er.

 

Við þessu er ekkert að segja. Líklegt má telja, að fólkið sem býr í þessu hverfi sé ekki frábrugðið fólki í öðrum hverfum eða fólki yfirleitt. Líklegt má telja, að slík viðbrögð komi fram í hvaða hverfi sem væri. Hafa raunar gert það. Ekki eykur það virðingu nokkurs hverfis, að heimilislausir eigi þar heimili.

 

Hvað er þá til ráða? Einhvers staðar verða vondir að vera, eins og sagt er.

 

Einboðið er, úr því að ekki er við hæfi að heimilislausum verði búið heimili í hverfi, að þeir verði utan hverfa. Utan samfélags við sómakært fólk, sannkristið vinnandi fólk, utan samfélags við aðra, líkt og drengirnir í Breiðavík á sínum tíma.

 

Í Hrísey var lengi einangrunarstöð (sóttkví) fyrir gæludýr. Þeirri starfsemi hefur verið hætt á þeim stað.

 

Alltaf er verið að tala um að flytja verkefni út á landsbyggðina og snúa vörn í sókn í baráttunni gegn fólksfækkun á landsbyggðinni. Væri það ekki hið besta mál, að fólk sem er með lögheimili óstaðsett í hús, eins og það heitir - heimilisleysingjar, gæludýr borgaryfirvalda að mati fólksins í grennd við Njálsgötu 74 - fái í senn heimili og lögheimili í einangrunarstöðinni í Hrísey?

 

Styðjast mætti á ýmsan hátt við reglugerð nr. 432/2003 um einangrunarstöðvar og sóttkvíar fyrir gæludýr. Einungis komi orðið heimilisfólk í staðinn fyrir orðið dýr og nöfn dýrategunda. Hér má t.d. nefna 6. og 7. gr. reglugerðarinnar:

 

6. gr.
Ytri varnir.

 

Umhverfis einangrunarstöð skal reisa vegg eða girðingu að lágmarki 180 cm á hæð. Sé veggur eða girðing lægri en 3 m skal bæta þar ofan á a.m.k. 60 cm hárri vírnetsgirðingu, sem hallar 45° út á við. Girðingin skal vera úr vír að lágmarki 2,0 mm í þvermál og má möskvastærð ekki vera meiri en 5 cm. Sé útveggur byggingar hluti ytri marka stöðvarinnar skal hann vera heill, án dyra. Ytri varnir skulu grafnar það djúpt í jörðu að dýr geti ekki grafið undir þær. Útivistarsvæði fyrir hunda og ketti skulu útbúin með þaki úr vírneti til að hindra strok.

7. gr.
Innri varnir.

 

Einangrunarstöð skal þannig byggð að minnst þrjár dyr [Innskot: Í mínu ungdæmi var talað um þrennar dyr] skilji að dýrin og ytri varnir stöðvarinnar. Þetta á þó ekki við um neyðarútganga. Allar deildir einangrunarstöðvar þar sem dýr eru í búrum skulu hafa tvennar dyr, ytri og innri dyr, og myndi hindrun, þannig að dýrið geti ekki sloppið út þó það losni. Báðar dyr skulu opnast inn á við og lokast sjálfkrafa. Á hurð innri dyra skal vera gluggi eða útsýnisauga. Óheimilt er að nýta svæðið milli dyranna sem skrifstofu eða geymslu. Hurðir, lásar, lásajárn og lokunarbúnaður skulu ávallt vera í góðu lagi. Öll búr skulu þannig úr garði gerð að dýr geti ekki brotist út úr þeim. Gluggar í þeim herbergjum þar sem dýr eru, skulu útbúnir með sérstyrktu gleri eða með vírneti að innan- eða utanverðu. Á opnanlegum gluggum skal vera hindrun úr vírneti eða öðru sambærilegu efni, a.m.k. 2,0 mm í þvermál og hámarksmöskvastærð 5,0 cm x 5,0 cm.

 

Tilvitnun lýkur.

 

Þannig er ýmislegt í reglugerðinni, sem styðjast mætti við. Í ljósi þess hver staða mín í samfélaginu er orðin velti ég því fyrir mér, hvort hægt verði að hafa einhverja persónulega muni meðferðis á heimili af þessu tagi. Þess er ekki getið í reglugerðinni. Varla voru hundarnir með bækurnar sínar á náttborðinu, svo dæmi sé tekið.

 

Hitt er svo annað mál, að til eru skilvirkari leiðir til þess að láta sér líða vel.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég man eftir sambærilegum látum í "fínu"einbýlishúsahverfi í Breiðholti vegna sambýlis fyrir einhverfa. Ætli Njálsgötuíbúar hafi komið með tillögu um það hvar þetta veika fólk á að búa? Og að bera því við að það sé leikskóli í grenndinni. Varla stóð til að setja veika, heimilislausa fólkið á leikskólann í gæslu. Heimilislaust fólk er mikið einmitt í görðum og portum allt í kringum Njálsgötuna en lítið sýnilegt. Kannski er það málið. Það verður sýnilegra.

Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 25.5.2007 kl. 20:23

2 identicon

ég hef nú búið beint á móti og í næstu götu við einhverfuheimilð í 25+ ár og það er ekkert meira ónæði af því heimili enn t.d mínu(ég er með 4 börn )Yndælisfólk og svo til engin vandræði.

(Varst þú ekki kennari í Reykjanesi Hlynur? ) 

Sigurbjörn (IP-tala skráð) 25.5.2007 kl. 23:16

3 Smámynd: Guðrún Magnea Helgadóttir

Sæll fyrrverandi fangavörður í Síðumúlafangelsinu. Einhversstaðar verðum við öll að búa. Öryrkjar og aldraðir verða efalaust fluttir út á land í ódýr húsnæði þar í yfirgefnum sjávarplássum, ef þeir eiga ekki fasteignir á höfuðborgarsvæðinu eða geta ekki fátæktar sinnar vegna greytt húsaleigu sem í flestum tilfellum nemur hærri upphæð en laun( bætur) sem þeir fá. Svo eru það ,,Óhreinu börnin hennar Evu". Enginn vill nábýli við þau þar sem nágrannar óttast um að fasteignir þeirra falli í verði.

Guðrún Magnea Helgadóttir, 26.5.2007 kl. 19:36

4 Smámynd: Sigurður Viktor Úlfarsson

Það er líka eitthvað að losna pláss í Guantanamo ;)

Sigurður Viktor Úlfarsson, 28.5.2007 kl. 02:05

5 Smámynd: Hlynur Þór Magnússon

Mikið rétt, Sigurbjörn - ég var kennari í Reykjanesi í tvö ár í gamla daga.

Hlynur Þór Magnússon, 28.5.2007 kl. 04:03

6 identicon

Ég var 99,99% viss. þú kenndir mér þarna um árið

Sigurbjörn (IP-tala skráð) 29.5.2007 kl. 18:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband