14-2 o.s.frv. - ætli mánudagar séu betri? Og hvað með Ellert?

Það virðist ekki henta íslenskum liðum að keppa við erlend lið á miðvikudögum. Haustið 1967 töpuðu landsliðið og KR þremur miðvikudagsleikjum á fjórum vikum samtals 28-3. Einhverjir muna kannski eftir landsleiknum gegn Dönum á Parken miðvikudaginn 23. ágúst sem fór 14-2. Fyrstu tvo miðvikudagana í september spiluðu KR og Aberdeen í Evrópukeppni meistaraliða. Aberdeen vann samtals 14-1.

 

Í gær var miðvikudagsleikur gegn Svíum.

 

Nokkrir af bestu leikmönnum þjóðarinnar spiluðu í öllum leikjunum þremur haustið 1967 sem fyrst voru nefndir, bæði með landsliðinu og KR. Og stóðu sig yfirleitt frábærlega, eftir því sem fram kemur á þeim tíma, ekki síst markvörðurinn, sem þó fékk á sig liðlega níu mörk í leik að meðaltali. Hann hlaut lof hjá íþróttafréttamanni Morgunblaðisins fyrir glæsilega markvörslu í landsleiknum gegn Dönum (14-2) – „og verður ekki sakaður um hinn mikla ósigur“, eins og komist er að orði í umfjöllun um leikinn. Landsliðsþjálfarinn sagði eftir leikinn: „Allir leikmennirnir áttu ágæta kafla en hraðann skorti mjög.“ Morgunblaðið sagði að liðið hefði átt ágætan leik á köflum og benti réttilega á, að skotanýtingin hefði verið mun lakari hjá danska liðinu en því íslenska (!).

 

Á þessum árum var ekki búið að finna upp klisjuna um einbeitingarleysi sem núna er alltaf notuð. Augnabliks einbeitingarleysi, eins og það heitir. Enda hefðu þá verið nokkuð mörg augnablikin í íslenskri knattspyrnu haustið 1967. Þjálfari KR-inga sagði og var ekki að afsaka neitt: „Það var ekkert við þessu að gera. Aberdeen-liðið er einfaldlega mörgum klössum betra en við erum.“ Morgunblaðið leit á björtu hliðarnar eins og fyrri daginn og sagði: „Hjá KR bar Ellert Schram hreinlega af. Hann stöðvaði sóknarlotur Skotanna óteljandi sinnum, náði ótal skallaboltum og ríkti sem konungur í vítateig KR. Hann gerði og tilraunir til sóknar og stjórnaði liðinu sem sönnum skipstjóra sæmir.“

 

Ég sé að Íslendingum gengur vel á Smáþjóðaleikunum þessa dagana. Af hverju er fótboltalandsliðið ekki þar? Og: Skyldu íslenskir knattspyrnumenn vera betur fyrirkallaðir á mánudögum?

 

Eitt enn: Núna er Ellert Schram kominn á þing á ný eftir áratuga fjarveru. Skyldi hann ekki styrkja vörnina bæði hjá KR og landsliðinu, ef út í það færi? Og jafnvel gera tilraunir til sóknar líka?


mbl.is Íslendingar sáu aldrei til sólar í fimm marka tapleik
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heiða B. Heiðars

Engan áhuga á fótbolta... kom bara til að kasta á þig kveðju. Svo langt síðan síðast

Heiða B. Heiðars, 9.6.2007 kl. 18:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband