Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2007

Inngangur að dýrafræði bloggheimsins

Alltaf er maður að kynnast nýjum veröldum. Meira að segja á gamals aldri. Bloggið er ein veröldin enn. Ekki grunaði mig fyrir mánuði að ég ætti eftir að gerast bloggari. Einhvern veginn fannst mér þetta bara vera fyrir ungt fólk. Auk þess einhver bölvuð vitleysa. Sem það auðvitað er.

 

Reyndar eru nokkur ár síðan*) ég fór að kjafta á Málefnunum. Slíkir vefir eru eins konar hálfbræður blogganna. Svipaðir en þó allt öðruvísi. Mér hefur þótt gaman að skreppa öðru hverju inn á Málefnin og taka þátt í spjallinu. Að vísu hef ég fátt lagt þar til málanna af neinu viti. Enda er þess ekki krafist. Og verður síst krafist af mér.

 

Mjög fáir nota sín réttu nöfn á Málefnunum. Nafnleysið veitir visst frelsi, gefur kost á sleggjudómum og ábyrgðarleysi. Samt er það sjaldgæft að hlutirnir fari úr böndunum. Í samfélagi Málefnanna þekkja nánast allir alla - þar á ég við karakterana sem birtast en ekki fólkið að baki þeim - og samfélagið bregst við þegar einhver fer að haga sér illa. Líka er eins konar öryggislögregla á vakt en er sjaldan kölluð til.

 

Mér er hlýtt til Málefnanna og fólksins sem þar kemur saman. Þetta er mjög sundurleitur hópur, sem betur fer. Skelfing væri leiðinlegt ef öll vitleysan væri eins.

 

Aftur að blogginu. Hérna byrjaði ég að bulla milli jóla og nýárs. Nánast óforvarendis, rétt eins og þegar ég smakkaði selkjöt í fyrsta sinn, þá kominn vel á fertugsaldur.

 

Ég hef velt þessari nýju veröld talsvert mikið fyrir mér síðustu vikurnar. Stúderað svolítið karakterana og hvað þeir hafast að og tilganginn sem fyrir þeim vakir. Þar kennir ýmissa grasa, að ekki sé meira sagt. Sumir eru mjög persónulegir og blogga eingöngu um daglegt amstur, aðrir gersamlega ópersónulegir og rita leiðara um stjórnmálaviðhorfið. Og allt þar á milli. Kannski reyni ég á næstunni að vinna úr þeim minnispunktum sem ég hef krotað hjá mér um tegundir bloggara, einkenni þeirra og hegðunarmynstur. Gæti kannski stuðst við flokkunarkerfi Linnés.

 

Ekki er ég viss um að svokallaðar vinsældir hér á Moggabloggi segi alltaf mikið um innihald og framsetningu. Þar eru miklu frekar önnur öfl að verki. Ég leyfi mér að nefna hér bloggara sem er í einu af efstu sætunum í mínum huga þó að hér þekki hann fáir, vin minn Katanesdýrið, sem er læknir í Miðvestrinu í Bandaríkjunum. Mikið finnst mér gaman að hann skuli vera farinn að blogga og notalegt að líta inn til hans.

         

            

*) Hortitturinn síðan getur verið fremur leiðinlegur, rétt eins og hortittir eru venjulega í máli þeirra sem kunna ekki að nota þá - þeirra sem hafa málið ekki nægilega vel á valdi sínu. Af einhverri tilviljun lenti einmitt þessi hortittur einna efst á vinsældalista bannorða í íslenskukennslu. Margar kynslóðir lærðu að það væri danska og ljótt að segja síðan. Og það er með þetta eins og annað sem lært er án skilnings - það er stundum tekið of bókstaflega. Ég var raunar alveg gáttaður þegar ég heyrði fyrst orðalagið frá í gær í Ríkisútvarpinu. Og hugsaði með mér: Þarna hefur hortitturinn síðan lent á einhverjum bannorðalista hjá málfarsráðunautnum; því miður hefur honum láðst að útskýra mál sitt nægilega vel. Þess vegna hefur skandallinn frá í gær orðið til - forsetning stýrir forsetningarlið, eða hvað í ósköpunum sem ætti að kalla þetta. Í orðasambandinu síðan í gær er orðið síðan hreint ekki neinn hortittur. Þegar sagt er fyrir löngu síðan er það hins vegar sá hortittur sem spjótunum var beint að. 

Guðjón bak við tjöldin

Ekkert skil ég í Guðjóni Arnari Kristjánssyni, formanni Frjálslynda flokksins, þeim ágæta og elskulega manni. Algengt er að stjórnmálaforingjar geri „korteri fyrir kosningar“ eitthvað sem hristir upp í fólki. Það gerir Guðjón að vísu núna. En - venjulega reyna menn þá að gera eitthvað sem verða mætti viðkomandi flokki til framdráttar.

 

Skelfing finnst mér það óklókt hjá Guðjóni að taka opinbera afstöðu með Magnúsi Þór Hafsteinssyni gegn Margréti Sverrisdóttur í varaformannsstarfið. Hefði nú ekki verið skynsamlegra að blanda sér ekki í málið, heldur leyfa flokksþinginu að velja í friði? Hefur flokksþingið ekki nægilega dómgreind til að velja á milli?

 

Lítið veit ég um mannjöfnuð þeirra Magnúsar og Margrétar. Enda snýst málið ekki um það.

 

En auðvitað þekkir Guðjón bak við tjöldin margt sem ég veit ekkert um.

 

– – –       

Neðanmáls:              

mbl.is 17.01.07 Reikningsskekkja orsakaði afhöfðun við hengingu í Írak 

Spyrja má: Lá ekki líka einhver reikningsskekkja að baki innrásinni í Írak? 


Minningargreinin sem Mogginn geymdi fram í andlátið

Ég nefndi síðast að ég hefði verið byrjaður að taka saman punkta í minningargrein um kött. Þá birtist kötturinn. Af þessu tilefni rifjaðist upp fyrir mér minningargreinin sem ég skrifaði eitt sinn og var síðan geymd í prentsmiðju Morgunblaðsins þangað til hinn látni loksins dó.

 

Dwight D. Eisenhower, yfirhershöfðingi í seinna stríði og síðar forseti Bandaríkjanna, var löngum heilsutæpur á efri árum - hjartað. Þegar ég vann á Morgunblaðinu í fornöld fékk hann einu sinni sem oftar alvarlegt hjartaáfall og var ekki hugað líf. Þegar fréttin kom á telexinu var ég rifinn úr einhverju öðru og látinn taka saman æviágrip í snatri. Handritið fór beint niður í setningu og umbrot og síðan var beðið fram á deadline eftir staðfestingu á andlátinu. Innskot: Assgoti er orðið deadline annars gott í þessu samhengi! Staðfestingin kom ekki og gamli maðurinn hjarnaði við. Árið eftir þegar Eisenhower loksins dó kom hin ótímabæra minningargrein í góðar þarfir - hún birtist í Morgunblaðinu 29. mars 1969 (ein og hálf síða takk) en andlátið var staðfest vestra kl. 17.25 að íslenskum tíma daginn áður. Ekki finnst mér fyrirsögnin tilþrifamikil; annað hvort er hún björn síns tíma eða þá að ég hef ekki samið hana.

 

Þetta vakti mig til umhugsunar um nauðsyn þess að eiga svona samantektir á lager í stað þess að þurfa að rjúka til þegar helstu stórmenni yrðu bráðkvödd. Varla þarf að minna á, að þá höfðu menn ekki tölvurnar og Netið og aðra tækni sem öllu hefur breytt. Gagnaleit var tímafrekari og síðan þurfti að hamra textann á ritvél - á þessum tíma voru blaðamenn á Mogganum ekki einu sinni komnir með rafmagnsritvélar, ef ég man rétt. Svo fór handritið í prentsmiðjuna, þar sem setjarar sátu við stórbrotnar skröltandi vélar og pikkuðu textann upp á nýtt á lyklaborð - Þórólfur var besti setjarinn; gerði varla villu - en vélin steypti hverja línu í blý. Nenni ekki að rifja ganginn í þessu lengra, enda átti hann engan þátt í dauða Eisenhowers, en þetta var allt saman mjög skemmtilegt. Jú, prófarkalesturinn. Páll Skúlason prófarkalesari á Morgunblaðinu, fyrr á árum ritstjóri Spegilsins, var einhver fyndnasti og jafnframt einhver skapbráðasti maður sem ég hef kynnst. Meira að segja sjálfur Matthías Johannessen hörfaði öfugur út þegar Páll reiddist - yfirleitt út af ekki nokkrum sköpuðum hlut. Ég held jafnvel að Páll hafi verið næstum því eins mislyndur og ég.

 

Þarna fór ég víst út í aðra sálma.

 

Ég get eiginlega ekki stillt mig um að fletta þessu gamla tölublaði. Hæst ber mikla samantekt undir fyrirsögninni 30. marz 1949 - þegar kommúnistar gerðu atlögu að íslenzku lýðræði. Meðal annarra fyrirsagna má nefna þessar: Stefna framsóknarmanna leiðir til innflutningshafta, Harkaleg árás kommúnista á verzlunarstéttina, Nægur snjór er nú á Ísafirði (svo er enn í dag; ekki þó sami snjórinn), Góð aðsókn hjá SÚM, Skákþing Íslands hefst í dag (ég tefldi þar!). Þarna getur að líta stóra vindlaauglýsingu og litla auglýsingu undir fyrirsögninni Vélritunarstúlka: Stúlka vön vélritun getur fengið vinnu e.h. (2-7). Tilb. með uppl. merkt: „Vélritunarstúlka 2744“ sendist afgr. Morgunblaðsins. Júdas og Roof Tops spila í Ungó í Keflavík en Flowers og Pops í Stapa. Í Hafnarbíói er kvikmyndin Helga, mjög áhrifamikil og athyglisverð ný þýzk fræðslumynd um kynlífið, tekin í litum, sönn og feimnislaus túlkun á efni sem allir þurfa að vita deili á. Háskólabíó sýnir 79 af stöðinni. Í dagskrá Sjónvarpsins ber einna hæst - fyrir utan dagskrárliðinn Endurtekið efni - fræðslumynd um Nýja Sjáland og aðra fræðslumynd sem nefnist Finnskt sveitabrúðkaup, þar sem lýst er gömlum brúðkaupssiðum í Austur-Botni.

 

Gaman finnst mér að fletta þessum gömlu blöðum og muna þetta allt eins og það hefði verið í gær. Í þessu blaði fannst mér þó mest gaman að sjá minningargreinina mína um Eisenhower - manninn sem hafði níu líf eins og kötturinn.

              

                                     

Myndin af síðunni er tekin af vefnum Tímarit.is og þar var blaðinu jafnframt flett - sjá nánar:

09.01.07 Morgunblaðið og Maaneds-Tidender

                    

Eisenhower


Ekki þverfótað fyrir litlum hvítum ketti

Kisa er komin heim - birtist í gærkvöldi eins og ekkert væri. Ég sem var farinn að taka saman í huganum punkta í minningargrein. Mikið ósköp getur ein lítil manneskja eins og ég glaðst yfir endurheimt eins lítils kattar! Ég hefði slátrað alikálfi hefði ég átt hann.

 

Ég sem á ekki svo mikið sem alimús.

 

Það var á föstudagsmorguninn sem kisa fór út að ganga eins og venjulega. Brátt fór að snjóa þessi ósköp. Tíminn leið og ekki kom kisa. Öðru hverju fór ég út í dyrnar og klappaði saman lófunum. Kisa veit að það er merki þess að núna sé matur. En ekki kom kisa.

 

Eldsnemma á laugardagsmorguninn rölti ég um göturnar hér í þorpinu og klappaði saman lófunum. Ekki veit ég hvort nokkur hefur séð til mín. Að minnsta kosti hefur enginn haft orð á því við mig. Kurteisar manneskjur, fólkið hérna á Reykhólum. En ekki kom kisa.

 

Á sunnudaginn var fólk að dreifa fuglakorni í görðum sínum hvarvetna. Munið eftir smáfuglunum í vetrarhörkunum og allt það. Ég fór út í garð og dreifði kattamat, og komst að því að snjótittlingar éta kattamat. Sjálfir geta þeir verið kattamatur, bölvaðir! En ekki kom kisa.

 

Í gær var mánudagur. Eins og kunnugt er, þá geta mánudagar verið erfiðir. Þetta var sérstaklega erfiður mánudagur. Minningarnar um kisu hrönnuðust upp. Ég fór út með meiri kattamat og klappaði saman lófunum, og fældi með því snjótittlingana. En ekki kom kisa.

 

Aldrei hefur nokkur maður gáð eins oft hvort hann sæi ekki lítil spor í mjöllinni. Spor eftir hvíta kisu í hvítri mjöll. Hvít spor. Þeir verða að missa sem eiga. Enginn finna okkur má / undir fannahjarni / dagana þrjá yfir dauðum ná / dapur sat hann Bjarni.

 

En ekki kom kisa.

 

Síðdegis í gær þurfti ég að fara að heiman. Þegar ég kom aftur seint í gærkvöldi fór ég strax að gá að sporum í snjónum. Og þarna voru þau! Kisa kúrði inni á sínum stað og teygði sig alla og geispaði öll þegar ég kom til hennar. Virtist ekkert svöng, enda líklega nógur kattamatur í garðinum.

 

Þegar kisa var almennilega vöknuð og nógu teygð og nógu geispuð gaf ég henni lifrarkæfu og rjóma. Svo kúrði hún í fanginu á mér dálitla stund áður en hún fór að leika sér að pappírsmús, á milli þess sem hún nuddaði sér utan í lappirnar á mér. Merkilegt að það skuli ekki verða þverfótað fyrir einum litlum ketti í heilu húsi!

 

Núna er mér aftur orðið hlýtt. Dyrnar út í garðinn voru opnar í fjóra daga og þrjár nætur, nógu mikið opnar fyrir hvítan kött.

 

Einhvern tímann um daginn kynnti ég kisu hér á blogginu. Leyfi mér að gera það aftur. Kisa er bjartleit og falleg. Þess vegna heitir hún Helga Guðrún. Hún er úr fjóskattafjölskyldunni á Tindum í Geiradal. Þess vegna heitir hún fullu nafni Helga Guðrún Geirdal.

 

Stöðuheiti Helgu Guðrúnar Geirdal er fulltrúi. Hún er fulltrúi alls þess fólks og allra þeirra dýra sem mér hefur þótt vænt um á lífsleiðinni. Þegar ég gef henni lifrarkæfu og rjóma, þá er ég líka að gefa þeim lifrarkæfu og rjóma.

 

Mér hefur liðið bölvanlega þessa daga sem kisa var fjarri. Minntist samdægurs á það hér á blogginu að kisa hefði ekki skilað sér. Það var áður en ég fór að óttast um hana. En svo bloggaði ég ekki um hana söguna meir. Ég lét mér nægja að blogga um ómerkilega hluti eins og heimsfriðinn og Kárahnjúkavirkjun og reyta af mér brandara eins og fólk gerir alltaf þegar því líður illa.

 

Dularfulla kattarhvarfið verður sennilega aldrei upplýst, frekar en aðrar góðar gátur. Í huganum leitaði ég ýmissa skýringa. Kannski hafði hún verið að eltast við snjótittlinga og nýfallinn snjórinn orðið til þess að hún rataði ekki heim aftur. Kannski hafði góðhjartað fólk skotið yfir hana skjólshúsi. Kannski hafði hún hrakist niður á gámasvæði og leitað þar skjóls og músa. Kannski hafði örninn tekið hana.

 

– – –

 

Og hver er svo lærdómurinn af þessari sögu? Sosum enginn. Ég er orðinn fullgamall til að draga lærdóma. Nema kannski þann, hvað maður getur verið lítill í sér þegar köttur týnist. Eiginlega ekki stærri en mús.

 

Núna sefur Helga Guðrún Geirdal fulltrúi og veit ekki að hún er einni lítilli manneskju kærari en heimsfriðurinn og víðerni öræfanna. Ég ætla að gefa henni lifrarkæfu og rjóma þegar hún vaknar.

  

Fyrri blogg um kisu:

 

12.01.07 Niðurlag vantar

07.01.07 Dinner for two

 

Netfíklar - eins og lifandi lík ...

Sagt er að milljón manns eða svo í Þýskalandi séu haldnir netfíkn. Auðvitað er þó hægt að skilgreina slíka hluti með ýmsum hætti. Þetta væru nokkur þúsund manns hérlendis. Sé snögglega tekið fyrir netnotkunina, þá koma fram fráhvarfseinkenni líkt og hjá neytendum eiturefna. Í Berlín (og kannski miklu víðar) er í boði meðferð fyrir netfíkla, hliðstæð meðferðum fyrir alkóhólista og dópista eða spilafíkla.

 

„Eru eins og lifandi lík“, er haft eftir sálfræðingi í umfjöllun á Spiegelvefnum í dag. Þar er átt við netfíkla sem hanga á vefnum tíu-fimmtán tíma á sólarhring, nærast illa og hirða sig ekki. Sagt er að margir þeirra lifi á bótum og hafi lokað sig frá venjulegu lífi - þangað til símanum er lokað. Og þá tekur meðferðin við - afnetjun í þrjár-fjórar vikur.

 

Skyldu nokkrir slíkir vera við iðju sína hér á Moggabloggi ...?

 

Undarleg tengsl

Skrítið hvernig ég kenni tómleika af svipuðu tagi við fréttir af hengingunum í Írak og fregnir af sístækkandi uppistöðulóni Kárahnjúkavirkjunar. Ekki svo að skilja að ég mæli bót voðaverkum Saddams. Málið snýst ekki um það. Ekki svo að skilja að ég sé á móti framförum á Íslandi. Málið snýst ekki heldur um það.

 

Um hvað þá?

 

Það er eitthvað svo endanlegt við þetta. Eins og með árið sem er liðið í aldanna skaut og aldrei það kemur til baka og allt það.

 

Líklega skilur ekki nokkur maður hvað ég er að fara ...

 
mbl.is Írösk stjórnvöld staðfesta aftöku samstarfsmanna Saddams
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Scientology-kirkjan nokkuð á leiðinni til Íslands?

Hvenær haslar Scientology-kirkjan sér völl á Íslandi? Eða er hún kannski komin hingað? Þessar spurningar vakna þegar fréttir berast af vaxandi umsvifum hennar í Vestur-Evrópu. Í gær tók Scientology-kirkjan í notkun með hátíðlegum hætti sex hæða glæsibyggingu í Berlín, nokkur þúsund fermetra að gólffleti, að viðstöddum á annað þúsund prúðbúnum gestum. Þarna verður helsta miðstöð - eða helsta musteri - starfsins í Þýskalandi, sem reyndar virðist hafa verið nokkuð öflugt þar allt frá því um 1970.

 

Þýskir stjórnmálamenn hrukku við þegar þeir fréttu af fyrirhuguðu glæsimusteri og hófu á ný umræður um viðbrögð við starfsemi Scientology-kirkjunnar. Mörgum stendur stuggur af henni og í Þýskalandi hefur öryggislögreglan fylgst með starfi hennar á liðnum árum. Menn óttast þar áhrif hennar á stjórnmál og menningarlíf, auk óæskilegra áhrifa á fylgjendur hennar, og sumir telja jafnvel að hún höggvi að sjálfum rótum samfélagsins. Í Bandaríkjunum og víðar er Scientology-kirkjan viðurkennd sem trúarhreyfing en svo er ekki í Þýskalandi.

 

The Church of Scientology hefur oft verið kölluð á íslensku Vísindakirkjan, en það er varla tæk þýðing. Scientology hefur lítið með vísindi að gera, í venjulegum skilningi þess hugtaks, og sjálft orðið scientology, sem er miklu eldra en stofnun sú sem hér um ræðir, merkir helst gervivísindi eða hjáfræði. Stofnandi Scientology-kirkjunnar, L. Ron Hubbard, skilgreindi hugtakið reyndar með ýmsum hætti eftir því sem andinn blés honum í brjóst hverju sinni.

 

Innskot: Af hverju í fjandanum kemur Herbalife alltaf upp í huga minn þegar ég heyri minnst á Scientology-kirkjuna?

 

Stofnandinn og hugsuðurinn L. Ron Hubbard fæddist árið 1911 - að sjálfsögðu í fiskamerkinu eins og við Þórbergur - og var hinn merkasti maður að ýmsu leyti eins og við Þórbergur. Hann var lýðskrumari af guðs náð, eins vænta má, og var vinsæll reyfara- og vísindaskáldsagnahöfundur áður en hann stofnaði Scientology-kirkjuna á árunum laust eftir 1950. Þá var hann fyrir nokkru farinn að einbeita sér að dianetics, eða samhljómi líkama og sálar, og árið 1950 kom frá hans hendi bókin Dianetics: The Modern Science of Mental Health. Bækur Hubbards munu hafa selst í stærri stíl en ritverk flestra annarra höfunda eða jafnvel nokkurs annars manns.

 

Velþekkt er, að margir þekktir (og ríkir) bandarískir kvikmyndaleikarar hafa gengið í Scientology-kirkjuna, sem og annað frægðar- og efnafólk. Þar má nefna Tom Cruise og Katie Holmes, Anne Archer, sem reyndar var meðal gesta við vígslu nýju miðstöðvarinnar (maður getur fjandakornið ekki kallað þetta safnaðarheimili?) í Berlín í gær, John Travolta og Kelly Preston, mæðgurnar Priscillu og Lísu Maríu Presley, Juliette Lewis, Kirstie Alley, Nancy Cartwright, Paul Haggis, Chaka Khan, Sonny Bono og Placido Domingo. Aðrir eru sagðir hafa yfirgefið félagsskapinn, svo sem Christopher heitinn Reeve, Charles Manson (sem kom eftirminnilega við sögu fræga fólksins í Hollywood þó að hann væri ekki í hópi þess fram að því), Nicole Kidman, Jerry Seinfeld, Sharon Stone og Leonard Cohen. Söfnuðurinn er öflugur í ýmsum löndum Vestur-Evrópu, einkum meðal efnafólks.

 

En upphaflegu spurningarnar voru þessar: Hvenær haslar Scientology-kirkjan sér völl á Íslandi? Eða er hún kannski komin hingað? Og svo ein í viðbót: Vantar nokkuð umboðsmann hérlendis?

         

- Einkum byggt á fréttum og frásögnum á þýskum vefjum í gær, svo sem Spiegel.de, Stern.de og Focus.de; auk þess Wikipedíu.

  

Tíu daga frestur vegna uppgjörs á kr. 0,00

Pétur Tryggvi silfursmiður (og bæjarlistamaður) á Ísafirði fékk skemmtilegt bréf í fyrstu viku hins nýja árs. Málið snýst um smíðisgrip eftir hann sjálfan, sem hann fékk á liðnu sumri sendan frá útlöndum til viðgerðar og sendi til baka viðgerðan viku síðar. Núna kom eftirfarandi tilkynning:

                      

Fjártrygging sú að upphæð kr.: 0,00 sem fyrirtækið lagði fram vegna ofangreindrar tollafgreiðslu hefur ekki verið gerð upp innan tilskilins tíma. Er fyrirtækinu hér með gefinn kostur á að ganga frá fullnaðaruppgjöri tollafgreiðslu innan 10 daga frá dagsetningu bréfs þessa. Að öðrum kosti rennur fjártryggingin í ríkissjóð.

                  

Síðasta setningin er yfirstrikuð með penna og reglustiku. Undirritun bréfsins er með handstimpli og handkvittun hjá embætti Tollstjórans í Reykjavík. Samt er í aðra röndina eins og bréfið sé frá Íslandspósti hf., flutningsmiðlun - eða þá þvert á móti til Íslandspósts hf., flutningsmiðlunar, þó að það sé vissulega til Péturs Tryggva og hafi verið sent honum.

 

Sumsé, strikað er yfir setninguna um að fjártryggingin renni í ríkissjóð ef ekki er gengið frá því uppgjöri á tryggingarfé sem boðið er. Kannski er það ekki skrítið, vegna þess að aldrei var lögð fram nein fjártrygging enda ekki venja í tilvikum sem þessu - sbr. það sem fram kemur, að hún hafi numið kr. 0,00.

 

Það væri kannski sök sér, ef bréf af þessu tagi kæmi úr alsjálfvirku bréfaskriftamaskíneríi hjá einhverri stofnun og færi sjálfkrafa í póst án þess að nokkur manneskja færi um það höndum. En þetta ...

              

Multum absurdum in capite vaccae, var sagt í mínu ungdæmi. Og tóku margir undir.

  

tilkynning


Ónefnan ...

Egill í Brimborg bloggaði hér áðan undir fyrirsögninni Sú sem ekki má nefna og segir m.a.: „Í bókunum um Harry Potter er galdramaðurinn Voldemort orðinn svo máttugur að galdraheimurinn þorir ekki lengur að nefna nafn hans og kallar hann því „Sá sem ekki má nefna“. Spurning hvort við eigum bara að taka upp þetta máltæki, „Sú sem ekki má nefna“ í stað þess að tala um krónuna í viðleitni til að styrkja hana ...“

 

Við þetta rifjast upp hið gamla og góða íslenska orð ónefnan - sem notað var um annað dýrmæti en ríkisgjaldmiðil - en dýrmæti þó - og kemur fyrir í þekktri tækifærisvísu eftir Þangskála-Lilju, skagfirskan hagyrðing á 19. öld. Hún var á ferð fótgangandi í þæfingsófærð, eins og hér segir:

 

Færðin bjó mér þunga þraut,
þol úr dró til muna.
Hreppti ég snjó í hverri laut
hreint í ónefnuna.

 

Hringavitleysan með Heilsuverndarstöðina

Mér fannst hálfskoplegt að heyra um áskorun læknaráðs Landspítalans til heilbrigðisráðherra varðandi hugsanleg kaup eða leigu á Heilsuverndarstöðinni í Reykjavík. Þó er ég ekki alveg viss hvort málið er í raun skoplegt eða jafnvel þvert á móti grafalvarlegt. Hitt er víst, að það er ákaflega skrítið.

 

Rúmt ár er síðan gengið var frá sölu á Heilsuverndarstöðinni, sem er við Barónsstíg, rétt hjá byggingaklasa Landspítalans. Eigendur hennar voru Reykjavíkurborg (60%) og ríkissjóður (40%). Kaupandi var byggingaverktaki, sem mér skilst að viti ekki almennilega ennþá hvað hann ætlar að gera við húsið. Mig minnir að einhvern tímann hafi komið fram að hann hafi áform um gríðarlega viðbyggingu -  við hús sem teljast verður meðal hinna merkari í íslenskum arkitektúr. Hvers vegna allt í einu var rokið til að selja húsið hefur aldrei verið skýrt með viðhlítandi hætti, að ég best veit.

 

Í Morgunblaðinu um daginn rakti Reynir Tómas Geirsson yfirlæknir og prófessor mál þetta frá sjónarhorni mæðraverndar og fæðingar- og kvennadeildar Landspítala-Háskólasjúkrahúss. Hann kvaðst ekki hafa hitt þann heilbrigðisstarfsmann, sem hafi verið hlynntur sölunni.

 

Í grein í Mogganum fyrir nokkrum dögum segir Jóhann Heiðar Jóhannsson læknir: „... er nokkuð augljóst að þetta mikla og fallega hús, í nágrenni Landspítalans við Hringbraut, hentar mjög vel til að leysa þann mikla húsnæðisvanda sem takast þarf á við á næstu árum og allar götur þar til nýi spítalinn neðan Hringbrautar hefur verið tekinn í notkun. Undirrituðum, sem starfar á sérhæfðri rannsóknastofu í 30 ára gömlu „bráðabirgðahúsi“, er málið skylt.“

 

Þeir Reynir Tómas og Jóhann Heiðar eru sannarlega ekki þeir einu sem hafa lagt orð í belg á því hálfa öðru ári, eða hvað það nú er, sem liðið er frá því að upp komst um fyrirhugaða sölu á Heilsuverndarstöðinni. Þar hefur allt borið að sama brunni. En - þegar stjórnmálamenn eru annars vegar, þá er allra veðra von.

 

Það skyldi þó ekki vera, að ríkissjóður grípi nú tækifærið - e.t.v. í félagi við Reykjavíkurborg, sem er m.a. á hrakhólum með mæðraverndina eftir að hún hrökklaðist úr Heilsuverndarstöðinni - búið að hola henni niður uppi í Breiðholtshverfi - og kaupi húsið. Ef til vill fyrir tvo milljarða króna, eða tvöfalda þá upphæð sem fékkst fyrir það. Mættu samt heita góð kaup þegar litið er til þeirrar nauðsynjar sem við blasir.

 

Í staðinn mætti selja byggingaverktakanum t.d. Safnahúsið við Hverfisgötu. Þar er heldur betur hægt að byggja við ...

 

P.s.: Kötturinn hefur ekki látið sjá sig. Kannski er hann einhvers staðar að éta tilfallandi jólaskraut, sbr. Kastljósið í kvöld.

  

ruv.is 12.01.2007 LSH: Ráðherra leysi húsnæðisvandann

 

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband