Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2007

Viðunandi að ástand brunavarna í sumarbúðum skuli vera slæmt?

Einkennileg finnst mér fréttin í Blaðinu af brunavörnum í sumarbúðum fyrir börn, sem reknar eru allvíða hérlendis. Þar kemur fram, að í úttekt sem Brunamálastofnun gerði í fyrrasumar hafi ástand brunavarna verið slæmt í nærri helmingi þeirra bygginga sem athugaðar voru en sæmilegt í hinum. Samt hafi ástandið hvergi verið óviðunandi. Auðvitað er þetta spurning um skilgreiningar og orðalag, en undarlegt má telja að slæmt ástand brunavarna þar sem fjöldi barna er saman kominn skuli teljast viðunandi.

 

Annað sem þarna kemur fram er þó kannski ennþá undarlegra. Haft er eftir starfsmanni Brunamálastofnunar, að staðan sé „ekki klapp á öxl slökkviliðsstjóra í viðkomandi sveitarfélögum en þeir tengist stundum rekstraraðilunum“. Jafnframt segist starfsmaðurinn „efast um að hann myndi senda barn í sumarbúðir“ sem fengið hafi slíkar einkunnir.

 

Samt neitar hann að gefa upp hvaða sumarbúðir hér sé um að ræða en segir í staðinn að foreldrar geti hringt í viðkomandi slökkviliðsstjóra til að fá upplýsingar um ástand brunavarna í sumarbúðum. Sumsé, fyrst lætur hann að því liggja að í einhverjum tilvikum kunni slökkviliðsstjórar að vera sekir um vanrækslu á skyldum sínum vegna tengsla við þá sem reka búðirnar, en vísar svo á þá til að veita upplýsingar um ástandið.

 

Ef rétt er eftir haft, þá er hér um mjög alvarlegar aðdróttanir í garð slökkviliðsstjóranna að ræða. Ef þeir vanrækja skyldur sínar í þessum efnum með þeim hætti sem ýjað er að, þá má ætla að slík vanræksla teldist glæpsamleg ef illa færi.

           

Fram kemur, að umræddur starfsmaður Brunamálastofnunar segir að „reikna megi með“ að ástandið sé betra nú en í fyrra. Hins vegar virðist hann ekki vita það. En þá er bara að hringja í slökkviliðsstjórana ...

  


mbl.is Eldvörnum í sumarbúðum ábótavant
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Byltingarkenndar hugmyndir varðandi bragðbætt lambakjöt

 

Mér líst vel á hugmyndina um lambakjöt með hvannarkeim. Enn er mér í fersku minni hversu einstaklega ljúffengt íslenska hvannarótarbrennivínið var. Flestir drukku það einungis bragðsins vegna. Í framhaldi af fyrstu rabarbarasultugerðartilraun minni fyrir skömmu ætla ég hér á eftir að leggja fram tillögu að frekari bragðbótum á íslenska lambinu.

 

En fyrst varðandi rabarbarasultugerðina. Hér í Reykhólasveitinni er mikið um rabarbara, sem nefnist á íslensku tröllasúra. Ég fékk góðfúslegt leyfi hjá húseigandanum að Hellisbraut 18 á Reykhólum til að höggva mér nokkra tröllasúruboli til sultugerðar. Á netinu fann ég þrjár uppskriftir og bar þeim að mestu saman. Tvennt var sagt eiga að vera í sultunni, rabarbari og sykur, og álíka mikið af hvoru. Þetta skyldi sjóða í hálftíma til klukkutíma.

 

Ég brytjaði niður tíu kíló af rabarbara og setti í ógurlegan pott sem ég fékk lánaðan ásamt jafnþyngd af sykri. Ég var búinn að kaupa sykurinn smátt og smátt á löngum tíma svo að Jón kaupmaður héldi ekki að ég væri að fara að brugga. Ekki leist mér á að sjóða þetta þurrt og taldi að í uppskriftunum væri ekki verið að taka fram svo augljósa hluti eins og vatn. Ég bætti vatni í pottinn og lét fljóta vel yfir og kveikti undir og hrærði í öðru hverju. Eftir klukkutíma, þann tíma sem lengstur var tilgreindur í uppskriftunum, var í pottinum þunn og fagurgræn súpa, alls ólík venjulegri rabarbarasultu sem er seigþykk og mjög dökk.

 

Eftir klukkutímasuðu í viðbót slökkti ég undir súpunni og hringdi í konu sem ég þekki og spurði ráða. Hún sagði að það ætti ekki að nota neitt aukavatn, það kæmi nóg vatn úr rabarbaranum. Best væri að láta rabarbarann og sykurinn liggja saman í pottinum yfir nótt áður en soðið væri. Úr því sem komið væri ætti ég tvo kosti í stöðunni: Annars vegar að borða rabarbarasúpu í allt sumar og hins vegar að sjóða þetta niður við mjög lítinn hita.

 

Ég tók seinni kostinn enda var ætlunin að búa til sultu en ekki að lifa á rabarbarasúpu fram á haust. Þetta var á miðvikudegi. Ég sauð þetta áfram við minnsta hita og hrærði í tvisvar á dag að jafnaði og borðaði rabarbarasúpu og síðan rabarbaragraut tvisvar á dag að jafnaði. Á laugardagsmorgni var loksins orðin til prýðileg rabarbarasulta, dökkgljáandi og hnausþykk, en verulega hafði lækkað í pottinum og komnir í hann eins konar árhringir.

 

Í uppskriftunum var sagt að þegar sultan væri sett í krukkur ætti að láta smávegis edik eða koníak eða þvíumlíkt ofan á sultuna áður en krukkunum væri lokað. Koníakið sem ég var búinn að útvega til þessara nota - ég vissi ekki hvað þyrfti mikið svo að ég pantaði þrjár flöskur til að vera viss - kláraðist hins vegar daginn áður þannig að ég keypti edik í Jónsbúð til að setja ofan á áður en ég lokaði krukkunum. Koníakið er búið, sífelldur gestagangur, sagði ég til útskýringar þegar ég keypti edikið. Jón kaupmaður horfði á mig en sagði ekkert.

 

Þetta var örstutt innskot um rabarbarasultugerðina sem kveikti hugmyndina að bragðbættu lambakjöti á fleiri vegu en með því að ala lömbin á hvönn.

 

Í æsku minni var á sunnudögum lambasteik með brúnuðum kartöflum og sósu og sultu og rauðkáli. Enn í dag er þetta það besta sem ég get hugsað mér, ásamt hvannarótarbrennivíninu. Eftir að ég varð einn fæ ég þennan uppáhaldsrétt minn hins vegar aldrei. Ég er löngu hættur að reyna að brúna kartöflur eða búa til sósu. Ég veit ekki um neinn annan sem hefur meira að segja mistekist að sjóða kartöflur. Nema kannski Jóhannes Birkiland.

 

Byltingarkennd hugmynd mín í framhaldi af hvannarótarlambakjötshugmyndinni er þessi: Lambakjöt með bragði af brúnuðum kartöflum og sósu og sultu og rauðkáli. Hún er svona í praxís: Ala lömbin á brúnuðum kartöflum og sósu og sultu og rauðkáli. Á góðum degi gæti jafnvel ég eldað þetta. Setja bara lærið í ofn og hafa það þar inni í tilskilinn tíma við tilskilinn hita. Síðan borið á borð, tilbúið, verði ykkur að góðu!

 

Samt er ég ekki alveg viss, svona innra með mér. Við vitum það báðir, Birkiland og ég, að sitt er hvort, teoría og praxís.

 

Einkum er það praxísinn sem hefur vafist fyrir okkur.

 

P.s.: Hvernig væri að gefa lömbunum hvannarótarbrennivín?

 

P.p.s.: Eitthvað finnst mér skrítið við fyrirsögnina á viðtengdri frétt. Áður en smellt er á hana er hún svona: Tilraun til að bragðbæta lambakjöt með hvönn. Þegar smellt er á fulla frétt breytist hún hins vegar og verður svona: Riðuveiki fannst í kindarhræi á afrétti.

 

P.p.p.s.: Það er meira andskotans mausið við að koma texta óbrengluðum hér inn. Það er t.d. eins konar rúlletta hvenær öll greinaskil detta út og hvenær ekki, eða sum greinaskil og önnur ekki, eða hvenær maður kemst inn aftur til að reyna að laga það sem aflaga hefur farið og hvenær ekki  ...

- - -

 

Núna í fjórðu tilraun líta greinaskilin svona út. Ég held að ég fari að láta viðskiptum mínum við Moggabloggið lokið. Það eru til aðrir bloggvefir þar sem menn eru ekki í misheppnuðum tilraunum að finna upp hjólið. - Fyrir nú utan það, að tengingin við fréttina kemur ekki. Fyrst hélt ég að ég hefði gleymt að tengja við hana og drap því textann út og setti hann inn aftur. En það er eins og áður.


„Íslenskar kartöflur“ eru óboðlegt rusl

Íslenskar kartöflurÞar sem ég versla eru kartöflur venjulega merktar framleiðanda með einhverjum hætti, innlendar jafnt sem útlendar. Jafnan eru pokarnir glærir og vel hægt að sjá innihaldið og yfirleitt eru þetta prýðilegar kartöflur.

 

Í gær varð ég fyrir því óhappi að kaupa kartöflupoka sem einungis var merktur Íslenskar kartöflur. Ekki er frekari grein gerð fyrir framleiðanda, þannig að ætla má að þetta séu dæmigerðar íslenskar kartöflur. Pokinn er úr rauðu plasti sem villir svo um, að ástand innihaldsins kemur ekki almennilega í ljós fyrr en það er tekið úr umbúðunum.

 

Enda skiljanlegt að framleiðandinn skuli ekki vilja að innihaldið sjáist almennilega fyrr en um seinan. Líka skiljanlegt að hann skuli ekki vilja láta nafns síns getið. Þetta er óætt rusl, skorpið og skemmt, og þarf ekki fleiri orð.

 

Ég leyfi mér að vara við kaupum á „íslenskum kartöflum“. Reyndar finnst mér það ósvífni að merkja vöruna, ef vöru skyldi kalla, með þessum hætti. Ósvífni gagnvart öllum þeim sem rækta góðar kartöflur hérlendis.

 

Misræmi hjá fréttamiðlum: Hverju á maður að trúa?

Ég sakna þeirra tíma þegar gamla Gufan var eini fréttamiðillinn á ljósvakanum hérlendis og Morgunblaðið eina blaðið sem mark var takandi á (að margra áliti). Ekki lýgur Mogginn, var sagt. Að ekki sé nú minnst á sjálft Útvarpið.

 

Þá var nú ekki vandi að þekkja hinn hreina sannleik. Alveg sérstaklega ef maður gætti þess að notast annað hvort við Útvarpið eða Moggann en ekki bæði í senn.

 

Núna er allt morandi í fjölmiðlum. Þeir flytja fréttir af sömu viðburðunum, en gallinn er sá, að ekki er gott að vita hverju maður á að trúa.

 

Ríkisútvarpið Sjónvarp greindi frá því í langri og hjartnæmri frétt í kvöld, að gríðarlega mikið hefði verið um hjónavígslur hérlendis í dag. Nefndar voru ótrúlegar tölur í því sambandi. Í fréttum Ríkisútvarpsins Hljóðvarps í kvöld kvað hins vegar við allt annan tón, eða eins og segir á fréttavefnum ruv.is: ... samkvæmt heimildum fréttastofu er ekki meira um brúðkaup í dag en aðra laugardaga á þessum árstíma.

 

Fréttavefurinn visir.is hefur flutt eina Íraksfrétt í dag. Fyrirsögn hennar er: Einn lést og þrír særðust í Írak. Fréttavefurinn mbl.is sagði hins vegar fyrir nærri sex klukkutímum: Mannskæðasta tilræði í Írak frá því í apríl - Nú er ljóst að að minnsta kosti hundrað og fimm manns létu lífið og tvö hundruð og fjörutíu slösuðust er bílsprengja sprakk [...] í Írak í morgun.

 

Og þannig mætti lengi telja ...

 
mbl.is Mannskæðasta tilræði í Írak frá því í apríl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú verða sagðar fréttir

Jón Kjartansson í JónsbúðJón Kjartansson kaupmaður í Jónsbúð á Reykhólum - og núna líka í Nesi (Króksfjarðarnesi) - segist vera mjög sáttur við veltuna hjá sér það sem af er sumri. Heimafólkið verslar líklega með svipuðum hætti og venjulega en meira hefur verið af ferðafólki en á sama tíma í fyrra. Einkum eru það útlendingar á húsbílum sem læðast jafnt og þétt hér út á Reykjanes við Breiðafjörð og eiga næturstað á planinu við sundlaugina.

 

Dagurinn í gær - föstudagurinn - var sá heitasti hér fram að þessu. Lofthitinn fór í tuttugu stig og breyskjan var gríðarleg í sólskininu þannig að svalt var að koma inn í hús.

 

Núna í laugardagsmorgunsárið kom svolítil rigningarskúr náttúrunni til hressingar. Í fyrrakvöld gerði gríðarlega rigningu sem var vel þegin eftir þurrasólskin að mestu vikum saman.

 

Myndina af Jóni kaupmanni tók ég í gær þegar glaðast skein sólin. Búðin hans er lítil að utan en einhvern veginn stærri þegar inn er komið. Ferðafólk spurði mig um daginn hvað þarna fengist. Allur andskotinn, svaraði ég.

 

Þetta sá ég á netinu áðan:

 

Ávarpið flutti ég í hófi ... (Björn Bjarnason)

 

Hvíta duftið sem fannst í bensíntönkum Ferraribílanna skömmu fyrir Mónakókappaksturinn reyndist vera þvottaduft. - - - Forsvarsmenn McLaren hafa þvegið hendur sínar af málinu ... (mbl.is)

 

Hver skrattinn hefur hlaupið í sjávarútvegsráðherra?

Einkennileg og fordæmislaus er sú ákvörðun Einars K. Guðfinnssonar sjávarútvegsráðherra, að fara að ráðum vísindamanna varðandi þorskveiðikvótann. Fram að þessu hafa ráðherrar ævinlega hunsað álit vísindamanna og látið veiða mun meira en skynsamlegt hefur talist. Síðasta aldarfjórðunginn hafa Halldór Ásgrímsson, Þorsteinn Pálsson og Árni M. Mathiesen mann fram af manni stjórnað hruni þorskstofnsins við Ísland.         

Núna er loksins kominn sjávarútvegsráðherra sem telur sig ekki yfir það hafinn að fara að ráðum þeirra sem best mega vita.

Eins og ég hef alltaf sagt: Einar K. Guðfinnsson er fjandakornið enginn pólitíkus. Til þess skortir hann sárlega helstu ókostina sem prýða hvern góðan stjórnmálamann. 


mbl.is Þorskkvótinn verður 130 þúsund tonn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Schumacher og ég

Það rifjast upp núna á setningardegi Landsmóts UMFÍ, að á síðasta móti sem haldið var á Sauðárkróki fyrir þremur árum fékk ég einu gullverðlaunin sem Héraðssambandi Vestfirðinga hlotnuðust í það skiptið. Núna er ég hins vegar eins og Michael Schumacher: Hættur að keppa. Líklega eigum við fátt annað sameiginlegt. 

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband