Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2007
19.7.2007
Menningin og markaðslögmálin
Gaman væri að vita hvort nokkur vildi gefa út bækurnar um Harry Potter ef þær væru boðnar með sambærilegum hætti. Einhvern veginn efast ég um það. Hvað þá Biblíuna.
En ef rithöfundurinn Joanne K. Rowling kæmi nú með handrit að Biblíunni til forleggjara, eða Símaskránni, þá myndi hann gleypa við því á stundinni.
Svona er nú það.
Breskir útgefendur sáu ekki í gegnum hrokafullan ritstuld | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
19.7.2007
Rigning stöðvar hugsun um atviksorð
Sem ég sat hér fyrir utan og hugleiddi notkun atviksorðsins upp í Þorsteins sögu Síðu-Hallssonar, þá fór hann að rigna. Ég hætti að hugsa, stóð upp og fór inn. Hana vantaði níu mínútur í ellefu. Við Sölvi Helgason og Þórbergur gáum alltaf á klukkuna þegar eitthvað merkilegt gerist.
Rigningin stóð ekki lengi en hún var bæði mikil og góð. Þegar henni slotaði jafnskyndilega og hún byrjaði var ferskleiki náttúrunnar alger, lognið algert, kyrrðin alger. Nema hvað mér fannst ég heyra grösin hvískra í gleði sinni.Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Einhvern veginn hef ég heldur skömm á aðgerðum af því tagi sem samtökin Saving Iceland hafa í frammi. Enginn málstaður er svo góður að ekki sé hægt að varpa hann skugga. Rónarnir koma óorði á brennivínið, var eitt sinn sagt, sumir prestar koma óorði á kaþólsku kirkjuna, nokkrir vitleysingar koma óorði á mótorhjólafólk. Samtökin Saving Iceland og menn á borð við Paul Watson (hvað er annars að frétta af boðaðri komu hans til Íslands?) koma óorði á náttúruvernd.
Auðvitað hafa einhverjir rokið upp eins og venjulega og sagt að lögreglan sé að banna fólki að mótmæla, banna skoðanir.
Málið snýst ekki um það. Ætli lögreglan sæti aðgerðalaus ef forstjórar álfyrirtækjanna, svo dæmi sé tekið, hlekkjuðu sig saman liggjandi á akvegum? Lögreglan léti ekki einu sinni sjálfan yfirmann sinn dómsmálaráðherrann afskiptalausan ef hann klöngraðist upp í byggingarkrana í mótmælaskyni við eigendur kranans.
Störf íslensku lögreglunnar snúast hvorki um skoðanir né mótmæli.
Mótmælum við Grundartanga hætt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Sú var tíðin að Fréttastofa Ríkisútvarpsins var vel mönnuð. Enn er þar fólk sem hefur góða almenna þekkingu og gott vald á íslensku máli en ekki virðast lengur vera gerðar kröfur um þessa eiginleika hjá þeim sem þangað eru ráðnir. Ef til vill vegna þess að viljann eða metnaðinn vantar, ef til vill vegna þess að þeir sem ráðningar annast hafa ekki burði til að meta slíkt.
Ástandið á fréttavefjunum mbl.is og visir.is blasir við og líklega er fátt við því að segja eða gera. Aftur á móti er Ríkisútvarpið enn í orði kveðnu einhver helsta kjölfesta íslenskrar menningar. Einmitt þess vegna er það grátlegt, að Fréttastofa Ríkisútvarpsins skuli vera á leiðinni niður á sama plan og vefirnir sem nefndir voru.
Upphaf fréttar á ruv.is um hádegisbilið í dag - óbreytt á sjöunda tímanum í kvöld:
Sjónarvottar segja að TF Sif þyrla Landhelgisgæslunnar hafi brotlent mjúklega við Straumavík í gærkvöldi. Þyrlan hafi ekki hrapað í sjóinn heldur lent. TF-Sif var við æfingar úti fyrir Straumsvík ásamt félögum úr björgunarsveit Hafnafjarðar þegar hún þurfti skyndilega að lenda á haffletinum. Verið var að æfa hífingar úr sjó og voru þrír bátar undir þyrlunni. Golfarar á Hvaleyrarvelli sáu margir glögglega þegar þyrlan brotlenti.
Fréttin á ruv.is er miklu lengri og þar eru miklu fleiri ambögur, málfarsvillur, stafsetningarvillur og innsláttarvillur.
Spyrja má: Hvað er brotlending? Telst það brotlending að lenda mjúklega? Hvers vegna að tilgreina að golfarar á Hvaleyrarvelli (í Hafna-firði eða við Strauma-vík?) hafi séð margir glögglega þegar þyrlan brotlenti þegar jafnframt kemur fram að hún brotlenti alls ekki?
Þessara spurninga er ekki síst spurt núna vegna þess að í kvöldfréttum og Speglinum er enn verið að hnykkja á ruglinu. Já, hún hrapaði, skv. máltilfinningu Fréttastofu Ríkisútvarpsins.
Viðbót: Ætli þetta sé undirbúningur fyrir sölu Ríkisútvarpsins? Verðfella það fyrir söluna? Getur það kallast gæfulegt þegar sjálfur útvarpsstjórinn gengur í verk almennra starfsmanna til að leggja á borð fyrir okkur almenning misþyrmingar á íslensku máli og almennri skynsemi? Höfuðið og limirnir?
TF-Sif komin á land | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
16.7.2007
Jökullinn og ég
Hann mætti alveg fara að rigna. Veðrið er að sönnu gott ef litið er á einn dag í einu en skelfing er þetta slæmt til lengdar. Eina bótin að þetta er almennt, eins og bóndi í Kjósinni sagði á sínum tíma þegar hann varð heylaus.
Ég labbaði niður að fuglaskoðunarskýlinu við Langavatn í morgun. Snuddaði á leiðinni og var hálftíma og eina mínútu í ferðinni. Þangað liggur göngustígur sem minnir á kúagötu nema engar kúadellur. Lítil trébrú á einum stað; engar ónauðsynlegar tilfæringar - ósnortin náttúra með grösum og mosum og skófum og fléttum og mýflugum sem gjósa upp og urð og grjóti og lækjum (að mestu uppþornuðum núna) og lænum og hornsílum og volgrum og smáhverum og holtum og móum og klöppum og tjörnum. Svo eitthvað sé nefnt. Og fuglum himinsins og jarðarinnar. Svo er sjórinn þarna rétt fyrir utan.
Sumir halda að skýlið sé til varnar gegn árásum fugla eins og hjá Hitchcock. Svo er ekki; maður fer inn í þetta litla hús sem er með skotraufum eins og kastali og skotvopnin eru myndavélar. Fuglinn sér mann ekki og styggist því ekki. Hann er skotinn úr launsátri og veit ekki neitt. Eftir nokkra stund eru komnar kannski tíu fimmtán tegundir rétt fyrir framan. Í morgun stoppaði ég ekki nema liðlega tvær og hálfa mínútu og fékk ekki nema einn himbrima í skotfæri en hjarðir ýmissa tegunda héldu sig í öruggri fjarlægð.
Já, hann mætti fara að rigna. Ég er að verða á litinn eins og Harry Belafonte; líkist honum held ég ekki að öðru leyti. Nema skeggið, það er að verða eins og á Charles Darwin; líkist honum held ég ekki að öðru leyti. Skeggið sprettur þrátt fyrir þurrkatíðina. Þarf að athuga málið fyrir jólin. Kannski þó frekar eftir jólin.
Áðan komu hér í heimsókn fjórtán danskir ferðamenn. Einn af þeim var mjög nysgerrig. Að minnsta kosti var hann alltaf að nyse. Svo kom hér þýskur blaðamaður og ljósmyndari sem er á þriggja mánaða ferðalagi um landið. Hann heldur til á tjaldsvæðinu við sundlaugina hér á Reykhólum í nokkra daga. Á morgun ætlar hann að koma til mín og fá að senda texta og myndir gegnum netið. Þetta er önnur Íslandsreisa hans. Í fyrra skiptið var hann bara þrjár vikur og það var allt of stutt. Útlendingarnir virðast nokkuð ánægðir með kynni sín af íslenskri náttúru og öðru sem á vegi þeirra verður. Danirnir voru að koma af Rauðasandi þar sem þeir fundu dauðan sel og búið að kroppa úr honum augun.
Í gær smellti ég myndum af Jöklinum. Í æsku minni var hann í norðvesturátt. Núna er hann í suðvestrinu. Hann er þó enn á sama stað, skilst mér; það er ég sem er annars staðar. Jökullinn breytist frá einni stund til annarrar, alltaf nýr. Samt hefur hann verið þarna eins lengi og elstu menn hér við Breiðafjörð muna. Sjórinn er líka síbreytilegur. Á annarri myndinni er hann blár, á hinni er hann silfraður. Stundum er hann grár, eða svarblár, eða hvítyrjóttur, eða roðagylltur, eða bara eitthvað annað en áðan.
Frá mínu sjónarhorni er Jökullinn eins og liðinn tími á líðandi stund. Var það ekki Hannes Sigfússon sem sagði að sumir segðu að liðinn tími væri ekki liðinn, hans bæri að leita annars staðar? Líklega gildir þetta þó ekki um Jökulinn heldur mig sjálfan. Mín ber að leita annars staðar.
Ef einhver skilur svona mikla heimspeki, þá gefi viðkomandi sig fram hér í athugasemdadálkinum.
Svo á ég eftir að gera grein fyrir véfréttarblogginu mínu í fyrradag eða hvenær það var. Og kannski segja frá fuglinum sem ég bjargaði í nótt.
Eins og það sé ekki nóg af fuglum hér á Reykhólum.Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.7.2007
Einar Oddur
Þegar komið er í kirkjugarðinn að Holti í Önundarfirði blasir við legsteinn Sveinbjarnar Magnússonar úr Breiðafjarðareyjum, langafa Einars Odds. Af honum er ég líka kominn. Þegar við Einar hittumst hin síðari árin var helst ekki minnst á pólitík líðandi stundar; þá var okkur gamli tíminn hugstæðari.
Einar Oddur var góður maður, einstaklega hlýr og góður. Umfram allt þannig minnist ég hans.
Einar Oddur Kristjánsson látinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
14.7.2007
Véfréttarstíll ...
Hvað á eftirtalið fólk sameiginlegt - annað en að ég vildi hafa það með mér á eyðieyju: Cilla Black, Barry White, Pamela Green, Dan Brown, Paul Adair, Daniel Cohn-Bendit, Rudi Dutschke, Kenneth Livingstone? Kannast ekki allir við Henry J. Deutschendorf, Louise C. Ritchie og Robert A. Zimmerman?
Sjá næstu klausu hér á undan: Klukkaður líkt og fleiri ... Og - hvað fleira getið þið lesið úr því sem þar kemur fram - umfram sjálf undarlegheitin í mér?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Eins og fleiri hér á blogginu var ég klukkaður. Að vísu veit ég lítið út á hvað þetta gengur en margir virðast tilgreina eitthvað varðandi sjálfa sig, oft í átta liðum. Ég leyfi mér að gera það líka. Margt kom til álita - en hér eru átta liða úrslitin:
1. Tónlistarfólk sem ég hef sérstakar mætur á: Henry J. Deutschendorf, Louise C. Ritchie, Magnús Þór Jónsson, Eleanora Fagan, Ásbjörn Kristinsson, Robert A. Zimmerman, Vincent D. Furnier, James N. Osterberg.
2. Tíu bækur sem ég vildi hafa með mér á eyðieyju: Birtíngur eftir Voltaire, Bókin um veginn eftir Laó Tse, Bör Börsson (fyrra bindið) eftir Johan Falkberget, Egils saga (óvíst um höfund; e.t.v. Snorri Sturluson), Kuml og haugfé eftir Kristján Eldjárn, Ofvitinn eftir Þórberg Þórðarson, Sögukaflar af sjálfum mér eftir Matthías Jochumsson, Tómas Jónsson metsölubók eftir Guðberg Bergsson, Ævintýraeyjan eftir Enid Blyton.
3. Dómsmálaráðherrar sem ég hef í hávegum: Peter A. Alberti, Jónas Jónsson frá Hriflu, Hilde Benjamin.
4. Uppáhaldsþorskafjörðurinn: Þorskafjörður í Austur-Barðastrandarsýslu.
5. Íslenskir óperusöngvarar sem mér þykja sérlega athyglisverðir: Eggert Stefánsson, Garðar Hólm, Kristján Jóhannsson.
6. Fólk sem ég vildi hafa með mér á eyðieyju: Cilla Black, Barry White, Pamela Green, Dan Brown, Paul Adair, Daniel Cohn-Bendit, Rudi Dutschke, Kenneth Livingstone.
7. Fólk sem ég vildi ekki hafa með mér á eyðieyju: Þorgeir Hávarsson, Hómer Simpson, Paris Hilton, Britney Spears.
8. Hæsta fjall sem ég hef ekki gengið á: Everest.
Þetta er nú annars meiri bölvuð vitleysan ...Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Breiðavík er upptekin vegna ferðaþjónustu en Núpur í Dýrafirði er laus. Þar var mjög lengi heimavistarskóli fyrir unglinga en núna eru húsakynnin miklu til sölu. Með því að nýta aðstöðuna á Núpi má slá tvær flugur í einu höggi: Leysa deiluna um Njálsgötuheimilið og fjölga fólki á Vestfjörðum. Sumir hinna nýju Dýrfirðinga gætu t.d. unnið við umhirðu í garðinum Skrúði, aðrir við að smíða hrífuhausa og enn aðrir við að telja fugla, eða hverjir aðra, auk þess sem allir yrðu í fjarnámi.
Jafnframt væri afstýrt hættunni á verðfalli húseigna við Njálsgötuna og þar í grennd.
Njálsgötufólkið heldur úti bloggsíðu hér á Moggabloggi undir heitinu Nágrannar Njálsgötu 74. Vonandi heldur hópurinn áfram að blogga eftir flutninginn vestur, t.d. undir titlinum Njálsgötufólk Núpi í Dýrafirði.
Þegar ég var nemandi á Núpi fyrir bráðum hálfri öld var einangrunin þar mikil. Segja má að héraðsskólarnir í gamla daga hafi verið samfélög að mestu utan hins venjulega mannlega samfélags.
Í trausti þess að svo sé enn legg ég fram ofangreinda hugmynd varðandi framtíðarbúsetu þess mannfjandsamlega liðs sem hamast gegn fyrirhuguðu heimili að Njálsgötu 74.
Borgarráð samþykkir starfsemi við Njálsgötu 74 | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Dofri Hermannsson, sem er varaborgarfulltrúi í Reykjavík og starfandi framkvæmdastjóri þingflokks Samfylkingarinnar eftir því sem fram kemur í kynningu á bloggsíðu hans, skrifar í yfirlætis- og fyrirlitningartón um þá athugun sem nú fer fram á því að reisa olíuhreinsunarstöð á Vestfjörðum. Fyrirsögnin hjá honum er Að "windowsjoppa" olíuhreinsunarstöð. Þar fjallar hann m.a. um ferð sérlegrar sendinefndar stóriðjumangara og fleiri til meginlandsins til að kynna sér slíkar stöðvar. Ef reynt er að skilja hvað maðurinn er að fara verður ekki annað séð en hann sé - og þá væntanlega fyrir hönd þingflokks Samfylkingarinnar sem hann er starfandi framkvæmdastjóri fyrir eins og hann tekur fram - þegar búinn að afskrifa eins kjánalegt og fyrirlitlegt fyrirbæri og olíuhreinsunarstöð á Vestfjörðum.
Hafa má í huga, að meðal þeirra sem sitja í þingflokknum sem Dofri Hermannsson stjórnar er Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra.
Óþarfi er að endursegja hér frekar ummæli framkvæmdastjórans. Best er að sem flestir lesi þau beint, einkum þeir sem málið snertir helst.
Vegna þessara afdráttarlausu ummæla starfandi framkvæmdastjóra þingflokks Samfylkingarinnar má hins vegar benda á og vitna í ummæli Sigurðar Péturssonar, oddvita Samfylkingarinnar í Ísafjarðarbæ og flokksbróður framkvæmdastjórans, sem var einn þeirra sem fóru umrædda kynnisferð. Haft er eftir Sigurði á fréttavefnum bb.is, að skoðunarferð sveitarstjórnarmanna Vesturbyggðar og Ísafjarðarbæjar hafi verið afar fróðleg og gagnleg. Að hans sögn er hér um hátækniiðnað að ræða. Í svona stöð vinnur fjöldi tæknimanna og verkfræðinga og ef til þess kemur að olíuhreinsistöð verði reist er um að ræða nýtt stig í tækniþróun á Íslandi, segir Sigurður. Það er mat hans að ferðin geri bæjarfulltrúum auðveldara fyrir að mynda sér sjálfstæða skoðun á málinu. Við fengum beinan aðgang að fólki, bæði í Þýskalandi og Hollandi, sem hefur með þetta að gera og gátum spurt þau beint þeirra spurninga sem brunnu á okkur.
Ekki verður séð mikil samsvörun með hófsamlegum orðum Sigurðar Péturssonar og drýldnislegum stílæfingum framkvæmdastjóra þingflokksins um þetta mál, þó að þeir séu flokksbræður.
Vestfirðingar ættu endilega að kynna sér nánar viðhorf og málflutning starfandi framkvæmdastjóra þingflokks Samfylkingarinnar - og þá jafnframt, skyldi maður ætla, afstöðu Samfylkingarinnar og iðnaðarráðherra til þess sem Vestfirðingar eru að bauka um þessar mundir. Ekki verður betur séð en bæjarfulltrúarnir úr Ísafjarðarbæ og Vesturbyggð hefðu getað sparað sér kynnisferðina. Starfandi framkvæmdastjóri þingflokks Samfylkingarinnar veit allt um málið. Og væri naumast að skrifa um það á svona afdráttarlausan hátt án samráðs við iðnaðarráðherra og raunar ríkisstjórnina alla.
En það kemur væntanlega í ljós.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)