Saga Reykhólahrepps öll innan tíðar?

Kristján L. Möller ráðherra sveitarstjórnarmála ætlar í vetur að leggja fram frumvarp á Alþingi þess efnis, að lágmarksíbúafjöldi sveitarfélaga verði þúsund manns í stað fimmtíu samkvæmt núgildandi lögum. „Það blasir því við stórfelld sameining fyrir vestan, því líklegt verður að teljast að frumvarp ráðherra verði samþykkt“, segir á vef Ríkisútvarpsins í dag. Þar er einnig haft eftir Aðalsteini Óskarssyni, framkvæmdastjóra Fjórðungssambands Vestfirðinga, að ekki sé hægt að sameina sveitarfélög á Vestfjörðum í samræmi við fyrirhugaða breytingu á lágmarksfjölda fyrr en stjórnvöld hafi brugðist við þeim annmörkum varðandi innviði vestfirskra sveitarfélaga sem séu á slíku. Þar nefnir hann einkum samgöngumál og miklar fjarlægðir.

Nú eru tíu sveitarfélög á Vestfjarðakjálkanum og öll innan vébanda Fjórðungssambands Vestfirðinga. Eflaust kemur þetta mál til umræðu á Fjórðungsþingi Vestfirðinga sem haldið verður á Reykhólum eftir hálfan mánuð.

Íbúar Reykhólahrepps voru 266 núna í ársbyrjun. Ef áform ráðherrans verða að veruleika, þá er ljóst að ekki væri nóg að Reykhólahreppur og Dalabyggð sameinuðust í eitt sveitarfélag, því að íbúafjöldinn í Dalabyggð er 708 og samanlagður íbúafjöldi yrði því 974 (hér eru í öllum tilvikum notaðar tölur Hagstofunnar um íbúafjölda 1. janúar).

Ekki myndi duga að öll sveitarfélögin fjögur í Strandasýslu sameinuðust í eitt, því að samanlagður íbúafjöldi yrði 748 manns. Ef öll sveitarfélög í Strandasýslu svo og Reykhólahreppur sameinuðust yrði það skammgóður vermir. Raunar yrði það alls ekki hægt miðað við þá stöðugu fólksfækkun sem verið hefur á liðnum árum.

Samanlagður íbúafjöldi í Strandasýslu og Reykhólahreppi var 1.014 manns núna í ársbyrjun og þegar kæmi að sameiningu eftir tvö-þrjú ár væri sú tala komin niður fyrir þúsundið með sama áframhaldi. Síðasta áratuginn hefur íbúum Strandasýslu fækkað jafnt og þétt eða úr 953 árið 1998 í 748 árið 2008 (fækkun um 21,5%) eða um liðlega 20 manns að jafnaði á ári. Í Reykhólahreppi stöðvaðist fólksfækkunin að vísu fyrir nokkrum árum og hefur fjölgað lítillega í hreppnum allra síðustu ár.

Þá væri sá kostur að Dalabyggð, Reykhólahreppur og sveitarfélögin í Strandasýslu sameinuðust í eitt sveitarfélag. Við fyrstu sýn mætti að vísu þykja hálfundarlegt að Hólmavík og Búðardalur yrðu í sama sveitarfélagi.

Einboðið væri að Tálknafjarðarhreppur sameinaðist Vesturbyggð enda er hann eins og eyja í landsvæði Vesturbyggðar, sem nær allt norður í miðjan Arnarfjörð. Ef Reykhólahreppur sameinaðist Vesturbyggð næðist tilskilinn íbúafjöldi og talsvert meira en það ef Tálknafjörður yrði með í þeim pakka. Telja yrði þó nokkuð langt til kóngsins fyrir íbúa Reykhólahrepps ef sveitarstjórn þeirra sæti á Patreksfirði, en þangað er um 200 km akstur frá Reykhólum eftir alþekktum eða öllu heldur alræmdum vegum héraðsins.

Íbúafjöldi í vestfirskum sveitarfélögum og Dalabyggð um síðustu áramót:

Reykhólahreppur 266, Vesturbyggð 921, Tálknafjarðarhreppur 290, Ísafjarðarbær 3.955, Bolungarvíkurkaupstaður 905, Súðavíkurhreppur 214, Strandabyggð 499, Árneshreppur 48, Kaldrananeshreppur 103, Bæjarhreppur 98, Dalabyggð 708.        

Vefur Reykhólahrepps


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband