Sparnaður?

Hugsanlega fylgjast fjölmiðlar betur en áður með töfum og bilunum og veseni af öllu tagi hjá íslensku flugfélögunum. Hvað sem því líður, þá finnst mér einstaklega mikið hafa verið um fréttir af slíku núna síðustu mánuði. Í erlendum miðlum er iðulega greint frá slíku hjá öðrum flugfélögum og sparnaðaraðgerðum kennt um í mörgum tilvikum. Sú spurning vaknar, hvort sparnaður sé farinn að ganga úr hófi hjá íslensku félögunum. Almennt eru sparnaðaraðgerðir hjá flugfélögum ekki til þess fallnar að auka á traust þeirra né heldur traustleika. Vonandi kemur ekki til þess, að sparnaður hjá íslensku félögunum bitni á öryggi vélanna.
mbl.is Sólarhringsbið á Kastrup
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggraunir ...

Ekki er ég einn um þá tilfinningu að bloggfærslurnar mínar séu einskis virði. Gott finnst mér að fá hljómgrunn skoðana minna - þeirra skoðana rétt eins og annarra. Fyrir um þrettán mánuðum - miðsumars 2007 - eyddi ég í fljótfærni blogginu mínu hjá mbl.is og hafði þá verið að bulla þar liðlega hálft ár. Þessi ráðstöfun féll í grýtta jörð hjá fáeinum vinum mínum sem töldu þessi skrif einhvers virði. Ástæða þess að ég eyddi dótinu var sú, að mér fannst einhvern veginn að ég ætti ekki heima í þessum hópi þar sem kjánagangur og stóryrði og sleggjudómar réðu ríkjum - að mér fannst.

Vinkona mín, sem var og er stórbloggari á mbl.is, leitaði þá til umsjónarmanna Moggabloggsins og spurðist fyrir um það, hvort ekki mætti endurheimta bloggið mitt. Ég var samþykkur því að hún leitaði eftir þessu en var of stór upp á mig til að vilja gera það sjálfur. Skemmst er frá því að segja, að henni var aldrei ansað. Niðurstaðan var þess vegna sú, að bloggið mitt væri týnt og tröllum gefið.

Um haustið bauð Pétur Gunnarsson mér að gerast Eyjubloggari. Ég tók því með þökkum og bloggaði á Eyjunni allt fram á mitt þetta sumar. Svo einn góðan veðurdag hljóp fjandinn í mig á nýjan leik og ég eyddi blogginu - og iðraðist þess á sömu mínútu. Núna var ég nógu auðmjúkur til að spyrjast fyrir um það sjálfur hvort öllu væri eytt og ekki neitt hefði lifað af þann lokadóm. Mektarmenn á Eyjunni sögðu að þessu yrði kippt í lag og tiltekinn tölvumeistari myndi hafa samband við mig.

Þegar tæp vika var liðin án frekari viðbragða skráði ég mig svo inn á Moggabloggið á ný. Og fékk í fyrstu engin viðbrögð. Ég skráði mig inn og fékk sjálfvirkt svar þess efnis að mér hefði verið sendur tölvupóstur með staðfestingarslóð, en sá póstur kom ekki. Ég reyndi aftur litlu síðar -  með sama árangri. Síðan sendi ég tölvupóst á bloggmenn hjá mbl.is og spurði hvort ég væri eitthvað óæskilegur þar á bæ. Þá loksins kom svar - og þá var mér sagt, að ég væri enn með gamla bloggfangið mitt hjá mbl.is og skráning mín núna væri bara skráning á aukabloggi hjá mér. Eins og ekkert væri. Jafnframt var ég spurður hvort ég vildi að færslurnar á gamla blogginu yrðu færðar á þetta nýja aukablogg.

Maður hefði nú kannski mátt frétta af þessu fyrr. Rúmlega ári fyrr.

Núna er spurningin hvort einhvern tímann í framtíðinni komi í ljós að bloggið mitt á Eyjunni sé ennþá til einhvers staðar.

Hér hef ég greint lítillega frá refsingum bloggstjóra þegar maður kjánast til að hætta í fljótræði.

Hins vegar hafa skoðanir mínar á bloggrausi mínu ekki breyst á nokkurn hátt. Þetta er og hefur alltaf verið innantómt bull. Mér er það aftur á móti einhver nauðsyn að bulla út og suður. Reikna með að halda því áfram á einhverjum vettvangi meðan öndin þöktir í nösum, hvort sem það er á bloggum eða í dagbók eða einfaldlega við sjálfan mig þegar alsheimerinn hefur tekið öll völd og það er best. Guð gefi að það gangi fljótt og vel úr því sem komið er.


Anna Pihl og félagar ...

Í gærkvöldi horfði ég á danska lögguþáttinn um Önnu Pihl. Skyldi fleiri áhorfendum en mér hafa orðið hugsað til atviksins við Miðbæjarskólann í gær?

Hitt er svo allt annað mál, að mér er nánast fyrirmunað að skilja þá tilviljun að Moggasjónvarpið skyldi vera viðstatt spólverkið ...


mbl.is „Eiginlega bara enn í sjokki“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísland í 71.-78. sæti ...

Tölfræðin varðandi verðlaun á Ólympíuleikunum er fróðleg eins og tölfræði er jafnan. Þegar ríkjum er raðað er venjulega fyrst farið eftir fjölda gullverðlauna, síðan silfurverðlauna og loks bronsverðlauna. Ríki sem hreppir fern gullverðlaun en hvorki silfur- né bronsverðlaun raðast því ofar en ríki sem hreppir þrenn gullverðlaun og fjöldann allan af silfur- og bronsverðlaunum.

Á leikunum í Peking er Ísland í 71.-78. sæti af alls 87 ríkjum sem verðlaun hlutu. Kínverjar eru þar í fyrsta sæti með 51 gull, 21 silfur og 28 brons eða samtals 100 verðlaun. Bandaríkjamenn eru í öðru sæti með 36 gull, 38 silfur og 36 brons eða samtals 110 verðlaun.

Frá upphafi Ólympíuleika nútímans (1896) eru Bandaríkjamenn langefstir með 1.010 gull, 810 silfur og 697 brons eða samtals 2.517 verðlaun. Þá eru taldir bæði sumarleikar og vetrarleikar. Rússar koma næstir en þá eru talin með þau verðlaun sem féllu Sovétríkjunum gömlu í skaut. Þjóðverjar eru í þriðja sæti, Ítalir í fjórða og Frakkar í fimmta sæti.

Ísland er í 93.-95. sæti af 124 ríkjum sem verðlaun hafa hlotið á Ólympíuleikum frá upphafi.

Vegna margvíslegra tilfæringa í ríkjaskipan er talning eða skráning af þessu tagi samt aldrei einhlít. Ríki hafa sameinast og sundrast á margvíslegan hátt og vel að merkja eru það ríki en ekki þjóðir sem taka þátt í Ólympíuleikum.

Sjá töflur.

Óneitanlega er það annars skemmtilegt að sá maður sem kallaður hefur verið faðir handboltans á Íslandi skuli vera afi eins af leikmönnunum í silfurliðinu 2008. Sonarsonurinn fæddist reyndar þegar átta ár upp á dag voru liðin frá andláti afans.


mbl.is Á verðlaunapallinum - myndir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Minni auðmjúklegast á Bermúdaskálina

Silfur á Ólympíuleikum besti árangur Íslendinga í hópíþrótt? Hvað með Bermúdaskálina sem íslenska sveitin vann í Yokohama 1991? Keppnin um Bermúdaskálina er heimsmeistaramótið í brids og fer fram annað hvert ár. Í fyrra sigruðu Norðmenn en þá var keppnin haldin í Kína. Með því að minna á þetta er ég hreint ekki að gera lítið úr glæsilegum árangri handboltaliðsins.
mbl.is Ísland í 2. sæti á ÓL
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Saga Reykhólahrepps öll innan tíðar?

Kristján L. Möller ráðherra sveitarstjórnarmála ætlar í vetur að leggja fram frumvarp á Alþingi þess efnis, að lágmarksíbúafjöldi sveitarfélaga verði þúsund manns í stað fimmtíu samkvæmt núgildandi lögum. „Það blasir því við stórfelld sameining fyrir vestan, því líklegt verður að teljast að frumvarp ráðherra verði samþykkt“, segir á vef Ríkisútvarpsins í dag. Þar er einnig haft eftir Aðalsteini Óskarssyni, framkvæmdastjóra Fjórðungssambands Vestfirðinga, að ekki sé hægt að sameina sveitarfélög á Vestfjörðum í samræmi við fyrirhugaða breytingu á lágmarksfjölda fyrr en stjórnvöld hafi brugðist við þeim annmörkum varðandi innviði vestfirskra sveitarfélaga sem séu á slíku. Þar nefnir hann einkum samgöngumál og miklar fjarlægðir.

Nú eru tíu sveitarfélög á Vestfjarðakjálkanum og öll innan vébanda Fjórðungssambands Vestfirðinga. Eflaust kemur þetta mál til umræðu á Fjórðungsþingi Vestfirðinga sem haldið verður á Reykhólum eftir hálfan mánuð.

Íbúar Reykhólahrepps voru 266 núna í ársbyrjun. Ef áform ráðherrans verða að veruleika, þá er ljóst að ekki væri nóg að Reykhólahreppur og Dalabyggð sameinuðust í eitt sveitarfélag, því að íbúafjöldinn í Dalabyggð er 708 og samanlagður íbúafjöldi yrði því 974 (hér eru í öllum tilvikum notaðar tölur Hagstofunnar um íbúafjölda 1. janúar).

Ekki myndi duga að öll sveitarfélögin fjögur í Strandasýslu sameinuðust í eitt, því að samanlagður íbúafjöldi yrði 748 manns. Ef öll sveitarfélög í Strandasýslu svo og Reykhólahreppur sameinuðust yrði það skammgóður vermir. Raunar yrði það alls ekki hægt miðað við þá stöðugu fólksfækkun sem verið hefur á liðnum árum.

Samanlagður íbúafjöldi í Strandasýslu og Reykhólahreppi var 1.014 manns núna í ársbyrjun og þegar kæmi að sameiningu eftir tvö-þrjú ár væri sú tala komin niður fyrir þúsundið með sama áframhaldi. Síðasta áratuginn hefur íbúum Strandasýslu fækkað jafnt og þétt eða úr 953 árið 1998 í 748 árið 2008 (fækkun um 21,5%) eða um liðlega 20 manns að jafnaði á ári. Í Reykhólahreppi stöðvaðist fólksfækkunin að vísu fyrir nokkrum árum og hefur fjölgað lítillega í hreppnum allra síðustu ár.

Þá væri sá kostur að Dalabyggð, Reykhólahreppur og sveitarfélögin í Strandasýslu sameinuðust í eitt sveitarfélag. Við fyrstu sýn mætti að vísu þykja hálfundarlegt að Hólmavík og Búðardalur yrðu í sama sveitarfélagi.

Einboðið væri að Tálknafjarðarhreppur sameinaðist Vesturbyggð enda er hann eins og eyja í landsvæði Vesturbyggðar, sem nær allt norður í miðjan Arnarfjörð. Ef Reykhólahreppur sameinaðist Vesturbyggð næðist tilskilinn íbúafjöldi og talsvert meira en það ef Tálknafjörður yrði með í þeim pakka. Telja yrði þó nokkuð langt til kóngsins fyrir íbúa Reykhólahrepps ef sveitarstjórn þeirra sæti á Patreksfirði, en þangað er um 200 km akstur frá Reykhólum eftir alþekktum eða öllu heldur alræmdum vegum héraðsins.

Íbúafjöldi í vestfirskum sveitarfélögum og Dalabyggð um síðustu áramót:

Reykhólahreppur 266, Vesturbyggð 921, Tálknafjarðarhreppur 290, Ísafjarðarbær 3.955, Bolungarvíkurkaupstaður 905, Súðavíkurhreppur 214, Strandabyggð 499, Árneshreppur 48, Kaldrananeshreppur 103, Bæjarhreppur 98, Dalabyggð 708.        

Vefur Reykhólahrepps


Skilur einhver þessa frétt?

Ef einhver skilur þessa frétt, þá gefi hann sig vinsamlegast fram hér í athugasemdadálkinum. Er búið að flytja norðurskautið suður að Hvítahafi? Ef ég man rétt, þá er Severodvinsk skammt frá Arkangelsk, sem er á svipaðri breiddargráðu og Reykjavík. Eða er hér um tvö óhöpp að ræða, annað í dag og hitt sl. fimmtudag, sem mér skilst að hafi veríð í gær?

                    

Erlent | mbl.is | 27.7.2007 | 12:02

Sprenging í rússneskum kafbáti

Rússneskur kafbátur skemmdist mikið í sprengingu sem varð á norðurskautinu í dag, en verið var að gera við bátinn þegar sprengingin varð. Samkvæmt rússneskum fjölmiðlum lést enginn.

Rússneskir embættismenn hafa ekki viljað tjá sig hvort um kjarnorkuknúinn kafbát hafi verið að ræða eður ei. Interfax fréttastofan segir enga óvenjulega geislavirkni hafa mælst í Severodvinsk þar sem atvikið átti sér stað sl. fimmtudag. Um 215 fermetra svæði á kafbátaskrokknum skemmdist í sprenginunni segir rússneska útvarpsstöðin Ekho Moskvy.

- - -

Viðbót: Leyfi mér að smella hér inn annarri sérkennilegri frétt af mbl.is, sem ég hnaut um fyrir skömmu og vistaði til nánari umhugsunar. Fréttinni fylgdi mynd af Amalíenborg. Líklega er ég bara svona skilningslaus.

Veröld/Fólk | mbl.is | 25.7.2007 | 11:58

Blogg sigurvegaranna

Á blogginu er varla talað um annað um þessar mundir en að ég taldi mig eiga möguleika á að landa sigri á stórmóti og gerðist atvinnumaður hefur verulega kofa, eða glæsilegt tónleikahús.

Þar sem þrír kylfingar skipstjórnarmenn á fiskiskipa og öryggismálum sjómanna í þróunarlöndunum meðhöndlun hrauna, þar sem verði háttað til Vestmannaeyja, spurður um viðbrögð sín við skýrslutöku hjá lögreglu og er þar lítill tími gefist til lesenda blaða með gagnrýnandinn bað bandarísku þátttakendurnir 20 lentu hins vegar einkar auðvelt að reikna sig fram til þessa. Viðburðir en erlendir á að samkvæmt kortabók Landmælinga heitir hann? 3 Fræg þýsk leikkona verður orðið breytingar virðast hins vegar upp um eitt sæti og er í því fimmta.

mbl.is Sprenging í rússneskum kafbáti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hjólreiðamenn skyldaðir í vitsmunapróf?

Hjólreiðakeppnin Tour de France minnir á raunveruleikaþætti þar sem spurningin er ekki hver sigrar í hverjum áfanga heldur hverjum verður hent út næst. Ég hef nokkuð lengi fylgst með umræðunni um þessi mál á erlendum vefjum, einkum spiegel.de. Hver afreksmaðurinn í hjólreiðum eftir annan hefur komið fram og vitnað um þá spillingu sem mjög lengi hefur viðgengist og jafnframt sakað fjölda annarra um þátttöku í slíku. Þeir hafa haldið því fram, að engin leið sé að vera í fremstu röð nema með svindli, sem raunar er orðið að heilli vísindagrein eða sérgrein innan læknisfræðinnar.

 

Svo virðist sem hugarfarið hjá þeim sem eiga keppnisliðin sé að breytast einmitt núna - ekki kannski vegna aukins siðferðisþroska heldur af illri nauðsyn. Skriðan verður ekki stöðvuð úr þessu. Samsærið hefur verið rofið. Hjólreiðarnar eru orðnar að hreinum farsa og styrktarfyrirtækin hætta stuðningi hvert af öðru og vilja ekki leggja nafn sitt við það sem þarna viðgengst.

 

Það sem mér virðist þó einna merkilegast í umræðunni er einkum tvennt. Annars vegar fullyrðingar þess efnis, að brátt komi röðin að atvinnumönnum í knattspyrnu í þessum efnum. Hins vegar að ekki væri minni ástæða til að láta hjólreiðakappana gangast undir vitsmunapróf en lyfjapróf. Með hliðsjón af orðum og gerðum margra af þessum görpum að undanförnu er það vel skiljanlegt.

 
mbl.is Michael Rasmussen vikið úr Tour de France
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ljósmynd af ljósmyndara á Moggabloggi

Jonsbud 24.07.07Kjartan Pétur Sigurðsson ljósmyndari og bloggari á Moggabloggi lenti hér á Reykhólum í kvöld og tók bensín í Jónsbúð. Ég leyfði mér að taka ljósmynd af ljósmyndaranum þegar hann fékk einhvern stimplunarpassa eða hvað það nú er hjá Jóni kaupmanni. Kjartan flýgur á fisi og var að koma frá Ísafirði á leið suður.

 

Þeir voru sex félagarnir á sex flugvélum sem lentu hér núna í kvöld - eða fimm flugvélum og einu fisi - en fjórir þeirra komu hér við á leiðinni vestur fyrir hádegið í dag. Hópurinn var í sunnudagsbíltúr (eða þannig) á þriðjudegi og skrapp til Ísafjarðar að fá sér að borða hjá meistarakokknum Magnúsi Haukssyni í Tjöruhúsinu í Neðstakaupstað. Þeir urðu ekki fyrir vonbrigðum með rauðsprettuna hjá Magga og Rönku sögðu þeir. Kannski hefur sjálfur Halldór Hermannsson skötufræðingur og Rönkupabbi verið að hjálpa tengdasyninum í kokkeríinu. Magnús er samt alveg sjálfbjarga á þeim vettvangi og rúmlega það hefur mér fundist.

 

Jonsbud 24.07.07 - 2Meira á bb.is á morgun. Ég vona að Kjartan hafi ekki tekið myndir af mér. Til vara að þær verði ekki birtar.

 

> bb.is 24.07.07 Á leið í hádegismat á Ísafirði

 

Örsögur frá nýliðinni ævi

Sigurður Hreiðar sveitungi minn úr Mosfellssveitinni sem eitt sinn var klukkaði mig um daginn. Núna er klukkið óðara horfið úr tísku eins og mýstrókur þegar kular og þess vegna orðið tímabært að svara með nokkrum örsögum af handahófi frá fyrri hluta liðinnar ævi. Eða er hún kannski ekki liðin?

 

0077                      

Eftir að ég fékk hvolpavitið var ég óskaplega skotinn í Diddu skólasystur minni sem átti heima niðri í Hlíðartúni og engin furða. Ég smíðaði hringa handa okkur úr girðingarvír sem ég flatti með hamri og gullbronsaði. En ég þorði ekki að segja henni frá trúlofun okkar fyrr en fjörutíu árum seinna.

 

0119                          

Sumarið 1960 þegar vegavinnuflokkurinn var að flytja rétt einu sinni sat eldhússkúrinn sem var á pallinum hjá Magnúsi í Garði fastur milli hamraveggjanna á leiðinni niður Almannagjá. Það var gaman þangað til Siggi á Bakka sagði: Ekki veit ég hvenær við fáum að éta ef við getum ekki losað hann.

 

0305                            

Sumarið þegar ég var átján ára vann ég á Tollpóststofunni í Reykjavík. Daginn þegar ég byrjaði voru kallarnir að ræða hvað þeir ætluðu að gera í sumarfríinu. Guðjón gamli sagðist ekki ætla að fara neitt núna. En ég er að hugsa um að skreppa norður í haust og vera við jarðarför bætti hann við.

 

0566                         

Þegar ég var afleysingamaður í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg voru heilu dyngjurnar af fjögurra laufa smára í garðinum en það er gæfumerki. Einu sinni sem oftar var ég með fangana úti en þegar ég var búinn að smala inn vantaði einn. Hann var svo gæfusamur að geta falið sig í smárabreiðunni.

 

2113                       

Ekki hef ég flutt sand til Sahara ennþá að minnsta kosti en einu sinni fluttum við fjögur þúsund tonn af marmaragrjóti frá Brasilíu til Livorno sem heitir Leghorn á ensku. Skammt frá eru marmaranámurnar frægu í Carrara og ég veit að margir eiga fína gripi úr ekta ítölskum Carraramarmara frá Brasilíu.

 

2341                        

Þegar ég vann við timburútskipun í Arkangelsk á dögum Sovétríkjanna voru alltaf hermenn á vappi við höfnina. Þeir voru í svörtum síðfrökkum enda er ákaflega kalt þarna á vetrum og báru riffla og styttu sér stundir við að skjóta rottur. En ég hugsaði með mér: Nú kemur sér vel að vera ekki rotta.

 

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband