Færsluflokkur: Bloggar

Baugsmál og Jónína fjörlega rædd á Málefnavefnum ...

Nú er fjör í kringum fóninn, var einu sinni sagt. Þessar stundirnar er heldur betur fjör í umræðunum á Málefnunum, í kjölfar nýjasta bloggsins hjá Jónínu Benediktsdóttur. Fyrir þann sem utan við stendur, þann sem sér ekki heiminn bara í svarthvítu (Baugsdýrkendur - Baugshatarar, KR - Valur o.s.frv.) er þetta eiginlega hin skemmtilegasta umræða ...

 

Sterar, ofsaakstur, heimilisofbeldi og formaður Kraftlyftingasambandsins

Það var ekki neinn „einhver“ sem var tekinn með þrjátíu þúsund skammta af steralyfjum í vörslu sinni í fyrradag. Það var sjálfur formaður Kraftlyftingasambands Íslands og núverandi heimsmeistari í kraftlyftingum í sínum aldursflokki, Jón „bóndi“ Gunnarsson, sem jafnframt er auglýstur sem einkaþjálfari á vef sambandsins. Svo vildi til, að ársþing Kraftlyftingasambandsins var haldið í fyrrakvöld. Jón bauð sig ekki fram til endurkjörs og var því nýr formaður kosinn í hans stað.

 

Í frétt á ruv.is kemur fram, að grunur sé um að efnin hafi verið ætluð til sölu. Ef það er rangt ályktað, þá má ætla að Jón bóndi hafi ætlað þau til eigin nota, enda still going strong í íþrótt sinni, sbr. heimsmeistaratitil 40-49 ára sem hann hlaut í Bandaríkjunum í vetrarbyrjun, annað árið í röð. Ef gert er ráð fyrir einum skammti á dag - raunar veit ég ekkert hver ráðlagður dagsskammtur er - þá hefði þetta magn dugað honum næstu 82 árin eða fram til 130 ára aldurs. Hitt verður að teljast líklegra, að efnin hafi verið ætluð til sölu, væntanlega þá að einhverju leyti í tengslum við einkaþjálfarastarfið.

 

Varðandi afleiðingar steranotkunar má vitna í orð Áslaugar Sigurjónsdóttur, formanns lyfjanefndar ÍSÍ. Á vefnum ruv.is er haft eftir henni, að aukin árásarhneigð þeirra sem neyta steralyfja birtist m.a. í barsmíðum, nauðgunum og heimilisofbeldi. Hún vill að lögregla kanni hvort ofbeldismenn og þeir sem teknir eru fyrir ofsaakstur verði prófaðir fyrir sterum. Áslaug segir að það séu yfirleitt karlmenn sem taki inn stera en það þekkist einnig að konur hafi tekið þá inn. Þeir geti valdið alvarlegu heilsutjóni hjá þeim sem notar sterana. Einnig valdi þeir breytingum á skapgerð, aukinni árásarhneigð sem hafi áhrif út í samfélagið.

 

Spyrja má, hvers vegna fréttin af þessu máli er á vefmiðlum flokkuð sem almenn innlend frétt en ekki sem íþróttafrétt. Benda má á, að á mbl.is er fréttin af afsögn forseta ítalska knattspyrnuliðsins Catania í kjölfar óeirða flokkuð sem íþróttafrétt. Hvað sem því líður, þá er þetta hið versta mál fyrir orðspor kraftlyftingamanna og íþróttahreyfinguna í heild. Varla var á bætandi.

 
mbl.is Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lagði hald á yfir 30.000 steratöflur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heilbrigðisráðherra í vondum málum

Stöð 2 greindi frá því í kvöldfréttum, að Siv Friðleifsdóttir heilbrigðisráðherra hefði tekið sér fé úr Framkvæmdasjóði aldraðra til vinnslu og dreifingar á áróðursbæklingi um „nýja sýn“ ráðherrans á öldrunarmál. Fram kom í fréttinni að þetta muni ekki vera í fyrsta skiptið sem heilbrigðisráðherrar taka sér fé úr þessum sjóði, þannig að hér er a.m.k. ekki um að ræða nýja sýn á verkefni Framkvæmdasjóðs aldraðra.

 

Rætt var við ráðherrann um þetta mál í fréttatíma stöðvarinnar. Líklega dettur fáum í hug nema ráðherrum að snúa hlutunum svo gersamlega á hvolf, að þetta samrýmist reglum um notkun fjármuna úr Framkvæmdasjóði aldraðra. Samkvæmt lögum á að nota framlög úr sjóðnum til að byggja og viðhalda stofnunum og dvalarheimilum fyrir aldraða; einnig er heimilt að nota fé úr sjóðnum til annarra verkefna sem stuðla að uppbyggingu öldrunarþjónustu. Ekkert undarlegt þó að ráðherranum hafi vafist nokkuð tunga um tönn þegar hann var krafinn skýringa.

 

Ekki sé ég í fljótu bragði að aðrir vefmiðlar en visir.is hafi enn tekið við sér í þessu máli. Það hlýtur samt að gerast á næstu dögum. Á síðustu árum hafa ráðherrar í Skandinavíu og víðar í norðanverðri Evrópu hrökklast frá fyrir veigaminni brot.

 

Byrgismálið er mikill áfellisdómur yfir þeim ráðherrum, sem vissu árum saman hvernig ástandið var en héldu því leyndu. Fyrir heilbrigðisráðherrann er þetta mál þó verra, ef eitthvað er.

                   

visir.is 03.02.2007 Framkvæmdasjóður aldraðra borgaði framtíðarsýn heilbrigðisráðherra


Harður vetur á Núpi í Dýrafirði

Af einhverjum ástæðum rifjast upp veturinn minn í Héraðsskólanum á Núpi í Dýrafirði (1960-61), líklega vegna ýmissar umræðu nú. Veturinn sá var ekki mjög góður. Eiginlega alveg hrikalegur. Samt þarf ég naumast að kvarta mikið, ef litið er á reynslu fjölmargra annarra ungmenna á ýmsum stöðum og ýmsum tímum.

 

Frá upphafi og fram að þessu hafði ég verið við gott atlæti (og góðan orðstír, leyfi ég mér að segja) í Brúarlandsskóla í Mosfellssveit, minni heimasveit - rétt hjá Álafosskvosinni sem núna er margumrædd; skólasundið var í lauginni hans Sigurjóns á Álafossi. Skólastjóri á Brúarlandi var Lárus Halldórsson, úrvalsmaður og kommúnisti af hugsjón eins og títt var um skólamenn á þeim tíma. Ekki ber nokkurn skugga á nokkurn kennara á Brúarlandi á minni tíð né skólalífið yfirleitt; raunar er þar allt sólgeislum vafið í minningunni.

 

Gott orð fór af Núpsskóla undir stjórn séra Eiríks J. Eiríkssonar og þó ekki síst séra Eiríki sjálfum. Núna urðu þær breytingar á högum séra Eiríks, að hann gerðist prestur og þjóðgarðsvörður á Þingvöllum og hugðist jafnframt reka þar lítinn unglingaskóla. Móðir mín skráði mig hjá honum en þegar komið var fram á skólatíma hætti Eiríkur skyndilega við skólahaldið; ég vissi aldrei hvers vegna. Eiríkur gekk hins vegar frá því, að þeir sem vildu gætu komist í skólann vestur á Núpi þó að hann væri þegar fullsetinn. Og það varð úr hvað mig snerti; ég fór vestur í Dýrafjörð með strandferðaskipi þegar hálfur mánuður eða svo var liðinn af skólanum. Fyrst um sinn var ég ásamt nokkrum fleirum, sem svipað var ástatt um, til húsa hjá ágætu fólki á Alviðru, rétt hjá Núpi, meðan gerðar voru ráðstafanir á heimavistinni til að hýsa viðbótarnemendur. Síðan var ég settur í átta manna endaherbergi á vistinni, en annars voru þrír í hverju herbergi á Núpi.

 

Þetta átta manna herbergi hlaut fljótlega nafnið Órólega deildin - mig minnir að einhver deild á Kleppsspítala hafi gengið undir því nafni. Af þessum átta voru sex á aldrinum 15-17 ára, ef mig svíkur ekki minnið, en ég var 13 ára. A.m.k. sumir í þessum hópi voru svokallaðir gangsterar að sunnan, og Núpur þrautalending fyrir þá. Skemmst er frá því að segja, að vistin í þessum félagsskap var nánast óbærileg - þó að ég kynntist ekki hugtakinu einelti fyrr en miklu seinna. Ekki bætti úr að skólastjórinn Arngrímur Jónsson setti alla í herberginu undir sama hatt; hvenær sem herbergisfélagar mínir gerðu einhvern óskundann, þá tók hann mig líka í þriðju gráðu yfirheyrslu. Þarna var ég því milli tveggja elda þennan vetur; vonandi endist mér ævin til þess að losna við illar tilfinningar í garð Arngríms skólastjóra. Mér skildist seinna að hann hefði þennan fyrsta skólastjórnarvetur sinn verið á tánum, eins og kallað er, til þess að missa ekki niður þá virðingu sem séra Eiríkur hafði notið. Trúlegt finnst mér hins vegar, að Eiríkur hafi notið virðingar sakir mildi fremur en grimmdar.

 

Kalinn á hjarta þaðan slapp ég.

 

Veturinn eftir var ég í Gagnfræðaskólanum við Vonarstræti í Reykjavík og tók landspróf um vorið. Það var góður vetur, þó að ég næði ekki þá og raunar aldrei síðan þeirri einbeitingu og þeim námsárangri sem ég hafði áður en hvort tveggja fór til andskotans veturinn minn á Núpi.

 

Nýja fréttastefið í Ríkisútvarpinu

Það er komið nýtt stef á undan fréttunum í Ríkisútvarpinu. Í staðinn fyrir skýra og kraftmikla tóna sem kunngerðu fréttalesturinn er komin einhver skelfileg flatneskja, loðmulla, dauðyflismúsík. Er bara verið að breyta breytinganna vegna? Kannski er ég svona íhaldssamur, en mér finnst þetta eiginlega hið versta mál.

 

Ekki er það nú alltaf stórvægilegt sem maður getur nöldrað yfir ...

 

Draugagangur á Moggabloggi?

Í dag varð ég fyrir sérkennilegri reynslu hér í bloggheimi. Einhvern tímann kringum hádegið leit ég á forsíðuna á Moggabloggi og sá þar nýja færslu frá manni sem er vel þekktur í sinni stétt; var raunar kollega minn lengi þótt við hefðum aldrei hist eða talast við, það ég man. Þarna var hann að fjalla um tiltekið umferðarslys og kvaðst hafa heyrt að ökumaðurinn hefði ákveðið að binda endi á líf sitt og ástarsorg með þessum hætti. Ég skrifaði stutta athugasemd við þetta blogg, eina málsgrein, efnislega á þessa leið: Mér finnst eiginlega ótækt að fjalla með þessum hætti um svo persónuleg mál á opinberum vettvangi.

Síðdegis hringdi gemsinn minn. Áðurnefndur bloggari kynnti sig og krafði mig svara um það, hvað ég meinti eiginlega með athugasemdinni. Mér vafðist eitthvað tunga um tönn, sjaldan slíku vant, enda getur þvælst fyrir manni að útskýra hluti sem ættu að vera auðskildir. Samt reyndi ég að umorða skoðun mína þannig að hún skildist, en á meðan sleit viðmælandinn samtalinu umyrðalaust, skellti á, eins og kallað er.

Ég ætlaði þessu næst að líta aftur á téða bloggsíðu, en þá var hún ófinnanleg. Hún er enn ófinnanleg hér á Moggabloggi, hreinlega horfin, og væri ekki fyrir símanúmerið í gemsanum mínum, skráð kl. 16.08, þá héldi ég kannski að mig hefði dreymt þetta. Eða er þetta einhver draugagangur?

 

Enn um STEF - ríkið í ríkinu

Væntanlega hefur héraðsdómarinn dæmt samkvæmt lögum í máli STEF og SFH*) gegn búðareiganda í Vestmannaeyjum. Hitt er annað mál hvort einstök hagsmunasamtök eigi að geta vafið löggjafanum (les: þingmönnum) um fingur sér eins og þau lystir - með lögum skal land byggja o.s.frv. Skatturinn á ónotaða geisladiska er þar sérstakur og einkennilegur kapítuli. Eða eins og Rúnar Haukur Ingimarsson víkur að í bloggi sínu: Spurning að setja sérstakan skatt á bíla því það er hugsanlega hægt að nota þá í innbrotum, já og jafnvel bankarnir fengju settan sérstakan skatt á skíðagrímur því þær hafa verið notaðar við bankarán.

 

Athyglisvert má telja, að helstu vitnin í dómsmálinu í Vestmannaeyjum voru starfsmenn stefnenda og helsta sönnunargagnið var mynddiskur frá þeim með tónlist úr búðinni. Eða eins og segir í dómnum:

 

„Fyrir liggur í máli þessu að starfsmenn stefnenda hafa sjálfir farið í umrædda verslun og kannað hvort þar hljómi tónlist og liggja fyrir í málinu skýrslur um slíkar athuganir á árunum 2004-2006 þar sem fram kemur að tónlist hafi verið leikin í versluninni á athugunartíma.  Þá hefur verið lagður fram í dóminum mynddiskur og hefur áðurgreindur Gunnar [Gunnar Stefánsson, starfsmaður stefnenda] upplýst fyrir dómi að hann hafi á árinu 2005 og einnig sumarið 2006 farið í verslunina og tekið upp á myndavél myndskeið sem hann telur sýna fram á réttmæti kröfugerðar stefnenda.“

 

Síðar segir: „Við aðalmeðferð málsins var framangreindur mynddiskur leikinn og fór þá ekki á milli mála að heyra mátti tónlist í verslunarrýminu.“

 

Dóm Héraðsdóms Suðurlands má lesa hér.

*) Í inngangsorðum dómsins segir: Stefnendur eru STEF (Samband tónskálda og eigenda flutningsréttar), kt. 000000-0000 og SFH (Samband flytjenda og hljómplötuframleiðenda), kt. 000000-0000, bæði til heimilis að Laufásvegi 40, Reykjavík.


mbl.is Sannað að viðskiptavinir í verslun heyrðu í útvarpi á kaffistofu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ljósaperur á Alþingi og víðar

Hvað þarf marga þingmenn til að skipta um ljósaperu? Mér þykir líklegt að þeir geri það alls ekki.

 

Eitt sinn vann ég á ríkisstofnun þar sem voru margar ljósaperur (þar á ég ekki við starfsmennina heldur lýsingarbúnað). Oft kom fyrir að ég og aðrir skiptum um ljósaperur þegar þörf krafði. Jafnvel á hverjum degi. Þarna var mikið af loftljósum með flúrpípum eða hvað það heitir - aflöngum ljósaperum - og sífellt var einhver að bila og blikka. Nóg var af varaperum í geymsluherbergi.

 

Athæfi okkar komst upp - þetta athæfi að skipta um peru eins og ekkert væri, hvort sem þær voru kúlulaga eða aflangar - og taldist hið versta mál. Á þessu var tekið af ábyrgð og festu: Starfsmönnum var stranglega bannað að skipta um peru, ef hún var aflöng. Heimilt var að skipta um peru, ef hún var kúlulaga og bilunin taldist hafa veruleg áhrif á starfsumhverfi þess sem perunnar naut. Kalla skyldi til löggiltan rafvirkjameistara, sem tiltekinn var, hvenær sem aflöng pera bilaði. Hann skyldi jafnframt skipta um kúlulaga perur, sem starfsmenn höfðu ekki skipt um vegna þess að bilun þeirra taldist ekki hafa veruleg áhrif á starfsumhverfi þeirra sem þeirra nutu.

 

Mig minnir að rafvirkjameistarinn hafi eftir þetta setið hjá okkur flesta kaffitíma.

 

Annars held ég að það séu ekki margar ljósaperur á Alþingi núna.

 

Hvað þarf margar ljósaperur til að skipta um þingmenn?

 
mbl.is „Hvað þarf marga þingmenn til að skipta um ljósaperu?“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólafur Ragnar, Björn Bjarnason og vanmetakindurnar

Vansælar manneskjur eru sífellt að narta í Ólaf Ragnar Grímsson - alveg sama hvað hann gerir eða gerir ekki. Einkum virðist hér um að ræða fólk sem hefur árangurslítið reynt að komast til metorða á hægri vængnum og reynir enn með þessum hætti að vinna sig í álit með þráhyggjukenndu röfli í garð forsetans. Því ómerkilegri sem karakterinn er, þeim mun meira nöldur í garð Ólafs Ragnars.

 

Hliðstæðan á hinum vængnum eru þráhyggjukenndar árásir á Björn Bjarnason dómsmálaráðherra. Alveg sama hvað hann segir eða gerir, alveg sama hvað hann segir ekki eða gerir ekki - vanmetakindur sem halda að þær séu vinstrisinnaðar eru alltaf tilbúnar með svigurmæli í hans garð.


Með tetanus í höfðinu

Kisa beit mig í gærmorgun; auk þess er ég illa klóraður. Varla voru liðnar tíu mínútur þegar ég hringdi á heilsugæslustöðina í Búðardal og spurði eftir lækninum. Mér var sagt að hann yrði með viðtalstíma hér á Reykhólum síðdegis. Takk, skrifaðu mig niður, sagði ég, en þá verð ég líklega dáinn úr tetanusi.

 

Mér hefur staðið stuggur af tetanusi - stífkrampa - allt frá unglingsárum þegar hann kom við sögu í námsefninu hjá Örnólfi Thorlaciusi. Svo virðist hann hafa magnast í höfðinu á mér með tímanum. Ég hef alltaf tekið sérlega vel eftir tetanustilfellum í frásögnum og kvikmyndum, nú síðast í bresku gamanþáttunum af geðstirða sveitalækninum í Sjónvarpinu í vetur.

 

Tilvitnuð orð mín, mælt af rósemi þess manns sem hefur séð Róm og mætir dauða sínum óvílinn - þá verð ég líklega dáinn úr tetanusi - urðu til þess að ég fékk ég forgangsþjónustu og bæði pensilín og stífkrampasprautu. Og er enn á lífi, hvað sem síðar verður.

 

Það var ekkert persónulegt þegar kisa beit mig og klóraði. Forsaga og málavextir eru sem hér segir:

 

Erla dóttir mín kom í nokkurra daga heimsókn ásamt hundi sínum, Dexter að nafni. Þegar hún fer aftur verður hundurinn eftir í fóstri fram á vorið. En það er þetta með hund og kött. Dexter er vanur köttum og hinn ljúfasti, en kisa mín - Helga Guðrún Geirdal fulltrúi - er alls óvön hundum. Og bregst hin versta við. Nema hvað, í gærmorgun var ég með hana í fanginu og færði mig smátt og smátt nær hundinum sem ég króaði af úti í horni - hann var smeykur - og reyndi að tala á milli þeirra líkt og prestur á milli hjóna. Þetta gekk vandræðalítið uns varla var nema spönn milli trýnanna. Kisa var að vísu síurrandi inni í sér. Þá hreyfði hundurinn sig ógætilega og kisa breyttist á sekúndubroti í ægilegt óargadýr. Grimmdarhljóðið í ketti við þessar aðstæður er skelfilegt. Ég varð höndum seinni að sleppa kisu og áður en varði var hún allt í senn búin að klóra mig til blóðs, bíta mig á kaf í höndina og horfin á braut.

 

Við Dexter sátum eftir og hugsuðum líklega báðir það sama: Tetanus!

 

Mér leið betur þegar ég var búinn að fá sprautuna. Ekki í hendinni heldur sálinni. Svo gúglaði ég tetanus. Wikipedia segir m.a.: The incubation period of tetanus ranges from 3 to 21 days, with an average onset of clinical presentation of symptoms in 8 days. Og ég hugsaði með mér: Kannski hef ég verið aðeins of dramatískur. Wikipedia segir líka: The highest mortality rates are in unvaccinated persons and persons over 60 years of age. Og þá leið mér enn betur: Ég verð ekki kominn yfir 60 years of age fyrr en eftir mánuð.

 

Núna verður mér hugsað til Þorgils Arasonar forvera míns hér á Reykhólum, sem gat haldið samtímis heilan vetur vandræðalaust Gretti Ásmundarson og þá fóstbræður Þorgeir Hávarsson og Þormóð Kolbrúnarskáld. Ætli mér sé vandara að þreyja þorra og góu með einn hund og einn kött?

  

16.01.2007 Ekki þverfótað fyrir litlum hvítum ketti

 

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband