Réttlætiskennd, eða hvað?

Alltaf er gaman að fylgjast með dýrategundinni homo sapiens - hinni vitibornu mannskepnu. Spjallvefirnir og bloggið eru kærkomnir viðbótargluggar á dýragarðinum. Ekki er minnst gaman að horfa inn í Barnaland, heim barnsins á netinu, vinsælan undirvef mbl.is, og fylgjast með spjallinu þar. Núna síðast hefur verið bæði fróðlegt og skemmtilegt að sjá skoðanir fólks á því hvað eigi að gera við nafngreindan pilt, sem sagður er hafa pínt og drepið hund norður á Akureyri.

 

Á spjallvef Barnalands hafa fjölmargir komið fram - mér skilst að þarna séu foreldarnir en ekki börnin að viðra skoðanir sínar - sem vilja að farið verði með piltinn eins og hundinn, þ.e. að hann verði pyntaður til dauða. Ekki virðist þá skipta máli hvort hann er sekur um verknaðinn enda liggur það ekki fyrir, að mér skilst - málið er bara að hefna sín á einhverjum, drepa einhvern og helst að pína hann sem allra mest áður.

 

Sumir kalla þetta réttlætiskennd.

 

Viðbrögð af þessu tagi - blindur blóðþorsti - eru vel þekkt hjá homo sapiens og hafa iðulega leitt til aftöku án dóms og laga og gera það enn í dag. Jafnframt eru eftirfarandi meginreglur vel þekktar: Því heimskara sem fólk er, þeim mun fljótara er það að dæma. Því minna sem fólk þekkir til málavaxta, þeim mun harðari eru dómarnir.

 

Réttlætiskenndin.

 

2007-06-28_182432Í gær voru hlið við hlið á vefnum visir.is fréttirnar tvær hér á myndinni.  Önnur varðar málið sem hér er til umræðu. Í hinni er greint frá verklegum æfingum fyrir börn í því að kvelja dýr sér til skemmtunar. Samkvæmt fréttinni virðist þetta hafa verið í einhverjum tengslum við leikjanámskeið.

 

Fiskveiðar og dýraveiðar og eldi dýra til slátrunar mega teljast nauðsynlegir og eðlilegir þættir lífsbaráttunnar, a.m.k. samkvæmt því sem nokkuð almennt er viðtekið og viðurkennt þessi andartökin í eilífðinni, hvað svo sem verður á morgun. Stangveiði sér til skemmtunar er ekki þar á meðal. Þar er ekki verið að veiða sér til lífsviðurværis. Sportið í laxveiði felst m.a. í því að geta kvalið fiskinn sem lengst. Tilgangurinn er ekki að koma heim með sem allra mesta lífsbjörg í pottinn. Hámark skepnuskaparins á þeim vettvangi felst í því að sleppa fiskinum lifandi eftir að hafa kvalið hann sem lengst sér til skemmtunar svo að hægt sé að kvelja hann aftur á sama hátt. Og helst aftur og aftur.

 

Hver er eðlismunurinn á því að pína hunda eða fiska? Nú, eða jafnvel fólk? Hver er eðlismunurinn á viðhorfinu til slíkra skemmtana - má e.t.v. kalla þetta lífsnautnir? - eftir því hvaða dýrategundir eiga í hlut? Er líklegt að börn sem kennt er að rétt sé að kvelja sum dýr sér til gamans öðlist með því virðingu fyrir lífi og tilfinningum annarra dýra?

 
mbl.is Morðhótunum rignir yfir ungan mann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: halkatla

hvernig er hægt að vilja pína eitthvað? sama hvað það er, mér finnst það sama andstyggðin. Ég hef enga samúð með þessum umrædda "manni" og skal ég játa það fúslega, ég er tilfinningasöm en ekki svo tilfinningasöm að það sé óskynsamlegt og móðgandi, en ef einhver finnur sig í alvöru knúinn til að leggja á hann hendur útaf þessu þá mun ég örugglega gráta - vegna fólksins sem lemur hann/drepur..... Þetta er allavega ekki réttlætiskennd, svo mikið er víst. Frekar gamaldags þorpsbúakennd þarsem allir fá tækifæri til að fá útrás í gegnum eitthvað réttlætismál. Réttlætiskennd myndi fyrirstilla að samfélagið myndi vernda sig og þá sem eru minnimáttar fyrir svona ógeðslegum hundamorðum í framtíðinni

Það er svo skrítið hvað íslendingar geta verið skrítnir, ferlega ferlega skrítið.

Takk fyrir góða grein

halkatla, 29.6.2007 kl. 11:11

2 identicon

Mér þykir þú með eindæmum skynsamur maður. Góð grein og merkilegar pælingar um siðferðiskennd mannsins.

blæ (IP-tala skráð) 29.6.2007 kl. 11:23

3 Smámynd: Vilborg Traustadóttir

Góð skilgreining.  Takk fyrir þetta.  Ég velti stundum fyrir mér í sambandi við barnaland hvort allar þessar mömmur hafi enn forræði yfir börnum sínum????

Vilborg Traustadóttir, 29.6.2007 kl. 12:09

4 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Takk fyrir góð skrif.

Helgi Jóhann Hauksson, 29.6.2007 kl. 12:43

5 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Góð lesning, eins og þín er vona og vísa.

Halldór Egill Guðnason, 29.6.2007 kl. 14:41

6 identicon

Að sjálfsögðu afsakar ekkert svona framkomu í garð þess aðila sem, að mér skilst, er grunaður ásamt fleirum um ætlaðann verknað.  Og, það að pína lifandi veru, hvort sem hún er fiskur eða maður er óafsakanlegt.  Hins vegar verð ég að segja að ég sé eðlismun á því að pína fisk í dorgkeppni og svo aftur hund.  Langflestir hundar eiga sér eigendur sem mörgum hverjum þykir afar vænt um þá, og með því að fara svona með hund þá er líka verið að misþyrma tilfinningum eigandans.

Ég myndi væntanlega gera athugasemd við það ef að ég yrði vör við það að verið væri að murka lífið á þennan hátt úr rottu sem hópur drengja (sbr.frásögn) hefði náð í, og mér myndi vera misboðið við að sjá slíkt.  En, sem hundeigandi þá myndi ég bregðast mikið harðar við ef um hund væri að ræða þar sem að þetta kæmi virkilega við tilfinningar mínar.

 En, þetta er verulega ljótt mál ef satt reynist, bæði ætlaður verknaður sem og hegðun sumra "dýravina" á blogg og spjallsíðum.

Bestu kveðjur úr Eyjafjarðarsveit

Silla

Sigurlaug Hauksdóttir (IP-tala skráð) 29.6.2007 kl. 15:22

7 Smámynd: krossgata

Athyglisverður samanburður og stórmerkileg múgæsing sem greip um sig í gær. 

Mér finnst reyndar rétt að rota/drepa fisk sem hefur verið dreginn á land, frekar en hann kafni.  Hins vegar er það óþarfi að ganga um og ja hvað skal segja, níðast á hræinu.

Það tala allir eins og það sé eitthvað vitað um afdrif hundsins eins og verknaðurinn hafi verið framinn.  Hefur hann fundist?  Veit einhver hvort þetta hefur í raun og veru gerst?

krossgata, 29.6.2007 kl. 20:15

8 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Krakki segist hafa orðið vitni að þessu, engin kannast við verknaðinn, hræið ekki fundið?  Mér fannst þessi umfjöllun ganga út yfir allan þjófabálk.  Grátið í beinni, blóð og refsing heimtuð.  Ég hélt fyrst að verið væri að tala um voðaverk gegn barni.  Minningarathöfn og kertafleytingar!?  Hundrað manns grátandi á Geirsnefi? Er fólk algerlega að tapa sér?  Erum við gersamlega hysterisk þjóð.  Fjölmiðlar stjórna greinilega hugarástandi þjóðarinnar og skirrast ekki við að leika sér með það vald.

Hvaða áróðursupphlaup er þetta líka gegn bílslysum og hraðakstri?  Mér virðast engin tilefni hafa kallað á þá umfjöllun.  Banaslys aldrei færri, kvartað yfir 20 km meðalhraða á þjóðvegum...Ég botna ekkert í þessu, einfaldur, sem ég er.  Það getur kannski einhver skýrt þetta fyrir mér?

Jón Steinar Ragnarsson, 30.6.2007 kl. 08:53

9 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Margir persónugera hunda og kett nú til dags.  Skemmtileg dýr oft á tíðum. En umræður og skrif síðustu daga hafa gengið út yfir allt velsæmi.

Ásdís Sigurðardóttir, 30.6.2007 kl. 13:14

10 Smámynd: Magnús Jónsson

þú kemur mér sífelt á óvart Hlynur,  framsetning þín á þessu efni er alveg einstök, en samt held é að þú sért að skjóta aðeins yfir markið með hundspottið og fiskin, annað tengist lífsbaráttunni beint en hitt er hreinn hrottaskapur, einhvelstaðar verður að draga mörk, ekki endilega skinsamleg en mörk samt er það ekki rétt. kveðja að sunnan Magnús

Magnús Jónsson, 1.7.2007 kl. 00:53

11 Smámynd: erlahlyns.blogspot.com

Þessi færsla þín kom í bréfútgáfu Moggans.

Þú fékkst pláss í bloggrúnti blaðsins, þetta stóra lengst til vinstri.

erlahlyns.blogspot.com, 3.7.2007 kl. 22:15

12 Smámynd: Hlynur Þór Magnússon

Ég leyfi mér að þakka mjög vinsamleg ummæli hér, sem mér þykja e.t.v. ekki að öllu leyti verðskulduð. Guðmundur Páll: Að baki þessum pistli mínum liggur í rauninni ekki meðvituð hugsun, að mér finnst, heldur tilfinning miklu frekar ...

Hlynur Þór Magnússon, 5.7.2007 kl. 19:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband