Jökullinn og ég

Hann mætti alveg fara að rigna. Veðrið er að sönnu gott ef litið er á einn dag í einu en skelfing er þetta slæmt til lengdar. Eina bótin að þetta er almennt, eins og bóndi í Kjósinni sagði á sínum tíma þegar hann varð heylaus.

Reykholar 16.07.07 - 02Ég labbaði niður að fuglaskoðunarskýlinu við Langavatn í morgun. Snuddaði á leiðinni og var hálftíma og eina mínútu í ferðinni. Þangað liggur göngustígur sem minnir á kúagötu nema engar kúadellur. Lítil trébrú á einum stað; engar ónauðsynlegar tilfæringar - ósnortin náttúra með grösum og mosum og skófum og fléttum og mýflugum sem gjósa upp og urð og grjóti og lækjum (að mestu uppþornuðum núna) og lænum og hornsílum og volgrum og smáhverum og holtum og móum og klöppum og tjörnum. Svo eitthvað sé nefnt. Og fuglum himinsins og jarðarinnar. Svo er sjórinn þarna rétt fyrir utan.

Reykholar 16.07.07 - 03Sumir halda að skýlið sé til varnar gegn árásum fugla eins og hjá Hitchcock. Svo er ekki; maður fer inn í þetta litla hús sem er með skotraufum eins og kastali og skotvopnin eru myndavélar. Fuglinn sér mann ekki og styggist því ekki. Hann er skotinn úr launsátri og veit ekki neitt. Eftir nokkra stund eru komnar kannski tíu fimmtán tegundir rétt fyrir framan. Í morgun stoppaði ég ekki nema liðlega tvær og hálfa mínútu og fékk ekki nema einn himbrima í skotfæri en hjarðir ýmissa tegunda héldu sig í öruggri fjarlægð.

Já, hann mætti fara að rigna. Ég er að verða á litinn eins og Harry Belafonte; líkist honum held ég ekki að öðru leyti. Nema skeggið, það er að verða eins og á Charles Darwin; líkist honum held ég ekki að öðru leyti. Skeggið sprettur þrátt fyrir þurrkatíðina. Þarf að athuga málið fyrir jólin. Kannski þó frekar eftir jólin.

Áðan komu hér í heimsókn fjórtán danskir ferðamenn. Einn af þeim var mjög nysgerrig. Að minnsta kosti var hann alltaf að nyse. Svo kom hér þýskur blaðamaður og ljósmyndari sem er á þriggja mánaða ferðalagi um landið. Hann heldur til á tjaldsvæðinu við sundlaugina hér á Reykhólum í nokkra daga. Á morgun ætlar hann að koma til mín og fá að senda texta og myndir gegnum netið. Þetta er önnur Íslandsreisa hans. Í fyrra skiptið var hann bara þrjár vikur og það var allt of stutt. Útlendingarnir virðast nokkuð ánægðir með kynni sín af íslenskri náttúru og öðru sem á vegi þeirra verður. Danirnir voru að koma af Rauðasandi þar sem þeir fundu dauðan sel og búið að kroppa úr honum augun.

Reykholar 15.07.07 - 04Í gær smellti ég myndum af Jöklinum. Í æsku minni var hann í norðvesturátt. Núna er hann í suðvestrinu. Hann er þó enn á sama stað, skilst mér; það er ég sem er annars staðar. Jökullinn breytist frá einni stund til annarrar, alltaf nýr. Samt hefur hann verið þarna eins lengi og elstu menn hér við Breiðafjörð muna. Sjórinn er líka síbreytilegur. Á annarri myndinni er hann blár, á hinni er hann silfraður. Stundum er hann grár, eða svarblár, eða hvítyrjóttur, eða roðagylltur, eða bara eitthvað annað en áðan.

Reykholar 15.07.07 - 05Frá mínu sjónarhorni er Jökullinn eins og liðinn tími á líðandi stund. Var það ekki Hannes Sigfússon sem sagði að sumir segðu að liðinn tími væri ekki liðinn, hans bæri að leita annars staðar? Líklega gildir þetta þó ekki um Jökulinn heldur mig sjálfan. Mín ber að leita annars staðar.

Ef einhver skilur svona mikla heimspeki, þá gefi viðkomandi sig fram hér í athugasemdadálkinum.

Svo á ég eftir að gera grein fyrir véfréttarblogginu mínu í fyrradag eða hvenær það var. Og kannski segja frá fuglinum sem ég bjargaði í nótt.

Eins og það sé ekki nóg af fuglum hér á Reykhólum. 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er ekki nóg fyrir menn að eiga gott sjónvarp. Þeir þurfa líka að eiga góða konu.

Fótafúni fuglafræðingurinn (IP-tala skráð) 16.7.2007 kl. 23:05

2 Smámynd: Helga Guðrún Eiríksdóttir

Góður og heimspeki(ngs)legur pistill hjá þér Hlynur minn og fínar myndir sem fylgja.

En ég á í svolitlum erfiðleikum með að sjá samhengið í rápinu hjá þér fúlskeggjuðum niður að vatni í leit að furðufuglum annars vegar, og hinsvegar meintri kvenmannsþörf. Hvar sjónvarpið kemur við sögu skil ég ekki heldur.

Kannski fuglafræðingurinn hafi orðið fótafúinn af árangurslausu brölti um urðir og ófærur í leit að súludansi. Hafi eytt mánaðarlaunum í myndavélar og aðdráttarlinsur. Viti ekki að það eru bara bretar sem kalla konur fugla (birds).

Maður veit aldrei.

Helga Guðrún Eiríksdóttir, 17.7.2007 kl. 02:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband