Með tetanus í höfðinu

Kisa beit mig í gærmorgun; auk þess er ég illa klóraður. Varla voru liðnar tíu mínútur þegar ég hringdi á heilsugæslustöðina í Búðardal og spurði eftir lækninum. Mér var sagt að hann yrði með viðtalstíma hér á Reykhólum síðdegis. Takk, skrifaðu mig niður, sagði ég, en þá verð ég líklega dáinn úr tetanusi.

 

Mér hefur staðið stuggur af tetanusi - stífkrampa - allt frá unglingsárum þegar hann kom við sögu í námsefninu hjá Örnólfi Thorlaciusi. Svo virðist hann hafa magnast í höfðinu á mér með tímanum. Ég hef alltaf tekið sérlega vel eftir tetanustilfellum í frásögnum og kvikmyndum, nú síðast í bresku gamanþáttunum af geðstirða sveitalækninum í Sjónvarpinu í vetur.

 

Tilvitnuð orð mín, mælt af rósemi þess manns sem hefur séð Róm og mætir dauða sínum óvílinn - þá verð ég líklega dáinn úr tetanusi - urðu til þess að ég fékk ég forgangsþjónustu og bæði pensilín og stífkrampasprautu. Og er enn á lífi, hvað sem síðar verður.

 

Það var ekkert persónulegt þegar kisa beit mig og klóraði. Forsaga og málavextir eru sem hér segir:

 

Erla dóttir mín kom í nokkurra daga heimsókn ásamt hundi sínum, Dexter að nafni. Þegar hún fer aftur verður hundurinn eftir í fóstri fram á vorið. En það er þetta með hund og kött. Dexter er vanur köttum og hinn ljúfasti, en kisa mín - Helga Guðrún Geirdal fulltrúi - er alls óvön hundum. Og bregst hin versta við. Nema hvað, í gærmorgun var ég með hana í fanginu og færði mig smátt og smátt nær hundinum sem ég króaði af úti í horni - hann var smeykur - og reyndi að tala á milli þeirra líkt og prestur á milli hjóna. Þetta gekk vandræðalítið uns varla var nema spönn milli trýnanna. Kisa var að vísu síurrandi inni í sér. Þá hreyfði hundurinn sig ógætilega og kisa breyttist á sekúndubroti í ægilegt óargadýr. Grimmdarhljóðið í ketti við þessar aðstæður er skelfilegt. Ég varð höndum seinni að sleppa kisu og áður en varði var hún allt í senn búin að klóra mig til blóðs, bíta mig á kaf í höndina og horfin á braut.

 

Við Dexter sátum eftir og hugsuðum líklega báðir það sama: Tetanus!

 

Mér leið betur þegar ég var búinn að fá sprautuna. Ekki í hendinni heldur sálinni. Svo gúglaði ég tetanus. Wikipedia segir m.a.: The incubation period of tetanus ranges from 3 to 21 days, with an average onset of clinical presentation of symptoms in 8 days. Og ég hugsaði með mér: Kannski hef ég verið aðeins of dramatískur. Wikipedia segir líka: The highest mortality rates are in unvaccinated persons and persons over 60 years of age. Og þá leið mér enn betur: Ég verð ekki kominn yfir 60 years of age fyrr en eftir mánuð.

 

Núna verður mér hugsað til Þorgils Arasonar forvera míns hér á Reykhólum, sem gat haldið samtímis heilan vetur vandræðalaust Gretti Ásmundarson og þá fóstbræður Þorgeir Hávarsson og Þormóð Kolbrúnarskáld. Ætli mér sé vandara að þreyja þorra og góu með einn hund og einn kött?

  

16.01.2007 Ekki þverfótað fyrir litlum hvítum ketti

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hlynur Þór Magnússon

Hvaða hljómsveit? Ef ríkisstjórnin gefur mér banka - mér skilst að vísu að hún sé þegar búin að gefa alla bankana sína - er ég að hugsa um að fá The Rolling Stones til að hita upp fyrir Fílharmoníuhljómsveit Vínarborgar. Að öðrum kosti geri ég ráð fyrir að spila sjálfur á greiðu.

Hlynur Þór Magnússon, 30.1.2007 kl. 13:21

2 Smámynd: Jónas Björgvin Antonsson

Et tu Tetanus?

J#

Jónas Björgvin Antonsson, 30.1.2007 kl. 21:47

3 Smámynd: erlahlyns.blogspot.com

Alveg er ég sannfærð um að Tetanus! var það fyrsta sem minn bráðgáfaði hundur hugsaði á þessari stundu.

erlahlyns.blogspot.com, 30.1.2007 kl. 21:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband