Þingmannsstarfið verði full vinna

Eins og venjulega var glundroði á „lokasprettinum“ hjá Alþingi. Tilviljun virtist ráða hvaða mál fengu afgreiðslu og hver ekki. Megináhersla var lögð á að þingið gæti lokið störfum á „réttum“ tíma.

 

En hvaða tími er „réttur“ í þeim efnum? Er ekki rétti tíminn til að fara í sumarfrí þegar verkunum er lokið og ekki fyrr?

 

133. löggjafarþing kom saman 2. október og starfaði til 9. desember. Jólafrí stóð yfir frá 9. desember til 15. janúar eða í rúmar fimm vikur. Þá kom þingið aftur saman og starfaði til 18. mars. Samanlagt var þingtíminn rúmir fjórir mánuðir. Núna er komið sumarfrí.

 

Fyrir þingið komu samtals 321 lagafrumvörp og þingsályktunartillögur. Af þessum málum urðu 170 ekki útrædd - meira en helmingurinn. Sumt af þessu er flutt á hverju þingi, ár eftir ár, allir eru sammála um nauðsyn þess að málin nái fram að ganga - en þegar dregur að jólafríi eða þinglokum fer allt í vitleysu. Alltaf.

 

Á hinum stutta þingtíma berast sífelldar fréttir af þingmönnum á persónulegum ferðalögum hér og þar um heiminn. Án þess að kalla inn varamenn. Þegar um er spurt er sagt, að það skipti nánast engu máli. Það skiptir sumsé nánast engu máli hvort þeir eru í vinnunni eða ekki.

 

Núna er sagt að þingmenn þurfi að komast sérlega snemma í frí til að geta helgað sig kosningabaráttunni.

 

En hvað með frambjóðendur sem eru ekki þingmenn? Ættu þeir þá ekki líka að fá frí frá sínum störfum til að geta helgað sig kosningabaráttunni? Eða eiga sitjandi þingmenn að hafa forréttindi og forskot í þeim efnum umfram aðra frambjóðendur?

 

Hvað með launin? Ekki veit ég hvernig launum þingmanna er háttað. Ekki veit ég heldur hvort einungis er greitt fyrir viðveru á þingtímanum eða hvort þingmenn eru á launum allt árið. Raunar verður að teljast ósennilegt að starfsmanni séu að jafnaði greidd laun allt árið fyrir starf hluta úr ári.

 

Er ekki ástæða til þess að þingstörfin verði full vinna hjá þingmönnum? Er ekki ástæða til að koma á einhverri verkstjórn á Alþingi? Er ekki ástæða til að setja reglur sem komi í veg fyrir málþóf, skemmdarverkastarfsemina alræmdu á Alþingi, ef þingmenn skilja og skynja ekki sjálfir anda þess starfs sem þeir hafa verið valdir til?

 

Spurningarnar eru margar. Hér er ein í viðbót: Hvers vegna geta ráðherrar jafnframt verið þingmenn og haft þannig löggjafarvald og framkvæmdavald með höndum í senn? Hvað með hugsjónina um þrígreiningu ríkisvaldsins? Af hverju geta þeir þá ekki líka verið starfandi dómarar?

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ester Sveinbjarnardóttir

Góðir punktar hjá þér Hlynur Þór.

Ester Sveinbjarnardóttir, 21.3.2007 kl. 06:50

2 Smámynd: Sigríður Jósefsdóttir

Og hvað með þá þingmenn sem gefa ekki kost á sér áfram, eða "féllu" í prófkjörum?  Hvað verða þeir á launum lengi?

Sigríður Jósefsdóttir, 21.3.2007 kl. 09:54

3 Smámynd: Tryggvi H.

"þegar dregur að jólafríi eða þinglokum fer allt í vitleysu. Alltaf."og"Er ekki ástæða til að koma á einhverri verkstjórn á Alþingi?"Þetta eru kjarna-spurningar sem verður að spyrja endurtekið. Hinsvegar er með ólíkindum erfitt að koma á breytingum, m.a. vegna þess að rannsóknir á alþingi sem stjórnskipulags-einingu hafa verið absalut yfirborðkenndar.(ég hlýt þó að hafa fyrirvara á athugasemd minni: Alþingi snýst, og skal snúast um svo ansi margt meira en að samþykkja lög eftir magni)

Tryggvi H., 21.3.2007 kl. 18:20

4 identicon

Hressandi pistill hjá þér og auðvitað er mikið til í þessu. Þótt skotin vegna vinnutímans eigi fyllilega rétt á sér er síðasti punkturinn áhugaverðastur. Af fúsri fáfræði spyr ég: hvernig er þessu háttað í öðrum löndum? Þessu með ráðherradóm og þingmannsstörf?

Davíð Stefánsson (IP-tala skráð) 21.3.2007 kl. 22:57

5 Smámynd: erlahlyns.blogspot.com

En það sem einn kallar málþóf kallar andstæðingur hans nauðsynlega umræðu.

Ögmundur sagði að frumvarp um sölu léttvíns og bjórs í matvöruverslunum myndi ekki fara í gegn án mikillar umræðu, en þeir sem hvað mest vildu fá málið í gegn sögðu VG hafa hótað málþófi.

Sumt þarf bara að ræða vel og vandlega.

Sjálf vil ég þó endilega fá léttvín í matvörubúðir. 

erlahlyns.blogspot.com, 22.3.2007 kl. 21:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband