Finnbogi Hermannsson fréttamaður - in memoriam

Allir erum við börn hjá Boga, var einu sinni sagt. Það skal endurtekið nú, þótt Boginn sé annar en forðum. Finnbogi Hermannsson fréttamaður, forstöðumaður Svæðisútvarps Vestfjarða frá upphafi, er hættur störfum hjá Ríkisútvarpinu. Ég leyfi mér að skrifa hér nokkur orð in memoriam þótt maðurinn sé bráðlifandi; ég vona að hann skrifi nokkur orð um mig í Moggann eilífa í fyllingu tímans.

 

Föstu punktunum fækkar vestra. Björnsbúð er ekki lengur til. Ekki búðin hans Jónasar Magg þar sem menn keyptu appisín og kjöftuðu saman. Ekki Norðurtanginn. Ekki Vöruval hans Benna sem var kannski of mikið á undan sinni framtíð, líkt og Guðbjartur í Vagninum á Flateyri. Guðmundur Móises dó í síðustu viku. Guðmundur Marinósson er löngu farinn suður. Hvar er Lóa hans Gogga og hvar er Goggi hennar Lóu? Arngrímur Fr. Bjarnason löngu dáinn. Hvar eru ungu mennirnir, Tryggvi sem seinna var kenndur við Ora og Þorvaldur sem seinna var kenndur við Síld og fisk? Hvar eru Árnapungarnir? Hvar er minn fornvinur Björn Teitsson? Hann er víst fyrir norðan. Hvar er Gaui enskukennari? Hann er víst líka fyrir norðan. Matráðskonan góða í menntaskólanum hún Sonja hans Kristjáns dó í vetur. Hvar er Steinunn Kristjánsdóttir frá Breiðalæk? Hún er doktor í fornleifafræði. Hvar er Vilmundur læknir? Hann er víst orðinn landlæknir. Hvar er eiginlega allt? Hvar er ég?

 

Þegar stórt er spurt, eins og einhver sagði - verður stundum fátt um svör.

 

Pétur Sigurðsson er ekki lengur verkalýðsforinginn vestra. Það var verið að kjósa nýjan formann. Jú - í mínum huga verður hann áfram verkalýðsforinginn eini og sanni á Vestfjörðum. Þessi mikli persónuleiki, þessi gáfaði og skemmtilegi maður. Jafnvel þó að minn gamli góði nemandi Finnbogi Sveinbjörnsson hafi tekið við embættinu.

 

En - það var annar Finnbogi sem ég ætlaði að nefna. Finnbogi Hermannsson. Hann var og er í mínum huga einn af föstu punktunum í mannlífinu vestra. Mér hefur um fáa menn óskylda þótt vænna en hann. Man ég þá tíð þegar við átum og átum þjóðlegan mat, ekki síst saltket og baunir, sem hans góða kona Hansína eldaði ofan í okkur, og svo lágum við á meltunni inni í stofu og hlýddum hvor öðrum yfir upp úr latínubókum. Það var gaman! Við vorum báðir í gamla góða MR í gamla daga. Þess vegna kannski erum við svo miklir krakkar inni við beinið og höfum gaman af latínu. Finnbogi er betri í fornbílum en ég þó að ég telji mig betri í latínu.

 

Finnbogi Hermannsson er víðgreindur maður, víðlesinn og klár á flesta hluti. Ekki síst íslensku, en sú gáfa er ekki mikils metin í hópi fréttamanna í seinni tíð, að mér virðist.

 

Oft kvörtuðu ráðamenn yfir því sem þeir kölluðu neikvæðar fréttir hjá Finnboga. Hann svaraði því til, að vissulega væri það frétt þegar eitthvað færi úrskeiðis. Réttilega.

 

Fyrir kom að mér sjálfum þótti Finnbogi svolítið neikvæður. Það var einkum á þeim árum þegar ég var ritstjóri Vestfirska fréttablaðsins og þess vegna í vissri samkeppni við hann. Ég man þegar við Finnbogi og Smári Haraldsson tókum nokkra rimmu um þessi efni. Við Smári stóðum saman gegn Finnboga. Kannski hafa viðhorfin hjá mér breyst eitthvað síðan. Kannski hjá Finnboga líka, ég veit það ekki.

 

Það er sjónarsviptir eða öllu heldur heyrnarsviptir að Finnboga Hermannssyni. Kannski skrifa ég á næstunni um brotlendingu okkar á Ísafjarðarflugvelli fyrir mörgum árum.

 

Finnbogi er einn af hornsteinunum vestra á liðnum áratugum. Hornsteinn úr gifsi eða granít, allt eftir viðhorfum líðandi stundar.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Skafti Elíasson

Svona er þetta tímarnir breytast og koma menn  í manna stað Úlfar Úlfur Elli Skafti Bragi Steini ofl ofl. kv.

Skafti Elíasson, 30.3.2007 kl. 23:38

2 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Já það er sjónarsviptir af Finnboga (eða heyrnarsviptir) Vona að hann leyfi okkur að njóta hæfileika sinna á öðrum sviðum í framtíðinni.  Ja hérna hér Hlynur...hér eru margar gjenferd, sem ég þekki af báðum eimum.  Ekki vissi ég að þú værir svona innofinn í Ísafjörð og svo kemur strákskottið hans Ella Skapta líka í heimsókn.  Maður verður eiginlega að renna við hjá þér á heimleiðinni og heimta kaffitár.

 Kannastu nokkuð við mitt fólk? Jóns Grímsonar slektið?  Það kæmi mér ekki á óvart.

Jón Steinar Ragnarsson, 31.3.2007 kl. 01:03

3 Smámynd: Pétur Tyrfingsson

Mikið asskoti eruð þið fjandi djöfull lókal í húmörnum og metafórunum. Það er varla nokkur leið að skilja ykkur. Ég var barnakennari í Súðavík veturinn 74-5 (sem var fullkomlega ábyrgðarlaus ráðstöfun opinberra yfirvalda á þeim tíma; en svona var það nú þá). Ekki þarfa að dvelja lengi í þessum sveitum til að hafa taugar til fólksins og landsins.... þó maður þekki ekki nöfnin. Hrefnu-Kalli í Súðavík dró þær nokkrar að landi sem ég og kötturinn Kafka fengum ómælt kjöt af... besta mat í heimi.

Með Finnboga er ekki bara fallinn góður drengur og gegn. Hér er tímans tákn. Kvótinn fór og hitt og þetta fór og nú er Finnbogi farinn... kannski til að gera ríkisútvarpið mitt "nútímalegt" án þess að ég hafi nokkurn tíma beðið um það.

Hvenær ætla Íslendingar að átta sig á því a þeir eru ekki fleiri en 300 þúsund og búa á harðnesku eyjunnar í Atlandshafinu noraðnverðu? Þeir geta ekki hugsað eins og marga milljóna þjóð sem leyfir markaðslögmálunum að njóta sín til fulls og reddar svo málum í úthreppum í bága við lögmálin. Við erum barasta einn hreppur í Kína og smábær i Amríku og ´sæmileg borg í Svíþjóð. Íslendingar eru álíka margir og Malmöbúar. Hinri síðarnefndu halda úti einu fótboltafélagi afreksmanna.

Þetta þarf samt alt að borga sig og þess vegna munu Vestfirðir leggjast í eyði á næstu árum. En af hverju þarf það að borga sig? Og fyrir hverja þarf það að borga sig? Er ekki hægt að borga sig í öðru en peningum? Um hvað snýst lífið?

Pétur Tyrfingsson, 31.3.2007 kl. 05:14

4 Smámynd: Hlynur Þór Magnússon

Já, Nonni, gaman að fylgjast með strákskottinu hans Ella Skafta, eins og þú kallar hann.

 

Jón Grímsson og það fólk? Það held ég nú. Þekkti allsæmilega að ég held uppruna og sögu Gilsbekkinga, eins og þeir voru kallaðir. Réðu öllu sem þeir vildu á Ísafirði á sinni tíð. Ættfaðir þeirra var séra Hjörtur á Gilsbakka í Hvítársíðu sem ungur guðfræðingur fylgdi Bjarna á Sjöundá yfir hafið til aftökunnar.

 

Pétur: Ég borga mig ekki. Ég er eitthvað sem borgar sig ekki. Og mér er eiginlega alveg sama.

 

Geimfrú: Við eigum eftir að hittast einu sinni enn.

 

Ofurlítið meira sem snertir Pétur Sigurðsson úr því að ég fór að minnast á hann:

 

Á nýliðinni ævi minni hef ég tekið nánast óteljandi blaðaviðtöl og sum gríðarlöng. Ég hygg að viðtal mitt við Pétur Sigurðsson sé eitt af þeim lengstu, ef ekki það næstlengsta.

 Þegar Jón Baldvin Hannibalsson og Ólafur Ragnar Grímsson hófu fundaferð sína um landið „Á rauðu ljósi“ með opnum fundi í Alþýðuhúsinu á Ísafirði fyrir bráðum tuttugu árum eða þar um bil, ef ég man rétt, þá voru tveir fundarstjórar, sem þeir komu sér saman um. Það voru Pétur Sigurðsson og Hlynur Þór Magnússon. Allir vinstrimenn (og miðjumenn og hægrimenn líka) skildu valið á öðrum þeirra, að ég held, en sumir klóruðu sér í hausnum yfir hinum ...

Hlynur Þór Magnússon, 31.3.2007 kl. 12:05

5 Smámynd: Hlynur Þór Magnússon

Ath: Íslenskar gæsalappir breytast í spurningamerki hér í athugasemdakerfinu, sé ég er ...

Hlynur Þór Magnússon, 31.3.2007 kl. 12:07

6 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Kátt er á Jólunum koma þau senn;  Þá munu upp rísa Gilsbakkamenn. Glösin og skálarnar ganga um kring; Gaman er að koma á svoddan þing.

Jón Steinar Ragnarsson, 31.3.2007 kl. 13:55

7 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Hæ hér er bara fjör, ísfirskt fjör eins og það gerist best. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 31.3.2007 kl. 15:37

8 Smámynd: Yngvi Högnason

Lóa og Goggi voru að fara til Spánar

Yngvi Högnason, 31.3.2007 kl. 19:44

9 Smámynd: Hlynur Þór Magnússon

Yngvi Högnason er bróðir Hildigunnar Lóu hans Georgs Bæringssonar, og þar með sonur Högna Torfasonar, eins af bestu fréttamönnum sem Ríkisútvarpið hefur átt. Móðir mín og Högni heitinn voru fjórmenningar, svo að maður haldi sig við ættfræðina.

Hlynur Þór Magnússon, 31.3.2007 kl. 21:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband