Örsögur frá nýliðinni ævi

Sigurður Hreiðar sveitungi minn úr Mosfellssveitinni sem eitt sinn var klukkaði mig um daginn. Núna er klukkið óðara horfið úr tísku eins og mýstrókur þegar kular og þess vegna orðið tímabært að svara með nokkrum örsögum af handahófi frá fyrri hluta liðinnar ævi. Eða er hún kannski ekki liðin?

 

0077                      

Eftir að ég fékk hvolpavitið var ég óskaplega skotinn í Diddu skólasystur minni sem átti heima niðri í Hlíðartúni og engin furða. Ég smíðaði hringa handa okkur úr girðingarvír sem ég flatti með hamri og gullbronsaði. En ég þorði ekki að segja henni frá trúlofun okkar fyrr en fjörutíu árum seinna.

 

0119                          

Sumarið 1960 þegar vegavinnuflokkurinn var að flytja rétt einu sinni sat eldhússkúrinn sem var á pallinum hjá Magnúsi í Garði fastur milli hamraveggjanna á leiðinni niður Almannagjá. Það var gaman þangað til Siggi á Bakka sagði: Ekki veit ég hvenær við fáum að éta ef við getum ekki losað hann.

 

0305                            

Sumarið þegar ég var átján ára vann ég á Tollpóststofunni í Reykjavík. Daginn þegar ég byrjaði voru kallarnir að ræða hvað þeir ætluðu að gera í sumarfríinu. Guðjón gamli sagðist ekki ætla að fara neitt núna. En ég er að hugsa um að skreppa norður í haust og vera við jarðarför bætti hann við.

 

0566                         

Þegar ég var afleysingamaður í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg voru heilu dyngjurnar af fjögurra laufa smára í garðinum en það er gæfumerki. Einu sinni sem oftar var ég með fangana úti en þegar ég var búinn að smala inn vantaði einn. Hann var svo gæfusamur að geta falið sig í smárabreiðunni.

 

2113                       

Ekki hef ég flutt sand til Sahara ennþá að minnsta kosti en einu sinni fluttum við fjögur þúsund tonn af marmaragrjóti frá Brasilíu til Livorno sem heitir Leghorn á ensku. Skammt frá eru marmaranámurnar frægu í Carrara og ég veit að margir eiga fína gripi úr ekta ítölskum Carraramarmara frá Brasilíu.

 

2341                        

Þegar ég vann við timburútskipun í Arkangelsk á dögum Sovétríkjanna voru alltaf hermenn á vappi við höfnina. Þeir voru í svörtum síðfrökkum enda er ákaflega kalt þarna á vetrum og báru riffla og styttu sér stundir við að skjóta rottur. En ég hugsaði með mér: Nú kemur sér vel að vera ekki rotta.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Sæll Hlynur fyrrum sveitungi

þetta er ekki verra en klukk almennt gerast nema síður sé. Númerin vekja forvitni. Kannski er von á örsögubók -- sem hefur beinin til að vera skemmtileg. Margt hnyttið í þessu, eins og við var að búast frá hendi manns sem hefur marga fjöruna sopið -- hvern fjandann sem það í rauninni þýðir.

0305 minnir mig tam. á samtal sem ég varð áheyrsla fyrir fáeinum áratugum og endaði svona: Komdu til mín á miðvikudaginn -- þá verð ég í veikindafríi.

0119: ég heyri í anda vangaveltur Magga í Garði yfir þessu óhappi. Hann hefur kannski ekki haft hátt fremur venju. En staðið fyrir sínu.

0077: Þótti Diddu ekki verra að missa af þessu?

Sigurður Hreiðar, 24.7.2007 kl. 09:19

2 Smámynd: Hlynur Þór Magnússon

Örsögubók? Nei fjandakornið. Over my dead body svo ég noti fræg andlátsorð Snorra í Reykholti. En mér finnst gaman að skrifa svona örsögur eða örljóð eða örendi eða öreitthvað allt jafnlangt og kommulaust. Manstu Sigurður hvernig Jónas hafði alltaf hvert erindi í leiðurunum í DV fimm línur nema það síðasta þrjár línur? Númerin já. Við Þórbergur höfum þörf fyrir að númera alla skapaða hluti. Ekki nefndi Didda að hún hefði mikils misst en mér fannst að henni þætti fremur gaman að heyra af þessu. Þekkirðu hana frá öndverðu eða kannski í seinni tíð? Mikið asskoti var þetta myndarleg stelpa. Mér er ákaflega hlýtt til Magnúsar heitins í Garði. Hann var í veginum öll mín sumur þar. Lengi á grænum Chervolet 55 með bensínvél en síðast á rauðum Thames Trader. Magnús var gamansamur og oft meinháðskur. Hann var hlýr og nærgætinn við mig. P.s.: Á laugardaginn kom hér vestur frændi minn einn. Pabbi hans sem var móðurbróðir minn átti í bernsku minni heima að Engi í Mosfellssveit þar sem þú fæddist. P.p.s.: Ef ég þekki þetta bloggkerfi rétt munu öll greinaskil hverfa þegar ég smelli þessu inn og textinn verða einn veggur eins og kallað er.

Hlynur Þór Magnússon, 24.7.2007 kl. 13:07

3 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Já - maður ræður sosum engu um hvað verður yfir manns dauðum skrokki. Ef svo fer sem horfir verður maður líklega jarðaður með sms-i.

Ég man sumt efni úr leiðurum Jónasar vinar míns en ekki uppsetninguna. Við rifumst gjarnan um þá og ég hamraði á því hvers vegna leiðari heitir leiðari: hann gerir mann alltaf leiðari.

Ég man eftir Diddu sem smástelpu hér. Hef ekki séð hana í mannsaldur.

Magnús er líka mjög ofarlega á mínum lista yfir uppáhaldsmenn. Með honum fór ég í mitt fyrsta alvöru ferðalag, til Þingvalla í mígandi rigningu 17. júní 1944. Á grænni Chevrolet ´42-rútu með sæti klædd með rauðu plussi. Ég gæli við þá ímyndun (nokkuð grundvallaða) að þetta hafi verið G 204. -- Hann átti til að vera glettinn og -- ja? háðskur? Ég man aldrei eftir að hann væri meinlegur.

Hvaða móðurbróðir þinn átti heima á Engi? Ég man í svipinn bara eftir Valda Pól, og svo Helgu Larsen, eftir að við fórum þaðan.

Jú, rétt hjá þér, þetta er allt einn veggur, eins og Guðrún frá Lundi er sögð hafa skilað handritum sínum.

Sigurður Hreiðar, 24.7.2007 kl. 15:25

4 Smámynd: Hlynur Þór Magnússon

Orðið meinháðskur: Líklega er skynjun okkar á þessu orði nokkuð misjöfn. Þú tekur fyrri liðinn bókstaflega en ég nota hann til áherslu, sbr. lýsingarorðið meinhollur. Því fer fjarri að ég hafi átt við að Magnús í Garði hafi verið meinlegur í gamansemi sinni og háði. Annars finnst mér skemmtilegt að þetta skuli berast í tal, vegna þess að ég hef löngum sagt að engir tveir skynji sama hlutinn, sama orðið, sama orðasambandið, á nákvæmlega sama hátt. Ég skrifaði einmitt um þetta í heimaritgerð í MR fyrir bráðum hálfri öld.

 

Ari Guðmundsson móðurbróðir minn og Eygló Hjörleifsdóttir kona hans áttu heima á Engi um tíma, hversu lengi veit ég ekki eða man ekki, en það hefur líklega verið á fyrri hluta sjötta áratugarins.

 

Stundum nefndi ég hið fasta form leiðaranna hjá Jónasi - alltaf fimm línur í senn og síðasta línan alltaf ámóta löng hverju sinni og síðan þrjár línur í lokin - en aldrei hafði nokkur maður tekið eftir þessu. Það fannst mér undarlegt.

Hlynur Þór Magnússon, 25.7.2007 kl. 05:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband