Færsluflokkur: Bloggar

Handboltinn: Ástralir unnu Cookeyinga 63-5

Cook_Islands_mapÁstralía sigraði Cook-eyjar 63-5 í forkeppni Eyjaálfu fyrir HM í handbolta (31-1 í hálfleik). Samt er Ástralía fjarri því að vera stórveldi í handboltanum, raunar algert smáveldi, eins og leikirnir gegn Íslandi (20-45) og Frakklandi (10-47) sýna. Á HM fyrir fjórum árum unnu Íslendingar Ástrala meira að segja með 40 marka mun (55-15).

 

Mjög slappir skákmenn - skylduvinningar á mótum - voru eitt sinn kallaðir flóðhestar. Á sama hátt er Ástralía flóðhestur á HM í Þýskalandi. En svo eru aðrir sem eru miklu meiri flóðhestar. Hvernig ætli færi, ef Íslendingar lékju landsleik í handbolta við Cookeyinga?

 

Tekið skal fram, að Cookeyingar eru innan við 20 þúsund talsins. Samt munu þeir vera mjög góðir í rugby - kallast það ekki ruðningur á íslensku? - og ættu naumast í vandræðum með Íslendinga á þeim vettvangi. Það verður hverjum list sem hann leikur.

 

Hlé á skrípalátum á Alþingi

Skyldi Spaugstofan eiga einhvern þátt í sinnaskiptum stjórnarandstöðunnar á þingi? Núna er efnt til blaðamannafundar til að greina frá því, að þingmenn ætli að hætta að hegða sér eins og fífl. Efnt hefur verið til blaðamannafundar af minna tilefni!

 

Til er hugtakið andi laganna. Þeir sem setja lögin ættu manna best að vita hvað það merkir. Ætli það sé í slíkum anda sem þingmenn eyðileggja þingstörfin langtímum saman með skrípalátum?

 

Kannski væri rétt að efna til annars blaðamannafundar þegar þingmenn hafa komist að því, til hvers þeir eru eiginlega á þingi.

 
mbl.is Umfjöllun um RÚV-frumvarp lauk skyndilega
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svartur dagur

Nei, ég er ekki að tala um leikinn gegn Úkraínu. Ég er að tala um skipan framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi. Guðmundur Jónsson kenndur við Byrgið er ekki á listanum! Það hefði þá verið samræmi í hlutunum. Þegar Árni Johnsen verður fjármálaráðherra, þá hefði Guðmundur getað orðið dóms- og kirkjumálaráðherra.

                          

P.s.: Ætli Hjálmar Árnason gangi til liðs við Frjálslynda flokkinn?

              

P.s. 2: Væri ekki farsælast, úr því sem komið er, að þeir verði allir þrír gerðir að sendiherrum? Annað eins hefur nú verið gert til að leysa málin ...


mbl.is Framboðslisti Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi samþykktur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Of margar stefnur Samfylkingarinnar

0,1020,754675,00Fallandi gengi stærsta stjórnarandstöðuflokksins í skoðanakönnunum er umhugsunarefni. Fátt er mikilvægara í pólitík en ábyrg og öflug stjórnarandstaða. Sem betur fer eflast Vinstri grænir jafnframt því sem dregur af Samfylkingunni. Ástæður þess geta meðal annars verið þær, að Vinstri grænir hafa skýra stefnu og sterkan formann.

 

Ekki svo að skilja að ég sé yfirleitt hrifinn af sterkum foringjum, þó að mér líki í sjálfu sér vel við Steingrím J. Sigfússon. Bitur reynsla sýnir, hérlendis og erlendis og alls staðar, að mjög sterkir og þaulsætnir leiðtogar geta verið ákaflega skaðlegir, jafnvel hættulegir. Yfirleitt kemur það ekki í ljós fyrr en um seinan.

 

Ætla mætti, að flestir gætu fundið hljómgrunn skoðana sinna innan Samfylkingarinnar. Þar eru margar vistarverur, eins og sagt hefur verið um Himnaríki og Sjálfstæðisflokkinn, þó að ég líki þessu ekki saman að öðru leyti. Samt virkar þetta ekki eins vel hjá Samfylkingunni og það gerir hjá Guði og Íhaldinu.

 

Erfitt er að henda reiður á því hver stefna Samfylkingarinnar eiginlega er, eins og stundum vill henda hjá miðjuflokkum sem vilja grípa alla boltana í einu. Það er ekki traustvekjandi. Þegar ég hugsa um Samfylkinguna, þá finnst mér eins og ég sé að rýna inn í þokubakka.

 

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, sagði í útvarpsviðtali núna áðan vegna hinnar nýju skoðanakönnunar Fréttablaðsins, að þeir sem þar hefðu ekki gefið upp afstöðu sína, væru „ef að líkum lætur á móti ríkisstjórninni“, eins og hún komst að orði. Spyrja má: Hvort eru þeir ánægðu eða óánægðu líklegri til að þegja?

 
mbl.is Fylgi VG og Frjálslyndra eykst samkvæmt skoðanakönnun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað gerir Kristinn H. Gunnarsson?

Kristinn H. GunnarssonEkki virðist listi Framsóknar í Norðvestri líklegur til að trekkja. Þar munar mest um brotthvarf Kristins H. Gunnarssonar, sem skipaði annað sætið í síðustu kosningum. Núna sóttist hann eftir efsta sætinu en lenti í þriðja sæti í prófkjörinu í nóvember, á eftir Magnúsi Stefánssyni félagsmálaráðherra og Herdísi Á. Sæmundardóttur varaþingmanni. Þarna urðu því sætaskipti hjá þeim Kristni og Herdísi, og niðurstaða Kristins varð sú að taka ekki það sæti. Athyglisvert má telja, að einungis liðlega helmingur þeirra sem greiddu atkvæði setti Magnús í fyrsta sætið. Með því að keppa við ráðherrann um fyrsta sætið var nánast um allt eða ekkert að ræða hjá Kristni. Árangur hans verður að teljast góður, þó svo að hann hafi ekki náð að ryðja Magnúsi úr vegi.

 

Af núverandi þingmönnum er tæpast nokkur eins óútreiknanlegur og Kristinn H. Gunnarsson, sem í eina tíð var þingmaður Alþýðubandalagsins í Vestfjarðakjördæmi og síðan þingmaður utan flokka um skeið. Kristinn fer sínar eigin leiðir eins og kötturinn og hefur rekist illa í Framsóknarflokknum. Hann hefur verið óspar á gagnrýni á forystu flokksins og ítrekað komið sér þar út úr húsi en hefur náð mun betur til grasrótarinnar, eins og það er kallað.

 

Kristinn hefur setið á þingi í fjögur kjörtímabil eða sextán ár. Það kynni ýmsum að þykja nóg. Hann virðist aftur á móti manna ólíklegastur til að vilja setjast í helgan stein á borð við Tryggingastofnun ríkisins, en bent hefur verið það sem nærtæka lausn fyrir Framsókn að gera Kristin að forstjóra þar. Hann færi þá a.m.k. ekki í framboð hjá einhverjum öðrum eða í sérframboð. Karl Steinar Guðnason forstjóri TR er orðinn 67 ára og þar með kominn á aldur, eins og kallað er.

 

Mér þætti það mikill sjónarsviptir ef Kristinn H. Gunnarsson hyrfi nú af þingi. Mér er alveg sama í hvaða flokki hann er hverju sinni, enda má segja að hann sé utan flokka að eðlisfari. Raunar finnst mér næsta víst að hann fari með einhverjum hætti í framboð og komist inn. Þannig gæti hann að öllum líkindum fengið efsta sætið hjá Frjálslyndum í einhverju kjördæmi, ef hann vildi. Eins og þar sé nú ekki nógur ófriður innanbúðar!

 

Það er fullsnemmt að skrifa pólitísk eftirmæli Kristins H. Gunnarssonar. Það er ekki nóg með að hann fari sínar eigin leiðir eins og kötturinn, ég trúi því að hann hafi líka níu líf í pólitíkinni. Spurningunni hér í fyrirsögninni er engin leið að svara með nokkurri vissu. Kristinn H. Gunnarsson er gersamlega óútreiknanlegur.

 

Því mætti bæta við, að Kristinn H. er iðulega kallaður Kiddi sleggja eða einfaldlega Sleggjan. Hér er ekki um niðrandi viðurnefni eða uppnefni að ræða, eins og sumir virðast halda, heldur þvert á móti. Nafngiftin varð til þegar Kristinn spilaði handbolta í gamla daga. Skotin hjá honum þóttu heldur í fastara lagi, að ekki sé meira sagt. Gunnar I. Birgisson hálfbróðir hans (það er gott að búa í Kópavogi) var síður til handbolta vaxinn og sat frekar að skák á yngri árum.

 
mbl.is Framsóknarmenn í NV-kjördæmi samþykkja framboðslista
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hættan við að verða gamall

Varla líður svo mánuður, að ekki komi fréttir af andláti elstu konu í heimi. Hún er sídeyjandi. Líklega er þetta áhættusamasta eða jafnvel banvænasta stöðuheiti sem nokkurri manneskju getur hlotnast. Vonandi lendi ég ekki í því að verða elsta kona heims.

 

Þegar einhver nær því að verða elsta manneskjan hérlendis - til að ná því takmarki þarf einhver að deyja; eins dauði er annars brauð - er venja að fjölmiðlar komi og taki viðtöl. Þau eru venjulega í svipuðum dúr og sjónvarpsviðtöl við smábörn eru alltaf - hvað er svo gaman við að leika sér í snjónum? Fastur liður að spyrillinn segi: Þú hefur nú margs að minnast frá langri ævi, þú manst tímana tvenna o.s.frv. En iðulega man fólkið ekki neitt. Einhvern tímann þegar einhver notaði orðalagið eins lengi og elstu menn muna í samræðum við séra Baldur Vilhelmsson í Vatnsfirði, þá sagði prestur: Elstu menn muna yfirleitt ekki nokkurn skapaðan hlut!

 

Mér þykja þessi viðtöl við gamla fólkið óþægileg. Því er stillt upp eins og dvergum eða vansköpuðu fólki í sirkusum á fyrri tíð - freakshow.

                        

Skömmu síðar er svo greint frá andlátinu og fjölmiðlarnir svipast um eftir nýju fórnarlambi.

 
mbl.is Elsta kona heims látin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alcan-dagbókin - nafnlaus áráttuskrif á Moggabloggi

Einn af bloggurunum hér á Moggabloggi heitir Alcan Dagbókin. Þegar smellt er til að fá nánari upplýsingar um höfundinn kemur upp firmamerki Alcan. Meiri upplýsingar eru þar ekki. Einhverjir mættu því ætla að blogg þetta væri á vegum Alcan. Frágangurinn bendir strax til þess að þarna sé eitthvað annað á ferðinni. Upplýsingafulltrúi Alcan er a.m.k. þokkalega talandi og skrifandi, hefur mér sýnst, hvað sem annað má segja.

 

Þegar færslurnar eru lesnar kemur í ljós, að hér er um að ræða áráttuskrif í garð nafngreindrar konu, starfsmanns hjá Alcan í Straumsvík. Aftur og aftur og aftur. Margir aðrir eru nafngreindir í þessum einkennilegu skrifum - allir nema höfundurinn, sem nafnlaus notar firmamerki Alcan til kynningar á sjálfum sér hér á Moggabloggi.

 

Þetta innlegg mitt hefur ekkert með viðhorf mitt til téðs fyrirtækis að gera*). Málið snýst um það, hvort yfirleitt er ætlast til þess að Moggabloggið sé notað á þennan hátt - sem vettvangur fyrir nafnlaus þráhyggjuskrif undir fölsku flaggi.

                                     

Væri ekki rétt að benda viðkomandi á vefinn barnaland.is, annan undirvef mbl.is, þar sem skrif af þessu tagi ættu frekar heima?

 

*) Ég er á móti stækkun álversins í Straumsvík og ég er á móti stórvirkjunum á Íslandi, eins og margoft hefur komið fram. Auk þess þótti mér áróðursherferð Alcan fyrir jólin fíflaleg. Til gamans leyfi ég mér að skjóta því hér inn, að fyrsta blaðaviðtalið við Rannveigu Rist tók ég, að ég best veit - árið 1986, ef ég man rétt.**)

                       

**) Viðbót: Anna K. Kristjánsdóttir frænka mín og stórbloggari segir hér í athugasemdum: Varla hefur viðtal við RR verið hið fyrsta árið 1986. Hún lauk Vélskólanum 1983 og var þá þegar mikið í fréttum, m.a. sem vélstjóri á Óskari Halldórssyni RE, en var á Guðbjarti ÍS 1986.

           

                         

· Áhugavert: Hesthús og hundakofar nýríka fólksins


Inngangur að dýrafræði bloggheimsins

Alltaf er maður að kynnast nýjum veröldum. Meira að segja á gamals aldri. Bloggið er ein veröldin enn. Ekki grunaði mig fyrir mánuði að ég ætti eftir að gerast bloggari. Einhvern veginn fannst mér þetta bara vera fyrir ungt fólk. Auk þess einhver bölvuð vitleysa. Sem það auðvitað er.

 

Reyndar eru nokkur ár síðan*) ég fór að kjafta á Málefnunum. Slíkir vefir eru eins konar hálfbræður blogganna. Svipaðir en þó allt öðruvísi. Mér hefur þótt gaman að skreppa öðru hverju inn á Málefnin og taka þátt í spjallinu. Að vísu hef ég fátt lagt þar til málanna af neinu viti. Enda er þess ekki krafist. Og verður síst krafist af mér.

 

Mjög fáir nota sín réttu nöfn á Málefnunum. Nafnleysið veitir visst frelsi, gefur kost á sleggjudómum og ábyrgðarleysi. Samt er það sjaldgæft að hlutirnir fari úr böndunum. Í samfélagi Málefnanna þekkja nánast allir alla - þar á ég við karakterana sem birtast en ekki fólkið að baki þeim - og samfélagið bregst við þegar einhver fer að haga sér illa. Líka er eins konar öryggislögregla á vakt en er sjaldan kölluð til.

 

Mér er hlýtt til Málefnanna og fólksins sem þar kemur saman. Þetta er mjög sundurleitur hópur, sem betur fer. Skelfing væri leiðinlegt ef öll vitleysan væri eins.

 

Aftur að blogginu. Hérna byrjaði ég að bulla milli jóla og nýárs. Nánast óforvarendis, rétt eins og þegar ég smakkaði selkjöt í fyrsta sinn, þá kominn vel á fertugsaldur.

 

Ég hef velt þessari nýju veröld talsvert mikið fyrir mér síðustu vikurnar. Stúderað svolítið karakterana og hvað þeir hafast að og tilganginn sem fyrir þeim vakir. Þar kennir ýmissa grasa, að ekki sé meira sagt. Sumir eru mjög persónulegir og blogga eingöngu um daglegt amstur, aðrir gersamlega ópersónulegir og rita leiðara um stjórnmálaviðhorfið. Og allt þar á milli. Kannski reyni ég á næstunni að vinna úr þeim minnispunktum sem ég hef krotað hjá mér um tegundir bloggara, einkenni þeirra og hegðunarmynstur. Gæti kannski stuðst við flokkunarkerfi Linnés.

 

Ekki er ég viss um að svokallaðar vinsældir hér á Moggabloggi segi alltaf mikið um innihald og framsetningu. Þar eru miklu frekar önnur öfl að verki. Ég leyfi mér að nefna hér bloggara sem er í einu af efstu sætunum í mínum huga þó að hér þekki hann fáir, vin minn Katanesdýrið, sem er læknir í Miðvestrinu í Bandaríkjunum. Mikið finnst mér gaman að hann skuli vera farinn að blogga og notalegt að líta inn til hans.

         

            

*) Hortitturinn síðan getur verið fremur leiðinlegur, rétt eins og hortittir eru venjulega í máli þeirra sem kunna ekki að nota þá - þeirra sem hafa málið ekki nægilega vel á valdi sínu. Af einhverri tilviljun lenti einmitt þessi hortittur einna efst á vinsældalista bannorða í íslenskukennslu. Margar kynslóðir lærðu að það væri danska og ljótt að segja síðan. Og það er með þetta eins og annað sem lært er án skilnings - það er stundum tekið of bókstaflega. Ég var raunar alveg gáttaður þegar ég heyrði fyrst orðalagið frá í gær í Ríkisútvarpinu. Og hugsaði með mér: Þarna hefur hortitturinn síðan lent á einhverjum bannorðalista hjá málfarsráðunautnum; því miður hefur honum láðst að útskýra mál sitt nægilega vel. Þess vegna hefur skandallinn frá í gær orðið til - forsetning stýrir forsetningarlið, eða hvað í ósköpunum sem ætti að kalla þetta. Í orðasambandinu síðan í gær er orðið síðan hreint ekki neinn hortittur. Þegar sagt er fyrir löngu síðan er það hins vegar sá hortittur sem spjótunum var beint að. 

Guðjón bak við tjöldin

Ekkert skil ég í Guðjóni Arnari Kristjánssyni, formanni Frjálslynda flokksins, þeim ágæta og elskulega manni. Algengt er að stjórnmálaforingjar geri „korteri fyrir kosningar“ eitthvað sem hristir upp í fólki. Það gerir Guðjón að vísu núna. En - venjulega reyna menn þá að gera eitthvað sem verða mætti viðkomandi flokki til framdráttar.

 

Skelfing finnst mér það óklókt hjá Guðjóni að taka opinbera afstöðu með Magnúsi Þór Hafsteinssyni gegn Margréti Sverrisdóttur í varaformannsstarfið. Hefði nú ekki verið skynsamlegra að blanda sér ekki í málið, heldur leyfa flokksþinginu að velja í friði? Hefur flokksþingið ekki nægilega dómgreind til að velja á milli?

 

Lítið veit ég um mannjöfnuð þeirra Magnúsar og Margrétar. Enda snýst málið ekki um það.

 

En auðvitað þekkir Guðjón bak við tjöldin margt sem ég veit ekkert um.

 

– – –       

Neðanmáls:              

mbl.is 17.01.07 Reikningsskekkja orsakaði afhöfðun við hengingu í Írak 

Spyrja má: Lá ekki líka einhver reikningsskekkja að baki innrásinni í Írak? 


Minningargreinin sem Mogginn geymdi fram í andlátið

Ég nefndi síðast að ég hefði verið byrjaður að taka saman punkta í minningargrein um kött. Þá birtist kötturinn. Af þessu tilefni rifjaðist upp fyrir mér minningargreinin sem ég skrifaði eitt sinn og var síðan geymd í prentsmiðju Morgunblaðsins þangað til hinn látni loksins dó.

 

Dwight D. Eisenhower, yfirhershöfðingi í seinna stríði og síðar forseti Bandaríkjanna, var löngum heilsutæpur á efri árum - hjartað. Þegar ég vann á Morgunblaðinu í fornöld fékk hann einu sinni sem oftar alvarlegt hjartaáfall og var ekki hugað líf. Þegar fréttin kom á telexinu var ég rifinn úr einhverju öðru og látinn taka saman æviágrip í snatri. Handritið fór beint niður í setningu og umbrot og síðan var beðið fram á deadline eftir staðfestingu á andlátinu. Innskot: Assgoti er orðið deadline annars gott í þessu samhengi! Staðfestingin kom ekki og gamli maðurinn hjarnaði við. Árið eftir þegar Eisenhower loksins dó kom hin ótímabæra minningargrein í góðar þarfir - hún birtist í Morgunblaðinu 29. mars 1969 (ein og hálf síða takk) en andlátið var staðfest vestra kl. 17.25 að íslenskum tíma daginn áður. Ekki finnst mér fyrirsögnin tilþrifamikil; annað hvort er hún björn síns tíma eða þá að ég hef ekki samið hana.

 

Þetta vakti mig til umhugsunar um nauðsyn þess að eiga svona samantektir á lager í stað þess að þurfa að rjúka til þegar helstu stórmenni yrðu bráðkvödd. Varla þarf að minna á, að þá höfðu menn ekki tölvurnar og Netið og aðra tækni sem öllu hefur breytt. Gagnaleit var tímafrekari og síðan þurfti að hamra textann á ritvél - á þessum tíma voru blaðamenn á Mogganum ekki einu sinni komnir með rafmagnsritvélar, ef ég man rétt. Svo fór handritið í prentsmiðjuna, þar sem setjarar sátu við stórbrotnar skröltandi vélar og pikkuðu textann upp á nýtt á lyklaborð - Þórólfur var besti setjarinn; gerði varla villu - en vélin steypti hverja línu í blý. Nenni ekki að rifja ganginn í þessu lengra, enda átti hann engan þátt í dauða Eisenhowers, en þetta var allt saman mjög skemmtilegt. Jú, prófarkalesturinn. Páll Skúlason prófarkalesari á Morgunblaðinu, fyrr á árum ritstjóri Spegilsins, var einhver fyndnasti og jafnframt einhver skapbráðasti maður sem ég hef kynnst. Meira að segja sjálfur Matthías Johannessen hörfaði öfugur út þegar Páll reiddist - yfirleitt út af ekki nokkrum sköpuðum hlut. Ég held jafnvel að Páll hafi verið næstum því eins mislyndur og ég.

 

Þarna fór ég víst út í aðra sálma.

 

Ég get eiginlega ekki stillt mig um að fletta þessu gamla tölublaði. Hæst ber mikla samantekt undir fyrirsögninni 30. marz 1949 - þegar kommúnistar gerðu atlögu að íslenzku lýðræði. Meðal annarra fyrirsagna má nefna þessar: Stefna framsóknarmanna leiðir til innflutningshafta, Harkaleg árás kommúnista á verzlunarstéttina, Nægur snjór er nú á Ísafirði (svo er enn í dag; ekki þó sami snjórinn), Góð aðsókn hjá SÚM, Skákþing Íslands hefst í dag (ég tefldi þar!). Þarna getur að líta stóra vindlaauglýsingu og litla auglýsingu undir fyrirsögninni Vélritunarstúlka: Stúlka vön vélritun getur fengið vinnu e.h. (2-7). Tilb. með uppl. merkt: „Vélritunarstúlka 2744“ sendist afgr. Morgunblaðsins. Júdas og Roof Tops spila í Ungó í Keflavík en Flowers og Pops í Stapa. Í Hafnarbíói er kvikmyndin Helga, mjög áhrifamikil og athyglisverð ný þýzk fræðslumynd um kynlífið, tekin í litum, sönn og feimnislaus túlkun á efni sem allir þurfa að vita deili á. Háskólabíó sýnir 79 af stöðinni. Í dagskrá Sjónvarpsins ber einna hæst - fyrir utan dagskrárliðinn Endurtekið efni - fræðslumynd um Nýja Sjáland og aðra fræðslumynd sem nefnist Finnskt sveitabrúðkaup, þar sem lýst er gömlum brúðkaupssiðum í Austur-Botni.

 

Gaman finnst mér að fletta þessum gömlu blöðum og muna þetta allt eins og það hefði verið í gær. Í þessu blaði fannst mér þó mest gaman að sjá minningargreinina mína um Eisenhower - manninn sem hafði níu líf eins og kötturinn.

              

                                     

Myndin af síðunni er tekin af vefnum Tímarit.is og þar var blaðinu jafnframt flett - sjá nánar:

09.01.07 Morgunblaðið og Maaneds-Tidender

                    

Eisenhower


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband