Færsluflokkur: Bloggar

Á að fara í nýtt og betra stríð? Og hvað með Írak - og Íran?

Niðurstaða opinberrar rannsóknar á stríði Ísraelsmanna í Líbanon á síðasta ári er m.a. sú, að Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísraels, hafi leitt landið í fljótfærni í stríð án þess að til grundvallar lægi heildaráætlun um hernaðinn, segir í fréttinni sem hér er tengt við. Í skýrslunni segir að ráðamenn í Ísrael hafi gerst sekir um alvarlegan dómgreindarbrest og skort á ábyrgð og varkárni. Olmert fékk skýrsluna í hendur fyrr í dag og sagði í kjölfarið, að bætt yrði fyrir mistök, sem gerð hefðu verið, segir í fréttinni.

 

Hvernig skyldi eiga að bæta fyrir mistökin? Endurtaka stríðið og vanda sig betur?

 

Hvenær skyldi fara fram „opinber rannsókn“ á stríðinu í Írak og tildrögum þess? Ætli menn fari síðan í nýtt og betra Íraksstríð eða láti nægja að vanda sig þegar kemur að næsta ríki í stafrófsröðinni?

 
mbl.is Olmert leiddi Ísraelsmenn í stríð án undirbúnings
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Andrarímur þykja mér fínar

Þegar Illugi Jökulsson hætti með þáttinn Frjálsar hendur á Rás 1 undir svefninn á sunnudagskvöldum hélt ég að ekkert myndi fylla það skarð svo að mér líkaði. En ég er löngu búinn að taka gleði mína á ný.

 

Andrarímur komu í staðinn. Mér finnst Guðmundur Andri Thorsson kannski ekki betri en Illugi, annað hvort væri, en mér finnst hann nánast eins góður.

 

Er þá mikið sagt.

 

Afturábak, stopp!

Ekki skil ég vefauglýsingar Framsóknarflokksins, sem blasa við á forsíðunni á Moggabloggi. Slagorðið sosum ágætt: Árangur áfram - ekkert stopp. En það er þetta með græna kallinn. Hann birtist vinstra megin og rennur inn á miðjuna. Afturábak. Og stoppar.

 

Svo heldur hann áfram til hægri - öllu heldur áfram afturábak, eða þannig - og hverfur þar.

              

Af hverju stangast þetta svona á við slagorðið? Græni kallinn fer afturábak en ekki áfram. Og stoppar.

         

Ef þetta er raunverulegur framsóknarkall, þá væri út af fyrir sig ekkert athugavert þó að hann héldi kyrru fyrir á miðjunni. En að hann skuli svo fara burt af miðjunni og til hægri ...

         

Hinn ágæti formaður flokksins Jón Sigurðsson er líka í þessari auglýsingu. Hann kemur frá vinstri og rennur glaðbeittur inn á sviðið og stoppar þar. Rennur alveg eins og skotskífa á braut - hálfóviðfelldið, finnst mér. En öfugt við græna kallinn, þá rennur Jón aftur til vinstri. Afturábak.

       

Til að fullkomna þetta finnst mér að græni kallinn hefði átt að vera rauður.

         

Það þarf meiri táknfræðing en mig til að skilja hin dýpri rök þessara auglýsinga.

                    

En ef þær verka, þá er það sjálfsagt hið besta mál. Bæði aspirín og bænalestur geta verkað prýðilega þó að maður viti ekki endilega hvernig.

 

Og tíminn líður ...

Græna slikjan á jörðinni verður að djúpgrænum flekkjum sem breiðast út eins og exem*) á meðan brumið á greinum þrútnar dag frá degi. Í dag var hitinn hér á Reykhólum 17-18 stig og fór mest í 19,3 stig samkvæmt mæli Veðurstofunnar. Vindskráningin er biluð og hefur verið það um skeið. Hins vegar þarf ekki flókinn búnað til að mæla logn.

              

Í dag eru þrjátíu ár síðan mamma dó.

                    

Guð mun ráða hvar við dönsum næstu jól.

               

- - - - - - - - - -         

*) Í kvæðinu Landsýn kemst Halldór Kiljan svona að orði: Sjá fjöll mín hefjast hvít sem skyr og mjólk / úr hafi ... Mér er það minnisstætt þegar Bjarni Guðnason prófessor tók þessa samlíkingu sem gott dæmi um fádæma smekkleysi.

                        


Þröngt mega sáttir synda - og Kastljósið ...

Rosalegar hunangsflugur eða hvað þetta nú er, dimmsuðandi og þungar á sér eins og sprengjuflugvélar í seinni heimsstyrjöld. Meira að segja kettinum líst ekki á blikuna og hefur hann þó gaman af flugnaveiðum.

 

Það er komið sumar og ekki bara á almanakinu. Hér á Reykhólum var glaðasólskin í allan dag og 15-16 stiga hiti frá hádegi og fram að kvöldmat samkvæmt mæli Veðurstofunnar. Samt fannst manni eiginlega miklu heitara í logninu og sólarbreyskjunni.

 

Í sundlaugina og heitu pottana komu 48 manns. Íbúarnir í þorpinu á Reykhólum eru um 120 talsins, í öllum hinum víðlenda og strjálbyggða Reykhólahreppi búa samtals um 250 manns. Ætli það sé víða meiri aðsókn að sundlaugum ef miðað er við fólksfjölda?

 

Ég var áðan að kjafta á msn við fornvinkonu mína sem er búsett í Englandi og sagði henni að gestirnir í dag hefðu verið sem svarar um 40 prósentum af íbúafjöldanum hér í þorpinu. Hún hélt að það hefði verið að vígja laugina - svo ég vitni beint í hana:

                                     

ég skil núna að við misskildum hvort annað, mér fannst einhvern veginn að það væri óhugsandi að 40% af íbúunum kæmu saman við sundlaug staðarins nema væri verið að opna hana með viðhöfn, fánum, blöðrum og blysum... svona er að hafa dvalið lengi í alltof fjölmennu landi

                        

Sundlaugin hér á Reykhólum heitir Grettislaug. Reyndar er gamla laugin með því nafni í brekkunni rétt fyrir ofan þá nýju. Þar sér enn fyrir gamalli grjóthleðslu við lítinn hver. Ekki hefur verið synt í þeirri laug fremur en at Snorra í Reykholti. Þetta hefur verið heitur pottur þar sem þeir sátu Grettir og fóstbræður og svo auðvitað Þorgils Arason óðalsbóndi hér á Reykjahólum líka til að passa að þeir rykju ekki saman. Sundlaugarvörður þess tíma, Hasselhoff.

  

Grettislaug hin nýja er einhver besta útisundlaug hérlendis. Hún væri ekki kölluð nýja laugin nema vegna þeirrar gömlu. Á gamlársdag í vetur skrifaði ég svolítið um hana: Gamlárssund í vorblíðu á Reykhólum.

  

Núna er orðið dimmt enda nálgast miðnætti. Lognið er algert. Máninn í hásuðri velfullur hefur leyst sólina af hólmi en stendur sig ekki eins vel. Af hverju er hann alltaf settur á næturvaktirnar?

                 

- - -

                       

Leyfi mér að hnýta hér við, í tengslum við síðustu færslu:   

                     

Mér finnst það eiginlega ekki mannsæmandi og alls ekki sæmandi Sjónvarpinu hvernig sumir Kastljóssmenn haga sér stundum. Einhvern veginn vil ég gera aðrar og meiri kröfur til Ríkisútvarpsins en annarra miðla. Ástæða þessara orða minna einmitt núna er framganga Kastljóssins gagnvart Jónínu Bjartmarz og framkoman við hana. Hver stjórnar þessu og hvaða hvatir liggja að baki?

 

Landbúnaðarjeppar fyrir suma og ríkisborgararéttur

Sú var tíðin að ég afgreiddi skömmtunarseðla. Vonandi muna fáir eftir þeim. Eða, öllu heldur, vonandi muna sem flestir eftir þeim.

 

Til þess eru vítin að varast þau.

 

Faðir minn var oddviti Mosfellshrepps í bernsku minni og æsku. Þá var enginn sérstakur sveitarstjóri utan oddvitinn og engin sérstök hreppsskrifstofa nema heimili hans. Þá var enginn sérstakur „opnunartími“ eins og það heitir á nútímamáli heldur kom fólk hvenær sem var. Stundum var ég einn heima og mjög snemma fór ég að afgreiða skömmtunarseðlana. Man ekki hvað ég var gamall þá - kannski fimm-sex ára.

 

Á bernskuárum mínum þurfti að fá leyfi hjá „hinu opinbera“ fyrir nánast hverju sem var. Nefndir og ráð ákváðu hver mætti kaupa sement eða bíl og hversu mikið af helstu nauðsynjavörum. Þetta var á þeim tíma þegar Íslendingar höfðu fengið öllum þjóðum ríkulegri skerf af stríðshjálparaðstoð.

 

Nánast öllu var úthlutað. Menn þurftu að sækja um náðarsamlegast og erindið var tekið fyrir á nefndarfundi. Nefndarmenn samþykktu eða synjuðu að geðþótta sínum. Sumir bændur fengu að kaupa jeppa, einkum ef þeir voru jafnframt sóknarprestar. Jeppar töldust landbúnaðartæki sem hentuðu einnig sóknarprestum afar vel.

 

Man annars nokkur eftir fjárhagsráði?

 

Mér verður hugsað til þessara tíma núna, þegar allir eru að tala um skömmtun þingnefndar nokkurrar á ríkisborgararétti. Um veitingu ríkisborgararéttar gilda ákveðnar reglur en þingnefndin hefur það verkefni að brjóta þær að sínum geðþótta.

 

Hugtakið fyrirgreiðslupólitíkus er vonandi ekki að gleymast þó að slíkir menn séu vonandi að hverfa. Fyrirgreiðslupólitíkus er valdamikill maður sem ræður yfir biðröð og kippir þeim fram fyrir sem hann hefur velþóknun á. Slíkir pólitíkusar voru vinsælir. Allir sögðu að þetta væru góðir menn og vinir litla mannsins. En áttuðu sig hins vegar ekki á því, að þegar einum er kippt fram fyrir biðröðina þurfa hinir að bíða lengur. Já - það var einmitt litli maðurinn sem þurfti að bíða lengur!

 

Fyrirgreiðslupólitíkin lifir enn góðu lífi í þingnefndinni sem úthlutar ríkisborgararétti. En enginn veit forsendur geðþóttans. Ekki einu sinni nefndin sjálf. Yfirleitt virðist ekki nokkur maður í nefndinni vita nokkurn skapaðan hlut. Meira að segja stærir nefndarfólkið sig af því opinberlega að vita ekkert og muna ekkert.

 

Ekki sé ég neina ástæðu til þess að Baráttusamtök aldraðra fái fulltrúa á þing.

 

Varla er þar á Alzheimerinn bætandi.

 

Ómar R. Valdimarsson hættur að blogga?

Ómar R. Valdimarsson er blaðafulltrúi Impregilo. Jafnframt er hann einn þeirra sem mest kveður að hér á Moggabloggi - verður varla toppaður í vinsældum nema af stólpípuauglýsingum Jónínu Benediktsdóttur þegar hún nær sér á strik eða flatlúsarskrifum Ellýjar Ármannsdóttur.

 

Undanfarið hefur Ómar einbeitt sér að skítkasti í garð tiltekinna einstaklinga í hópi Vinstri grænna. Þegar þetta er skrifað er hann þess vegna í sjötta sæti á vinsældalistanum hér á Moggabloggi.

 

Samt hefur hann haldið kjafti síðan í fyrradag.

 

Núna þegir blaðafulltrúi Impregilo.

 

En hvað ég skil hann.

 
mbl.is Segja að einungis brot af 180 veikindatilfellum tengist mengun í göngunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Listi Íslandshreyfingarinnar í NV-kjördæmi: Átta af átján búsettir syðra

Athygli hlýtur að vekja, að átta af átján manns á lista Íslandshreyfingarinnar í Norðvesturkjördæmi eru til heimilis á höfuðborgarsvæðinu - fimm í Reykjavík, tveir í Kópavogi og einn á Seltjarnarnesi. Aðeins vantar einn upp á helminginn.

 

Ef athugað er með búsetu hinna, þá eru tveir á Vesturlandi (á Akranesi og í Borgarnesi), fjórir á Vestfjörðum (allir á norðursvæðinu) og fjórir á Norðurlandi vestra (þrír í Skagafirði og einn í Húnavatnssýslu).

                   

Vissulega er þetta heimilt og hjá öllum flokkum hefur tíðkast að einhver tilvik séu af þessu tagi. Þetta háa hlutfall bendir hins vegar til þess, að illa hafi gengið að fá fólk í kjördæminu á listann. Af einhverjum ástæðum. Kannski var of seint farið af stað. Kannski voru ekki nógu margir nógu víða virkjaðir til starfa nógu snemma.

                    

Frá gamalli tíð þekki ég einn af frambjóðendunum sem búsettir eru syðra. Það er ágæt kona sem á uppruna sinn og frændgarð fyrir vestan. Þessa finnst mér skylt að geta. Deili veit ég á öðrum, en hann er af einni kunnustu ætt á Ísafirði nokkuð á aðra öld. Ættmenni þau á Ísafirði voru í eina tíð kölluð Gilsbekkingar, kennd við Gilsbakka í Hvítársíðu, þar sem ættfaðirinn var prestur á fyrri hluta 19. aldar. Þannig má segja, að í þessum tilvikum séu ræturnar í kjördæminu fyrir hendi!

                        

Enda þótt ég hyggist ekki kjósa Íslandshreyfinguna - ekki er hægt að greiða nema einu framboði atkvæði, kannski því miður - þá óska ég henni og þessu ágæta fólki alls góðs. Mjög vel finnst mér hafa til tekist þegar skipað var í efsta sætið í Norðvesturkjördæmi.

                  

Hver svo sem afraksturinn reynist þegar talið verður upp úr kjörkössunum, þá sýnist mér eitt víst: Barátta Ómars Ragnarssonar hefur sannarlega markað spor í þjóðarvitundina. Og meira en það: Ég leyfi mér að segja, að framganga hans hafi haft veruleg áhrif á gömlu stjórnmálaflokkana og viðhorf þeirra. Það er ekki lítill árangur!

                      

Í því ljósi skiptir kannski ekki öllu máli hvort hreyfing hans kemur fleiri eða færri mönnum inn á þing að þessu sinni. Ómar hefur þegar unnið frækilegan sigur. Og, ég leyfi mér að bæta við: Maðurinn sjálfur er þjóðareign, hreinlega þjóðargersemi.

                    

                        

Viðbót, árétting - alltaf þarf maður að fá einhverja bakþanka:   

          

Þau ummæli mín, að e.t.v. skipti ekki öllu máli hvort þingmenn Íslandshreyfingarinnar verða fleiri eða færri, mótast væntanlega eitthvað af niðurstöðum skoðanakannana þessa dagana. Í þessu felst samt engin spá, hvað þá ósk af því taginu sem alþekkt er úr kvæði Stephans G. um Jón hrak. Í þessu felast engin lymskuleg skilaboð þess efnis, að ástæðulaust sé að kasta atkvæði sínu á Íslandshreyfinguna. Fullvissa mín um úrslit í síðustu bæjarstjórnarkosningum í Ísafjarðarbæ stóðst með þeim hætti, að líklega ætti ég að láta það eiga sig að mynda mér skoðanir samkvæmt skoðanakönnunum ...

                      

                             

Sjá: Íslandshreyfingin - lifandi land: Framboðslistinn í Norðvesturkjördæmi

 

Ætli þakið leki?

Jón Ásgeir Jóhannesson forstjóri Baugs hefur keypt sér „þriggja herbergja“ íbúð í New York, ef marka skal mbl.is. Auk þess er hér um „þakíbúð“ að ræða, eins og það er kallað. Ef fjárhæðum í fréttinni er snúið lauslega úr dollurum í krónur, þá er kaupverðið um 650 milljónir, ásett verð liðlega milljarður, afsláttur um 400 milljónir og hússjóðurinn vel yfir milljón á mánuði. Dagblaðið New York Post er tilgreint sem heimild fyrir þessu.

 

Ef frétt New York Post á vefnum er lesin, þá kemur fram, að hér er um duplex penthouse að ræða, nánar tiltekið the top two floors in the luxury "condop" building. Þar er þess reyndar ekki getið, að fjölmiðlaherbergið svokallaða sé „íburðarmikið“, eins og sagt er í frétt mbl.is.

 

Ekki kemur fram hvers vegna Jón Ásgeir fékk svona góðan afslátt.

 
mbl.is Jón Ásgeir keypti sér íbúð í New York fyrir 10 milljónir dollara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Krían er komin á Reykhóla

KríaÉg var hálfhissa að sjá kríur í dag. Þær voru tvær saman á hægu flögri skammt vestur af sundlauginni. Aðeins eru tveir dagar síðan fréttist af fyrstu kríum ársins austur í Hornafirði. Bein loftlína yfir jökla og miðhálendi er um 350 km. Kannski ekki mikið þegar krían er annars vegar, langfleygasti fugl í heimi; e.t.v. einn hundraðasti af árlegu ferðalagi hennar.

     

Hér í kringum Reykhóla er einna fjölbreyttast fuglalíf hérlendis, ef ekki allra fjölbreyttast. Því veldur margbreytileikinn í náttúrufarinu; allir finna sitt kjörlendi: Klettabelti efst í fjallinu, víðáttumikið mólendi, mýradrög með klapparholtum á milli, tjarnir og stöðuvötn, sjávarlón, mikið útfiri, óteljandi sker og hólmar.

      

Reyndar hef ég ekki séð haferni í allan vetur. Í sumar sá ég þá nánast á hverjum degi ef ég nennti að lyfta hausnum. Aftur á móti eru rjúpur hér í garðinum við húsið upp á hvern dag, jafnvel tíu-tólf í einu, og skógarþrestir koma og fara í hópum.

       

Í dag sá ég fimm álftir saman á flugi; undanfarið hef ég annars bara séð tvær og tvær. Um daginn horfði ég á tvær álftir fljúga virðulega í norðvesturátt og tvo hrafna flaksandi á eftir. Það var eins og svart og hvítt, ef svo má segja.

       

Grágæsir eru á túnum og í gærkvöldi sá ég tvo stokkandarblika saman á vappi. Kannski eru þeir að bíða eftir fréttum af prestastefnunni.

       

Hrossagauka sá í dag í fyrsta sinn á þessu ári. Þeir voru tveir saman og tóku dýfur. Ég er farinn að tapa heyrn, sem betur fer, og heyrði ekki hneggið. Þeir voru í vesturátt ekki langt frá mér.

     

Við Langavatn hér fyrir neðan Reykhóla er fuglaskoðunarskýli. Það er ekki til þess að skýla mannfólkinu fyrir veðri og vindum heldur til þess að fuglanir fælist ekki mannfólkið. Eins konar öfugur dýragarður - fólkið er inni í búrinu og skoðar náttúruna sem er frjáls allt í kring. Minnir svolítið á Slunkaríki á Ísafirði, hið fræga hús Sólons Guðmundssonar, sem var úthverft.

       

Krían já, sem flýgur fugla lengst. Og getur líka hamast við að fljúga og verið nákvæmlega á sama punktinum í loftinu á meðan.

       

Ég vona að minn gamli vinur séra Sigurður Ægisson fuglaskoðunarmaður og fuglarithöfundur komi í heimsókn í sumar. Hann gæti þá e.t.v. gefið saman stokkandarblikana, ef þannig skyldi æxlast.

 

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband