Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Fréttin um ferð sendinefndar Alþingis til Kaliforníu vekur ýmsar spurningar. Frétt mbl.is er byggð á tilkynningu á vef Alþingis.
Á báðum stöðum koma sömu efnisatriðin fram.
Á báðum stöðum koma sömu efnisatriðin ekki fram.
Orðalagið í tilkynningunni frá Alþingi vekur í vissum tilvikum sérstaka athygli:
Sólveig Pétursdóttir, forseti Alþingis, og eiginmaður hennar, Kristinn Björnsson, munu heimsækja Kaliforníu ...
Með þeim í för verða þingmennirnir Sigríður Anna Þórðardóttir, Margrét Frímannsdóttir og Hjálmar Árnason, auk Helga Bernódussonar, skrifstofustjóra Alþingis, og Belindu Theriault, forstöðumanns alþjóðamála.
Sendinefndin mun koma við í Los Angeles, Santa Monica, Monterey og San Francisco, auk höfuðborgarinnar Sacramento.
Sumsé: Það eru forseti Alþingis og maki sem fara í heimsóknina. Fimm manns í viðbót verða með þeim í för. Hópurinn í heild kallast sendinefnd.
Í tilkynningunni kemur fram hvað sendinefndin aðhefst þá viku sem heimsóknin í Kaliforníu stendur:
Rætt verður við forseta efri og neðri deildar fylkisþingsins og ýmsa fylkisþingmenn, meðal annars nefndarformenn, leiðtoga meiri og minni hluta þingsins og fleiri. Þess má geta að einn fylkisþingmaðurinn, Tom Torlakson, er af íslenskum ættum. Sendinefndin mun einnig funda með vararíkisstjóra Kaliforníu, yfirmanni heimavarna fylkisins, viðskiptaráðherra, sveitarstjórnarmönnum, rektor og ýmsum prófessorum Kaliforníuháskóla í Santa Barbara, sérfræðingum og háttsettum embættismönnum á sviði umhverfis- og orkumála og fulltrúum viðskiptalífsins. Þá mun sendinefndin hitta Helga Tómasson, listrænan stjórnanda San Francisco ballettsins.
En - þarna er ekki svarað spurningunni um tilganginn með þessari sendinefnd, tilganginn með þessum gríðarlegu viðræðum, tilganginn með öllum þessum fundum.
Ef til vill hefði mátt ætla, að sendinefnd af þessu tagi væri ætlað að kynnast viðhorfum og starfsháttum og koma síðan heim með gagnlega þekkingu í farteskinu. Ætla mætti að þingmennirnir myndu nýta sér afrakstur ferðarinnar í vinnu sinni á Alþingi. Meðvituð víkkun á sjóndeildarhring, eða þannig. Starfskynning.
En þessir þingmenn eru allir hættir!
Alþingi hefur lokið störfum. Nýtt þing verður kosið eftir tæpan mánuð. Fyrir liggur að Sólveig Pétursdóttir verður ekki meðal þingmanna á næsta þingi, ekki Sigríður Anna Þórðardóttir, ekki Margrét Frímannsdóttir, ekki Hjálmar Árnason. Og þá ekki Kristinn Björnsson, sem líklegt má telja að verði einkum í forsvari fyrir sendinefnd Alþingis á fundunum með fulltrúum viðskiptalífsins.
Er þetta eins konar útskriftarferð?
Útskriftarferð - þar sem ekki verður farið á sólarströnd eða í næturklúbba eða skemmtigarða eða kvikmyndaverin í Hollywood eða á spennandi veitingastaði eða í berjamó, heldur á fundi! Þrotlausa fundi með þingmönnum og formönnum nefnda, vararíkisstjóranum - hvar verður Schwarzenegger? - og hreppsnefndarmönnum, sérfræðingum og prófessorum, embættismönnum og arftökum Kenneths Lay, og eru þá ekki allir upp taldir.
Spennandi útskriftarferð, eða hvað?
Kannski verður farið í bíó til að sjá Schwarzenegger.
Áleitin spurning til viðbótar: Verður enginn túlkur með í för?
Og svo þessi: Hver borgar brúsann?
Það mætti hringja og spyrja út í þetta - tilkynningunni á vef Alþingis lýkur svona: Nánari upplýsingar um heimsóknina fást hjá almannatengsladeild í síma 563 0651 og 897 5672.
Skelfing er þetta annars óheppilegt svona rétt fyrir kosningar.
Eða hvað finnst almannatengsladeildinni?
En þvílík lukka samt, að ferð sendinefndarinnar stangaðist ekki á við landsfundi Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar og framsóknarpönnukökukosningakaffiveitingafagnaðinn á Selfossi.
Forseti Alþingis í heimsókn til Kalíforníu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 06:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
16.4.2007
The Man in Black
Best get ég trúað að Geir Haarde sé bestur söngmaður og líflegastur á sviði af þeim sem gegnt hafa formennsku í Sjálfstæðisflokknum í bráðum áttatíu ára sögu hans. Líklega hefur samt Ólafur Thors verið frjálslegastur í fasi og Davíð Oddsson hefur áreiðanlega verið kvikkastur og skemmtilegastur í tilsvörum. Hver hefur til síns ágætis nokkuð. Hinn trausti Jón Þorláksson reytti víst ekki af sér brandarana og Geir Hallgrímsson mótaðist mjög af þeirri ábyrgð sem á honum hvíldi.
Geir Haarde tók Johnny Cash | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Er það rétt að sendinefnd frá Norður-Kóreu sé hérlendis að kynna sér landsfundahald? Verst að þeir skilja ekki íslensku og geta ekki lesið Moggabloggið. Aldrei hafa lofsöngvar um Kim Il Sung heitinn og son hans og Flokkinn komist í þvílíkar hæðir.
Mér finnst margt af þessu hin skemmtilegasta lesning.
Hugsjónaeldurinn skín af hverjum manni. - - - Ræða Ingibjargar var eins og töluð úr mínu hjarta, vel ígrunduð, beitt, jarðbundin og skynsamleg. - - - Upphafsatriðið var stórglæsilegt tónaflóð með íslenska náttúru í baksýn. - - - Geir og Þorgerður birtust skyndilega í hópi frambjóðenda á sviðinu og ávörpuðu landsfundargesti sterk og afslöppuð. - - - Ræða formannsins hitti mannskapinn í hjartastað ...
Og svo framvegis.
Sumt af þessu er líka svo hrikalega leiðinlegt að það eitt út af fyrir sig er alveg bráðskemmtilegt.
Áðan blöstu við mér samtímis þrjár bloggfyrirsagnir með jafnmörgum útgáfum af sama orðinu:
Góð stemmning á kraftmiklum landsfundi. Góð stemning á kraftmiklum fundi. Frábær stemming á landsfundi ...
Tekið skal fram, að hér er ekki verið að tala um sama landsfundinn.
Neðar var svo Bjarni Harðarson eins og ráðvillt mús í hesthúsi drottningar með þessa fyrirsögn: Framsóknarflokkurinn er forsenda farsællar landstjórnar.
Við Íslendingar höldum glæsilegri landsfundi en sést hafa í Norður-Kóreu. Lofsöngvarnir eru hástemmdari en nokkuð sem heyrst hefur í Norður-Kóreu.
Fram að þessu.
Við erum lánsöm þjóð. Við eigum ekki bara einn Mikinn Leiðtoga og ekki bara einn Flokk, heldur marga. Þess vegna geta allir verið í góðri stemmníngu, hvurnig svo sem það er stafsett og hvar í flokki sem þeir standa. Kannski fer stafsetníngin eftir flokkslínum.
Leyfi mér að tilfæra hér eina málsgrein enn úr lofsöngvunum hér á Moggabloggi:
Fagnaðarlátunum ætlaði aldrei að linna þegar Ingibjörg Sólrún hafði lokið máli sínu.
Finnst engum þetta fyndið nema mér?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
Ég þekki vel einn af máttarstólpum þjóðfélagsins. Þetta er liðlega sextug kona, sem er búin að gefast upp. Hún sér enga leið til að lifa mannsæmandi lífi lengur. Við henni blasir gatan eða að fara á sveitina, verða sveitarómagi.
Við skulum líta á tekjur þessarar konu, skattgreiðslur hennar, eignir hennar.
Tekjurnar eru annars vegar örorkubætur frá Tryggingastofnun ríkisins, 78 þúsund á mánuði, og hins vegar greiðslur úr lífeyrissjóði, 70 þúsund á mánuði. Samtals 148 þúsund á mánuði. Konan var áratugum saman í láglaunastarfi en fyrir tæpum áratug neyddist hún til þess að hætta að vinna. Hún var orðin gersamlega óvinnufær vegna veikinda. Sjúkdómur hennar ágerist hægt en örugglega, ólæknandi og sársaukafullur, þó að reynt sé að tefja framgang hans með dýrum lyfjum.
Af áðurgreindum 148 þúsund króna heildartekjum á mánuði er tekinn skattur, 25 þúsund krónur á mánuði.
Útborgaðar fær konan 123 þúsund krónur á mánuði.
Eignir hennar eru tvær, fyrir utan fátæklegt innbú. Annars vegar íbúð úti á landi, sem hún er nýbúin að setja á sölu. Hún stendur ekki undir því að eiga hana og borga af henni. Fasteignasalinn telur að sex til sjö milljónir króna geti fengist fyrir íbúðina. Áhvílandi eru nokkrar milljónir. Hins vegar sex ára gamall bíll, sem er eini lúxusinn sem þessi kona leyfir sér. Enn sem komið er hefur hún þrjóskast við að selja hann. Einhvern veginn er eins og það sé ákveðið frelsi fyrir sálina ekki síður en líkamann að vera á eigin bíl. En lúxus af því tagi er auðvitað bölvuð vitleysa, óspilunarsemi, ráðdeildarleysi. Hún þarf ekki að fara neitt og á auðvitað ekki að vera neitt að þvælast. Og gerir lítið af því. Ekki notar hún bílinn til að fara í óperuna! Það er dýrt að eiga og reka bíl, jafnvel þó að hann sé sjaldan hreyfður.
En þá kemur að meginatriðinu í þessu skrifi: Skattleysismörkunum. Látum liggja milli hluta hversu rausnarlegar örorkubæturnar og lífeyrissjóðsgreiðslurnar mega teljast.
Yfirvarðhundur ríkissjóðs sagði fyrir skömmu, að það væri of dýrt fyrir ríkið að hækka skattleysismörkin. Það var á honum að skilja að slíkt myndi stofna ríkissjóði í bráðan voða.
Þar með liggur það fyrir hverjir eru máttarstólpar þjóðfélagsins.
Það eru þeir sem eru með lægstu tekjurnar, öryrkjar sem nánast allar bjargir eru bannaðar. Það eru máttarstólpar þjóðfélagsins. Ef dregið verður úr skattheimtu af tekjum þessa hóps, þá er ríkissjóður í voða.
Nú er að sjá hvort íbúðin selst fyrr eða síðar. Þá rýmkast hagurinn um sinn. Þá verður um stundarsakir hægt að gera betur við sig í mat. En - hvað með húsnæðið? Veit einhver sem þetta les hvað það kostar að taka íbúð á leigu? Konan sem um ræðir er búin að kynna sér það, og henni féllust hendur. Dæmið gengur ekki upp.
Fyrir nokkrum árum sá ég fréttir af einhverjum mönnum sem búa í bílum eða tjöldum. Gott ef Steingrímur Njálsson átti ekki heima í bíl, próflaus maðurinn. Skyldi hann kannski vilja gefa fólki ráð í þessum efnum, gerast eins konar þjónustufulltrúi?
Konan sem ég er að tala um er búin að gefast upp. Hefur engan áhuga á því að standa í þessu meira. Lífsviljinn er að fjara út. Mér líst hreinlega ekkert á blikuna.
Svona er nú það.
En hvað með spurninguna sem fram kemur í fyrirsögninni? Hefur einhver svar við henni?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (30)
11.4.2007
Jarmur
Í gær gafst ég upp og skrúfaði fyrir útvarpið þegar rætt var við frambjóðendur í Reykjavíkurkjördæmi suður. Núna reyndi ég að hlusta á hliðstæðan þátt úr Norðvesturkjördæmi en það fór á sömu leið. Í báðum tilvikum var óhlustandi á þetta fyrir sífelldu frammígjammi.
Hvernig stendur á því að þetta lið hefur ekki vit eða þroska til að þegja rétt á meðan aðrir eru að reyna að svara spurningum sem fréttamennirnir beina til þeirra? Hvers vegna þarf þetta að vera síjarmandi á meðan aðrir eru að jarma þannig að úr verður óskiljanlegur margradda jarmur?
Eru þetta sauðir?
P.s.: Hvernig væri að einhver þokkalega talandi verði fenginn til að kynna fréttamönnum beygingar algengra orða sem fullvíst er að beri á góma, þegar þeim er falin stjórn þátta af þessu tagi? Þar má t.d. nefna orðið jarðgöng ...
VG bætir við sig í Norðvesturkjördæmi samkvæmt könnun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
10.4.2007
Vistheimilið í Breiðavík - fleiri hliðar
Hljóðnað hefur um Breiðavíkurmál að sinni. Óþarfi er að rekja hér þau skelfilegu tíðindi sem vöktu íslenskt samfélag af værum blundi; þau eru enn í fersku minni. Nú er komið út svolítið bókarkver um Vistheimili drengja í Breiðavík frá stofnun þess árið 1952 og fram til 1964. Hér er á ferðinni 20. heftið í ritröðinni Mannlíf og saga fyrir vestan, sem Vestfirska forlagið gefur út. Að jafnaði koma út tvö til þrjú hefti á ári með blönduðu efni af ýmsu tagi, en í þessu tilviki er viðfangsefnið aðeins eitt: Vistheimilið í Breiðavík, upphaf þess og saga, deilur á opinberum vettvangi um markmið og leiðir, líf og starf drengjanna og fullorðna fólksins á heimilinu, minningar frá vistinni í Breiðavík.
Í þessari samantekt er reynt að skoða Breiðavíkurheimilið frá sem flestum hliðum, bæði kosti þess og galla. Hér virðist sem oftar, að jafnan eru ýmsar hliðar á hverju máli.
Þess má geta, að útgefandanum Hallgrími Sveinssyni er málið skylt. Hann var forstöðumaður í Breiðavík á árunum 1962-64, þá liðlega tvítugur að aldri og fyrir skömmu útskrifaður úr Kennaraskólanum. Eftir dvölina í Breiðavík var hann staðarhaldari og bóndi á Hrafnseyri við Arnarfjörð (Safn Jóns Sigurðssonar) í liðlega 40 ár og jafnframt kennari og skólastjóri á Þingeyri í nokkra áratugi. Rætt var við Hallgrím í Kastljósi Sjónvarpsins í tilefni Breiðavíkurmála á sínum tíma.
Hallgrímur Sveinsson segir af þessu tilefni:
Þegar uppbygging og rekstur heimilisins í Breiðavík hófst árið 1952 voru aðrar aðstæður í þjóðfélaginu en nú. Tímarnir eru gjörbreyttir, einkum hvað efnislegum gæðum viðkemur og öllum ytri aðstæðum. Það vita allir. Ef menn ætluðu að stofnsetja sambærilegt heimili í dag mundi sjálfsagt enginn láta sér detta í hug að staðsetja það á vestasta tanga Íslands í afskekktri sveit. En á þeim dögum þótti sjálfsagt úrræði fyrir börn og unglinga í þéttbýli, sem áttu erfitt uppdráttar af einhverjum ástæðum og höfðu kannski lent í útistöðum við yfirvöld, að skipta um umhverfi. Raunar voru fá önnur úrræði til á þeim tíma. Margir voru sendir í sveit sem kallað var og það ekki síður á afskekkt heimili en önnur og lánaðist oft mjög vel.
Eftir á að hyggja er þess ekki að dyljast, að margt orkar tvímælis í sambandi við Breiðavíkurheimilið. Það er til dæmis sárt til þess að hugsa og eiginlega óskiljanlegt, að engin eftirmeðferð var í gangi til að styðja þá drengi og styrkja sem frá Breiðavík útskrifuðust og höfðu hlotið þar góða undirstöðu í mannlegum samskiptum, minnsta kosti á þeim tíma sem hér er til umræðu. Margra þeirra beið gatan og sama umhverfi og þeir höfðu komið úr þegar þeir voru sendir vestur. Í því efni er ábyrgð stjórnvalda mikil.
Þess má geta, að í snemma í febrúar skrifaði ég hér bloggfærslu sem bar heitið Fleiri hliðar á Breiðavíkurmálum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
4.4.2007
Heimildir varðandi mig óskast
Allt frá unglingsárum hef ég safnað heimildum um mitt nánasta ættfólk eins langt aftur og mér hefur verið unnt, og geri enn. Nokkur skalli, óneitanlega stór, er í þeirri heimildavinnu þar sem persónulegar eigur móður minnar og jafnframt foreldra minna beggja eiga í hlut. Þannig hvarf mér t.d. þegar mamma dó fyrir þremur áratugum fjöldi gamalla ljósmynda í hennar eigu, sem ég sjálfur tók, auk margra annarra. Auk þess hurfu mér þá mörg afar persónuleg bréf sem fóru okkur mömmu í milli, m.a. þegar ég var vistaður í heimavistarskóla á Vestfjörðum á fermingaraldri, sem og ótalmargt annað persónulegt sem ég fékk engan aðgang að þegar mamma dó.
Þeir sem kunna að hafa eitthvað af þessu undir höndum núna - hafa e.t.v. keypt það á flóamarkaði eða því um líkt - eru beðnir að hafa samband við mig. Ekki síst þætti mér gaman að frétta af nælunni sem ég smíðaði og gaf mömmu!
Fyrir utan almennt gaman væri fróðlegt að vita um kaupendurna en þó einkum seljendurna.
2.4.2007
Framsóknarvor í lofti?
Grasið er farið að grænka hér við húsið. Gras og grænn litur minna mig á Framsóknarflokkinn. Einhvern veginn finnst mér alltaf að græni liturinn tilheyri honum umfram aðra. Sumir telja sig vinstri græna, aðrir hægri græna. Framsókn er miðjugræn.
Það er athyglisvert að tveir af þremur vinsælustu bloggurunum á Moggablogginu skuli vera framsóknarmenn. Nema þeir séu framsóknarmenn allir þrír.
Hvenær byrjar Jón Sigurðsson að blogga?
1.4.2007
Ósmekklegt aprílgabb Ríkisútvarpsins
Það er gömul og góð venja að láta fólk hlaupa apríl. Yfirleitt er það á gamansömum og græskulausum nótum. Fjölmiðlar hafa ekki látið sitt eftir liggja í þessum efnum. Enn man ég þegar Stefán Jónsson fréttamaður lýsti ferð svifnökkva á leiðinni upp Hvítá fyrir mörgum áratugum. Að þessu sinni virðist hins vegar sem fréttastofa Ríkisútvarpsins hafi misst fótanna á svelli hins almenna velsæmis.
Í nýlegri færslu - Er áttun í gangi? - á nýjum vef sem ber heitið Femínistaheimurinn er fagnað framlengingu á gæsluvarðhaldi manns sem grunaður er um nauðgun. Aftur á móti sýnist mér misskilnings gæta varðandi það hverjum þetta er þakkað.
Í færslunni segir: Þetta var gert með tilliti til almannahagsmuna vegna alvarleika brotsins. Það er gott ef lögregluyfirvöld eru farin að hegða sér í samræmi við alvarleika meintra brota.
Hér mætti árétta eftirfarandi: Lögreglan ákveður ekki gæsluvarðhald. Það er dómstólarnir sem gera það. Dómsvaldið, ekki framkvæmdavaldið. Kannast menn ekki við fréttir af því að lögregla hafi farið fram á gæsluvarðhald eða framlengingu gæsluvarðhalds? Kannast menn ekki við fréttir af því að dómari hafi ekki orðið við slíkri beiðni eða úrskurðað sakborning í gæsluvarðhald í skemmri tíma en lögregla óskaði eftir?
Þegar hengja þarf er betra að hengja smiðinn sjálfan fremur en bakarann. Á sama hátt skyldi lofa smiðinn ef hann er talinn þess verður.