Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
5.5.2007
Þar fauk traustið á Capacent Gallup
Kannski engin furða þó að mikill munur sé á fylgi stjórnmálaflokka frá einni könnun til annarrar. Hvað á að halda um nákvæmnina á þeim vettvangi þegar svona hrikaleg mistök eru gerð við einfalda samlagningu á auglýsingakostnaði? Og hvers vegna eru menn svona lengi að ranka við sér?
Stöð tvö greindi frá því í gær, að Framsóknarflokkurinn væri búinn með meira en helminginn af auglýsingafé sínu fyrir komandi kosningar. Stjórnmálaflokkarnir sömdu um það í aðdraganda kosninganna að takmarka auglýsingakostnað hvers flokks í fjölmiðlum á landsvísu við 28 milljónir króna. Capacent Gallup sér um að taka kostnaðinn saman.
Í fréttinni á Stöð tvö var birt súlurit af kostnaðinum, þar sem Framsóknarflokkurinn er með hæstu súluna, öfugt við það sem hann á að venjast í skoðanakönnunum. Fréttin var síðan sett inn á fréttavefinn visir.is laust fyrir kl. hálfátta í gærkvöldi og þar er hún enn. Ríkisútvarpið skýrði frá þessu í fréttum sínum í morgun.
Núna laust fyrir hádegi átta menn sig loksins á því, að þetta er tóm vitleysa.
Þetta er afleitt, að ekki sé meira sagt. Í hálfan sólarhring er hálf þjóðin búin að fussa og fjargviðrast og hæðast og hlakka yfir framsóknarræflunum og auglýsingunum þeirra og fylginu þeirra og öfugri fylgni fylgisins við auglýsingakostnaðinn og hver veit hvað ...
Capacent: Auglýsingakostnaður Framsóknarflokksins ofreiknaður | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ég búinn að fá nóg af kosningakjaftæði alls staðar. Vil helst ekki horfa á annað en veðurfregnir, hlusta á annað en dagskrártilkynningar og lesa annað en prófarkir. Ansa ekki síma ef ég þekki ekki númerið.
Mér finnst ég ekki sjá heiminn eingöngu í hvítu og svörtu. Held að ég greini eitthvað af litbrigðum. Þess vegna kannski finnst mér hin pólitíska umræða svo vitlaus. Mér finnst hún einkennast af sleggjudómum, útúrsnúningum, stóryrðum, ofstæki og ruddaskap, svo fátt eitt sé talið - og öllu þessu í svarthvítu.
En þetta er nú bara það sem mér finnst.
Í gamla daga hafði ég gaman af því að fara á völlinn og horfa á fótbolta og gerði það oft - en mikið skelfing var ég laus við að halda með einhverju sérstöku liði. Mér fannst bara gaman að horfa á fótbolta og finnst það enn. En aldrei hef ég hrópað hvatingarorð inn á völlinn og aldrei hef ég stokkið upp æpandi til að fagna marki. Á vellinum klappaði ég þegar mörk voru skoruð, sama hvort liðið gerði það, en slíka kurteisi læt ég eiga sig fyrir framan sjónvarpið.
Mér er í fersku minni leikur KR og ÍA á Laugardalsvellinum ekki alls fyrir löngu eða fyrir liðlega fjörutíu árum. Þá varð hreinlega allt vitlaust. Ríkharður Jónsson meiddist og var borinn af velli. Ég var í stúkunni skammt frá Agli rakara, einum háværasta stuðningsmanni KR-inga. Stuðningsmenn ÍA í stúkunni gerðu aðsúg að Agli og hrintu honum fram og aftur á milli sín eins og hann hefði persónulega og af ásettu ráði slasað Ríkharð.
Þetta fannst mér ljótt. Og heimskulegt. Oft fer það saman.
Einmitt í þessum anda er hin pólitíska barátta.
Að mér finnst.
Ósköp er ég orðinn eitthvað heilagur. Oseisei. Osveisvei.
Ég skrifaði hér á bloggið nokkrar línur um leik Manchester United og A.C. Milan. Þetta er einhver fáránlegasti þvættingur sem ég hef skrifað um dagana (vona ég). Þetta rugl á ekki nokkra stoð í skoðunum mínum eða viðhorfum, eins og þeir vita líklega sem þekkja mig.
Mig langaði einfaldlega til þess að taka þátt í hinni pólitísku umræðu eins og aðrir - á sama plani og aðrir og með ámóta vandaðri röksemdafærslu og almennt er tíðkuð. Í staðinn fyrir einhvern stjórnmálaflokk og leiðtoga hans setti ég Manchester United og sir Alex Ferguson.
Skiljiði mig?
P.s.: Ég þori ekki að lesa kommentin sem þar eru komin ...
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Nú hefur félagsmálaráðuneytið - af hverju félagsmálaráðuneytið en ekki heilbrigðisráðuneytið? - svarað þeim ummælum formanns Geðlæknafélags Íslands, sem ég fjallaði um í síðustu færslu. Að vísu virðist ráðuneytið vera að svara einhverjum allt öðrum ummælum hans um sama efni og langtum vægar orðuðum en komu fram í frétt Ríkisútvarpsins.
Í tilkynningu ráðuneytisins segir - ef mark er takandi á frétt mbl.is, en á slíku er allur gangur, eins og kunnugt er:
Formaður Geðlæknafélags Íslands telur skýrslugerð hafa kostað einhverja tugi ef ekki hundrað milljónir króna og að allt of mikið af framlögum ríkisins hafi brunnið upp í verðbólgunni.
Þetta er allt annað orðalag en kom fram í frétt Ríkisútvarpsins.
Ef þetta er rétt, sagði ég í fyrri færslunni. Í því felst einmitt sá fyrirvari, að núna í aðdraganda kosninga virðast allir sótraftar á sjó dregnir í pólitískum tilgangi. Þar kemur fram í sviðsljósið fólk í trúnaðarstöðum, þar koma fram starfsmenn fjölmiðla - að ekki sé nú minnst á frambjóðendur, sem enginn heilvita maður getur tekið mark á - og allir sameinast um að skrumskæla hlutina á alla kanta, hvort sem það er í pólitískum tilgangi (les: illvilja) eða af hreinni heimsku.
Nema hvort tveggja sé.
Voru það ekki annars 180 manns sem veiktust í göngunum fyrir austan fyrir tilstuðlan ítölsku mafíunnar og ríkisstjórnarinnar? Eða voru það bara sex eða átta sem fengu leiðindi í hálsinn út af frjókornum í lofti og báðu lækninn um hóstasaft?
Býttar sosum engu.
Ég er að hugsa um að fara að hugsa um köttinn.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Hún lét ekki mikið yfir sér fréttin í Ríkisútvarpinu í gærkvöldi: Einn og hálfur milljarður króna ætlaður geðsjúkum gufaður upp. Hér er um að ræða einn milljarð af Símapeningunum svokölluðu og hálfan milljarð úr Framkvæmdasjóði fatlaðra, sem stjórnvöld ákváðu fyrir þremur árum að verja til búsetuúrræða fyrir geðsjúka. Í fréttinni var haft eftir Kristófer Þorleifssyni, formanni Geðlæknafélags Íslands, að þessir peningar væru að mestu uppurnir - að þeir hafi brunnið upp í verðbólgu og farið í skýrslugerð, svo vitnað sé orðrétt í fréttina á ruv.is.
Hér fer sem oft áður hérlendis, að frétt vekur fleiri spurningar en hún svarar. Ef þetta er rétt, þá hefur eitthvað á annan milljarð króna, meira en þúsund milljónir króna, eða sem svarar lífeyri eins geðsjúklings í þúsund ár - eða nokkur hundruð geðsjúklinga í þrjú ár - farið í skýrslugerð, því að ekki hefur verið nein óðaverðbólga á þessum tíma.
Veit nokkur hvaða skýrsla þetta er? Um hvað? Hver gerði hana? Fyrir hvern? Til hvers?
Þetta hefði einhvern tímann verið kallað geðveiki.
Geðlæknirinn sagði líka, að núna væru hundrað færri pláss á bráðadeild og endurhæfingu fyrir geðsjúka en fyrir tíu árum. Búið er að loka vistheimilunum í Arnarholti og Gunnarsholti. Búið er að loka geðdeildinni í Fossvogi. Stöðugt er hert að Barna- og unglingageðdeild Landspítalans. Auk þess er verið að loka iðjuþjálfunardeild geðsviðs Landspítalans við Hringbraut.
En kannski hefur geðheilsa þjóðarinnar lagast svona mikið upp á síðkastið.
P.s.: Tek að mér skýrslugerð.
Meðfylgjandi mynd er af Kleppsspítala (Wikipedia). Hann var byggður árið 1907, ekki 2007.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Niðurstaða opinberrar rannsóknar á stríði Ísraelsmanna í Líbanon á síðasta ári er m.a. sú, að Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísraels, hafi leitt landið í fljótfærni í stríð án þess að til grundvallar lægi heildaráætlun um hernaðinn, segir í fréttinni sem hér er tengt við. Í skýrslunni segir að ráðamenn í Ísrael hafi gerst sekir um alvarlegan dómgreindarbrest og skort á ábyrgð og varkárni. Olmert fékk skýrsluna í hendur fyrr í dag og sagði í kjölfarið, að bætt yrði fyrir mistök, sem gerð hefðu verið, segir í fréttinni.
Hvernig skyldi eiga að bæta fyrir mistökin? Endurtaka stríðið og vanda sig betur?
Hvenær skyldi fara fram opinber rannsókn á stríðinu í Írak og tildrögum þess? Ætli menn fari síðan í nýtt og betra Íraksstríð eða láti nægja að vanda sig þegar kemur að næsta ríki í stafrófsröðinni?
Olmert leiddi Ísraelsmenn í stríð án undirbúnings | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
29.4.2007
Afturábak, stopp!
Ekki skil ég vefauglýsingar Framsóknarflokksins, sem blasa við á forsíðunni á Moggabloggi. Slagorðið sosum ágætt: Árangur áfram - ekkert stopp. En það er þetta með græna kallinn. Hann birtist vinstra megin og rennur inn á miðjuna. Afturábak. Og stoppar.
Svo heldur hann áfram til hægri - öllu heldur áfram afturábak, eða þannig - og hverfur þar.
Af hverju stangast þetta svona á við slagorðið? Græni kallinn fer afturábak en ekki áfram. Og stoppar.
Ef þetta er raunverulegur framsóknarkall, þá væri út af fyrir sig ekkert athugavert þó að hann héldi kyrru fyrir á miðjunni. En að hann skuli svo fara burt af miðjunni og til hægri ...
Hinn ágæti formaður flokksins Jón Sigurðsson er líka í þessari auglýsingu. Hann kemur frá vinstri og rennur glaðbeittur inn á sviðið og stoppar þar. Rennur alveg eins og skotskífa á braut - hálfóviðfelldið, finnst mér. En öfugt við græna kallinn, þá rennur Jón aftur til vinstri. Afturábak.
Til að fullkomna þetta finnst mér að græni kallinn hefði átt að vera rauður.
Það þarf meiri táknfræðing en mig til að skilja hin dýpri rök þessara auglýsinga.
En ef þær verka, þá er það sjálfsagt hið besta mál. Bæði aspirín og bænalestur geta verkað prýðilega þó að maður viti ekki endilega hvernig.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Sú var tíðin að ég afgreiddi skömmtunarseðla. Vonandi muna fáir eftir þeim. Eða, öllu heldur, vonandi muna sem flestir eftir þeim.
Til þess eru vítin að varast þau.
Faðir minn var oddviti Mosfellshrepps í bernsku minni og æsku. Þá var enginn sérstakur sveitarstjóri utan oddvitinn og engin sérstök hreppsskrifstofa nema heimili hans. Þá var enginn sérstakur opnunartími eins og það heitir á nútímamáli heldur kom fólk hvenær sem var. Stundum var ég einn heima og mjög snemma fór ég að afgreiða skömmtunarseðlana. Man ekki hvað ég var gamall þá - kannski fimm-sex ára.
Á bernskuárum mínum þurfti að fá leyfi hjá hinu opinbera fyrir nánast hverju sem var. Nefndir og ráð ákváðu hver mætti kaupa sement eða bíl og hversu mikið af helstu nauðsynjavörum. Þetta var á þeim tíma þegar Íslendingar höfðu fengið öllum þjóðum ríkulegri skerf af stríðshjálparaðstoð.
Nánast öllu var úthlutað. Menn þurftu að sækja um náðarsamlegast og erindið var tekið fyrir á nefndarfundi. Nefndarmenn samþykktu eða synjuðu að geðþótta sínum. Sumir bændur fengu að kaupa jeppa, einkum ef þeir voru jafnframt sóknarprestar. Jeppar töldust landbúnaðartæki sem hentuðu einnig sóknarprestum afar vel.
Man annars nokkur eftir fjárhagsráði?
Mér verður hugsað til þessara tíma núna, þegar allir eru að tala um skömmtun þingnefndar nokkurrar á ríkisborgararétti. Um veitingu ríkisborgararéttar gilda ákveðnar reglur en þingnefndin hefur það verkefni að brjóta þær að sínum geðþótta.
Hugtakið fyrirgreiðslupólitíkus er vonandi ekki að gleymast þó að slíkir menn séu vonandi að hverfa. Fyrirgreiðslupólitíkus er valdamikill maður sem ræður yfir biðröð og kippir þeim fram fyrir sem hann hefur velþóknun á. Slíkir pólitíkusar voru vinsælir. Allir sögðu að þetta væru góðir menn og vinir litla mannsins. En áttuðu sig hins vegar ekki á því, að þegar einum er kippt fram fyrir biðröðina þurfa hinir að bíða lengur. Já - það var einmitt litli maðurinn sem þurfti að bíða lengur!
Fyrirgreiðslupólitíkin lifir enn góðu lífi í þingnefndinni sem úthlutar ríkisborgararétti. En enginn veit forsendur geðþóttans. Ekki einu sinni nefndin sjálf. Yfirleitt virðist ekki nokkur maður í nefndinni vita nokkurn skapaðan hlut. Meira að segja stærir nefndarfólkið sig af því opinberlega að vita ekkert og muna ekkert.
Ekki sé ég neina ástæðu til þess að Baráttusamtök aldraðra fái fulltrúa á þing.
Varla er þar á Alzheimerinn bætandi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
Athygli hlýtur að vekja, að átta af átján manns á lista Íslandshreyfingarinnar í Norðvesturkjördæmi eru til heimilis á höfuðborgarsvæðinu - fimm í Reykjavík, tveir í Kópavogi og einn á Seltjarnarnesi. Aðeins vantar einn upp á helminginn.
Ef athugað er með búsetu hinna, þá eru tveir á Vesturlandi (á Akranesi og í Borgarnesi), fjórir á Vestfjörðum (allir á norðursvæðinu) og fjórir á Norðurlandi vestra (þrír í Skagafirði og einn í Húnavatnssýslu).
Vissulega er þetta heimilt og hjá öllum flokkum hefur tíðkast að einhver tilvik séu af þessu tagi. Þetta háa hlutfall bendir hins vegar til þess, að illa hafi gengið að fá fólk í kjördæminu á listann. Af einhverjum ástæðum. Kannski var of seint farið af stað. Kannski voru ekki nógu margir nógu víða virkjaðir til starfa nógu snemma.
Frá gamalli tíð þekki ég einn af frambjóðendunum sem búsettir eru syðra. Það er ágæt kona sem á uppruna sinn og frændgarð fyrir vestan. Þessa finnst mér skylt að geta. Deili veit ég á öðrum, en hann er af einni kunnustu ætt á Ísafirði nokkuð á aðra öld. Ættmenni þau á Ísafirði voru í eina tíð kölluð Gilsbekkingar, kennd við Gilsbakka í Hvítársíðu, þar sem ættfaðirinn var prestur á fyrri hluta 19. aldar. Þannig má segja, að í þessum tilvikum séu ræturnar í kjördæminu fyrir hendi!
Enda þótt ég hyggist ekki kjósa Íslandshreyfinguna - ekki er hægt að greiða nema einu framboði atkvæði, kannski því miður - þá óska ég henni og þessu ágæta fólki alls góðs. Mjög vel finnst mér hafa til tekist þegar skipað var í efsta sætið í Norðvesturkjördæmi.
Hver svo sem afraksturinn reynist þegar talið verður upp úr kjörkössunum, þá sýnist mér eitt víst: Barátta Ómars Ragnarssonar hefur sannarlega markað spor í þjóðarvitundina. Og meira en það: Ég leyfi mér að segja, að framganga hans hafi haft veruleg áhrif á gömlu stjórnmálaflokkana og viðhorf þeirra. Það er ekki lítill árangur!
Í því ljósi skiptir kannski ekki öllu máli hvort hreyfing hans kemur fleiri eða færri mönnum inn á þing að þessu sinni. Ómar hefur þegar unnið frækilegan sigur. Og, ég leyfi mér að bæta við: Maðurinn sjálfur er þjóðareign, hreinlega þjóðargersemi.
Viðbót, árétting - alltaf þarf maður að fá einhverja bakþanka:
Þau ummæli mín, að e.t.v. skipti ekki öllu máli hvort þingmenn Íslandshreyfingarinnar verða fleiri eða færri, mótast væntanlega eitthvað af niðurstöðum skoðanakannana þessa dagana. Í þessu felst samt engin spá, hvað þá ósk af því taginu sem alþekkt er úr kvæði Stephans G. um Jón hrak. Í þessu felast engin lymskuleg skilaboð þess efnis, að ástæðulaust sé að kasta atkvæði sínu á Íslandshreyfinguna. Fullvissa mín um úrslit í síðustu bæjarstjórnarkosningum í Ísafjarðarbæ stóðst með þeim hætti, að líklega ætti ég að láta það eiga sig að mynda mér skoðanir samkvæmt skoðanakönnunum ...
Sjá: Íslandshreyfingin - lifandi land: Framboðslistinn í Norðvesturkjördæmi
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 04:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
23.4.2007
Kristin kenning og handhafar hennar
Ég sá það hjá guðfræðingi hér á Moggabloggi, að hugmyndir rúmlega fjörutíu íslenskra presta gangi gegn kristinni kenningu.
Spurningin er þessi: Hver er með hinn eina sannleik í sínum höndum? Er það Jón Valur Jensson guðfræðingur? Eða biskupinn? Eða páfinn?
Eða kannski Jesú Kristur?
Eða þá:
Er yfirleitt einhver með hinn eina og endanlega sannleik í sínum höndum?
A.m.k. ekki ég. Enda ekki guðfræðingur.
P.s.: Mér skilst að téður guðfræðingur sé ekki vígður maður. Er hann þá í óvígðri sambúð við guðdóminn?
Stjórnmál og samfélag | Breytt 24.4.2007 kl. 08:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
18.4.2007
Reykjavík fyrir Reykvíkinga
Reykjavík er höfuðborg Íslands, eins og margir vita. En ekki allir, sýnist mér. Sumir virðast halda að Reykjavík sé einungis höfuðborg Reykjavíkur og landsbyggðinni óviðkomandi. Þetta viðhorf birtist iðulega þegar rætt er um samgöngumál. Þannig er hart barist fyrir því að losna við miðstöð innanlandsflugsins úr Vatnsmýrinni í Reykjavík.
Ágætur maður sagði fyrir skemmstu efnislega eitthvað á þá leið, að hans vegna mætti samgöngumiðstöð landsmanna vera í túnfætinum hjá Sturlu Böðvarssyni vestur á Snæfellsnesi eða þá norður í Héðinsfirði.
Þessi ágæti maður er Reykvíkingur og þarf þess vegna ekki að komast til Reykjavíkur. Og virðist ekki heldur þurfa að komast þaðan.
En hvað með stjórnarráðið, svo dæmi sé tekið? Og hvað með Alþingi?
Hvernig væri að hafa stjórnarráðið vestur á Snæfellsnesi og Alþingi norður í Héðinsfirði?
Sú tilhögun gæti stuðlað að þrískiptingu ríkisvaldsins hérlendis.
Minnir fyrirsögnin ykkur annars á eitthvað?