Færsluflokkur: Dægurmál

Dúllan 2007 - nú fer að draga til tíðinda

Dúllukeppnin 2007 stendur sem hæst. Alls voru tilnefndar rúmlega 150 dúllur og nú að lokinni spennandi undankeppni standa 32 dúllur eftir. Hér er um útsláttarkeppni að ræða og til þess að komast í 16 dúllna úrslit þarf ég að sigra Bill Murray, en hann er einkennilega líkur séra Erni Bárði Jónssyni í Nesprestakalli.

 

mahmudahmadinejad-01Ég frétti ekki af þessari keppni fyrr en seint og um síðir, reyndar ekki fyrr en nú þegar ég er kominn í þrjátíu og tveggja dúllna úrslit. Gerði mér ekki einu sinni grein fyrir því að ég er dúlla. Sá þetta hérna - rétt er að benda á umræðurnar sem þar hafa skapast um þetta mál. M.a. kemur fram, að einhverju sinni hafi Þórarinn V. Þórarinsson sigrað í þessari árlegu keppni. Jafnframt kemur fram, að Konráð Jónsson forstöðumaður keppninnar mun vera sonur hæstaréttardómara, sem er fæddur árið 1947 eins og ég og stúdent frá MR eins og ég. Niðurstöðum verður ekki áfrýjað, skilst mér.

 

Ég þakka vinum og velunnurum til sjávar og sveita nær og fjær, sem hafa stutt mig í þessari keppni með ráðum og dáð án þess að ég hefði um það minnstu hugmynd að ég væri að keppa. Hér er við ramman dúllu að draga enda við marga mjög frambærilega keppendur að etja. Þar má nefna t.d. Sigurð H. Richter, Hugo Chavez, Baldur Ágústsson fyrrverandi næsta forseta Íslands, Adolf Inga Erlingsson, Elías Davíðsson, Pál Pétursson, Pál Hreinsson lagaprófessor, Margeir Pétursson stjórnarformann (sem sumir segja að sé frekar ab-dúlla en dúlla), nafnana Úlfar Eysteinsson og Úlfar Eysteinsson, sem báðir eru kokkar, Bjarna Harðarson framsóknarmann, Roseanne Barr, Þórð Sveinsson lögfræðing Persónuverndar, Smára Geirsson fyrir austan, Wilson Muuga, Carl Bildt og Jónas Sen. Athygli vekur, að einungis tvær konur komust í 32ja dúllna úrslit, þær Roseanne Barr og Carl Bildt.

 

Koma svo!

 

Norðanlogn á Reykhólum - gleðilegt sumar!

Gleðilegt sumar og bestu þakkir fyrir liðinn vetur. Og meira en það, bestu þakkir fyrir liðin sextíu ár. Hér á Reykhólum við Breiðafjörð frjósa saman veturinn og sumarið. Það mun vita á gott sumar. Frostið var hér rúmar fjórar gráður á miðnætti og lognið algert. Sjálfvirki vindmælirinn sýndi 0,0 metra á sekúndu. Á norðan, hvernig sem á því stendur.

Þegar við Finnbogi brotlentum og aðrar flugminningar

Um daginn sagðist ég ætla að segja frá því bráðum þegar við Finnbogi Hermannsson fréttamaður brotlentum á Ísafjarðarflugvelli fyrir mörgum árum. Kannski er ofsagt að við höfum beinlínis brotlent, en það hljómar betur.

 

Hann var á sunnan og þá getur verið ókyrrt í aðfluginu inn fjörðinn. Við Finnbogi sátum aftast, ég við gluggann vinstra megin og horfði út, hann við hliðina á mér og las Þjóðviljann. Kirkjubólshlíðin streymdi framhjá, kindur á beit. Fokkerinn hoppaði og hristist og konur ráku upp vein en það er alvanalegt í sunnanátt. Við Finnbogi brostum góðlátlega. Flugbrautarendinn birtist rétt fyrir neðan og nálgaðist óvenjuhratt. Þarna voru þeir Kirkjubólsfeðgar brenndir á sínum tíma. Svo snöggreis vélin og slæmdi afturendanum í brautina. Að öðru leyti gekk lendingin eins og best verður á kosið. Flugfreyjan þakkaði okkur fyrir samfylgdina og kvaðst vona að við hefðum notið ferðarinnar og vélinni var ekið á sinn stað á planinu.

 

Hún flaug ekki meira þann daginn. Afturhlutinn á bolnum hafði gengið upp þar sem hann rakst niður og viðgerðarmenn komu að sunnan.

 

Eftir þetta var passað upp á að við Finnbogi sætum helst miðsvæðis í flugvélum.

 

Eitt sinn vorum við Finnbogi í hópi gesta í útsýnisflugi meðfram björgunum ógurlegu á Hornströndum. Þar var skyndilega flogið inn í ókyrrð. Bakkar með veisluföngum svifu upp í loftið og snerust á hvolf eins og brauðsneiðin fræga áður en þeir lentu. Ja, það var nú verkun, eins og gamla fólkið sagði. Ég glotti með sjálfum mér enda slapp ég við sósur. Svona getur maður verið mikið kvikindi. Ekki var okkur Finnboga kennt um í þetta sinn.

 

Assgoti hef ég annars flogið mikið um dagana. Að vísu kom ég ekki í flugvél fyrr en ég var nítján ára gamall. Þá fór ég með Canadair CL-44 Rolls-Royce skrúfuþotu Loftleiða til Lúxemborgar, þaðan sem ég fór með hraðlest til Mílanó og svo áfram suður á bóginn með frumstæðari farkostum. Loftleiðavélar þessar, Monsarnir eins og þær voru kallaðar, voru stórar á þess tíma mælikvarða og hægfleygar miðað við þoturnar. We are slower but lower auglýstu Loftleiðamenn og náðu vinsældum í Ameríkufluginu vegna lágra fargjalda.

 

Donna frænka mín - Þórunn dóttir Héðins föðurbróður míns, fallegasta stúlka sem ég hef nokkurn tímann séð - var flugfreyja í þessari ferð. Hún fór með mig fram í stjórnklefa þar sem ég fékk að skoða mig um. Ennþá man ég vel eftir lendingunni ljúfu á Findelflugvelli í Lúxemborg og hlýja loftinu sem tók á móti mér.

 

Sumarið eftir þegar ég var á Morgunblaðinu var ég sendur í flugferð með Elíeser Jónssyni á tékknesku Zlin Trener Master listflugvélinni sem notuð var til sýninga á þessum árum. Enn á ég myndir sem Sveinn Þormóðsson ljósmyndari á Mogganum tók af okkur og vélinni á Reykjavíkurflugvelli. Sveinn komst ekki með; reyndar hefði vélin varla borið hann einan. Zlininn var eins hreyfils tveggja sæta lágþekja og ég sat beint fyrir aftan flugmanninn. Yfir okkur var glær plasthlíf. Elíeser fór út yfir Skerjafjörð og lék listir sínar og spurði öðru hverju hvernig mér liði og hvort hann mætti gera fleira. Mér fannst þetta ógurlega gaman. Þarna upplifði ég allt sem vélin og flugmaðurinn gátu, svo sem bakfallslykkjur og krúsidúllur af öllum sortum og svo var flogið á hvolfi þar sem maður hékk í ólunum og horfði beint niður í blágrængráflekkóttan sjávarbotninn. Hann flaug líka beint upp þangað til vélin stöðvaðist í loftinu og fór að velta og hrapa og hringsnúast á leiðinni niður aftur áður en hann rétti vélina af niðri við sjávarflötinn. Þegar við lentum beið Sveinn með myndavélina á vömbinni ásamt hópi manna. Hann sagði mér á leiðinni niður á Mogga að ég hefði valdið þeim vonbrigðum þegar ég steig kátur út á vænginn og hoppaði niður. Þeir höfðu verið að bíða eftir að sjá helvítis blaðasnápinn velta grænan og gubbaðan út úr vélinni.

 

Mogginn fékk eitt sinn Björn Pálsson sjúkraflugmann til að skutla mér og ljósmyndara á Landsmót hestamanna austur á Hellu. Það var svartaþoka á Hellisheiðinni og Björn skreið með jörðinni eins og hann gerði til hinsta dags. Þetta er eina skiptið sem ég hef farið í flugvél niður Kamba og svo upp aftur í bakaleiðinni.

 

Og svo eru auðvitað ævintýraferðirnar um alla Vestfirði miklu seinna með Herði Guðmundssyni flugmanni á Ísafirði eða einhverjum af hans mönnum. Já, og þegar ég kom þrisvar í sömu vikunni á Straumnesfjall. Tvisvar með Chinook-þyrlum bandaríska hersins og einu sinni fótgangandi með Smára vini mínum Haraldssyni. Í þyrlunum var hávaðinn alger en í gönguferðinni var þögnin alger.

 

Nú er líklega nóg flogið þangað til ég breytist í hvíta dúfu í bylnum stóra seinast og tek strauið upp úr öllum veðrum og sest kurrandi við hænsnahúsdyrnar hjá Lykla-Pétri. Ekki kemst ég úr þessu í klúbbinn þarna þið vitið. Verst að hafa ekki hugsað út í slíkt meðan ennþá týrði á prímusnum.

 

Ómerkilegasta fréttin mín

Líklega eru fjögur-fimm ár síðan ég skrifaði þá ómerkilegustu frétt sem ég hef skrifað um dagana - og er þá nokkuð sagt. Mér varð hugsað til hennar þegar ég skrifaði næstu færslu hér á undan. Á þessum tíma gekk ég frá tíu til fimmtán fréttum á dag að jafnaði og stundum meira inn á vef Bæjarins besta á Ísafirði - bb.is. Þá eins og nú voru stöku fréttir þaðan teknar inn á aðra fréttavefi, svo sem vefina mbl.is, visir.is og einhvern vef fyrir austan, sem um tíma flutti samansafn frétta af landsbyggðinni.

 

Dálítið fannst mér það pirrandi, frómt frá sagt, að oftast var þar lítt eða ekki hirt um jákvæðar fréttir, jafnvel stórfréttir af atvinnulífi eða menningarlífi eða mannlífi yfirleitt, en umsvifalaust tínt upp það neikvæða, alveg sama hversu lítið eða ómerkilegt sem það var. Ef einn daginn voru t.d. fluttar fréttir af breytingu gamla sjúkrahússins á Ísafirði í safnahús, ákvörðun um nýjan gervigrasvöll, heimsmeistaramótinu í víkingaskák, nýrri Breiðafjarðarferju og þjófnaði á hjólkoppum, þá var eingöngu sú síðasta tekin á aðra vefi til fróðleiks fyrir landslýð allan um lífið fyrir vestan.

 

Núnú, í áðurnefndum pirringi skrifaði ég frétt á bb-vefinn þess efnis, að ónýtur ísskápur hefði dottið af pallbíl á Ísafirði og skrámað hurðina á öðrum bíl. Ekki man ég af hvaða tegund ísskápurinn var né heldur bílarnir sem hlut áttu að máli, en slíkar upplýsingar má auðvitað helst ekki vanta í fréttir af þessu tagi. Jafnframt spáði ég því að þessi frétt yrði umsvifalaust tekin upp á helstu fréttavefi landsins. Ég var sannspár: Allir helstu fréttavefir landsins tóku hana upp - og enga aðra af bb-vefnum þann daginn.

 

Við þessu er auðvitað ekkert að segja!

 

Bjórmaður keypti límonaði

Clooney hefur líklega orðið þyrstur við tökurnar á Leatherheads - a romantic comedy set in the world of 1920s football (The Internet Movie Database) - þar sem hann er í senn leikstjóri, handritshöfundur og leikari í aðalhlutverki á móti Renée Zellweger. Clooney mun ekki slá hendinni á móti bjór þó að hann hafi fengið sér límonaði að þessu sinni. Eða eins og segir í postillunni IMDb: He loves beer. He does voiceovers for Budweiser TV commercials and allegedly had a beer keg installed in his dressing room during filming of Ocean's Eleven (2001) ...

 

Að öðru leyti sit ég hér með hálfvitasvip og velti fyrir mér helstu frétt helstu fjölmiðla veraldar þessa dagana og bloggefni mínu að þessu sinni.

   
mbl.is Clooney greiddi 1.300 krónur fyrir glas af límonaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mitt er að yrkja ...

Mitt er að yrkja, ykkar að skilja, sagði séra Matthías þegar hann var spurður hvað hann hefði meint á tilteknum stað.

 

Ég er hræddur um að einhver hafi misskilið bloggið mitt í gær, tekið orð mín bókstaflega - og talið mig ósáttan við að leyfilegt skuli vera að kaupa sér eitthvað að éta á stórhátíðum.

 

Það er öðru nær. Í því ljósi ber einnig að skoða orð mín um faðm fjölskyldunnar og það sem húsmóðirin eldar.

 

Aldrei hefði séra Matthías farið að útskýra orð sín með þessum hætti. En hann var heldur ekkert að reyna að vera kaldhæðinn.

 

Siðgæði á stórhátíðum

Heimur versnandi fer, einkum þó hin síðari ár, eins og hann hefur gert frá öndverðu. Nú er svo komið, að leyfilegt er að kaupa sér eitthvað að éta á föstudaginn langa, en slíkt var lengi bannað, enda spillir það allsherjarfriði og siðgæði. Auðvitað eiga allir að vera í faðmi fjölskyldunnar á stórhátíðum og borða það sem húsmóðirin eldar.

 

Annars rakst ég á málsgrein hjá öðrum bloggara, sem ég leyfi mér að gera einnig að mínum orðum. Hann var að fjalla um ramakvein út af einhverri samkomu núna í dag (sem ég er búinn að gleyma hver er) og sagði eitthvað á þessa leið:

                                         

Ég er þeirrar skoðunar, að það sé heillaríkara að huga að því sem maður sjálfur gerir en hafa sífellt áhyggjur af háttalagi annarra. 

Morgunandakt

Ég vandist því að vikan fyrir páska væri kölluð dymbilvika en vikan á eftir páskavika. Margir tala hins vegar um þessa viku sem páskaviku - svo sem að skreppa á skíði til Ísafjarðar í páskavikunni. Svona breytast hlutirnir og lítið við því að segja. Maður þumbast við lengi vel en lætur að lokum undan ofureflinu. Fáir myndu skilja bloggið mitt ef ég ritaði mál Egils og Snorra.

 

Hundurinn Dexter slapp áðan. Ég opnaði fyrir honum út á pallinn en gætti þess ekki að hliðið var opið. Þegar ég ætlaði litlu síðar að setja hann í bandið í garðinum var hann horfinn.

 

Ekki þurfti ég að leita hans lengi. Ég fór rakleiðis að húsi þar sem íturvaxin tík á heima og þar var hundurinn fyrir utan. Cherchez la femme. Hann var ekki byrjaður að syngja undir glugganum hennar. Vona ég. Ekki klukkan hálfátta á skírdagsmorgni.

 

Morgunninn sjálfur er skír og fagur. Láréttir sólargeislar við Breiðafjörð. Hægviðri, dálítið andkalt. Í dag er hinn hreini dagur, hreinleikans dagur. Á morgun er dimmur dagur.

 

Til upprifjunar varðandi hundinn Dexter: Ég á hann ekki heldur Erla dóttir mín. Hann hefur dvalist hjá mér í rúma tvo mánuði. Deili á nafni hans koma fram hér í gestabókinni. Sjá líka þessa færslu:

 

30.01.2007 Með tetanus í höfðinu

 

Heimildir varðandi mig óskast

Allt frá unglingsárum hef ég safnað heimildum um mitt nánasta ættfólk eins langt aftur og mér hefur verið unnt, og geri enn. Nokkur skalli, óneitanlega stór, er í þeirri heimildavinnu þar sem persónulegar eigur móður minnar og jafnframt foreldra minna beggja eiga í hlut. Þannig hvarf mér t.d. þegar mamma dó fyrir þremur áratugum fjöldi gamalla ljósmynda í hennar eigu, sem ég sjálfur tók, auk margra annarra. Auk þess hurfu mér þá mörg afar persónuleg bréf sem fóru okkur mömmu í milli, m.a. þegar ég var vistaður í heimavistarskóla á Vestfjörðum á fermingaraldri, sem og ótalmargt annað persónulegt sem ég fékk engan aðgang að þegar mamma dó.

 

Þeir sem kunna að hafa eitthvað af þessu undir höndum núna - hafa e.t.v. keypt það á flóamarkaði eða því um líkt - eru beðnir að hafa samband við mig. Ekki síst þætti mér gaman að frétta af nælunni sem ég smíðaði og gaf mömmu!

 

Fyrir utan almennt gaman væri fróðlegt að vita um kaupendurna en þó einkum seljendurna.

  

Styrmir og séra Stína - römm er sú taug

Ekki varð ég neitt hissa þegar ég sá fyrirsögnina Styrmir enn á ferð við Morgunblaðshúsið í Kringlunni. Ekki hefði ég heldur orðið hissa þó að hann hefði sést á vappi við gamla Morgunblaðshúsið í Aðalstræti. Jafnvel Matthías líka. Römm er sú taug ...

 

En þetta var annar handleggur, annar Styrmir. Tjaldurinn Styrmir.

 

Fuglamenn á Náttúrustofu Vestfjarða hafa líka gefið farfuglum kunnugleg nöfn á liðnum árum. Stína var á sínum tíma merkt í Holti í Önundarfirði. Síðan fréttist af henni á Írlandi, í Englandi og Frakklandi og svo aftur heima í Holti áður en hún fór til Írlands á ný.

 

Fyrir nokkrum árum tók ég þátt í lestri Passíusálmanna á föstudaginn langa í kirkjunni í Holti hjá séra Stínu Gísladóttur. Hún er úr Mosfellssveitinni gömlu eins og ég. Það voru líka jaðrakanar á túninu heima í mínu ungdæmi. Ætli þeir séu þar enn?

 

Ísfirðingur nokkur var að koma að sunnan og sagði við kunningja sinn: Ég keyrði yfir tjald inni í Djúpi. Og kunninginn spurði: Var einhver í tjaldinu?

 
mbl.is Styrmir enn á ferð við Morgunblaðshúsið í Kringlunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband