Færsluflokkur: Dægurmál

Jónína Benediktsdóttir og reikult þangið í Morgunblaðinu

Jónína Benediktsdóttir kvartar á bloggi sínu yfir „fjandans þvælingi“ hjá Mogganum. „Endalausar breytingar á staðsetningu efnisins og ekki nokkur leið að finna ýmislegt sem átt hefur sér fasta síðu síðan á fyrri hluta síðustu aldar“, segir hún.

 

Eins og út úr mínu hjarta talað!

              

Skáldið sá þetta fyrir:

                     

Reikult er rótlaust þangið,         

rekst það um víðan sjá,         

straumar og votir vindar           

velkja því til og frá.         

                      

Þarna er auðvitað átt við efnisþættina sem flæmast fram og aftur í Mogganum. Hinn „víði sjár“ er Morgunblaðið en „votir vindar“ eru nýmóðinsöflin á ritstjórninni.

        

Þegar ég var upp á mitt besta á fyrri hluta síðustu aldar var hægt að ganga að hlutunum vísum í Morgunblaðinu. Allt er í heiminum hverfult sagði Jónas en það gilti ekki um Moggann.

 

Ekki fyrr en núna.

              

Eins og kunnugt er, þá standa núna yfir tímar sem nefndir eru „þessir síðustu og verstu tímar“. Einkenni þeirra eru lausung og lygi, skeggöld og skálmöld og allt það; hverfa af himni heiðar stjörnur.

               

Finnast æsir                

á Iðavelli             

og um moldþinur           

máttkan dæma             

og minnast þar              

á Morgunblaðið                 

og á Fimbultýs            

fornar rúnar.         

           

            

Ég tek heilshugar undir eftirfarandi orð Jónínu Benediktsdóttur:

            

Moggafólk, hættið nú að pirra okkur með þessum breytingum.

 

Bátasafn Breiðafjarðar á Reykhólum

Hér á Reykhólum við Breiðafjörð vinnur áhugafólk að því að koma upp breiðfirsku bátasafni. Þegar er um tugur gamalla báta kominn í hús, þar sem gestir geta skoðað þá yfir sumartímann, en ámóta margir aðrir eru enn í geymslu á ýmsum stöðum. Á hinum árlega Reykhóladegi hafa gömlu bátarnir skipað veglegan sess tvö síðustu árin.

 

Um þetta verkefni hefur verið stofnaður félagsskapur sem heitir því langa nafni Áhugamannafélag um stofnun Bátasafns Breiðafjarðar á Reykhólum. Félagsmenn eru búsettir víða en eiga breiðfirskar rætur. Helsti frumkvöðullinn er Aðalsteinn Valdimarsson, skipasmiður úr Breiðafjarðareyjum. Síðustu misserin hafa Aðalsteinn og félagar hans komist yfir um tuttugu gamla báta úr Breiðafjarðareyjum og héruðunum í kringum Breiðafjörð og bjargað mörgum þeirra frá bráðri eyðileggingu.

 

BátasafnAuk þess hafa Aðalsteinn og félagar hans smíðað eftirmynd af einum hinna gömlu báta, sem tímans tönn hefur leikið illa. Meistarinn að því verki er Hafliði Aðalsteinsson, sonur hins landskunna bryggjusmiðs hjá Hafnamálastofnun, Aðalsteins Aðalsteinssonar úr Hvallátrum, en hugðarefni hans var að koma upp breiðfirsku bátasafni. Áhugamannafélagið fylgir nú fram þeim draumi hans.

 

Áhugamannafélagið hefur aðstöðu til bráðabirgða í Mjólkurstöðinni gömlu hérna rétt ofan við þorpið á Reykhólum, þar sem Hlunnindasýningin er einnig til húsa. Hugmyndin er að byggja nýtt hús fyrir væntanlegt Bátasafn Breiðafjarðar í samvinnu við Reykhólahrepp og fleiri. Þetta hús yrði byggt við Mjólkurstöðvarhúsið gamla og mynduð ein heild úr þessum byggingum, þar sem aukið og endurbætt hlunnindasafn og veitingarekstur yrðu einnig veigamiklir þættir.

 

Auk þess sem þarna yrðu gamlir bátar, ýmist uppgerðir eða misjafnlega lúnir og illa farnir, svo og eftirmyndir hinna gömlu báta, yrðu þar verkfæri og vélar allt frá dögum Ólafs Teitssonar skipasmiðs í Sviðnum á Breiðafirði og til okkar daga.

 

Einn af þeim merku bátum sem þegar eru komnir á ný til virðingar hér á Reykhólum er bringingarbáturinn Friðþjófur. Hann lá á hvolfi á Miðhúsum í Reykhólasveit í hálfa öld en Ragnar Jakobsson úr Reykjarfirði á Ströndum, bátasmiðurinn kunni í Bolungarvík, gerði hann upp fyrir Þjóðminjasafnið fyrir nokkrum árum.

 

Á myndinni eru þrír af frumkvöðlum væntanlegs Bátasafns Breiðafjarðar, þau Hafliði Aðalsteinsson, Ásdís Thoroddsen kvikmyndagerðarmaður og Aðalsteinn Valdimarsson. Þess má geta, að Thoroddsenættin er upprunnin á Reykhólum og á liðnu sumri var komið hér upp minnismerki um ættföðurinn Jón Thoroddsen, skáldsagnahöfund og sýslumann.

 

Vestfirðir sumarið 2007

Þessar vikurnar - og kominn alveg á síðasta snúning - er ég að ganga frá blaði sem heitir Vestfirðir sumarið 2007. Þetta er þrettánda árið í röð sem blaðið kemur út og síðasta skiptið sem ég annast það. Mikið skelfing er ég löngu leiður á þessu andskotans veseni. Kannski tekur einhver frískari við - ekki veit ég það og lítið kemur mér það við.

            

Vestfirðir sumarið 2006Af skiljanlegum ástæðum hefur blaðið breytt um nafn ár frá ári. Þannig nefndist það í fyrra Vestfirðir sumarið 2006. Lengi nefndist það Á ferð um Vestfirði [tiltekið sumar].

            

Hvað sem því líður, þá er tilgangur blaðsins tvíþættur. Annars vegar að hvetja landsmenn til ferðalaga um Vestfirði. Hins vegar að verða til nokkurrar leiðsagnar og upplýsingar ferðafólki sem kemur til Vestfjarða hverju sinni.

             

Blaðið er prentað í Prentsmiðju Morgunblaðsins enda er það er alltof stórt og  viðamikið til að það verði prentað í einhverri landsbyggðarprentsmiðju. Upplagið er um tólf þúsund eintök í broti sem er nokkru minna en dagblaðabrot en mun stærra en tímaritabrot. Allt litprentað á myndapappír og heft. Í fyrra var blaðið 64 síður. Það er sent á talsvert á þriðja hundrað staði um allt land, þar sem það liggur frammi án endurgjalds. Alltaf hefur það klárast fljótt og sífellt verið að biðja um meira.

            

Ég nefndi tvíþættan tilgang blaðsins. Einhver kynni að hugsa með sér eitthvað á þessa leið: Ætli þriðji og kannski stærsti parturinn af tilganginum sé nú ekki sá að hagnast á útgáfunni?

           

Svarið við því er einfalt:

                 

Nei.

                          

Tekjur útgáfunnar frá upphafi hafa verið auglýsingar. Síðustu árin hefur auk þess verið leitað til sveitarfélaga á Vestfjörðum eftir framlögum. Þeirri umleitan hefur í flestum tilvikum verið vel tekið og þess vegna hefur blaðið verið talsvert myndarlegra síðustu árin en áður var. Þannig leggja helstu sveitarfélög á Vestfjörðum fimmtíu þúsund krónur hvert til útgáfunnar að þessu sinni eins og í fyrra.

     

Blað þetta er ókeypis vettvangur fyrir alla þá sem stunda ferðaþjónustu á Vestfjörðum. Þar geta þeir komið á framfæri ókeypis upplýsingum um sjálfa sig og það sem þeir bjóða. Þetta gildir jafnt um einstaklinga, fyrirtæki og sveitarfélög. Engin tengsl eru milli umfjöllunar um svæði og viðburði og auglýsinga í blaðinu. Alltaf er reynt að gæta jafnræðis og jafnvægis í þeim efnum.

        

Blaðið er einfaldlega opinn og ókeypis vettvangur fyrir alla þá sem hafa eitthvað að bjóða eða sýna eða selja ferðafólki á Vestfjörðum.

        

Ég hef alltaf reynt að gera mitt besta. Ekki hef ég riðið feitum hesti frá þessari vinnu peningalega! Hins vegar hef ég á hverju ári legið undir aðfinnslum og jafnvel skömmum þegar blaðið er komið út. Alltaf er hægt að finna að einhverju. Ýmsum finnst sitt svæði sniðgengið í skrifum og myndavali.

        

Samt er alltaf jafnerfitt að svíða út upplýsingar. Flestir virðast telja sig vera að gera mér persónulegan stórgreiða með því að láta í té upplýsingar um þjónustu sína - ef þeir gera það þá á annað borð eftir að ég hef margsent tölvupósta og marghringt. Á hverju ári.

       

Eitt annað er ekki heldur gott, þótt á hinn bóginn sé. Sumir láta vissulega í té prýðilegar upplýsingar og senda mér efni og myndir. Alveg yfirdrifið mikið, og það er raunar gott.. En - þeir eru svo fáir, að birting á öllu því efni myndi raska hlutföllunum í blaðinu. Og svo er ég skammaður ...

         

En - að einhver hafi nokkurn tímann haft samband og sent mér upplýsingar, efni og myndir að fyrra bragði öll þessi ár? Svarið er einfalt og skýrt: Nei. Kannski hefur blaðið ekki komið út nógu lengi til að hafa unnið sér þegnrétt og virðingu. Líklega þarf meira en einn eða tvo áratugi til þess.

        

Svo vælir hver í sínu horni og kvartar yfir verkum mínum og vinnubrögðum við ferðablað Vestfjarða ár hvert. Allt ómögulegt eins og alltaf. Og svo væla allir alltaf yfir því að allt sé að fara til fjandans á Vestfjörðum. Að stjórnvöld geri ekkert o.s.frv.

     

Stjórnvöld! Væri ekki rétt að fólk reyndi að hjálpa sér sjálft í stað þess að væla? Reyndi t.d. að nota þau vopn sem standa til boða? Eins og t.d. kostnaðarlausa kynningu á landsvísu sem allir í ferðaþjónustu á Vestfjörðum eiga kost á?

          

Ég bara spyr.

           

Og bæti við: Ég er í símaskránni! Auk þess hefur netfangið mitt ásamt helstu upplýsingum um ferðablað Vestfjarða verið sent - að þessu sinni eins og endranær - á nánast alla sem stunda ferðaþjónustu á Vestfjörðum eða hafa einhvern hag af henni.

            

En núna ætla ég að gefa kisu silung.

          

Og hananú!

 

Vantar húsráð

Er ekki til eitthvert húsráð gegn aðsteðjandi fressköttum? Hér er til heimilis læða á besta aldri, Helga Guðrún Geirdal að nafni, og fær pilluna vikulega. Hjá læðum verkar pillan þannig, að þær verða ekki breima og hafa ekki áhuga á fressum.

 

Hins vegar lónar hér í görðum fressköttur sem virðist hafa mikinn áhuga á læðunni. Ef til vill er það einungis félagsskapurinn, ef til vill eitthvað meira, ég veit það ekki. Hélt reyndar að högnar sæktust ekki í læður nema þær væru breima.

 

Högni þessi er mjög styggur og tekur á sprett ef ég læt sjá mig og hvæsi að honum. Svo er hann brátt kominn aftur, liggur álengdar og einblínir hingað. Stalking er þetta víst kallað á dönsku. Helga Guðrún er hrædd við hann. Fyrir skemmstu heyrði ég skelfingaróp utan úr garði og sá þá högnann elta læðuna. Aldrei hef ég séð ketti á þvílíkum spretti. Mér komu í hug ljóðlínur Æra-Tobba: Þambara vambara þeysisprettir / því eru hér svo margir kettir?

     

Stundum þegar kisa mín hefur hætt sér út, haldandi að fresskötturinn sé hvergi nærri, þá birtist hann fyrirvaralaust og kisa forðar sér inn og felur sig undir sófa.

     

Þetta er eiginlega alveg ómögulegt.

     

Ekki hef ég neitt á móti fresskettinum persónulega. Mér er meira að segja hlýtt til hans eins og allra dýra og sums fólks. Ekki er við blessaðan útigangsköttinn að sakast þó að hann leiti sér félagsskapar á milli þess sem hann sefur undir brúm.

     

Samt vildi ég að hann léti af komum sínum.

     

Mig minnir, að einhvern tímann hafi ég heyrt um eitthvað sem gagnaðist í tilvikum sem þessu. Að einhverju efni væri úðað utandyra og fresskettir héldu sig fjarri. Hvort þetta var edik eða kanill eða vígt vatn eða einhver galdrablanda af Ströndum man ég alls ekki.

     

Getur einhver liðsinnt í þessum efnum?

    

    

16.01.2007 Ekki þverfótað fyrir litlum hvítum ketti

 

Ætti ég að prófa að skrifa?

TestEins og ég hafi ekki tekið nóg af prófum í gamla daga. Auk þess látið óteljandi nemendur gangast undir próf. Eiginlega hálfgerður próf-astur.

        

Ég rakst á persónuleikapróf á blogginu hennar dóttur minnar og þurfti auðvitað að taka það. Ég hafði dálítið gaman af niðurstöðunni (sjá myndina). Ekki svo að skilja að þetta passi endilega neitt við mig.

          

Samt er ég að velta því fyrir mér hvort ég ætti að leggja fyrir mig ritstörf þegar ég er orðinn stór.

            

              

A-pró-pó próf: Séra Baldur í Vatnsfirði sagði stundum þegar nemendur hans stóðu sig með afbrigðum illa: Gott hjá þér góði, tíu fyrir þetta!

            

Eitt sinn var séra Baldur spurður hvort hann væri próflaus. Þvert á móti, svaraði hann, ég er prófastur.

 

Andrarímur þykja mér fínar

Þegar Illugi Jökulsson hætti með þáttinn Frjálsar hendur á Rás 1 undir svefninn á sunnudagskvöldum hélt ég að ekkert myndi fylla það skarð svo að mér líkaði. En ég er löngu búinn að taka gleði mína á ný.

 

Andrarímur komu í staðinn. Mér finnst Guðmundur Andri Thorsson kannski ekki betri en Illugi, annað hvort væri, en mér finnst hann nánast eins góður.

 

Er þá mikið sagt.

 

Og tíminn líður ...

Græna slikjan á jörðinni verður að djúpgrænum flekkjum sem breiðast út eins og exem*) á meðan brumið á greinum þrútnar dag frá degi. Í dag var hitinn hér á Reykhólum 17-18 stig og fór mest í 19,3 stig samkvæmt mæli Veðurstofunnar. Vindskráningin er biluð og hefur verið það um skeið. Hins vegar þarf ekki flókinn búnað til að mæla logn.

              

Í dag eru þrjátíu ár síðan mamma dó.

                    

Guð mun ráða hvar við dönsum næstu jól.

               

- - - - - - - - - -         

*) Í kvæðinu Landsýn kemst Halldór Kiljan svona að orði: Sjá fjöll mín hefjast hvít sem skyr og mjólk / úr hafi ... Mér er það minnisstætt þegar Bjarni Guðnason prófessor tók þessa samlíkingu sem gott dæmi um fádæma smekkleysi.

                        


Þröngt mega sáttir synda - og Kastljósið ...

Rosalegar hunangsflugur eða hvað þetta nú er, dimmsuðandi og þungar á sér eins og sprengjuflugvélar í seinni heimsstyrjöld. Meira að segja kettinum líst ekki á blikuna og hefur hann þó gaman af flugnaveiðum.

 

Það er komið sumar og ekki bara á almanakinu. Hér á Reykhólum var glaðasólskin í allan dag og 15-16 stiga hiti frá hádegi og fram að kvöldmat samkvæmt mæli Veðurstofunnar. Samt fannst manni eiginlega miklu heitara í logninu og sólarbreyskjunni.

 

Í sundlaugina og heitu pottana komu 48 manns. Íbúarnir í þorpinu á Reykhólum eru um 120 talsins, í öllum hinum víðlenda og strjálbyggða Reykhólahreppi búa samtals um 250 manns. Ætli það sé víða meiri aðsókn að sundlaugum ef miðað er við fólksfjölda?

 

Ég var áðan að kjafta á msn við fornvinkonu mína sem er búsett í Englandi og sagði henni að gestirnir í dag hefðu verið sem svarar um 40 prósentum af íbúafjöldanum hér í þorpinu. Hún hélt að það hefði verið að vígja laugina - svo ég vitni beint í hana:

                                     

ég skil núna að við misskildum hvort annað, mér fannst einhvern veginn að það væri óhugsandi að 40% af íbúunum kæmu saman við sundlaug staðarins nema væri verið að opna hana með viðhöfn, fánum, blöðrum og blysum... svona er að hafa dvalið lengi í alltof fjölmennu landi

                        

Sundlaugin hér á Reykhólum heitir Grettislaug. Reyndar er gamla laugin með því nafni í brekkunni rétt fyrir ofan þá nýju. Þar sér enn fyrir gamalli grjóthleðslu við lítinn hver. Ekki hefur verið synt í þeirri laug fremur en at Snorra í Reykholti. Þetta hefur verið heitur pottur þar sem þeir sátu Grettir og fóstbræður og svo auðvitað Þorgils Arason óðalsbóndi hér á Reykjahólum líka til að passa að þeir rykju ekki saman. Sundlaugarvörður þess tíma, Hasselhoff.

  

Grettislaug hin nýja er einhver besta útisundlaug hérlendis. Hún væri ekki kölluð nýja laugin nema vegna þeirrar gömlu. Á gamlársdag í vetur skrifaði ég svolítið um hana: Gamlárssund í vorblíðu á Reykhólum.

  

Núna er orðið dimmt enda nálgast miðnætti. Lognið er algert. Máninn í hásuðri velfullur hefur leyst sólina af hólmi en stendur sig ekki eins vel. Af hverju er hann alltaf settur á næturvaktirnar?

                 

- - -

                       

Leyfi mér að hnýta hér við, í tengslum við síðustu færslu:   

                     

Mér finnst það eiginlega ekki mannsæmandi og alls ekki sæmandi Sjónvarpinu hvernig sumir Kastljóssmenn haga sér stundum. Einhvern veginn vil ég gera aðrar og meiri kröfur til Ríkisútvarpsins en annarra miðla. Ástæða þessara orða minna einmitt núna er framganga Kastljóssins gagnvart Jónínu Bjartmarz og framkoman við hana. Hver stjórnar þessu og hvaða hvatir liggja að baki?

 

Krían er komin á Reykhóla

KríaÉg var hálfhissa að sjá kríur í dag. Þær voru tvær saman á hægu flögri skammt vestur af sundlauginni. Aðeins eru tveir dagar síðan fréttist af fyrstu kríum ársins austur í Hornafirði. Bein loftlína yfir jökla og miðhálendi er um 350 km. Kannski ekki mikið þegar krían er annars vegar, langfleygasti fugl í heimi; e.t.v. einn hundraðasti af árlegu ferðalagi hennar.

     

Hér í kringum Reykhóla er einna fjölbreyttast fuglalíf hérlendis, ef ekki allra fjölbreyttast. Því veldur margbreytileikinn í náttúrufarinu; allir finna sitt kjörlendi: Klettabelti efst í fjallinu, víðáttumikið mólendi, mýradrög með klapparholtum á milli, tjarnir og stöðuvötn, sjávarlón, mikið útfiri, óteljandi sker og hólmar.

      

Reyndar hef ég ekki séð haferni í allan vetur. Í sumar sá ég þá nánast á hverjum degi ef ég nennti að lyfta hausnum. Aftur á móti eru rjúpur hér í garðinum við húsið upp á hvern dag, jafnvel tíu-tólf í einu, og skógarþrestir koma og fara í hópum.

       

Í dag sá ég fimm álftir saman á flugi; undanfarið hef ég annars bara séð tvær og tvær. Um daginn horfði ég á tvær álftir fljúga virðulega í norðvesturátt og tvo hrafna flaksandi á eftir. Það var eins og svart og hvítt, ef svo má segja.

       

Grágæsir eru á túnum og í gærkvöldi sá ég tvo stokkandarblika saman á vappi. Kannski eru þeir að bíða eftir fréttum af prestastefnunni.

       

Hrossagauka sá í dag í fyrsta sinn á þessu ári. Þeir voru tveir saman og tóku dýfur. Ég er farinn að tapa heyrn, sem betur fer, og heyrði ekki hneggið. Þeir voru í vesturátt ekki langt frá mér.

     

Við Langavatn hér fyrir neðan Reykhóla er fuglaskoðunarskýli. Það er ekki til þess að skýla mannfólkinu fyrir veðri og vindum heldur til þess að fuglanir fælist ekki mannfólkið. Eins konar öfugur dýragarður - fólkið er inni í búrinu og skoðar náttúruna sem er frjáls allt í kring. Minnir svolítið á Slunkaríki á Ísafirði, hið fræga hús Sólons Guðmundssonar, sem var úthverft.

       

Krían já, sem flýgur fugla lengst. Og getur líka hamast við að fljúga og verið nákvæmlega á sama punktinum í loftinu á meðan.

       

Ég vona að minn gamli vinur séra Sigurður Ægisson fuglaskoðunarmaður og fuglarithöfundur komi í heimsókn í sumar. Hann gæti þá e.t.v. gefið saman stokkandarblikana, ef þannig skyldi æxlast.

 

Menntaskólinn í Reykjavík - hvenær brennur, hvað verður gert?

Gaman að borgin skuli hyggja á fjárfestingar. Hér vísa ég til fréttarinnar sem tengt er við hér að neðan. Spyrja mætti í framhaldi af þessu hver eigi það hús Menntaskólans í Reykjavík sem hann er oftast tengdur við þessi árin. Er það í eigu Reykjavíkurborgar eða skyldi borgin kaupa brunarústirnar þegar þar að kemur? 

Menntaskólinn í ReykjavíkTimburkumbaldinn mikli í brekkunni ofan við Lækinn hefur um nokkurt skeið verið bækistöð menntastofnunar, sem margir kannast við. Skóli þessi var settur á fót í Skálholti laust eftir miðja 11. öld en var fluttur þaðan undir lok 18. aldar. Hann hefur verið á ýmsum stöðum og borið ýmis nöfn. Lengst af hefur verið vel gert við hann í húsnæðismálum, allt eftir efnum og ástæðum á hverjum tíma, nema þá helst í seinni tíð.

Einhverju sinni og á einhverjum stað rakti ég sögu skóla þessa í hálfa níundu öld í mjög stórum dráttum. Sjálfur var ég þar nemandi í fjóra vetur ekki alls fyrir löngu og lauk þar svokölluðu stúdentsprófi vorið 1966. Gott ef ég lagði svo ekki eitthvað til málanna á Wikipedíu varðandi skólann.

Hvenær verður skóli þessi hafinn til virðingar á nýjan leik? Eru einhverjar hugmyndir um enn einn flutning hans, hugmyndir um gott húsnæði sem sæmir menntastofnun samkvæmt kröfum líðandi stundar? Eða - ætti að rífa timburkumbaldann og byggja almennilegt hús á sama stað? Eða - á að láta ruslið brenna einn góðan veðurdag og byggja í staðinn nútímalegt hús sem skemmir samt ekki að ráði heildarmyndina við Lækinn?

Fyrir fáum árum, fyrir kannski fimmtán-tuttugu árum eða svo, kom ég til Reykjavíkur og labbaði um miðbæinn og fornar slóðir í Vesturbænum þar sem ég átti heima. Ég gekk í kringum Menntaskólahúsið og tók í húninn bakdyramegin. Það var opið. Ég fór inn í gömlu kennslustofuna mína. Þar var taflan ennþá og krítin. Ég skrifaði á töfluna eitthvað á latínu. Man ekki lengur hvað það var. Kannski eins gott. 


mbl.is Reykjavíkurborg vill kaupa hús sem urðu eldi að bráð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband